Sólin Sólin Rís 09:25 • sest 16:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:55 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:25 • sest 16:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:55 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Alfred Kinsey og hvert var hans framlag til fræðanna?

Sigrún Júlíusdóttir

Alfred C. Kinsey (1894-1956) var líffræðingur sem er þekktastur fyrir áhrif rannsókna sinna á þróun kynfræða og á viðhorf almennings til kynlífs og kynhegðunar. Hann útskrifaðist með BS-próf frá Bowdoin College í Maine í Bandaríkjunum og tók síðan doktorspróf í líffræði frá Harvard-háskóla árið 1920. Hann var allan sinn starfsferil fræðimaður við dýrafræðideild Indiana-háskóla í Bandaríkjunum. Fyrsta rannsókn Kinseys beindist að hegðun fugla í rigningu. Hann gaf út nokkra líffræðitexta, þar á meðal einn um aðferðafræði rannsókna, og árið 1938 var hann orðinn einn helsti sérfræðingur um gallvespuna (Cynipidae, e. gall wasp) í Suður- og Mið-Ameríku. Þær rannsóknir hans eru álitnar hafa haft áhrif á þróunarkenninguna og skilning manna á henni (Peyser, 2001).

Kinsey er þó mun þekktari fyrir aðrar rannsóknir sem hann vann að einna fyrstur manna, á kynhegðun karla og kvenna. Hann byrjaði snemma, á fjórða tug síðustu aldar, á viðtalsrannsóknum (e. interview-based research) á kynhegðun mannsins sem hann fjallaði um í bókunum Sexual Behavior in the Human Male (1948) og Sexual Behavior in the Human Female (1953). Þegar ritin komu út vöktu þau mikla athygli sem byggðist að miklu leyti á hneykslun yfir því hve mikinn breytileika hann sagðist hafa fundið meðal íbúa Bandaríkjanna (Blumstein & Schwartz, 1999). Sú mynd sem fram kom í niðurstöðunum og hann dró fram í hinum svo nefndu Kinsey-skýrslum (bækurnar tvær 1948 og 1953), sem urðu metsölubækur í Bandaríkjunum, stangaðist mjög á við ríkjandi samfélagsgildi og sýn á kynhegðun – ekki síst kvenna. Fram kom meðal annars að konur væru ekki jafn áhugalitlar um kynlíf (e. asexual) og talið hafði verið. Þannig hröktu niðurstöðurnar hugmyndir um að konur væru meira eða minna áhugalausar um kynlíf (Zastrow, 2010). Yfir helmingur svarenda hafði stundað kynlíf fyrir hjónaband og fjórðungur þeirra giftu höfðu átt í kynferðislegu sambandi utan hjónabands.



Alfred Kinsey (1894-1956) var einn sá fyrsti sem rannsakaði kynhegðun fólks og notaði til þess viðtalsrannsóknir.

Þá má segja að niðurstöður Kinseys um reynslu karla af samkynhneigðri hegðun og áhrif þeirra á umræðu og viðhorf hafi valdið straumhvörfum. Á grundvelli rannsókna sinna kynnti Kinsey skala á bilinu 0-6, þar sem bilið var frá „eingöngu gagnkynhneigður“ yfir í „eingöngu samkynhneigður“. Samkvæmt þessum skala væri einn af hverjum tíu karlmönnum „meira eða minna samkynhneigður“, það er með einkunn 5 eða 6, en hlutfallið var lægra hjá konum því aðeins 3-8% kvenna fengu einkunn á bilinu 4-6 (Irvine, 2000).

Ein afleiðing rannsóknar Kinseys og þeirrar gífurlegu fjölmiðlaumfjöllunar sem hún fékk kann, ásamt opnari umræðu almennings, að hafa átt sinn þátt í að bannhelgi sem hafði ríkt í þessum efnum var aflétt. Fólk varð frjálsara í kynhegðun sinni, eða fann að minnsta kosti til minni sektarkenndar vegna hennar. Eins og kom fram hér að framan vöktu rannsóknir Kinseys athygli um allan heim en þó einkum innan Bandaríkjanna. Um leið varð hann fyrir mikilli gagnrýni og reynt var að gera niðurstöðurnar og rannsóknina sjálfa tortryggilega. Til að mynda ásökuðu trúarhópar hann um að rit hans væru árás á hina vestrænu fjölskyldu og að Kinsey sjálfur væri ógnun við samfélagið.

Gagnrýnin var þó ekki eingöngu bundin við siðferðilegu hlið rannsóknanna. Nokkrir félagsfræðingar töldu aðferðafræði viðtalanna og tölfræðilega meðferð í rannsóknum Kinseys ekki fullnægjandi og sálgreinendur (e. psychoanalysts) gagnrýndu „efnishyggjuna“ í greiningu hans sem gengi gegn sálfræðikenningum um kynhneigð (e. sexuality) (Garton, 2004). Áhugi á framlagi hans dvínaði þó ekki af þessum sökum, og árið 2005 var gerð 90 mínútna heimildarmynd um kynfræðirannsóknir Kinseys og persónuna að baki. Þar kemur meðal annars fram að hann lifði sjálfur í hefðbundinni fjölskyldu, var í gagnkynhneigðu hjónabandi og átti börn, en hinn „kynlegi“ áhugi hans á kynhegðun beindist ekki alltaf í troðnar slóðir (Goodman & Maggio, 2005).

Þrátt fyrir vissa aðferðafræðilega annmarka, meðal annars varðandi svörun og alhæfingargildi, hafði rannsóknarstarf Kinseys umbyltandi áhrif á 6. og 7. áratug síðustu aldar. Það varð mikilvægur hlekkur í þeirri þróun sem kynfræðingar, eins og Helen D. Kaplan (1974), talsmenn kvenfrelsis, meðal annars Betty Friedan (1963) og Nancy Friday (1977), og aðrir gagnrýnir hugmyndafræðingar, eins og Michel Foucault (1980), áttu eftir að efla svo mjög. Þannig hafði starf Alfreds Kinseys mikil áhrif á þróun kynfræða sem vísindagreinar og stuðlaði að opnari umræðu um þau höft sem bannhelgi og fordómar gagnvart kynhegðun og breytileika kynverundar fólu í sér fyrir almenning.

Unnari Friðrik Sigurðssyni, BA, er þökkuð aðstoð við heimildavinnu.

Heimildir og mynd:

  • Blumstein, P.W., & Schwartz, P. (1999). "Alfred C. Kinsey, Wardell B. Pomeroy and Clyde E. Martin: Extracts from Sexual Behavior in the Human Male (1948)", Bisexuality: A Critical Reader, ristj. Storr, M., London: Routledge.
  • Foucault, M. (1980). The History of Sexuality.
  • Friday, N. (1977). My mother myself. USA: Delacorte Press.
  • Friedan, B. (1963). Feminine Mystique. Usa: W.W. Norton and Co.
  • Garton, S. (2004). Histories of Sexuality: Antiquity to Sexual Revolution, London: Equinox Publishing.
  • Goodman B. & Maggio, J. ( 2005). Kinsey. Paramount (pbs home video).
  • Irvine, J.M. (2000). "Kinsey Institute", Encyclopedia of Lesbian and Gay Histories and Cultures: Volume 1, ritstj. Zimmerman, B. New York: Garland Publishing.
  • Kaplan, H.S. (1974). The New Sex Therapy: Active Treatment of Sexual Dysfunctions, London: Baillière Tindall.
  • Peyser, C.S. (2001). "Kinsey, Alfred C. (1894-1956)", The Corsini Encyclopedia of Psychology and Behavioral Science, ristj. Craighead, W.E. & Nemeroff, C.B., 3. útgáfa, 2. bindi., New York: John Wiley & Sons Inc.
  • Zastrow, C. (2010). Introduction to Social Work and Social Welfare: Empowering People, 10. útgáfa, Belmont: Brooks/Cole.
  • Mynd: Alfred Kinsey á Wikipedia. Sótt 13. 7. 2011.

Höfundur

Sigrún Júlíusdóttir

prófessor í félagsráðgjöf við HÍ

Útgáfudagur

14.7.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sigrún Júlíusdóttir. „Hver var Alfred Kinsey og hvert var hans framlag til fræðanna?“ Vísindavefurinn, 14. júlí 2011, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60273.

Sigrún Júlíusdóttir. (2011, 14. júlí). Hver var Alfred Kinsey og hvert var hans framlag til fræðanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60273

Sigrún Júlíusdóttir. „Hver var Alfred Kinsey og hvert var hans framlag til fræðanna?“ Vísindavefurinn. 14. júl. 2011. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60273>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Alfred Kinsey og hvert var hans framlag til fræðanna?
Alfred C. Kinsey (1894-1956) var líffræðingur sem er þekktastur fyrir áhrif rannsókna sinna á þróun kynfræða og á viðhorf almennings til kynlífs og kynhegðunar. Hann útskrifaðist með BS-próf frá Bowdoin College í Maine í Bandaríkjunum og tók síðan doktorspróf í líffræði frá Harvard-háskóla árið 1920. Hann var allan sinn starfsferil fræðimaður við dýrafræðideild Indiana-háskóla í Bandaríkjunum. Fyrsta rannsókn Kinseys beindist að hegðun fugla í rigningu. Hann gaf út nokkra líffræðitexta, þar á meðal einn um aðferðafræði rannsókna, og árið 1938 var hann orðinn einn helsti sérfræðingur um gallvespuna (Cynipidae, e. gall wasp) í Suður- og Mið-Ameríku. Þær rannsóknir hans eru álitnar hafa haft áhrif á þróunarkenninguna og skilning manna á henni (Peyser, 2001).

Kinsey er þó mun þekktari fyrir aðrar rannsóknir sem hann vann að einna fyrstur manna, á kynhegðun karla og kvenna. Hann byrjaði snemma, á fjórða tug síðustu aldar, á viðtalsrannsóknum (e. interview-based research) á kynhegðun mannsins sem hann fjallaði um í bókunum Sexual Behavior in the Human Male (1948) og Sexual Behavior in the Human Female (1953). Þegar ritin komu út vöktu þau mikla athygli sem byggðist að miklu leyti á hneykslun yfir því hve mikinn breytileika hann sagðist hafa fundið meðal íbúa Bandaríkjanna (Blumstein & Schwartz, 1999). Sú mynd sem fram kom í niðurstöðunum og hann dró fram í hinum svo nefndu Kinsey-skýrslum (bækurnar tvær 1948 og 1953), sem urðu metsölubækur í Bandaríkjunum, stangaðist mjög á við ríkjandi samfélagsgildi og sýn á kynhegðun – ekki síst kvenna. Fram kom meðal annars að konur væru ekki jafn áhugalitlar um kynlíf (e. asexual) og talið hafði verið. Þannig hröktu niðurstöðurnar hugmyndir um að konur væru meira eða minna áhugalausar um kynlíf (Zastrow, 2010). Yfir helmingur svarenda hafði stundað kynlíf fyrir hjónaband og fjórðungur þeirra giftu höfðu átt í kynferðislegu sambandi utan hjónabands.



Alfred Kinsey (1894-1956) var einn sá fyrsti sem rannsakaði kynhegðun fólks og notaði til þess viðtalsrannsóknir.

Þá má segja að niðurstöður Kinseys um reynslu karla af samkynhneigðri hegðun og áhrif þeirra á umræðu og viðhorf hafi valdið straumhvörfum. Á grundvelli rannsókna sinna kynnti Kinsey skala á bilinu 0-6, þar sem bilið var frá „eingöngu gagnkynhneigður“ yfir í „eingöngu samkynhneigður“. Samkvæmt þessum skala væri einn af hverjum tíu karlmönnum „meira eða minna samkynhneigður“, það er með einkunn 5 eða 6, en hlutfallið var lægra hjá konum því aðeins 3-8% kvenna fengu einkunn á bilinu 4-6 (Irvine, 2000).

Ein afleiðing rannsóknar Kinseys og þeirrar gífurlegu fjölmiðlaumfjöllunar sem hún fékk kann, ásamt opnari umræðu almennings, að hafa átt sinn þátt í að bannhelgi sem hafði ríkt í þessum efnum var aflétt. Fólk varð frjálsara í kynhegðun sinni, eða fann að minnsta kosti til minni sektarkenndar vegna hennar. Eins og kom fram hér að framan vöktu rannsóknir Kinseys athygli um allan heim en þó einkum innan Bandaríkjanna. Um leið varð hann fyrir mikilli gagnrýni og reynt var að gera niðurstöðurnar og rannsóknina sjálfa tortryggilega. Til að mynda ásökuðu trúarhópar hann um að rit hans væru árás á hina vestrænu fjölskyldu og að Kinsey sjálfur væri ógnun við samfélagið.

Gagnrýnin var þó ekki eingöngu bundin við siðferðilegu hlið rannsóknanna. Nokkrir félagsfræðingar töldu aðferðafræði viðtalanna og tölfræðilega meðferð í rannsóknum Kinseys ekki fullnægjandi og sálgreinendur (e. psychoanalysts) gagnrýndu „efnishyggjuna“ í greiningu hans sem gengi gegn sálfræðikenningum um kynhneigð (e. sexuality) (Garton, 2004). Áhugi á framlagi hans dvínaði þó ekki af þessum sökum, og árið 2005 var gerð 90 mínútna heimildarmynd um kynfræðirannsóknir Kinseys og persónuna að baki. Þar kemur meðal annars fram að hann lifði sjálfur í hefðbundinni fjölskyldu, var í gagnkynhneigðu hjónabandi og átti börn, en hinn „kynlegi“ áhugi hans á kynhegðun beindist ekki alltaf í troðnar slóðir (Goodman & Maggio, 2005).

Þrátt fyrir vissa aðferðafræðilega annmarka, meðal annars varðandi svörun og alhæfingargildi, hafði rannsóknarstarf Kinseys umbyltandi áhrif á 6. og 7. áratug síðustu aldar. Það varð mikilvægur hlekkur í þeirri þróun sem kynfræðingar, eins og Helen D. Kaplan (1974), talsmenn kvenfrelsis, meðal annars Betty Friedan (1963) og Nancy Friday (1977), og aðrir gagnrýnir hugmyndafræðingar, eins og Michel Foucault (1980), áttu eftir að efla svo mjög. Þannig hafði starf Alfreds Kinseys mikil áhrif á þróun kynfræða sem vísindagreinar og stuðlaði að opnari umræðu um þau höft sem bannhelgi og fordómar gagnvart kynhegðun og breytileika kynverundar fólu í sér fyrir almenning.

Unnari Friðrik Sigurðssyni, BA, er þökkuð aðstoð við heimildavinnu.

Heimildir og mynd:

  • Blumstein, P.W., & Schwartz, P. (1999). "Alfred C. Kinsey, Wardell B. Pomeroy and Clyde E. Martin: Extracts from Sexual Behavior in the Human Male (1948)", Bisexuality: A Critical Reader, ristj. Storr, M., London: Routledge.
  • Foucault, M. (1980). The History of Sexuality.
  • Friday, N. (1977). My mother myself. USA: Delacorte Press.
  • Friedan, B. (1963). Feminine Mystique. Usa: W.W. Norton and Co.
  • Garton, S. (2004). Histories of Sexuality: Antiquity to Sexual Revolution, London: Equinox Publishing.
  • Goodman B. & Maggio, J. ( 2005). Kinsey. Paramount (pbs home video).
  • Irvine, J.M. (2000). "Kinsey Institute", Encyclopedia of Lesbian and Gay Histories and Cultures: Volume 1, ritstj. Zimmerman, B. New York: Garland Publishing.
  • Kaplan, H.S. (1974). The New Sex Therapy: Active Treatment of Sexual Dysfunctions, London: Baillière Tindall.
  • Peyser, C.S. (2001). "Kinsey, Alfred C. (1894-1956)", The Corsini Encyclopedia of Psychology and Behavioral Science, ristj. Craighead, W.E. & Nemeroff, C.B., 3. útgáfa, 2. bindi., New York: John Wiley & Sons Inc.
  • Zastrow, C. (2010). Introduction to Social Work and Social Welfare: Empowering People, 10. útgáfa, Belmont: Brooks/Cole.
  • Mynd: Alfred Kinsey á Wikipedia. Sótt 13. 7. 2011.

...