Sólin Sólin Rís 03:36 • sest 23:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:09 • Sest 23:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 17:27 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:36 • sest 23:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:09 • Sest 23:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 17:27 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hægt að mæla landrek út frá eldsumbrotum?

Páll Einarsson

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvernig fer landrek fram? Jarðvísindamaður staddur við Holuhraun fullyrti að hægt væri að mæla landrek út frá núverandi eldsumbrotum?

Landrek skýrist af flekareki en samkvæmt flekakenningunni skiptist ysta skurn jarðarinnar, stinnhvolfið, í allmarga fleka sem eru á sífelldri hreyfingu hver með tilliti til hinna. Löndin eru hlutar flekanna og hreyfast því með þeim. Flekarekið kemur fram á ýmsa vegu og má mæla það og meta á margan hátt.

Í upphafi kom flekakenningin fram til að skýra nýjar mæliniðurstöður á segulsviði yfir úthöfunum og einnig bentu skjálftamælingar eindregið til þess að flekar væru til og hreyfðust. Kenningin varð til við samtúlkun þessara gagna. Hreyfingarstefnur flekanna og hraði þeirra fékkst út úr mælingunum. Fylgifiskur hreyfinganna er eldvirkni á flekaskilunum en ekki er beint hægt að nota hana til að ákvarða hraða eða hreyfingarstefnur flekanna. Eldvirkni getur líka orðið þar sem ekki eru flekaskil. Nýleg eldgos á Grænhöfðaeyjum og Galapagoseyjum eru dæmi um það.

Myndin sýnir hreyfingar mælipunkta í landmælinganeti Íslands samkvæmt endurteknum mælingum 1993-2004. Vel má sjá hvernig Austurland færist til miðað við punkta á Vesturlandi. Rauðu örvarnar sýna færsluhraða samfelldra mælistöðva, svörtu örvarnar hraðann á landmælingapunktum. Flekaskilin markast af eldstöðvakerfum sem sýnd eru með gulum lit. Myndin er úr grein eftir Þóru Árnadóttur og fleiri í Geophysical Journal International, 2009.

Nú til dags eru til nákvæmari aðferðir til að mæla hreyfingar flekanna. Langalgengasta aðferðin byggist á GPS-kerfinu. Með GPS-landmælingum má ákvarða stöðu mælipunkta á yfirborði jarðar með mikilli nákvæmni. Óvissa einstakra mælinga er einungis fáeinir millimetrar, stundum talsvert minni. Með endurteknum mælingum á sama punktinum má því finna hvernig hann hreyfist, bæði hraða hans og stefnu. Þetta hefur verið gert á miklum fjölda punkta sem dreifðir eru um alla fleka jarðarinnar. Skemmst er frá því að segja að mælingarnar hafa staðfest flekakenninguna í talsverðum smáatriðum.

Hér á landi hafa GPS-landmælingar verið stundaðar síðan 1986. Mikill fjöldi mælipunkta hefur verið mældur og hreyfingar þeirra rannsakaðar. Nú eru einnig reknar margar GPS-mælistöðvar sem mæla hreyfingarnar samfellt og má þar fylgjast með hreyfingunum frá degi til dags. Auk flekahreyfinganna koma þar fram hreyfingar vegna eldsumbrota og kvikuhreyfinga, jarðskjálfta, jarðhitavinnslu, rýrnunar jökla og ýmislegt fleira.

Með þessum mælingum er staðfest að Austurland fjarlægist Vesturland um 19 millimetra á ári og er stefnan um það bil 105°, það er um 15° sunnan við austur. Austurland situr á svokölluðum Evrasíufleka en Vesturland á Norður-Ameríkuflekanum. Flekarnir færast hér á landi í sundur með jöfnum hraða. Vegna þessara hreyfinga hleðst upp spenna á flekaskilunum og í næsta umhverfi þeirra sem losnar svo um í skjálftum og eldsumbrotum. Fylgjast má með þessum mælingum á vefsíðum Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar.

Mynd:
  • Árnadóttir, Th., B. Lund, W. Jiang, and H. Geirsson, H. Björnsson, P. Einarsson and T. Sigurdsson, Glacial rebound and plate spreading: Results from the first countrywide GPS observations in Iceland, Geophys. J. Int., 177(2), 691-716, doi: 10.1111/j.1365-246X. 2008.04059.x, 2009.

Höfundur

Páll Einarsson

prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

3.2.2016

Spyrjandi

Jón Eldon Logason

Tilvísun

Páll Einarsson. „Er hægt að mæla landrek út frá eldsumbrotum?“ Vísindavefurinn, 3. febrúar 2016, sótt 13. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68391.

Páll Einarsson. (2016, 3. febrúar). Er hægt að mæla landrek út frá eldsumbrotum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68391

Páll Einarsson. „Er hægt að mæla landrek út frá eldsumbrotum?“ Vísindavefurinn. 3. feb. 2016. Vefsíða. 13. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68391>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hægt að mæla landrek út frá eldsumbrotum?
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

Hvernig fer landrek fram? Jarðvísindamaður staddur við Holuhraun fullyrti að hægt væri að mæla landrek út frá núverandi eldsumbrotum?

Landrek skýrist af flekareki en samkvæmt flekakenningunni skiptist ysta skurn jarðarinnar, stinnhvolfið, í allmarga fleka sem eru á sífelldri hreyfingu hver með tilliti til hinna. Löndin eru hlutar flekanna og hreyfast því með þeim. Flekarekið kemur fram á ýmsa vegu og má mæla það og meta á margan hátt.

Í upphafi kom flekakenningin fram til að skýra nýjar mæliniðurstöður á segulsviði yfir úthöfunum og einnig bentu skjálftamælingar eindregið til þess að flekar væru til og hreyfðust. Kenningin varð til við samtúlkun þessara gagna. Hreyfingarstefnur flekanna og hraði þeirra fékkst út úr mælingunum. Fylgifiskur hreyfinganna er eldvirkni á flekaskilunum en ekki er beint hægt að nota hana til að ákvarða hraða eða hreyfingarstefnur flekanna. Eldvirkni getur líka orðið þar sem ekki eru flekaskil. Nýleg eldgos á Grænhöfðaeyjum og Galapagoseyjum eru dæmi um það.

Myndin sýnir hreyfingar mælipunkta í landmælinganeti Íslands samkvæmt endurteknum mælingum 1993-2004. Vel má sjá hvernig Austurland færist til miðað við punkta á Vesturlandi. Rauðu örvarnar sýna færsluhraða samfelldra mælistöðva, svörtu örvarnar hraðann á landmælingapunktum. Flekaskilin markast af eldstöðvakerfum sem sýnd eru með gulum lit. Myndin er úr grein eftir Þóru Árnadóttur og fleiri í Geophysical Journal International, 2009.

Nú til dags eru til nákvæmari aðferðir til að mæla hreyfingar flekanna. Langalgengasta aðferðin byggist á GPS-kerfinu. Með GPS-landmælingum má ákvarða stöðu mælipunkta á yfirborði jarðar með mikilli nákvæmni. Óvissa einstakra mælinga er einungis fáeinir millimetrar, stundum talsvert minni. Með endurteknum mælingum á sama punktinum má því finna hvernig hann hreyfist, bæði hraða hans og stefnu. Þetta hefur verið gert á miklum fjölda punkta sem dreifðir eru um alla fleka jarðarinnar. Skemmst er frá því að segja að mælingarnar hafa staðfest flekakenninguna í talsverðum smáatriðum.

Hér á landi hafa GPS-landmælingar verið stundaðar síðan 1986. Mikill fjöldi mælipunkta hefur verið mældur og hreyfingar þeirra rannsakaðar. Nú eru einnig reknar margar GPS-mælistöðvar sem mæla hreyfingarnar samfellt og má þar fylgjast með hreyfingunum frá degi til dags. Auk flekahreyfinganna koma þar fram hreyfingar vegna eldsumbrota og kvikuhreyfinga, jarðskjálfta, jarðhitavinnslu, rýrnunar jökla og ýmislegt fleira.

Með þessum mælingum er staðfest að Austurland fjarlægist Vesturland um 19 millimetra á ári og er stefnan um það bil 105°, það er um 15° sunnan við austur. Austurland situr á svokölluðum Evrasíufleka en Vesturland á Norður-Ameríkuflekanum. Flekarnir færast hér á landi í sundur með jöfnum hraða. Vegna þessara hreyfinga hleðst upp spenna á flekaskilunum og í næsta umhverfi þeirra sem losnar svo um í skjálftum og eldsumbrotum. Fylgjast má með þessum mælingum á vefsíðum Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar.

Mynd:
  • Árnadóttir, Th., B. Lund, W. Jiang, and H. Geirsson, H. Björnsson, P. Einarsson and T. Sigurdsson, Glacial rebound and plate spreading: Results from the first countrywide GPS observations in Iceland, Geophys. J. Int., 177(2), 691-716, doi: 10.1111/j.1365-246X. 2008.04059.x, 2009.

...