Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?

Sigurður Steinþórsson

Með „landrekskenningunni" er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenning" og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenning". Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana. Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.

Meginmál bókar Wegeners frá 1915 eru rök fyrir því að landaskipan hafi breyst með tímanum, en auk þess reynir Wegener að finna skýringu á því hvers vegna löndin séu á hreyfingu um hnöttinn.

Í fyrsta lagi bendir Wegener á það, sem margir höfðu gert á undan honum, hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Og sömuleiðis mátti fella önnur meginlönd saman í eitt stórt, sem Wegener kallaði Pangæu — Alland eða Samland.




Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu, eða sama 450 milljón ára jarðmyndun í Noregi, Skotlandi, Nýfundnalandi og austurströnd Bandaríkjanna.

Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman, en áður voru uppi alls konar kenningar um landbrýr hingað og þangað til að skýra slíkt. Um þetta nefndi Wegener mörg dæmi.

Og í fjórða stað gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni. Þar má telja til dæmis kolamyndanir, eyðimerkur og saltlög, og út frá því gátu þeir dregið ályktanir um breidd (norður-suður) landanna á ýmsum tímum.

Síðar voru gerðar fornsegulmælingar víða um heim, þar sem afstaða hvers staðar og jarðmyndunar til segulskauts jarðar á myndunartíma sínum var mæld, og út frá þeim voru ferðir meginlandanna um jarðkúluna kortlagðar.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Það gerðist ekki fyrr en um 1960 þegar bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) setti fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Í framhaldi af því varð botnskriðskenningin til árið 1964, en hún skýrði meðal annars niðurstöður segulmælinga yfir hafsbotnunum sem höfðu valdið mönnum heilabrotum um hríð.

Þess má að lokum geta, að árið 1912 kynnti Alfred Wegener fyrst kenningu sína á ráðstefnu, og þá var hún mun líkari hinni nútímalegu útgáfu, nefnilega botnskriðskenningunni, en sú kenning sem lýst er í bókinni 1915. Óvíst er hvað valdið hefur þessum sinnaskiptum, en svo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

8.8.2000

Spyrjandi

Dagur Hilmarsson, f. 1986

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?“ Vísindavefurinn, 8. ágúst 2000, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=749.

Sigurður Steinþórsson. (2000, 8. ágúst). Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=749

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?“ Vísindavefurinn. 8. ágú. 2000. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=749>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?
Með „landrekskenningunni" er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenning" og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenning". Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana. Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.

Meginmál bókar Wegeners frá 1915 eru rök fyrir því að landaskipan hafi breyst með tímanum, en auk þess reynir Wegener að finna skýringu á því hvers vegna löndin séu á hreyfingu um hnöttinn.

Í fyrsta lagi bendir Wegener á það, sem margir höfðu gert á undan honum, hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Og sömuleiðis mátti fella önnur meginlönd saman í eitt stórt, sem Wegener kallaði Pangæu — Alland eða Samland.




Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu, eða sama 450 milljón ára jarðmyndun í Noregi, Skotlandi, Nýfundnalandi og austurströnd Bandaríkjanna.

Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman, en áður voru uppi alls konar kenningar um landbrýr hingað og þangað til að skýra slíkt. Um þetta nefndi Wegener mörg dæmi.

Og í fjórða stað gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni. Þar má telja til dæmis kolamyndanir, eyðimerkur og saltlög, og út frá því gátu þeir dregið ályktanir um breidd (norður-suður) landanna á ýmsum tímum.

Síðar voru gerðar fornsegulmælingar víða um heim, þar sem afstaða hvers staðar og jarðmyndunar til segulskauts jarðar á myndunartíma sínum var mæld, og út frá þeim voru ferðir meginlandanna um jarðkúluna kortlagðar.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Það gerðist ekki fyrr en um 1960 þegar bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) setti fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Í framhaldi af því varð botnskriðskenningin til árið 1964, en hún skýrði meðal annars niðurstöður segulmælinga yfir hafsbotnunum sem höfðu valdið mönnum heilabrotum um hríð.

Þess má að lokum geta, að árið 1912 kynnti Alfred Wegener fyrst kenningu sína á ráðstefnu, og þá var hún mun líkari hinni nútímalegu útgáfu, nefnilega botnskriðskenningunni, en sú kenning sem lýst er í bókinni 1915. Óvíst er hvað valdið hefur þessum sinnaskiptum, en svo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:...