
Seinni aðferðin sem jörðin notar til að kæla sig er með tilfærslu á heitu efni úr iðrum jarðar upp til yfirborðs. Í þessu ferli á sér stað hlutbráðnun á möttulefni jarðar og til verður heitur vökvi sem nefndur er kvika. Kvikan leitar síðan upp til yfirborðs vegna þess að hún er léttari en umhverfi sitt. Þegar kvikan kemst upp á yfirborð verður mikið sjónarspil sem að við köllum eldgos. Í raun má líkja þessu ferli við íþróttamann sem tekur mikið á. Við áreynslu eiga sér stað efnahvörf sem skapa meiri hita í líkama hans en hann getur losnað við með leiðni í gegnum húðina. Því grípur líkaminn til þess ráðs að mynda vökva (svita) en þannig eykur hann varmaflutning sinn og kælingu til mikilla muna. Þegar við upplifum eldgos erum við því að horfa á kólnun jarðar sem fer fram með flutningi á efni og orku úr iðrum hennar og til yfirborðs. Þessi hefur haft mjög jákvæð langtíma áhrif og er í raun forsenda tilvistar okkar á þessari plánetu. Kvikan sem leitar til yfirborðs er ekki bara fasta efnið sem við köllum í daglegu tali hraun og ösku. Einnig berast upp á yfirborðið margar lofttegundir sem með tíð og tíma hafa myndað andrúmsloft jarðar. Skoðið einnig svör Sigurðar Steinþórssonar við spurningunum:
- Af hverju eru eldgos svona heit?
- Hvað er megineldstöð?
- Hver er munurinn á sprengigosi og seigfljótandi gosi?
- Hvernig verður eldgos til?
- Hvers vegna verður eldgos?