Sólin Sólin Rís 04:00 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:12 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:18 • Síðdegis: 18:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:19 • Síðdegis: 12:23 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:00 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:12 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:18 • Síðdegis: 18:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:19 • Síðdegis: 12:23 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig var tertíertímabilið á Íslandi?

Sigurður Steinþórsson

Tertíertímabilið hófst fyrir 65 milljón árum, um það bil sem Norður-Atlantshaf tók að opnast. Frá þeim tíma, þegar Ameríku- og Evrópuflekarnir voru að gliðna sundur, eru eldgosamyndanir á Norður-Írlandi, Skotlandi, Færeyjum og Austur-Grænlandi. Neðansjávarhryggur frá Grænlandi um Ísland til Færeyja „yngist“ úr báðum áttum til Íslands þannig að elsta berg (ofansjávar) á Vestfjörðum er um 16 milljón ára en á Austfjörðum um einni milljón árum yngra. Þessi hryggur telst vera „spor“ heita reitsins Íslands – hann er úr basalti og er um 24 km þykkur, líkt og basaltskorpa Íslands, en venjuleg úthafsskorpa er yfirleitt 6-7 km þykk.

Tertíera jarðmyndunin á Íslandi einkennist af þykkum hraunlagasyrpum sem hallar yfirleitt fáeinar gráður í átt til gosbeltisins sem þær mynduðust í. Milli hraunlaganna eru setlög sem stundum geyma steingervinga, einkum leifar fornra skóga í formi surtarbrands.

Surtarbrandsgil í Vatnsfirði er einn þekktasti fundarstaður steingervinga á landinu. Meðal tegunda sem þar hafa verið algengar eru risafura, hlynur, magnolía og beyki.

Fyrstur til að lýsa þessum steingervingum (surtarbrandi á Brjánslæk) var Eggert Ólafsson í Ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna Pálssonar (Kaupmannahöfn 1772), þar sem hann áttar sig á því að laufförin sýni að hér hafi í eina tíð vaxið miklir laufskógar (surtarbrandurinn sé ekki rekaviður) og að tegundirnar séu skyldari Ameríku en Evrópu.

Sumarið 1840 ferðuðust svo Jónas Hallgrímsson skáld og Japetus Steenstrup um Vesturland, allt norður að Hornbjargi, og söfnuðu mörgum surtarbrandssýnum. Löngu seinna voru sýni úr því safni send til Oswalds Heer í Sviss, mikils sérfræðings, sem greindi laufin (1868) og kvað upp úr um að um míósen flóru væri að ræða (samkvæmt nútímatali stóð míósentíminn frá 24 til 5 milljón árum síðan), og að loftslag á Íslandi hefði þá verið svipað og nú er í Flórída í Bandaríkjunum.

Á síðustu árum hefur dr. Friðgeir Grímsson við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands fylgt þessum fornu rannsóknum eftir mjög ítarlega og kannað surtarbrand 14 til 6 milljón ára gamlan. Samkvæmt þeim niðurstöðum fór loftslag hlýnandi frá 14 til 12 milljón ára – þá var það um 10°C hlýrra en nú – en kólnaði síðan smám saman eftir því sem nálgaðist ísöldina.

Ísöld hófst á norðurhveli fyrir um 2,6 milljón árum, og þá breyttist allt – skriðjöklar surfu niður firði og djúpa dali en eldgos undir jöklum mynduðu há einstök fjöll (búrfell, stapa) og fjallgarða. Á hlýskeiðum runnu svo þykk hraun og fylltu upp dalina.Helstu fundarstaðir steingervinga á Íslandi.

Samanborið við þetta var landslag á tertíer fremur tilbreytingarlítið, enda uppbyggingaröflin ráðandi en ekki roföflin. Víðáttumikil blágrýtishraun dreifðust frá gossprungum rekbeltanna yfir fremur flatt og hallalítið land sem litið hefur út líkt og risavaxinn skjöldur, hæstur um miðbik landsins. Upp úr hraunsléttunni hafa staðið megineldstöðvar, hugsanlega jökulkrýndar líkt og Snæfellsjökull og Öræfajökull.

Frá þessu jarðsöguskeiði er blágrýtismyndunin á Austfjörðum og á norðvestanverðu landinu, frá Akrafjalli norður og austur að Bárðardal. Milli hraunlaga blágrýtismyndunarinnar eru millilög úr seti og gosösku og í ljós hefur komið að 6.000 til 10.000 ára aldursbil skilur aðlæg hraunlög – nánast jafnlangur tími og liðinn er frá því ísöld lauk. Þetta skýrist af því, að einungis mjög stór hraun, sem runnu langt út úr gosbeltunum, koma fram á yfirborði en minni hraun, sem ekki runnu út úr gosbeltunum, grófust undir yngri myndunum. Sums staðar í þessum millilögum finnast steingervingar sem gefa til kynna að myndarlegir laufskógar gætu hafa vaxið hátt upp í hlíðar.

Fyrir ísöld hefur vafalaust verið hér fjölbreytt spendýrafána, enda lá landbrú um Ísland milli Ameríku og Evrópu í milljónir ára eftir að Norður-Atlantshaf tók að opnast. Þegar Ísland varð eyja, ef til vill fyrir um 40 milljónum ára, héldu dýrin áfram að lifa hér góðu lífi þar til ísöld gekk í garð. Eitt bein úr hjartardýri hefur fundist milli fornra blágrýtislaga.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

28.4.2008

Síðast uppfært

25.6.2018

Spyrjandi

Vigdís Sigvaldadóttir

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvernig var tertíertímabilið á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 28. apríl 2008, sótt 21. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=29662.

Sigurður Steinþórsson. (2008, 28. apríl). Hvernig var tertíertímabilið á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29662

Sigurður Steinþórsson. „Hvernig var tertíertímabilið á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 28. apr. 2008. Vefsíða. 21. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=29662>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig var tertíertímabilið á Íslandi?
Tertíertímabilið hófst fyrir 65 milljón árum, um það bil sem Norður-Atlantshaf tók að opnast. Frá þeim tíma, þegar Ameríku- og Evrópuflekarnir voru að gliðna sundur, eru eldgosamyndanir á Norður-Írlandi, Skotlandi, Færeyjum og Austur-Grænlandi. Neðansjávarhryggur frá Grænlandi um Ísland til Færeyja „yngist“ úr báðum áttum til Íslands þannig að elsta berg (ofansjávar) á Vestfjörðum er um 16 milljón ára en á Austfjörðum um einni milljón árum yngra. Þessi hryggur telst vera „spor“ heita reitsins Íslands – hann er úr basalti og er um 24 km þykkur, líkt og basaltskorpa Íslands, en venjuleg úthafsskorpa er yfirleitt 6-7 km þykk.

Tertíera jarðmyndunin á Íslandi einkennist af þykkum hraunlagasyrpum sem hallar yfirleitt fáeinar gráður í átt til gosbeltisins sem þær mynduðust í. Milli hraunlaganna eru setlög sem stundum geyma steingervinga, einkum leifar fornra skóga í formi surtarbrands.

Surtarbrandsgil í Vatnsfirði er einn þekktasti fundarstaður steingervinga á landinu. Meðal tegunda sem þar hafa verið algengar eru risafura, hlynur, magnolía og beyki.

Fyrstur til að lýsa þessum steingervingum (surtarbrandi á Brjánslæk) var Eggert Ólafsson í Ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna Pálssonar (Kaupmannahöfn 1772), þar sem hann áttar sig á því að laufförin sýni að hér hafi í eina tíð vaxið miklir laufskógar (surtarbrandurinn sé ekki rekaviður) og að tegundirnar séu skyldari Ameríku en Evrópu.

Sumarið 1840 ferðuðust svo Jónas Hallgrímsson skáld og Japetus Steenstrup um Vesturland, allt norður að Hornbjargi, og söfnuðu mörgum surtarbrandssýnum. Löngu seinna voru sýni úr því safni send til Oswalds Heer í Sviss, mikils sérfræðings, sem greindi laufin (1868) og kvað upp úr um að um míósen flóru væri að ræða (samkvæmt nútímatali stóð míósentíminn frá 24 til 5 milljón árum síðan), og að loftslag á Íslandi hefði þá verið svipað og nú er í Flórída í Bandaríkjunum.

Á síðustu árum hefur dr. Friðgeir Grímsson við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands fylgt þessum fornu rannsóknum eftir mjög ítarlega og kannað surtarbrand 14 til 6 milljón ára gamlan. Samkvæmt þeim niðurstöðum fór loftslag hlýnandi frá 14 til 12 milljón ára – þá var það um 10°C hlýrra en nú – en kólnaði síðan smám saman eftir því sem nálgaðist ísöldina.

Ísöld hófst á norðurhveli fyrir um 2,6 milljón árum, og þá breyttist allt – skriðjöklar surfu niður firði og djúpa dali en eldgos undir jöklum mynduðu há einstök fjöll (búrfell, stapa) og fjallgarða. Á hlýskeiðum runnu svo þykk hraun og fylltu upp dalina.Helstu fundarstaðir steingervinga á Íslandi.

Samanborið við þetta var landslag á tertíer fremur tilbreytingarlítið, enda uppbyggingaröflin ráðandi en ekki roföflin. Víðáttumikil blágrýtishraun dreifðust frá gossprungum rekbeltanna yfir fremur flatt og hallalítið land sem litið hefur út líkt og risavaxinn skjöldur, hæstur um miðbik landsins. Upp úr hraunsléttunni hafa staðið megineldstöðvar, hugsanlega jökulkrýndar líkt og Snæfellsjökull og Öræfajökull.

Frá þessu jarðsöguskeiði er blágrýtismyndunin á Austfjörðum og á norðvestanverðu landinu, frá Akrafjalli norður og austur að Bárðardal. Milli hraunlaga blágrýtismyndunarinnar eru millilög úr seti og gosösku og í ljós hefur komið að 6.000 til 10.000 ára aldursbil skilur aðlæg hraunlög – nánast jafnlangur tími og liðinn er frá því ísöld lauk. Þetta skýrist af því, að einungis mjög stór hraun, sem runnu langt út úr gosbeltunum, koma fram á yfirborði en minni hraun, sem ekki runnu út úr gosbeltunum, grófust undir yngri myndunum. Sums staðar í þessum millilögum finnast steingervingar sem gefa til kynna að myndarlegir laufskógar gætu hafa vaxið hátt upp í hlíðar.

Fyrir ísöld hefur vafalaust verið hér fjölbreytt spendýrafána, enda lá landbrú um Ísland milli Ameríku og Evrópu í milljónir ára eftir að Norður-Atlantshaf tók að opnast. Þegar Ísland varð eyja, ef til vill fyrir um 40 milljónum ára, héldu dýrin áfram að lifa hér góðu lífi þar til ísöld gekk í garð. Eitt bein úr hjartardýri hefur fundist milli fornra blágrýtislaga.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir: