Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er hantaveira?

Haraldur Briem

Í Kóreustríðinu, sem háð var á árunum 1950-1953, varð vestrænum læknum fyrst kunnugt um dularfullan „nýjan“ sjúkdóm sem lagðist á hermenn Sameinuðu þjóðanna sem þar börðust. Sjúkdómnum var gefið nafnið kóresk blæðandi hitasótt (Korean hemorrhagic fever). Yfir 2000 hermenn sýktust og margir þeirra dóu af völdum sjúkdómsins. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir færustu manna tókst ekki að greina orsakavaldinn fyrr en árið 1976, en hann reyndist vera veira sem fékk nafnið Hantaan í höfuðið á Hantaan-fljótinu nálægt landamærum Norður- og Suður-Kóreu þar sem sóttin var landlæg. Veiran var einangruð úr hagamús, Apodemus agrarius, en hún er aðalhýsill veirunnar. Til eru fleiri skyldar veirur, sem eru af svonefndri Bunyaveiru-fjölskyldu, og eru nagdýr náttúrulegir hýslar þeirra víða um heim. Hefur skilningur manna aukist mjög á undanförnum árum á því hvernig þessar veirur valda sjúkdómi í mönnum. Veiran skemmir æðaveggi í mönnum sem leiðir þess að æðarnar verða lekar.

Þegar músin eða önnur nagdýr sýkjast tekur veiran sér bólfestu í mörgum líffærum dýranna. Það skiptir þó mestu að þau skilja út veiruna í munnvatni, þvagi og hægðum á meðan þau lifa, en dýrin lifa í góðu sambýli við hana. Talið er að veiran berist til manna með úðasmiti frá þvagi og saur dýranna. Faraldsfræði sjúkdómsins er háð hegðun nagdýrsins sem ber veiruna. Þess vegna er sjúkdómurinn árstíðabundinn og er hann algengastur á haustin og snemma vetrar í Kóreu, Kína og austasta hluta Rússlands.

Nagdýr geta borið með sér veiruna.

Einkenni sjúkdómsins í mönnum eru hiti, blóðþrýstingsfall, nýrnabilun. Flestir sjúklinga fá roðamyndun í andliti og einkum á hálsi. Þeir sem veikjast mest fá útbreidda marbletti vegna húðblæðinga og blóðhlaupin augu. Nýrnabilunin er þó alvarlegust og getur hún leitt til dauða. Dánartíðnin er um 5-10%.

Í Skandinavíu, Austur-Evrópu og vesturhluta Rússlands er til vægara form þessa sjúkdóms, sem gengur undir nafninu Nephropathia epidemica, en veiran sem veldur honum nefnist Puumala. Veiran hegðar sér eins og Hantaanveiran en blæðingar eru fátíðari og dánartíðnin lægri (1%). Þá hefur þriðja veiran af þessum ættmeið greinst á Balkanskaga en hegðun hennar er fremur ætt við Hantaanveiruna en Puumalaveiruna. Sú veira gengur undir nafninu Dobrava.

Í maí 1993 brutust út atsóttir eða hópsýkingar í suðvesturhluta Bandaríkjanna, nánar tiltekið í Arisóna, Nýju Mexíkó, Kólóradó og Úta. Sýkingin lýsti sér í lungnasjúkdómi með hárri dánartíðni. Rannsóknir gátu ekki skýrt þessa farsótt fyrst í stað. Umfangsmiklar rannsóknir á vegum bandarísku faraldsfræðistofnunarinnar leiddu í ljós að orsök sjúkdómsins var veira, náskyld Hantaanveirum. Var hún nefnd Sin Nombre en músartegundin Peromyscus maniculatus reyndist aðalhýsill veirunnar. Músin lifir á landsbyggðinni í útihúsum, hlöðum og jafnvel á heimilum manna. Sjúkdómurinn sem veiran veldur hefur fengið nafnið Hantaveiru-lungnaheilkenni (Hantavirus pulmonary syndrome). Navaró-indíánum hefur lengi verið vel kunnugt um þennan sjúkdóm og þeir tengt hann músum. Síðar hefur sjúkdómurinn fundist í Vestur-Kanada og í mörgum ríkjum Suður-Ameríku.

Atsóttin vorið 1993 tengdist mikilli fjölgun músa á þeim landsvæðum þar sem sóttin geisaði. Mikill þurrkur hafði hrjáð svæðin mörg undangengin ár þar til mikil úrkoma varð snemma árs 1993. Gróður lifnaði vel við og nagdýrum fjölgaði óvenju mikið. Fór þá ekki hjá því að menn kæmust oft í návist músanna. Einkenni Sin Nombre-sýkingar eru frábrugðin einkennum Hantaanveiru-sýkingar að því leyti að veiran veldur bráðum lungnasjúkdómi, sem leitt getur til öndunarbilunar, en blæðingar og nýrnaskemmdir eru sjalgæfar. Dánartíðni Hantaveiru-lungnaheilkennis er há eða 40-50%.

Þeir sjúkdómar, sem hér hefur verið lýst, ganga nú allir undir nafninu Hantaveiru-sjúkdómar og er þeim skipt í tvo flokka, blæðandi hitasótt með nýrnaheilkenni annars vegar og Hantaveiru-lungnaheilkenni hins vegar. Engin viðunandi sértæk meðferð er til við sjúkdómnum, en talið er að veirulyfið ríbavírín komi að nokkrum notum ef það er gefið snemma í sjúkdómi. Ekkert bóluefni er til gegn sjúkdómnum. Ekki er talin hætta á sjúklingar geti smitað aðra menn. Forvarnir byggjast á því að forðast nagdýr og hindra að þau komist inn í mannabústaði og önnur hús. Þá er mikilvægt að sótthreinsa þau svæði þar sem sýkt nagdýr hafa dvalist.

Mynd:

Hér er jafnframt svarað spurningu Jóhanns Guðnasonar:

Hversu hættuleg er Hanta veiran?

Höfundur

Haraldur Briem

læknir, dr.med.

Útgáfudagur

6.11.2000

Síðast uppfært

22.1.2021

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Haraldur Briem. „Hvað er hantaveira?“ Vísindavefurinn, 6. nóvember 2000, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1093.

Haraldur Briem. (2000, 6. nóvember). Hvað er hantaveira? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1093

Haraldur Briem. „Hvað er hantaveira?“ Vísindavefurinn. 6. nóv. 2000. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1093>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er hantaveira?
Í Kóreustríðinu, sem háð var á árunum 1950-1953, varð vestrænum læknum fyrst kunnugt um dularfullan „nýjan“ sjúkdóm sem lagðist á hermenn Sameinuðu þjóðanna sem þar börðust. Sjúkdómnum var gefið nafnið kóresk blæðandi hitasótt (Korean hemorrhagic fever). Yfir 2000 hermenn sýktust og margir þeirra dóu af völdum sjúkdómsins. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir færustu manna tókst ekki að greina orsakavaldinn fyrr en árið 1976, en hann reyndist vera veira sem fékk nafnið Hantaan í höfuðið á Hantaan-fljótinu nálægt landamærum Norður- og Suður-Kóreu þar sem sóttin var landlæg. Veiran var einangruð úr hagamús, Apodemus agrarius, en hún er aðalhýsill veirunnar. Til eru fleiri skyldar veirur, sem eru af svonefndri Bunyaveiru-fjölskyldu, og eru nagdýr náttúrulegir hýslar þeirra víða um heim. Hefur skilningur manna aukist mjög á undanförnum árum á því hvernig þessar veirur valda sjúkdómi í mönnum. Veiran skemmir æðaveggi í mönnum sem leiðir þess að æðarnar verða lekar.

Þegar músin eða önnur nagdýr sýkjast tekur veiran sér bólfestu í mörgum líffærum dýranna. Það skiptir þó mestu að þau skilja út veiruna í munnvatni, þvagi og hægðum á meðan þau lifa, en dýrin lifa í góðu sambýli við hana. Talið er að veiran berist til manna með úðasmiti frá þvagi og saur dýranna. Faraldsfræði sjúkdómsins er háð hegðun nagdýrsins sem ber veiruna. Þess vegna er sjúkdómurinn árstíðabundinn og er hann algengastur á haustin og snemma vetrar í Kóreu, Kína og austasta hluta Rússlands.

Nagdýr geta borið með sér veiruna.

Einkenni sjúkdómsins í mönnum eru hiti, blóðþrýstingsfall, nýrnabilun. Flestir sjúklinga fá roðamyndun í andliti og einkum á hálsi. Þeir sem veikjast mest fá útbreidda marbletti vegna húðblæðinga og blóðhlaupin augu. Nýrnabilunin er þó alvarlegust og getur hún leitt til dauða. Dánartíðnin er um 5-10%.

Í Skandinavíu, Austur-Evrópu og vesturhluta Rússlands er til vægara form þessa sjúkdóms, sem gengur undir nafninu Nephropathia epidemica, en veiran sem veldur honum nefnist Puumala. Veiran hegðar sér eins og Hantaanveiran en blæðingar eru fátíðari og dánartíðnin lægri (1%). Þá hefur þriðja veiran af þessum ættmeið greinst á Balkanskaga en hegðun hennar er fremur ætt við Hantaanveiruna en Puumalaveiruna. Sú veira gengur undir nafninu Dobrava.

Í maí 1993 brutust út atsóttir eða hópsýkingar í suðvesturhluta Bandaríkjanna, nánar tiltekið í Arisóna, Nýju Mexíkó, Kólóradó og Úta. Sýkingin lýsti sér í lungnasjúkdómi með hárri dánartíðni. Rannsóknir gátu ekki skýrt þessa farsótt fyrst í stað. Umfangsmiklar rannsóknir á vegum bandarísku faraldsfræðistofnunarinnar leiddu í ljós að orsök sjúkdómsins var veira, náskyld Hantaanveirum. Var hún nefnd Sin Nombre en músartegundin Peromyscus maniculatus reyndist aðalhýsill veirunnar. Músin lifir á landsbyggðinni í útihúsum, hlöðum og jafnvel á heimilum manna. Sjúkdómurinn sem veiran veldur hefur fengið nafnið Hantaveiru-lungnaheilkenni (Hantavirus pulmonary syndrome). Navaró-indíánum hefur lengi verið vel kunnugt um þennan sjúkdóm og þeir tengt hann músum. Síðar hefur sjúkdómurinn fundist í Vestur-Kanada og í mörgum ríkjum Suður-Ameríku.

Atsóttin vorið 1993 tengdist mikilli fjölgun músa á þeim landsvæðum þar sem sóttin geisaði. Mikill þurrkur hafði hrjáð svæðin mörg undangengin ár þar til mikil úrkoma varð snemma árs 1993. Gróður lifnaði vel við og nagdýrum fjölgaði óvenju mikið. Fór þá ekki hjá því að menn kæmust oft í návist músanna. Einkenni Sin Nombre-sýkingar eru frábrugðin einkennum Hantaanveiru-sýkingar að því leyti að veiran veldur bráðum lungnasjúkdómi, sem leitt getur til öndunarbilunar, en blæðingar og nýrnaskemmdir eru sjalgæfar. Dánartíðni Hantaveiru-lungnaheilkennis er há eða 40-50%.

Þeir sjúkdómar, sem hér hefur verið lýst, ganga nú allir undir nafninu Hantaveiru-sjúkdómar og er þeim skipt í tvo flokka, blæðandi hitasótt með nýrnaheilkenni annars vegar og Hantaveiru-lungnaheilkenni hins vegar. Engin viðunandi sértæk meðferð er til við sjúkdómnum, en talið er að veirulyfið ríbavírín komi að nokkrum notum ef það er gefið snemma í sjúkdómi. Ekkert bóluefni er til gegn sjúkdómnum. Ekki er talin hætta á sjúklingar geti smitað aðra menn. Forvarnir byggjast á því að forðast nagdýr og hindra að þau komist inn í mannabústaði og önnur hús. Þá er mikilvægt að sótthreinsa þau svæði þar sem sýkt nagdýr hafa dvalist.

Mynd:

Hér er jafnframt svarað spurningu Jóhanns Guðnasonar:

Hversu hættuleg er Hanta veiran?
...