
Megineldstöðvar má skilgreina með eftirfarandi eiginleikum: Þar gýs aftur og aftur, í rótum þeirra er kvikuhólf, þar myndast margvíslegar bergtegundir - basískar, ísúrar og súrar - og þar eru iðulega háhitasvæði.
Þorleifur Einarsson lýsir svo myndun og þróun megineldstöðva í bók sinni Myndun og mótun lands (bls. 119):
Í hinum eiginlegu rekbeltum, frá Reykjanestá til Langjökuls, og frá Veiðivötnum norður í Axarfjörð, einkennist gosbeltið af svonefndum gangasveimum sem koma fram á yfirborði sem sprungusveimar, oft yfir 40 km langir og 10 km breiðir. Form og stefna sveimanna stafar af svörun efsta hluta jarðskorpunnar við hreyfingum í möttlinum. Í rótum hvers sveims er aflangur kvikugeymir sem bergkvika bætist í neðan frá og blandast þeirri sem fyrir er. Í eldgosum rís kvika úr kvikugeymum. Þegar ofar dregur í skorpuna fer súr kvika að verða meira áberandi og megineldstöð myndast í miðju sveimsins. Súra kvikan myndast við eðlisþyngdaraðgreiningu kviku og bráðnun bergsins ofan við kvikuþróna eða grannbergs í hliðum hennar. Þegar kvikuhólfið hefur risið nægilega hátt í skorpunni fer stundum svo við eldgos að þakið yfir hrynur og askja myndast, oft með miklu líparít-öskugosi. Dæmi um slíkt er gosið 1875 í Dyngjufjöllum. Þegar gliðnunarhreyfingar verða um megineldstöðvar af þessu tagi streymir kvika úr kvikuhólfinu undir eldstöðinni oft lárétt út í gangasveima (kvikuhlaup), og kemur þá oft upp sem sprungugos (sbr. Kröfluelda 1975-84).Dæmigerðar megineldstöðvar utan rekbeltanna eru Snæfellsjökull, Eyjafjallajökull og Öræfajökull, en í rekbeltunum Askja og Krafla, sem áður voru nefndar. Háhitasvæðin á Reykjanesskaga eru dæmi um megineldstöðvar á frumstigi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík og Brennisteinsfjöll, en Hengill er þróaðri því þar finnast mismunandi bergtegundir. Frekara lesefni á Vísindavefnum: Mynd: