Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig varð fyrsta risaeðlan til?

Leifur A. Símonarson

Hér er einnig að finna svör við eftirfarandi spurningum:
Spurning Brynjars Arnar Reynissonar Hvað voru risaeðlutegundirnar margar og hvernig voru fyrstu risaeðlurnar? og spurning Dags Ebenezerssonar Hvað er búið að finna margar risaeðlutegundir?

Risaeðlur (Dinosauria) teljast til skriðdýra (Reptilia) og eru flokkaðar í tvo ættbálka: eðlunga (Saurischia) og flegla (Ornithischia). Munurinn á þessum ættbálkum er fyrst og fremst í lögun beina í lendargrind, eins og fram kemur í latnesku heiti þeirra. Eðlungar eru með lendarbyggingu eins og núlifandi skriðdýr, en fleglar hafa lendarbyggingu fugla.Talið er næsta víst að risaeðlur eigi uppruna sinn að rekja til boleðla (Thecodontia), en leifar þeirra eru einkum þekktar frá Suður-Afríku. Boleðlur voru upp til hópa með miklu lengri afturlimi en framlimi og notuðu afturlimina til gangs en framlimina frekar sem griplimi. Flestar voru því tvífætlur (bipedal) eins og fyrstu risaeðlurnar. Þá má sjá ýmislegt annað í byggingu dýranna sem eindregið bendir til náins skyldleika og kemur það ekki síst fram í hauskúpugerð.

Fyrstu og elstu risaeðlurnar voru raunar engir risar, en fljótlega fór þó að bera á stækkandi líkamsformum. Fyrstu risaeðlurnar eins og stjakeðlur (Staurikosaurus) frá Brasilíu og sindreðlur (Lesothosaurus) frá Suður-Afríku voru eins til tveggja metra langar og þyngdin varla yfir 30 kg. Dýrin voru greinilega tvífætlur, með stutta framlimi og allstór höfuð með beittum tönnum í kjálkum. Halinn var langur, líklega um helmingurinn af lengd dýrsins. Minnstu risaeðlurnar eins og fagurkjálki (Compsognathus) voru hins vegar mun yngri, en talið er að þær hafi verið 30-60 cm langar og þyngdin 3-3,5 kg.

Bent hefur verið á ýmislegt sem gæti skýrt risavöxt þessara dýra. Það er ljóst að hann kemur fyrst fram hjá jurtaætunum, en síðan fylgja rándýrin í kjölfarið. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að framboð á fæðu sé nægilegt og svo virðist hafa verið á stórum svæðum á miðlífsöld. Þá eru skriðdýr upp til hópa með frekar lág efnaskipti og breytilegan líkamshita, sem fer allmikið eftir hitanum í umhverfinu, og benda má á að hitabreytingar fara hægar um stór dýr með mikið rúmfang en lítil dýr. Þar að auki minnkar hlutfallslegt yfirborð dýranna með auknu rúmfangi, þannig að snertiflöturinn við umhverfið verður hlutfallslega minni hjá stóru dýri en litlu.

Ýmislegt, eins og til dæmis vöxtur beina, bendir þó til þess að sumar stærstu risaeðlurnar hafi haft mun hærri efnaskipti og stöðugri líkamshita þegar þær voru orðnar fullvaxnar en þær höfðu sem ungviði. Þá hefur verið bent á að risavöxtur geri dýrin óárennilegri og ógurlegri og auðveldi þeim baráttuna við önnur dýr um lífssvæði og æti. Þegar lífsbaráttan varð síðan harðari á mörkum krítar- og tertíertímabila fyrir um 66 milljónum ára, er gróðurþekjan dróst saman og miklu gleggri skipting í afmörkuð loftslags- og gróðurbelti kom fram, sýndi sig að dýr með meiri hreyfiorku, eins og spendýr og fuglar, gátu betur lifað við þessar nýju aðstæður.

Um fjölda risaeðla er erfitt að fullyrða, en alls hefur verið lýst 737 ættkvíslum. Hins vegar er talið líklegt að þær hafi verið mun fleiri því leifar landdýra varðveitast yfirleitt ekki sérlega vel nema þær grafist í setlög. Gera má því ráð fyrir að mikill fjöldi risaeðluleifa hafi tapast, brotnað niður, leyst upp og eyðst á yfirborði jarðar eftir að bakteríur og hræætur voru búnar að hreinsa kjötið af beinunum. Margir telja að ættkvíslafjöldinn hafi jafnvel verið einhvers staðar á bilinu 1.200 til 5.000. Yfirleitt eru sárafáar tegundir taldar til hverrar ættkvíslar risaeðla, þannig að tegundafjöldinn er sennilega ekki mikið hærri.

Líklegt er talið að alþjóðlega sagan um tröllin í fjöllunum eigi að einhverju leyti rót sína að rekja til risaeðlubeina, einkum útlimabeina, sem fólk á fyrri tímum fann til fjalla. Þau voru þá talin vera úr stórvöxnum mönnum eða risum, enda var fólki þá ókunnugt um þennan horfna heim skriðdýranna.

Fleiri svör um risaeðlur:

Svör sama höfundar við spurningunum Hver var stærsta risaeðlan?, Hver var minnsta risaeðlan og hvernig var andrúmsloftið þegar hún lifði? og Hvernig vita vísindamenn hvernig risaeðlur litu út, hvernig þær voru á litinn og líkamsbyggingu þeirra?

Svar Guðmundar Eggertssonar við Er einhvers staðar til erfðaefni úr risaeðlum og væri hægt að láta þær koma aftur?

Svar Sigurðar Steinþórssonar við Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út?


Mynd: Úr BBC sjónvarpsþáttunum: Walking With Dinosaurs

Höfundur

prófessor í steingervingafræði við HÍ

Útgáfudagur

17.11.2000

Spyrjandi

Ólöf Brynjólfsdóttir, f. 1988

Efnisorð

Tilvísun

Leifur A. Símonarson. „Hvernig varð fyrsta risaeðlan til?“ Vísindavefurinn, 17. nóvember 2000, sótt 15. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1137.

Leifur A. Símonarson. (2000, 17. nóvember). Hvernig varð fyrsta risaeðlan til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1137

Leifur A. Símonarson. „Hvernig varð fyrsta risaeðlan til?“ Vísindavefurinn. 17. nóv. 2000. Vefsíða. 15. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1137>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig varð fyrsta risaeðlan til?
Hér er einnig að finna svör við eftirfarandi spurningum:

Spurning Brynjars Arnar Reynissonar Hvað voru risaeðlutegundirnar margar og hvernig voru fyrstu risaeðlurnar? og spurning Dags Ebenezerssonar Hvað er búið að finna margar risaeðlutegundir?

Risaeðlur (Dinosauria) teljast til skriðdýra (Reptilia) og eru flokkaðar í tvo ættbálka: eðlunga (Saurischia) og flegla (Ornithischia). Munurinn á þessum ættbálkum er fyrst og fremst í lögun beina í lendargrind, eins og fram kemur í latnesku heiti þeirra. Eðlungar eru með lendarbyggingu eins og núlifandi skriðdýr, en fleglar hafa lendarbyggingu fugla.Talið er næsta víst að risaeðlur eigi uppruna sinn að rekja til boleðla (Thecodontia), en leifar þeirra eru einkum þekktar frá Suður-Afríku. Boleðlur voru upp til hópa með miklu lengri afturlimi en framlimi og notuðu afturlimina til gangs en framlimina frekar sem griplimi. Flestar voru því tvífætlur (bipedal) eins og fyrstu risaeðlurnar. Þá má sjá ýmislegt annað í byggingu dýranna sem eindregið bendir til náins skyldleika og kemur það ekki síst fram í hauskúpugerð.

Fyrstu og elstu risaeðlurnar voru raunar engir risar, en fljótlega fór þó að bera á stækkandi líkamsformum. Fyrstu risaeðlurnar eins og stjakeðlur (Staurikosaurus) frá Brasilíu og sindreðlur (Lesothosaurus) frá Suður-Afríku voru eins til tveggja metra langar og þyngdin varla yfir 30 kg. Dýrin voru greinilega tvífætlur, með stutta framlimi og allstór höfuð með beittum tönnum í kjálkum. Halinn var langur, líklega um helmingurinn af lengd dýrsins. Minnstu risaeðlurnar eins og fagurkjálki (Compsognathus) voru hins vegar mun yngri, en talið er að þær hafi verið 30-60 cm langar og þyngdin 3-3,5 kg.

Bent hefur verið á ýmislegt sem gæti skýrt risavöxt þessara dýra. Það er ljóst að hann kemur fyrst fram hjá jurtaætunum, en síðan fylgja rándýrin í kjölfarið. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að framboð á fæðu sé nægilegt og svo virðist hafa verið á stórum svæðum á miðlífsöld. Þá eru skriðdýr upp til hópa með frekar lág efnaskipti og breytilegan líkamshita, sem fer allmikið eftir hitanum í umhverfinu, og benda má á að hitabreytingar fara hægar um stór dýr með mikið rúmfang en lítil dýr. Þar að auki minnkar hlutfallslegt yfirborð dýranna með auknu rúmfangi, þannig að snertiflöturinn við umhverfið verður hlutfallslega minni hjá stóru dýri en litlu.

Ýmislegt, eins og til dæmis vöxtur beina, bendir þó til þess að sumar stærstu risaeðlurnar hafi haft mun hærri efnaskipti og stöðugri líkamshita þegar þær voru orðnar fullvaxnar en þær höfðu sem ungviði. Þá hefur verið bent á að risavöxtur geri dýrin óárennilegri og ógurlegri og auðveldi þeim baráttuna við önnur dýr um lífssvæði og æti. Þegar lífsbaráttan varð síðan harðari á mörkum krítar- og tertíertímabila fyrir um 66 milljónum ára, er gróðurþekjan dróst saman og miklu gleggri skipting í afmörkuð loftslags- og gróðurbelti kom fram, sýndi sig að dýr með meiri hreyfiorku, eins og spendýr og fuglar, gátu betur lifað við þessar nýju aðstæður.

Um fjölda risaeðla er erfitt að fullyrða, en alls hefur verið lýst 737 ættkvíslum. Hins vegar er talið líklegt að þær hafi verið mun fleiri því leifar landdýra varðveitast yfirleitt ekki sérlega vel nema þær grafist í setlög. Gera má því ráð fyrir að mikill fjöldi risaeðluleifa hafi tapast, brotnað niður, leyst upp og eyðst á yfirborði jarðar eftir að bakteríur og hræætur voru búnar að hreinsa kjötið af beinunum. Margir telja að ættkvíslafjöldinn hafi jafnvel verið einhvers staðar á bilinu 1.200 til 5.000. Yfirleitt eru sárafáar tegundir taldar til hverrar ættkvíslar risaeðla, þannig að tegundafjöldinn er sennilega ekki mikið hærri.

Líklegt er talið að alþjóðlega sagan um tröllin í fjöllunum eigi að einhverju leyti rót sína að rekja til risaeðlubeina, einkum útlimabeina, sem fólk á fyrri tímum fann til fjalla. Þau voru þá talin vera úr stórvöxnum mönnum eða risum, enda var fólki þá ókunnugt um þennan horfna heim skriðdýranna.

Fleiri svör um risaeðlur:

Svör sama höfundar við spurningunum Hver var stærsta risaeðlan?, Hver var minnsta risaeðlan og hvernig var andrúmsloftið þegar hún lifði? og Hvernig vita vísindamenn hvernig risaeðlur litu út, hvernig þær voru á litinn og líkamsbyggingu þeirra?

Svar Guðmundar Eggertssonar við Er einhvers staðar til erfðaefni úr risaeðlum og væri hægt að láta þær koma aftur?

Svar Sigurðar Steinþórssonar við Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út?


Mynd: Úr BBC sjónvarpsþáttunum: Walking With Dinosaurs...