Sólin Sólin Rís 03:54 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:46 • Síðdegis: 17:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:37 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:54 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:46 • Síðdegis: 17:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:37 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna er fólk samkynhneigt? Er það aðferð náttúrunnar til að halda fólksfjölda í skefjum?

Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020)

Ekki hefur tekist að finna neina eina skýringu á því hvers vegna fólk er samkynhneigt (eða gagnkynhneigt ef því er að skipta), enda hæpið að hægt sé að finna einhvern einn orsakaþátt til að útskýra jafn flókið og margþætt fyrirbæri og kynvitund og mannlegar þrár. Spurningin verður hinsvegar til í samfélagi gagnkynhneigðs forræðis. Gagnkynheigð er “hið eðlilega” og "kynvísir" þurfa því ekki að svara af hverju þeir eru eins og þeir eru. Samkynhneigð er hinsvegar skoðuð sem frávik, “hið óeðlilega,” og hana þarf að útskýra og réttlæta. Gagnkynhneigð og samkynhneigð er stillt upp sem tveimur ósættanlegum pólum og einblínt er á mismun hópanna tveggja í stað þess að horfa á það sem sameinar.

Kynvitund einstaklinga snýst nefnilega ekki einungis um hvernig, og með hverjum, fólk kýs að lifa sínu kynlífi, heldur snertir hún nær öll svið mannlegs lífs; makaval, fjölskyldugerð, félagslega stöðu, lagaleg réttindi og skyldur einstaklingsins í samfélaginu. Spurningin “hvers vegna” er þó þráfellt borin upp, og þeir skýringarþættir sem einkum hefur verið horft til eru sambland af sálfræðilegum, líffræðilegum og félagsmótandi þáttum. Þegar ég hinsvegar bar spurninguna undir vin minn, sem er hommi, svaraði hann einfaldlega: “Ja, sumir eru bara heppnari en aðrir.”

Ein umfangsmesta rannsókn sem gerð hefur verið á kynhneigð fólks er rannsókn Alfreds Kinsey og samstarfsmanna hans í Bandaríkjunum á fimmta og sjötta áratugnum. Tekin voru viðtöl við þúsundir karla og kvenna í þeim tilgangi að kortleggja mannlega kynvitund. Beitt var sjö þrepa skala þar sem andstæðu pólarnir voru algjör samkynhneigð og algjör gagnkynheigð. Stærstur hluti úrtaksins lenti hinsvegar einhvers staðar á þrepunum fimm þar á milli. Spurningunni var þannig ekki hægt að svara með annaðhvort/eða. Bæði/og reyndist hinsvegar heppilegri kvarði til að fjalla um það ótrúlega litróf kynhegðunar, kynvitundar, og kynlangana sem birtist. Út frá þessari könnun Kinseys er síðan komin sú viðmiðunartala að samkynhneigðir séu um það bil 10% af heildar fólksfjölda (í vestrænum samfélögum).

En hvað er átt við þegar talað er um kynvitund eða kynhneigð? Yfirleitt er litið til fjögurra eftirfarandi þátta sem eru býsna ólíkir:

  • sjálfsmynd (identity)
  • hegðun (behaviour)
  • fantasía
  • aðdráttarafl (attraction)

Oftast eru þessir þættir samhljóma en svo þarf þó alls ekki að vera. Augljósastur er sjálfsmyndarþátturinn eða skilgreining fólks á eigin kynhneigð. Hér er þá átt við þá sem skilgreina sig sem homma eða lesbíur og lifa lífi sínu í fullu samræmi við þá sjálfsmynd. Slík sjálfsmynd á sér þó stutta sögu og fólk sem kallar sig homma eða lesbíur kemur ekki fram fyrr en á 19. öld þótt á öllum tímum hafi verið til einstaklingar sem drógust að fólki af sama kyni. Slík kynreynsla var litin hornauga og talin syndug, glæpsamleg, eða merki um geðveilu af einhverju tagi. Til marks um það var samkynhneigð á listum bandarískra sálfræðinga um “óeðli” fram á miðja 20. öld. Hins vegar eru til dæmi úr öðrum samfélögum og frá öðrum tímum þar sem tímabundið kynferðissamband við fólk af sama kyni er álitið fullkomlega eðlilegt. Má í því sambandi benda umfjöllun Platons í Samdrykkjunni, en í Grikklandi hinu forna voru náin, kynferðisleg sambönd ungra lærisveina og eldri lærifeðra talin hluti af eðlilegu þroskaferli.

Hinir áhrifaþættirnir þrír sem litið er til þegar talað er um kynvitund; kynhegðun, fantasía og aðdráttarafl, eru fráleitt jafn augljósir. Það sem við hugsum og gerum er ekki endilega í samræmi við það sem við teljum okkur vera. Þannig eru fjölmörg dæmi um fólk sem á einhvern tíma hefur stundað kynlíf með fólki af saman kyni og gerir jafnvel nokkuð reglulega án þess þó að skilgreina sig sem samkynhneigt, hvorki fyrir sjálfu sér né öðrum. Sömuleiðis rúmar heimur fantasíunnar gjarnan fólk af báðum kynjum og fjölmargir finna til aðdráttarafls eða hrifningar af kynbræðrum eða -systrum án þess að upplifa nokkurtímann fantasíuna eða fylgja hrifningu sinni eftir. Allt eru þetta þó þættir sem hverskonar rannsóknir á samkynhneigð hljóta að horfa til.

Á síðustu árum hefur mikil áhersla verið lögð á að finna líffræðilegar skýringar á hverskonar hegðun eða atferli og rannsóknir á kynhneigð hafa ekki farið varhluta af því. Þær hafa jafnan átt greiða leið í fjölmiðla og vakið mikla athygli, enda er eins og almenning þyrsti í beinharðar líffræðilegar staðreyndir til þess að útskýra, réttlæta eða fordæma tilvist homma og lesbía. Tvíburarannsóknir hafa þannig verið notaðar til þess að kanna ættgengi samkynhneigðar og hafa þær heldur styrkt hugmyndir um sameiginlegan erfðaþátt. Þá hefur “leitinni að hommageninu” vaxið fiskur um hrygg með aukinni rannsóknartækni. Bandarískum vísindamanni tókst þannig að einangra lítið svæði á X-litningnum, Xq28, sem einungis fannst hjá hommum (þó alls ekki öllum) og erfðist frá móður. Þá hefur mannsheilinn og verið skoðaður og einn vísindamaður taldi sig hafa fundið “hommasvæðið” í undirstúku heilans. Líffræðirannsóknir af þessu tagi vekja upp ótal siðferðilegar spurningar. Til eru þeir sem fagna skýringartilraunum af þessu tagi, og telja að líffræðilegir þættir “réttlæti” samkynhneigð í augum almennings. Aðrir vara við því að þegar tæknin geri fólki kleift að hanna erfðafræðilega forskrift barna sinna verði samkynhneigð meðhöndluð sem óæskilegt gen sem verði að útrýma.

Ég hafna því algjörlega að samkynhneigð geti verið aðferð náttúrunnar til að halda fólksfjölda í skefjum. Reyndar set ég spurningarmerki við hverslags hugmyndir um náttúrulega nauðhyggju en jafnvel þótt við féllumst á slíkt væri samkynhneigð harla gagnslaust tæki. (Með náttúrulegri nauðhyggju er átt við þá hugmynd að náttúran hafi á einhvern hátt ákvarðað eða gefið forskrift að því hvernig hlutirnir eigi að verða.) Fjöldi samkynhneigðra eignast börn. Margir lifa í gagnkynhneigðum samböndum og eignast börn áður en þeir eða þær gera upp, eða endurskoða sína kynvitund. Þá fer þeim fjölgandi sem eignast börn eftir óhefðbundnum leiðum, til dæmis með tæknifrjóvgun eða gjafasæði. Hluti af réttindabaráttu samkynhneigðra snýr einmitt að endurskilgreiningu á fjölskylduhugtakinu og tilverurétti “hinsegin” fjölskyldna. Hér á landi gilda strangar reglur sem takmarka rétt samkynhneigðra til barneigna. Samkynhneigðum er þannig meinað að frumættleiða börn og tæknifrjóvgun og aðgangur að gjafasæði er takmarkaður við pör í gagnkynhneigðum samböndum. Hér á landi eru það því ríkisvaldið og lagabókstafurinn sem takmarka möguleika samkynhneigðra á að fjölga jarðarbörnum en ekki náttúran.

Sjá einnig svar Rannveigar Traustadóttur við spurningunni Mynda hommar og lesbíur alltaf kjarna á milli sín því þau eru minnihlutahópar?

Höfundur

Útgáfudagur

25.10.2000

Spyrjandi

Kolbeinn D.

Tilvísun

Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020). „Hvers vegna er fólk samkynhneigt? Er það aðferð náttúrunnar til að halda fólksfjölda í skefjum?“ Vísindavefurinn, 25. október 2000, sótt 19. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1039.

Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020). (2000, 25. október). Hvers vegna er fólk samkynhneigt? Er það aðferð náttúrunnar til að halda fólksfjölda í skefjum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1039

Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020). „Hvers vegna er fólk samkynhneigt? Er það aðferð náttúrunnar til að halda fólksfjölda í skefjum?“ Vísindavefurinn. 25. okt. 2000. Vefsíða. 19. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1039>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna er fólk samkynhneigt? Er það aðferð náttúrunnar til að halda fólksfjölda í skefjum?
Ekki hefur tekist að finna neina eina skýringu á því hvers vegna fólk er samkynhneigt (eða gagnkynhneigt ef því er að skipta), enda hæpið að hægt sé að finna einhvern einn orsakaþátt til að útskýra jafn flókið og margþætt fyrirbæri og kynvitund og mannlegar þrár. Spurningin verður hinsvegar til í samfélagi gagnkynhneigðs forræðis. Gagnkynheigð er “hið eðlilega” og "kynvísir" þurfa því ekki að svara af hverju þeir eru eins og þeir eru. Samkynhneigð er hinsvegar skoðuð sem frávik, “hið óeðlilega,” og hana þarf að útskýra og réttlæta. Gagnkynhneigð og samkynhneigð er stillt upp sem tveimur ósættanlegum pólum og einblínt er á mismun hópanna tveggja í stað þess að horfa á það sem sameinar.

Kynvitund einstaklinga snýst nefnilega ekki einungis um hvernig, og með hverjum, fólk kýs að lifa sínu kynlífi, heldur snertir hún nær öll svið mannlegs lífs; makaval, fjölskyldugerð, félagslega stöðu, lagaleg réttindi og skyldur einstaklingsins í samfélaginu. Spurningin “hvers vegna” er þó þráfellt borin upp, og þeir skýringarþættir sem einkum hefur verið horft til eru sambland af sálfræðilegum, líffræðilegum og félagsmótandi þáttum. Þegar ég hinsvegar bar spurninguna undir vin minn, sem er hommi, svaraði hann einfaldlega: “Ja, sumir eru bara heppnari en aðrir.”

Ein umfangsmesta rannsókn sem gerð hefur verið á kynhneigð fólks er rannsókn Alfreds Kinsey og samstarfsmanna hans í Bandaríkjunum á fimmta og sjötta áratugnum. Tekin voru viðtöl við þúsundir karla og kvenna í þeim tilgangi að kortleggja mannlega kynvitund. Beitt var sjö þrepa skala þar sem andstæðu pólarnir voru algjör samkynhneigð og algjör gagnkynheigð. Stærstur hluti úrtaksins lenti hinsvegar einhvers staðar á þrepunum fimm þar á milli. Spurningunni var þannig ekki hægt að svara með annaðhvort/eða. Bæði/og reyndist hinsvegar heppilegri kvarði til að fjalla um það ótrúlega litróf kynhegðunar, kynvitundar, og kynlangana sem birtist. Út frá þessari könnun Kinseys er síðan komin sú viðmiðunartala að samkynhneigðir séu um það bil 10% af heildar fólksfjölda (í vestrænum samfélögum).

En hvað er átt við þegar talað er um kynvitund eða kynhneigð? Yfirleitt er litið til fjögurra eftirfarandi þátta sem eru býsna ólíkir:

  • sjálfsmynd (identity)
  • hegðun (behaviour)
  • fantasía
  • aðdráttarafl (attraction)

Oftast eru þessir þættir samhljóma en svo þarf þó alls ekki að vera. Augljósastur er sjálfsmyndarþátturinn eða skilgreining fólks á eigin kynhneigð. Hér er þá átt við þá sem skilgreina sig sem homma eða lesbíur og lifa lífi sínu í fullu samræmi við þá sjálfsmynd. Slík sjálfsmynd á sér þó stutta sögu og fólk sem kallar sig homma eða lesbíur kemur ekki fram fyrr en á 19. öld þótt á öllum tímum hafi verið til einstaklingar sem drógust að fólki af sama kyni. Slík kynreynsla var litin hornauga og talin syndug, glæpsamleg, eða merki um geðveilu af einhverju tagi. Til marks um það var samkynhneigð á listum bandarískra sálfræðinga um “óeðli” fram á miðja 20. öld. Hins vegar eru til dæmi úr öðrum samfélögum og frá öðrum tímum þar sem tímabundið kynferðissamband við fólk af sama kyni er álitið fullkomlega eðlilegt. Má í því sambandi benda umfjöllun Platons í Samdrykkjunni, en í Grikklandi hinu forna voru náin, kynferðisleg sambönd ungra lærisveina og eldri lærifeðra talin hluti af eðlilegu þroskaferli.

Hinir áhrifaþættirnir þrír sem litið er til þegar talað er um kynvitund; kynhegðun, fantasía og aðdráttarafl, eru fráleitt jafn augljósir. Það sem við hugsum og gerum er ekki endilega í samræmi við það sem við teljum okkur vera. Þannig eru fjölmörg dæmi um fólk sem á einhvern tíma hefur stundað kynlíf með fólki af saman kyni og gerir jafnvel nokkuð reglulega án þess þó að skilgreina sig sem samkynhneigt, hvorki fyrir sjálfu sér né öðrum. Sömuleiðis rúmar heimur fantasíunnar gjarnan fólk af báðum kynjum og fjölmargir finna til aðdráttarafls eða hrifningar af kynbræðrum eða -systrum án þess að upplifa nokkurtímann fantasíuna eða fylgja hrifningu sinni eftir. Allt eru þetta þó þættir sem hverskonar rannsóknir á samkynhneigð hljóta að horfa til.

Á síðustu árum hefur mikil áhersla verið lögð á að finna líffræðilegar skýringar á hverskonar hegðun eða atferli og rannsóknir á kynhneigð hafa ekki farið varhluta af því. Þær hafa jafnan átt greiða leið í fjölmiðla og vakið mikla athygli, enda er eins og almenning þyrsti í beinharðar líffræðilegar staðreyndir til þess að útskýra, réttlæta eða fordæma tilvist homma og lesbía. Tvíburarannsóknir hafa þannig verið notaðar til þess að kanna ættgengi samkynhneigðar og hafa þær heldur styrkt hugmyndir um sameiginlegan erfðaþátt. Þá hefur “leitinni að hommageninu” vaxið fiskur um hrygg með aukinni rannsóknartækni. Bandarískum vísindamanni tókst þannig að einangra lítið svæði á X-litningnum, Xq28, sem einungis fannst hjá hommum (þó alls ekki öllum) og erfðist frá móður. Þá hefur mannsheilinn og verið skoðaður og einn vísindamaður taldi sig hafa fundið “hommasvæðið” í undirstúku heilans. Líffræðirannsóknir af þessu tagi vekja upp ótal siðferðilegar spurningar. Til eru þeir sem fagna skýringartilraunum af þessu tagi, og telja að líffræðilegir þættir “réttlæti” samkynhneigð í augum almennings. Aðrir vara við því að þegar tæknin geri fólki kleift að hanna erfðafræðilega forskrift barna sinna verði samkynhneigð meðhöndluð sem óæskilegt gen sem verði að útrýma.

Ég hafna því algjörlega að samkynhneigð geti verið aðferð náttúrunnar til að halda fólksfjölda í skefjum. Reyndar set ég spurningarmerki við hverslags hugmyndir um náttúrulega nauðhyggju en jafnvel þótt við féllumst á slíkt væri samkynhneigð harla gagnslaust tæki. (Með náttúrulegri nauðhyggju er átt við þá hugmynd að náttúran hafi á einhvern hátt ákvarðað eða gefið forskrift að því hvernig hlutirnir eigi að verða.) Fjöldi samkynhneigðra eignast börn. Margir lifa í gagnkynhneigðum samböndum og eignast börn áður en þeir eða þær gera upp, eða endurskoða sína kynvitund. Þá fer þeim fjölgandi sem eignast börn eftir óhefðbundnum leiðum, til dæmis með tæknifrjóvgun eða gjafasæði. Hluti af réttindabaráttu samkynhneigðra snýr einmitt að endurskilgreiningu á fjölskylduhugtakinu og tilverurétti “hinsegin” fjölskyldna. Hér á landi gilda strangar reglur sem takmarka rétt samkynhneigðra til barneigna. Samkynhneigðum er þannig meinað að frumættleiða börn og tæknifrjóvgun og aðgangur að gjafasæði er takmarkaður við pör í gagnkynhneigðum samböndum. Hér á landi eru það því ríkisvaldið og lagabókstafurinn sem takmarka möguleika samkynhneigðra á að fjölga jarðarbörnum en ekki náttúran.

Sjá einnig svar Rannveigar Traustadóttur við spurningunni Mynda hommar og lesbíur alltaf kjarna á milli sín því þau eru minnihlutahópar?...