Sólin Sólin Rís 04:04 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 02:16 • Sest 23:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:59 • Síðdegis: 19:19 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:00 • Síðdegis: 13:05 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:04 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 02:16 • Sest 23:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:59 • Síðdegis: 19:19 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:00 • Síðdegis: 13:05 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um Alfred Wegener?

Sigurður Steinþórsson

Alfred Wegener fæddist í Berlín 1880 og nam stjörnufræði og veðurfræði við háskóla þar í borg. Doktorsritgerð hans var um stjörnufræði, en af ýmsum ástæðum kaus hann að helga sig veðurfræðinni frekar, meðal annars vegna áhuga síns á líkamsrækt, útivist og ferðalögum, einkum á norðlægum slóðum. Hann kannaði lofthjúpinn með flugdrekum og úr loftbelg, og árið 1906 urðu bræðurnir Kurt og Alfred Wegener heimsmeistarar í loftbelgjaflugi er þeir héldust á lofti samfleytt í 56 klukkustundir. Í þessu starfi kynntist hann fremsta veðurfarsfræðingi þeirra tíma, Wladimir Köppen, sem varð tengdafaðir hans 1913. Seinna skrifuðu þeir tengdafeðgar saman mikla bók (1924) þar sem reynt var að rekja landrek út frá veðurfarstengdum jarðmyndunum, til dæmis kolalögum, saltstólpum og jökulrispum.

Alferd Wegener (1880-1930).

Árin 1906-08 tók Alfred Wegener þátt í tveggja ára dönskum leiðangri til Norðaustur-Grænlands; í þeirri ferð fórst leiðangursstjórinn við þriðja mann úr hungri í sleðaferð sumarið 1907. Að leiðangrinum loknum hóf Wegener störf við háskólann í Marburg þar sem hann starfaði fram til ársins 1919 en þó með hléum vegna Grænlandsleiðangurs 1912-1913 og vegna herþjónustu í fyrri heimstyrjöldinni. Árið 1919 tók hann við starfi Köppens sem deildarstjóri við veðurstofu í Hamborg, og 1924 varð hann prófessor í jarðeðlisfræði við háskólann í Graz; þeirri stöðu hélt hann til æviloka 1930.

Í Grænlandsleiðangrinum 1906-08 hafði Wegener kynnst danska landmælingamanninum Johan Koch kapteini, sem árin áður hafði verið foringi landmælingamanna sem kortlögðu Skaftafellssýslu frá Jökulsá á Sólheimasandi austur að Papósi. Í þeirri vinnu höfðu Danirnir íslenska hesta og leiðsögumenn. Fékk Koch á hestunum tröllatrú og skrifaði síðar1 að þrátt fyrir áralanga þjálfun jafnist engir við Íslendinga í meðhöndlun hesta sinna fremur en við Grænlendinga í meðhöndlun hunda og hundasleða.

Árið 1912 skipulagði Koch 4ra manna landkönnunar- og jöklarannsóknaleiðangur til Dronning Louise Land á NA-Grænlandi og tók Wegener þátt í honum.2 Land þetta er víðáttumikið jökulsker (nunatak) umkringt jökli og skyldi framkvæma margvíslegar athuganir og mælingar á landi og jökli, en halda síðan þvert yfir hájökul Grænlands til vesturstrandarinnar þar sem skip biði þeirra. Mikill vísindalegur árangur varð af leiðangrinum3 og þökkuðu þeir Koch og Wegener það ekki síst framgöngu Vigfúsar Sigurðssonar4 (þekktastur síðan sem Vigfús Grænlandsfari) sem auk þess að stýra 16 íslenskum hestum var völundur á járn og tré, smíðaði, gerði við og endurbætti meðal annars áhöld og jafnvel mælitæki þegar í harðbakkann sló.

Á leiðinni til Grænlands höfðu þeir Koch og Wegener komið við á Akureyri í júní 1912 til að sækja Vigfús og hestana. Þaðan var haldið í æfingaferð með 27 hesta undir stjórn Vigfúsar ríðandi suður að Brúarjökli og áfram suður yfir Vatnajökul til Esjufjalla og til baka, samtals 130 km leið á jökli; þar af tók ferðin til baka yfir jökulinn aðeins 18 klukkustundir.

Í janúar sama ár hafði Wegener kynnt í fyrsta sinn landrekshugmyndir sínar, í fyrirlestri í Frankfurt am Main, sem að ýmsu leyti voru nútímalegri en þær hugmyndir sem fram koma í bók hans 1915. Í fyrirlestrinum telur hann meðal annars að botn Atlantshafsins sé á reki út frá Mið-Atlantshafshryggnum og rífi hann sundur svo þar stígi stöðugt upp ný kvika að neðan. Það var því furðuleg óheppni að hann skyldi ekki sjá í þessum reiðtúr sínum hin óræku merki um þetta ferli í sprungum og goshryggjum norðan við Vatnajökul.

Megintilgangur hestanna sextán var að koma um 20 tonnum af farangri um torleiði frá Danmarkshavn á Germania Land upp á jökulinn, og tók sá áfangi 82 daga. Þar reistu leiðangursmenn skála og stunduðu margvíslegar rannsóknir fram í apríl – grófu meðal annars 7½ meters djúpa gryfju í ísinn undir skálanum og boruðu síðan með handbor niður á 18 og 24 metra. Telja kunnugir að rannsóknir þeirra veturinn 1912-13 hafi bæði lagt grunninn að jöklarannsóknum á norðurslóðum og mörgum þeim aðferðum sem síðan eru notaðar. Hinn 20. apríl lögðu þeir upp í 1000 km ferð til Vesturstrandarinnar. Sú ferð tók 83 daga í 30-40 siga frosti og löngum í 2500-3000 m hæð. Lagt var upp með fimm hesta sem drógu sleða (hinir höfðu verið felldir að loknum flutningunum haustið áður) en enginn þeirra komst lifandi á leiðarenda. Forðabúr beið leiðangursmanna á tilteknum stað við Vesturströndina en með því að þeir voru mánuði seinna á ferð en áætlað hafði verið, var ekki tekið á móti þeim. Því lögðu þeir léttklyfjaðir í síðasta áfangann til þorpsins Pröven en lentu í mestu hremmingum og lá við að þeir færust á þeirri leið úr ofreynslu og hungri. Þegar sást til þeirra fyrir tilviljum stóð á endum að hundurinn Glói var kominn í pottinn.

Þriðja Grænlandsleiðangur sinn fór Wegener vorið 1930 og stóð til að setja upp rannsóknastöð á hájöklinum og hafa þar vetursetu. Þar hugðist Wegener mæla þykkt jökulsins með jarðskjálftabylgjum, sem var nýung í jöklafræði, og gera ýmsar athuganir í veðurfræði. Aftur voru íslenskir hestar notaðir til að koma farangri upp á jökulinn, meðal annars snjóbíl sem knúinn var með loftskrúfu og reyndist illa. Og enn var Vigfús Grænlandsfari með í för ásamt tveimur aðstoðarmönnum, Jóni Jónssyni frá Laug og Guðmundi Gíslasyni.5 Flest varð leiðangursmönnum öndótt, og Wegener varð úti á jöklinum ásamt Grænlendingnum Rasmusi Villumsen skömmu eftir 50. afmælisdag sinn, 1. nóvember 1930.6 Að Wegener látnum kom bróðir hans, Kurt Wegener, til Grænlands og tók við stjórn, og tókst að ljúka hinu fyrirhugaða verkefni.

Wegener (til vinstri) og Villumsen. Myndin er tekin í byrjun nóvember árið 1930 í bækistöðinni Eismitte á Grænlandsjökli. Nokkrum dögum seinna urðu þeir báðir úti á leið sinni til baka að ströndinni.

Fyrsta útgáfa bókar Wegeners, Die Enstehung der Kontinente und Ozeane (Myndun meginlanda og úthafa), kom út 1915. Hún var 94 blaðsíður í litlu broti, en 4. útgáfa 1929 var 231 síða. Í bókinni hugsar hann sér að meginlöndin fljóti ofan á eðlisþyngri, seigfljótandi möttli og reki um jarðkúluna eins og ísjakar á vatni, en í fyrrnefndum fyrirlestri (1912) og samkvæmt viðteknum kenningum sem komu fram 1963 er það hafsbotninn sem gliðnar en meginlöndin berast með. Segja má að banabiti landrekskenningar Wegeners hafi verið sá að hann gat ekki bent á sennilega krafta sem fleytt gætu meginlöndunum gegnum hafsbotnsskorpuna. Þó voru ýmsir sem ekki misstu trú á að afstaða meginlanda breytist með tímanum, enda færði Wegener fyrir því mörg og sannfærandi rök, sem hann sótti í jarðeðlisfræði, jarðfræði, landafræði, steingervingafræði og loftslagssögu. Um þetta má lesa í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?

Tilvísanir:

1 J.P. Koch: Gennem den hvide Ørken: den danske forskningsrejse tværsover Nordgrønland 1912-1913. København 1913. Íslensk þýðing Jóns Eyþórssonar: Yfir hájökul Grænlands með íslenzka hesta 1912-1913. Reykjavík 1948.

2 Vigfúsi Geirdal sagnfræðingi, sem er manna fróðastur er um Grænlandsleiðangra Wegeners, er þakkað þetta efni.

3 Wissenschaftliche Ergebnisse der dänischen Expedition nach Dronning Louises-Land und quer über das Inlandeis von Nordgrönland 1912-13 unter Leitung von Hauptmann J. P. Koch. Meddelser fra Grönland, 1930.

4 Vigfús Sigurðsson. Um þvert Grænland með kapt. J. P. Koch 1912-1913. Útg. Ársæll Árnason, Reykjavík 1948. (Fyrsti hluti bókarinnar (48 bls.) kom út 1916 hjá Fjallkonuútgáfunni.)

5 Sjá: Árni Hjartarson (2012). Alfred Wegener og samskipti hans við Íslendinga. Náttúrufræðingurinn 82: 126-134.

6 Svo ágætir þóttu leiðangursstjórarnir að Vigfús skírði yngsta son sinn Jóhann Peter (1924-96) eftir Koch og Jón frá Laug sinn son Alfreð Rasmus (1933-2012) eftir Alfred Wegener og Rasmusi Villumsen.

Myndir:


Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvenær er Alfred Wegener fæddur og hvar?


Þetta svar var upphaflega birt 14. desember 2009 en uppfært í mars 2014 með ítarlegri upplýsingum um Grænlandsleiðangra Wegeners og þátt Íslendinga í þeim eftir ábendingum frá Vigfúsi Geirdal.

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

27.3.2014

Spyrjandi

Aðalsteinn Kjartansson, Erla Sif

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvað getið þið sagt mér um Alfred Wegener?“ Vísindavefurinn, 27. mars 2014, sótt 22. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=12949.

Sigurður Steinþórsson. (2014, 27. mars). Hvað getið þið sagt mér um Alfred Wegener? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=12949

Sigurður Steinþórsson. „Hvað getið þið sagt mér um Alfred Wegener?“ Vísindavefurinn. 27. mar. 2014. Vefsíða. 22. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=12949>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Alfred Wegener?
Alfred Wegener fæddist í Berlín 1880 og nam stjörnufræði og veðurfræði við háskóla þar í borg. Doktorsritgerð hans var um stjörnufræði, en af ýmsum ástæðum kaus hann að helga sig veðurfræðinni frekar, meðal annars vegna áhuga síns á líkamsrækt, útivist og ferðalögum, einkum á norðlægum slóðum. Hann kannaði lofthjúpinn með flugdrekum og úr loftbelg, og árið 1906 urðu bræðurnir Kurt og Alfred Wegener heimsmeistarar í loftbelgjaflugi er þeir héldust á lofti samfleytt í 56 klukkustundir. Í þessu starfi kynntist hann fremsta veðurfarsfræðingi þeirra tíma, Wladimir Köppen, sem varð tengdafaðir hans 1913. Seinna skrifuðu þeir tengdafeðgar saman mikla bók (1924) þar sem reynt var að rekja landrek út frá veðurfarstengdum jarðmyndunum, til dæmis kolalögum, saltstólpum og jökulrispum.

Alferd Wegener (1880-1930).

Árin 1906-08 tók Alfred Wegener þátt í tveggja ára dönskum leiðangri til Norðaustur-Grænlands; í þeirri ferð fórst leiðangursstjórinn við þriðja mann úr hungri í sleðaferð sumarið 1907. Að leiðangrinum loknum hóf Wegener störf við háskólann í Marburg þar sem hann starfaði fram til ársins 1919 en þó með hléum vegna Grænlandsleiðangurs 1912-1913 og vegna herþjónustu í fyrri heimstyrjöldinni. Árið 1919 tók hann við starfi Köppens sem deildarstjóri við veðurstofu í Hamborg, og 1924 varð hann prófessor í jarðeðlisfræði við háskólann í Graz; þeirri stöðu hélt hann til æviloka 1930.

Í Grænlandsleiðangrinum 1906-08 hafði Wegener kynnst danska landmælingamanninum Johan Koch kapteini, sem árin áður hafði verið foringi landmælingamanna sem kortlögðu Skaftafellssýslu frá Jökulsá á Sólheimasandi austur að Papósi. Í þeirri vinnu höfðu Danirnir íslenska hesta og leiðsögumenn. Fékk Koch á hestunum tröllatrú og skrifaði síðar1 að þrátt fyrir áralanga þjálfun jafnist engir við Íslendinga í meðhöndlun hesta sinna fremur en við Grænlendinga í meðhöndlun hunda og hundasleða.

Árið 1912 skipulagði Koch 4ra manna landkönnunar- og jöklarannsóknaleiðangur til Dronning Louise Land á NA-Grænlandi og tók Wegener þátt í honum.2 Land þetta er víðáttumikið jökulsker (nunatak) umkringt jökli og skyldi framkvæma margvíslegar athuganir og mælingar á landi og jökli, en halda síðan þvert yfir hájökul Grænlands til vesturstrandarinnar þar sem skip biði þeirra. Mikill vísindalegur árangur varð af leiðangrinum3 og þökkuðu þeir Koch og Wegener það ekki síst framgöngu Vigfúsar Sigurðssonar4 (þekktastur síðan sem Vigfús Grænlandsfari) sem auk þess að stýra 16 íslenskum hestum var völundur á járn og tré, smíðaði, gerði við og endurbætti meðal annars áhöld og jafnvel mælitæki þegar í harðbakkann sló.

Á leiðinni til Grænlands höfðu þeir Koch og Wegener komið við á Akureyri í júní 1912 til að sækja Vigfús og hestana. Þaðan var haldið í æfingaferð með 27 hesta undir stjórn Vigfúsar ríðandi suður að Brúarjökli og áfram suður yfir Vatnajökul til Esjufjalla og til baka, samtals 130 km leið á jökli; þar af tók ferðin til baka yfir jökulinn aðeins 18 klukkustundir.

Í janúar sama ár hafði Wegener kynnt í fyrsta sinn landrekshugmyndir sínar, í fyrirlestri í Frankfurt am Main, sem að ýmsu leyti voru nútímalegri en þær hugmyndir sem fram koma í bók hans 1915. Í fyrirlestrinum telur hann meðal annars að botn Atlantshafsins sé á reki út frá Mið-Atlantshafshryggnum og rífi hann sundur svo þar stígi stöðugt upp ný kvika að neðan. Það var því furðuleg óheppni að hann skyldi ekki sjá í þessum reiðtúr sínum hin óræku merki um þetta ferli í sprungum og goshryggjum norðan við Vatnajökul.

Megintilgangur hestanna sextán var að koma um 20 tonnum af farangri um torleiði frá Danmarkshavn á Germania Land upp á jökulinn, og tók sá áfangi 82 daga. Þar reistu leiðangursmenn skála og stunduðu margvíslegar rannsóknir fram í apríl – grófu meðal annars 7½ meters djúpa gryfju í ísinn undir skálanum og boruðu síðan með handbor niður á 18 og 24 metra. Telja kunnugir að rannsóknir þeirra veturinn 1912-13 hafi bæði lagt grunninn að jöklarannsóknum á norðurslóðum og mörgum þeim aðferðum sem síðan eru notaðar. Hinn 20. apríl lögðu þeir upp í 1000 km ferð til Vesturstrandarinnar. Sú ferð tók 83 daga í 30-40 siga frosti og löngum í 2500-3000 m hæð. Lagt var upp með fimm hesta sem drógu sleða (hinir höfðu verið felldir að loknum flutningunum haustið áður) en enginn þeirra komst lifandi á leiðarenda. Forðabúr beið leiðangursmanna á tilteknum stað við Vesturströndina en með því að þeir voru mánuði seinna á ferð en áætlað hafði verið, var ekki tekið á móti þeim. Því lögðu þeir léttklyfjaðir í síðasta áfangann til þorpsins Pröven en lentu í mestu hremmingum og lá við að þeir færust á þeirri leið úr ofreynslu og hungri. Þegar sást til þeirra fyrir tilviljum stóð á endum að hundurinn Glói var kominn í pottinn.

Þriðja Grænlandsleiðangur sinn fór Wegener vorið 1930 og stóð til að setja upp rannsóknastöð á hájöklinum og hafa þar vetursetu. Þar hugðist Wegener mæla þykkt jökulsins með jarðskjálftabylgjum, sem var nýung í jöklafræði, og gera ýmsar athuganir í veðurfræði. Aftur voru íslenskir hestar notaðir til að koma farangri upp á jökulinn, meðal annars snjóbíl sem knúinn var með loftskrúfu og reyndist illa. Og enn var Vigfús Grænlandsfari með í för ásamt tveimur aðstoðarmönnum, Jóni Jónssyni frá Laug og Guðmundi Gíslasyni.5 Flest varð leiðangursmönnum öndótt, og Wegener varð úti á jöklinum ásamt Grænlendingnum Rasmusi Villumsen skömmu eftir 50. afmælisdag sinn, 1. nóvember 1930.6 Að Wegener látnum kom bróðir hans, Kurt Wegener, til Grænlands og tók við stjórn, og tókst að ljúka hinu fyrirhugaða verkefni.

Wegener (til vinstri) og Villumsen. Myndin er tekin í byrjun nóvember árið 1930 í bækistöðinni Eismitte á Grænlandsjökli. Nokkrum dögum seinna urðu þeir báðir úti á leið sinni til baka að ströndinni.

Fyrsta útgáfa bókar Wegeners, Die Enstehung der Kontinente und Ozeane (Myndun meginlanda og úthafa), kom út 1915. Hún var 94 blaðsíður í litlu broti, en 4. útgáfa 1929 var 231 síða. Í bókinni hugsar hann sér að meginlöndin fljóti ofan á eðlisþyngri, seigfljótandi möttli og reki um jarðkúluna eins og ísjakar á vatni, en í fyrrnefndum fyrirlestri (1912) og samkvæmt viðteknum kenningum sem komu fram 1963 er það hafsbotninn sem gliðnar en meginlöndin berast með. Segja má að banabiti landrekskenningar Wegeners hafi verið sá að hann gat ekki bent á sennilega krafta sem fleytt gætu meginlöndunum gegnum hafsbotnsskorpuna. Þó voru ýmsir sem ekki misstu trú á að afstaða meginlanda breytist með tímanum, enda færði Wegener fyrir því mörg og sannfærandi rök, sem hann sótti í jarðeðlisfræði, jarðfræði, landafræði, steingervingafræði og loftslagssögu. Um þetta má lesa í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?

Tilvísanir:

1 J.P. Koch: Gennem den hvide Ørken: den danske forskningsrejse tværsover Nordgrønland 1912-1913. København 1913. Íslensk þýðing Jóns Eyþórssonar: Yfir hájökul Grænlands með íslenzka hesta 1912-1913. Reykjavík 1948.

2 Vigfúsi Geirdal sagnfræðingi, sem er manna fróðastur er um Grænlandsleiðangra Wegeners, er þakkað þetta efni.

3 Wissenschaftliche Ergebnisse der dänischen Expedition nach Dronning Louises-Land und quer über das Inlandeis von Nordgrönland 1912-13 unter Leitung von Hauptmann J. P. Koch. Meddelser fra Grönland, 1930.

4 Vigfús Sigurðsson. Um þvert Grænland með kapt. J. P. Koch 1912-1913. Útg. Ársæll Árnason, Reykjavík 1948. (Fyrsti hluti bókarinnar (48 bls.) kom út 1916 hjá Fjallkonuútgáfunni.)

5 Sjá: Árni Hjartarson (2012). Alfred Wegener og samskipti hans við Íslendinga. Náttúrufræðingurinn 82: 126-134.

6 Svo ágætir þóttu leiðangursstjórarnir að Vigfús skírði yngsta son sinn Jóhann Peter (1924-96) eftir Koch og Jón frá Laug sinn son Alfreð Rasmus (1933-2012) eftir Alfred Wegener og Rasmusi Villumsen.

Myndir:


Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvenær er Alfred Wegener fæddur og hvar?


Þetta svar var upphaflega birt 14. desember 2009 en uppfært í mars 2014 með ítarlegri upplýsingum um Grænlandsleiðangra Wegeners og þátt Íslendinga í þeim eftir ábendingum frá Vigfúsi Geirdal.

...