Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Bandarískir vísindamenn hófu rannsóknir á Drekasvæðinu, við syðri hluta Jan Mayen-hryggjarins, á sjöunda áratug síðustu aldar, meðal annars til að staðfesta landrek á svæðinu. Niðurstöður þessara rannsókna bentu snemma til þess að Jan Mayen-svæðið væri ólíkt venjulegum úthafsbotni: Segulsviðið var veikara og óreglulegra, jarðskorpan léttari, og endurkastsmælingarnar sýndu hallandi setlög, sambærileg setlögum við austurströnd Grænlands og vesturströnd Noregs. Síðan hafa alþjóðlegir vísindaleiðangrar bætt við gögnum allt fram til ársins 2015 (sjá 1. mynd). Vísindamenn drógu fljótlega þá ályktun að Kolbeinseyjarrekbeltið hefði slitið Jan Mayen-hrygginn frá Grænlandi fyrir tugum milljóna ára, og að þar kynni að leynast meginlandsskorpa líkt og við Grænland og Noreg. Þetta vakti því vonir um að olía eða gas gæti fundist á svæðinu.
Síðsumars 1974 voru boraðar nokkrar holur á Drekasvæðinu á vegum alþjóðlega úthafsborunarverkefnisins Deep Sea Drilling Project. Markmiðið var að kanna jarðlagagerð, aldur og þróun svæðisins til samanburðar við jarðeðlisfræðilegar mælingar (1. mynd). Á svæðinu eru þykk setlög sem sum mynduðust að hluta ofansjávar fyrir tugum milljóna ára. Í borholu DSDP-350, á einum suðurhryggjanna, sunnan Jan Mayen, liggja þykk setlög ofan á basísku innskotabergi. Nýleg argon–argon aldursgreining sýnir að þetta berg er 44–49 milljón ára gamalt (Blischke o.fl., 2019). Í borholu DSDP-348, suðvestan við Jan Mayen-hrygginn, fannst annað basískt innskot sem tengist upphafi Kolbeinseyjarhryggjar. Aldursgreiningar sýna að það er um 21 milljón ára gamalt. Samtúlkun gagna sem safnað hefur verið síðustu fimm áratugina sýnir að jarðfræðileg þróun Drekasvæðisins hefur verið löng og flókin – allt frá því að Jan Mayen-svæðið slitnaði frá Grænlandi og þar til núverandi rekbelti mynduðust (Blischke o.fl., 2022).
1. mynd. Endurkast- og bylgjubrotsmælilínur, borholur og sýnatökustaðir á hafsbotni Drekasvæðisins (NEA, Orkustofnun, Ísland; NPD, Norska olíu- og orkustofnunin (2013); Spectrum ASA; TGS; SFS hafsbotnssýni; VBPR, Volcanic Basin Petroleum Research AS), Blischke og fl. (2017).
Jan Mayen-hryggur
Jan Mayen-hryggurinn liggur á milli tveggja úthafshryggja: Ægishryggjar í austri og Kolbeinseyjarhryggjar í vestri. Framsækið rekbelti klauf Jan Mayen-hrygg frá Grænlandi fyrir um 18–35 milljónum ára, samhliða því að landrek á Ægishrygg, í Noregsdjúpi stöðvaðist. Íslands-sléttu rekbeltið, sem klauf Drekasvæðið frá Grænlandi, er forveri Kolbeinseyjarhryggjar. Drekasvæðið er hluti af Jan Mayen-hrygg sem samkvæmt mælingum er talið innihalda meginlandsskorpu.
Þykk lög af basalti frá upphafi tertíertímabilsins þekja nær allan Jan Mayen-hrygg og Drekasvæðið. Basaltið ásamt innskotum hylja eldri setlög, en veita jarðfræðingum mikilvægar vísbendingar um opnun Atlantshafsins og þróun eldvirkni og jarðskorpuhreyfinga á svæðinu. Um svæðið liggja stór misgengi sem hafa verið virk á mismunandi tímabilum. Sum misgengjanna eru mjög gömul en urðu aftur virk, þegar gliðnunin hófst (2. mynd).
2. mynd. (a) Yfirlitskort af jarðfræðilegri þróun Jan Mayen-svæðisins. Helstu misgengi og þverbrotabelti samkvæmt Blischke o.fl. (2017). Þverbrotabelti við Jan Mayen (CJMBFZ), í Noregsdjúpi (CNBFZ), austan Jan Mayen (EJMFZ), við Gjallarhrygg (GR), á milli Íslands og Færeyja (IFFZ), í Jan Mayen-djúpi (JMB) og suður Jan Mayen (JMBS). Önnur svæði eru Jan Mayen-eldstöðvakerfið (JMI), Jan Mayen-hryggur (JMR), Jan Mayen-trog (JMT), Mohnshryggur (MR), Kolbeinseyjarhryggur (KR), Lyngvihryggur (LYR), norðurgosbelti Íslands (NVZ), suðurhryggjakerfi Jan Mayen (SRC) og brotabelti þess (SRCTFZ), Tjörnesbrotabeltið (TFZ), vestur Jan Mayen-brotabeltið (WJMFZ) og Ægishryggur (ÆR). Innfellda myndin (b) sýnir jarðfræðilegu svæðisins áður en gliðnun hófst, fyrir um 56–55 milljónum ára. Önnur landsvæði sem hafa verið rannsökuð í tengslum við gliðnun Atlantshafsins, eru Blossevilleströndin (BK), Færeyjasléttan (FP), Fuglaeyjuhryggurinn (FR), Færeyja–Shetlands-djúpið (FSB), Hatton–Rockall (HR), Jameson Land (JLB), Kangerlussuaq (K), Kap Brewster (KB), Kap Dalton (KD), Liverpool Land (LLB), Scoresby Sund (SD), Møre og Vöring svæðin við Noreg (MB, MM, VB, VM), Norðursjór (NS), auk Vindtoppen myndunarinnar (VT). Gögnin og túlkanirnar sem kortin byggja á eru fengin úr fjölda rannsókna sem raktar eru í grein Anett Blischke, sem birtist í tímaritinu Geological Society of London, special publication 447, 2017, sjá hér: hér.
Rekbelti Íslandssléttunnar (e. Iceland Plateau Rift)
Nýleg samtúlkun jarðvísindalegra gagna sem safnað hefur verið síðustu fimm áratugina hefur gefið mun betra yfirlit yfir legu og þróun rekbelta norðan Íslands og vestan Jan Mayen-hryggjar (Blischke o.fl., 2022).
Opnun Norður-Atlantshafsins fyrir um 56-63 milljónum ára fylgdi mikil eldvirkni, upphaflega eftir misgengjum sem lágu frá suðaustri til norðvesturs við jaðar Evrópu og frá vestsuðvestri til norðausturs við Grænland. Þykk, hallandi basaltlög hlóðust upp við austurjaðar Jan Mayen fyrir um ~52-55 milljónum ára, áður en Ægishryggur í Noregshafi varð virkur (fyrir um 26–52 milljónum ára).
Í kjölfar þess að það dró úr gliðnun á sunnanverðum Ægishrygg, hófst gliðnun frá suðaustri til norðvesturs eftir vesturjaðri Jan Mayen-svæðisins. Fjögur rekbelti urðu virk innan Íslandssléttunnar (IPR-I til IPR-IV; 3. mynd). Rekbeltin, sem tengdust með þverbrotabeltum, aðskildu Jan Mayen-svæðið frá Austur-Grænlandi á um 25 milljóna ára tímabili (~23–52 Ma).
Rekbelti Íslandssléttunnar einkenndust af mikilli eldvirkni og upphleðslu basaltstafla, svipuðum og nú má sjá á austurströnd Grænlands og í Færeyjum. Þriðja rekbeltið er umfangsmeira, líklega vegna áhrifa heita reitsins á svæðið fyrir um 24–35 milljón árum, þegar bæði innskot og hraunframleiðsla jukust verulega. Fjórða rekbeltið varð virkt fyrir um 23–24 milljón árum, þegar Reykjaneshryggur og Kolbeinseyjarhryggur tengdust um rekbeltið á norðvestanverðu Íslandi, nálægt miðju heita reitsins.
3. mynd. Yfirlitsmynd af eldstöðvakerfum Jan Mayen-hryggjar og rekbeltum á Íslandssléttunni, (Iceland Plateau Rift, IPR). (a) Kortlagning byggð á bergsegulfrávikum (Haase & Ebbing, 2014), bylgjubrotsgögnum úr KRISE verkefninu (Brandsdóttir o.fl., 2015), kortlagningu á elstu segulanómalíu Norður-Atlantshafsins C24b (Gernigon o.fl., 2015) og segulanómalíu C6c (Blischke og fl., 2022). (b) Jarðfræðileg þróun svæðisins frá fyrri hluta til mið-eósen, síð-eósen og óligósen, og að lokum síð-óligósen til upphafs míósen. Svæðið einkennist af mikilli innskotavirkni og þykkum basaltþekjum frá megineldstöðvum þessara tímabila. Hallandi setlög samkvæmt endurkastsmælingum (SDR) innihalda stafla af basalt- og móbergslögum af samsvarandi þykkt og basaltstaflar Færeyja og austurhluta Grænlands. Skammstafanir: COB – mörk meginlands og úthafs; ÆR – Ægishryggur; CNBFZ – brotabelti Noregsdjúps; CJMBFZ, EJMFZ, SRCFZ, SWJMBFZ, WJMFZ – brotabelti tengd Jan Mayen; SRC – Jan Mayen suðurhryggjakerfið; SWJMIP – SW-gosbelti Jan Mayen; JMB og JMBS –Jan Mayen gliðnunarbeltið; JMI – Jan Mayen eldstöðvakerfið; JMR – Jan Mayen hryggur; JMT – Jan Mayen trog; LYR – Lyngvi-hryggur; IFFZ – Ísland–Færeyja brotabeltið; IPR – (hlutar I–IV) rekbelti Íslandssléttunnar; MR – Mohns hryggur; SDR – hallandi endurkastlög; TFZ – Tjörnesbrotabeltið.
Olíuleitarferli
Til að meta möguleika á olíu- og gasmyndun þarf að skoða nokkra lykilþætti. Fyrst er svæðið kortlagt með jarðfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum rannsóknum til að skilja hvernig það myndaðist og hvaða setlög gætu geymt móðurberg, geymsluberg og olíu- eða gasgildrur. Þá þarf að kanna hvort lífræn lög séu til staðar, sem eru nægilega þroskuð til að mynda kolvetni. Berglögin þurfa að innihalda nóg af lífrænum efnum til að mynda kolvetni og hafa fengið nægan hita og tíma til að umbreytast. Olían eða gasið þarf síðan að safnast fyrir þar sem þétt berglög halda því frá því að leka út. Ýmis líkön eru notuð til að meta hvort þessir þættir hafi verið virkir á réttum tíma.
Oft má sjá vísbendingar um olíu og gas í endurkastsmæligögnum, sem bjartar línur eða óreglur. Einnig með mælingum á náttúrulegum leka úr hafsbotninum. Ef móðurberg er til staðar þarf að skilja hvernig kolvetnin geta safnast fyrir. Þétt leirlög, eða berg, þarf til að stöðva uppstreymi kolvetna eða gass.
Að lokum eru mismunandi gögn sameinuð til að skilgreina helstu svæði ásamt líkum á því að kolvetnisauðlindir séu til staðar. Með því að meta hvort móðurberg, olíu- og gasmyndun, geymsluberg og virkar gildrur séu til staðar. Ef einhver þessara þátta er ekki til staðar hrynur kerfið, olía eða gas hefur ekki náð að myndast, eða hefur lekið úr geymslubergi um virk sprungukerfi.
Staðan á Drekasvæðinu
Noregur hefur náð góðum árangri í olíuleit og vinnslu vegna þess að þar eru til staðar virk og heildstæð kolvetnakerfi. Það þýðir að svæðin innihalda móðurberg sem getur myndað olíu og gas, safngeyma sem geyma kolvetnin, og gildrur með þéttum lokum sem tryggja að þau leki ekki út. Í Færeyjum hafa verið boraðar níu könnunarholur í hafsbotni án árangurs. Ástæða þess að olíuleit var hætt í Færeyjum er sú að stór og þykkur basaltstafli liggur þar ofan á geymslubergi og móðurbergi frá miðlífsöld, sem hamlar aðgengi að eldri setlögum.
Á Austur-Grænlandi hafa rannsóknir einnig reynst árangurslitlar. Þar er jarðlagastaflinn mjög rofinn og mikil eldvirkni hefur ummyndað svæðið svo líkur á varðveislu virks olíukerfis eru litlar. Basaltstaflinn frá því snemma á tertíertímabilinu (Paleocene) er sums staðar 6-8 km þykkur (Blischke og Erlendsson, 2018). Að auki er svæðið mjög afskekkt sem myndi gera boranir afar dýrar.
Jan Mayen-hryggurinn og Drekasvæðið tengjast jarðfræðilega austanverðu Grænlandi. Þar er jarðlagastaflinn mjög rofinn og þar liggur einnig þykk basaltsyrpa (sum staðar 2-6 km þykk), ásamt sprungukerfum með stórum misgengjum sem ná upp á hafsbotninn. Í slíkum berggrunni er hætta á að kolvetnissambönd (olía / gas) sem gætu hafa myndast hafi fyrir löngu lekið út um misgengi og sprungur. Slakar niðurstöður leitar að ummerkjum um olíu- og gasleka á hafsbotni árið 2010 endurspegla litlar líkur á tilvist virkra kolvetniskerfa meðal annars vegna mikillar gliðnunar, tektónískra hreyfinga, og varmaflæðis á suðurhluta Jan Mayen-hryggjarins, sem liggur innan Drekasvæðisins (Iyer o.fl., 2018).
Saga olíuleitar á Drekasvæðinu
Í jarðfræðirannsóknum á 20. og 21. öld komu fram vísbendingar um að setlög á Drekasvæðinu gætu innihaldið kolvetni, það er olíu eða gas. Þetta varð til þess að opnað var fyrir leyfisveitingar til olíuleitar á svæðinu í samræmi við aðrar auðlindakannanir á Norður-Atlantshafi.
Árið 2013 fengu nokkur alþjóðleg orkufyrirtæki, þar á meðal Petoro, Eykon Energy, Ithaka og hið kínverska CNOOC, leyfi til rannsókna á svæðinu. Niðurstöður ítarlegra jarðeðlisfræðilegra mælinga ásamt greiningum á mögulegum olíugildrum sýndu að opin sprungukerfi og mikil eldvirkni gera svæðið mjög áhættusamt til frekari könnunar. Auk þessa er kostnaður við boranir á afskekktu hafsvæði gríðarlegur, enda þyrfti að byggja upp alla þá innviði sem nauðsynlegir eru til vinnslu og flutnings olíu og gass til lands. Þessi mikla áhætta og lítil líkindi á árangri urðu til þess að erlendu orkufélögin drógu sig að lokum út úr verkefninu.
Núverandi áskoranir við olíuleit á Drekasvæðið
Drekasvæðið stendur frammi fyrir verulegum áskorunum þegar kemur að olíu- og gasleit, og margir þættir draga úr líkum á árangri.
Jarðfræðilegar hindranir felast í því að þykk basaltþekjan gerir boranir erfiðar og kostnaðarsamar. Litlar skýrar vísbendingar eru um tilvist kolvetna, hvorki olíuleki eða áberandi gasleki fundist á hafsbotninum, né heldur sterkar vísbendingar í endurkastsgögnum. Þessar niðurstöður gera olíufélögum erfitt að réttlæta frekari fjárfestingar í olíu- eða gasleit.
Jarðfræðilegar áskoranir ásamt miklum kostnaði við að bora í gegnum basaltstafla og flókin misgengi gera verkefnið ótryggt, sérstaklega í ljósi þess að vænlegri svæði til olíuleitar finnast annars staðar á Norður-Atlantshafi. Efnahagsleg hagkvæmni er þannig lítil.
Þótt Jan Mayen og Drekasvæðið hafi áður verið talin áhugaverð fyrir olíuleit, hefur samspil jarðfræðilegra hindrana og mikils kostnaðar vegið þungt á móti mögulegum ávinningi. Það er því skiljanlegt að orkufyrirtækin hafi ákveðið að hætta rannsóknum á Drekasvæðinu.
Heimildir:
Blischke, A., Brandsdóttir, B., Stoker, M.S., Gaina, C., Erlendsson, Ö., Tegner, C., Halldórsson, S.A., Helgadóttir H.M., Gautason, B., Planke, S. & Hopper, J.R. (2022). Seismic volcano-stratigraphic characteristics of the Jan Mayen microcontinent and Iceland Plateau rift system. Geochemistry, Geophysics, Geosystems, 23, e2021GC009948. https://doi.org/10.1029/2021GC009948
Blischke, A., Stoker, M.S., Brandsdóttir, B., Hopper, J.R., Peron-Pinvidic, G., Ólavsdóttir, J. & Japsen, P. (2019). The Jan Mayen microcontinent's Cenozoic stratigraphic succession and structural evolution within the NE-Atlantic. Mar. Petrol. Geology, 103, 702-737. https://doi.org/10.1016/j.marpetgeo.2019.02.008
Blischke, A. & Erlendsson, Ö. (2018). Central East Greenland Conjugate Margin of the Jan Mayen Microcontinent Database, Structural and Stratigraphical Mapping Project. Íslenskar orkurannsóknir, prepared for Orkustofnun, technical report, ÍSOR-2018/024, p. 95, 2 maps.
Blischke, A., Gaina, C., Hopper, J.R., Péron-Pinvidic, G., Brandsdóttir, B., Guarnieri, P., Erlendsson, Ö. & Gunnarsson, K. (2017). The Jan Mayen microcontinent: an update of its architecture, structural development and role during the transition from the Ægir Ridge to the mid-oceanic Kolbeinsey Ridge. Í: Péron-Pinvidic, G., Hopper, J.R., Stoker, M.S., Gaina, C., Doornenbal, J.C., Funck, T. & Árting, U.E. (ritstj.). The NE Atlantic Region: A Reappraisal of Crustal Structure, Tectonostratigraphy and Magmatic Evolution. Geological Society, London, Special Publications, 447(1):299-337. https://doi.org/10.1144/SP447.5
Brandsdóttir B., Hooft E., Mjelde R. & Murai Y. (2015). Origin and evolution of the Kolbeinsey Ridge and Iceland Plateau, N-Atlantic. Geochemistry, Geophysics, Geosystems, 16, 612–634. https://doi.org/10.1002/2014GC005540
Gernigon L., Blischke A., Nasuti A. & Sand M. (2015). Conjugate volcanic rifted margins, seafloor spreading, and microcontinent: insights from new high-resolution aeromagnetic surveys in the Norway Basin. Tectonics, 34, 907–933. https://doi.org/10.1002/2014TC003717
Haase C. & Ebbing J. (2014). Gravity data. Í: Hopper J.R., Funck T., Stoker M.S., Árting U., Peron-Pinvidic G., Doornenbal H. & Gaina C. (ritstj.) Tectonostratigraphic Atlas of the North-East Atlantic Region. Geological Survey of Denmark and Greenland (GEUS), Copenhagen, Denmark. https://doi.org/10.22008/FK2/NWYZGL
Iyer K., Blischke, A., Millett, J. M. & Schmid, D. W. (2018). Heat Flow, Uplift and Maturity Model of the Jan Mayen Microcontinent during Breakup and Rifting: Project Summary Report. Íslenskar orkusrannsóknir, Geomodelling Solutions GmbH & Volcanic Basin Petroleum Research AS, prepared for Orkustofnun, technical report, ÍSOR-2018/036, p. 81, 2 Appendices.
Vísindavefurinn hefur nokkrum sinnum fengið spurningar um olíu og Drekasvæðið og er þeim að hluta svarað hér. Þessar spurningar eru:
Drekasvæðið. Mig langar að fræðast meira um það hef reynt að afla mér upplýsinga en það hefur ekki borið nægan árangur. Eiginlega langar mig að vita hvar menn hafa fundið olíu eða gas í vinnanlegu magni nálægt Drekasvæðinu?
Norðmenn boruðu strax á 7. áratugnum eftir olíu, nokkrum árum eftir upphaf rannsókna og Færeyingar eru að bora núna. Rannsóknir og vinna við Drekasvæðið hófst fyrir um 30 árum. Hvernig stendur á því að það séu núna allt að 10 ár þar til byrjað verður að bora eftir olíu þar?
Er olíu að finna á Drekasvæðinu eða annars staðar á íslensku landsvæði?
Anett Blischke og Bryndís Brandsdóttir. „Er líklegt að olíu sé að finna á Drekasvæðinu?“ Vísindavefurinn, 30. september 2025, sótt 30. september 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=88103.
Anett Blischke og Bryndís Brandsdóttir. (2025, 30. september). Er líklegt að olíu sé að finna á Drekasvæðinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=88103
Anett Blischke og Bryndís Brandsdóttir. „Er líklegt að olíu sé að finna á Drekasvæðinu?“ Vísindavefurinn. 30. sep. 2025. Vefsíða. 30. sep. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=88103>.