Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hvenær lauk fyrri heimsstyröldinni?

Gunnar Þór Bjarnason

Heimsstyrjöldinni fyrri lauk formlega þegar vopnahlé tók gildi á vesturvígstöðvunum kl. 11:00 mánudagsmorguninn 11. nóvember 1918. Fulltrúar Þýskalands höfðu undirritað vopnahlésskilmála bandamanna í járnbrautarvagni í Compiégne-skógi í Norður-Frakklandi klukkan 5:10 að morgni þessa dags. Talið er að nær þrjú þúsund hermenn hafi fallið á þeim þeim sex klukkustundum sem liðu frá því að samið var um vopnahlé og þar til það tók gildi.

Gengið var frá samningi um vopnahlé í fyrri heimsstyrjöldinni í járnbrautarvagni í Compiégne-skógi í Frakklandi þann 11. nóvember 1918. Annar frá hægri er Ferdinand Foch, yfirmaður herja bandamanna.

Merkilegt má telja að eftir að hersveitir Þýskalands gersigruðu Frakklandsher á nokkrum vikum í maí og júní árið 1940 skipaði Adolf Hitler svo fyrir að fulltrúar Frakklands skyldu undirrita vopnahlésskilmála í sama járnbrautarvagni og á sama stað og Þjóðverjar gáfust upp árið 1918. Það gerðist laugardaginn 22. júní 1940.

Í Austur-Evrópu hafði Þýskaland fagnað sigri á Rússum eftir byltingu bolsévika (kommúnista) í Rússlandi síðla árs 1917. Í mars 1918 blésu Þjóðverjar til stórsóknar á vesturvígstöðvunum og áttu góðu gengi að fagna í fyrstu og virtist sigur blasa við þeim. En svo tókst breskum, frönskum og bandarískum hersveitum að snúa við blaðinu. Í orrustu við borgina Amiens í Frakklandi 8. ágúst biðu Þjóðverjar afgerandi ósigur. Hófst þá „hundrað daga sókn“ bandamanna sem leiddi til sigurs þeirra um haustið. Vilhjálmur II. Þýskalandskeisari afsalaði sér völdum og flúði til Hollands. Þýskaland varð lýðveldi.

Heimsstyrjöldinni fyrri lauk með sigri bandamanna en helstu ríki þeirra voru Bretland, Frakkland, Bandaríkin og Ítalía (sjá svar á Vísindavefnum: Hverjir tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni?) Þrjú bandalagsríki Þýskalands höfðu helst úr lestinni skömmu áður. Búlgaría gafst upp í septemberlok 1918, austurríska keisaradæmið (Austurríki-Ungverjaland) og Tyrkjaveldi mánuði síðar.

Austurríska keisaradæmið leystist upp í nokkur þjóðríki. Tyrkjaveldi hvarf af sjónarsviðinu en á rústum þess reis Tyrkland í þeirri mynd sem það er nú á dögum. Í Austurlöndum nær sömdu Bretar og Frakkar um áhrifavæði og ákváðu hvar landamæri skyldu dregin. Í arabaheiminum má segja að menn séu enn að kljást við afleiðingarnar af þeirri uppstokkun sem varð við lok heimsstyjaldarinnar fyrri.

Bandarískir hermenn fagna fréttum af friðarsamkomulagi 11. nóvember 1918.

Þótt gömlu nýlenduveldin, Bretland og Frakkland, stæðu uppi sem sigurvegarar í stríðinu höfðu þau í raun ekki ástæðu til að fagna miklu. Stríðið reyndist þeim dýrkeypt og gróf undan stórveldisstöðu þeirra. Sigurinn var auk þess ekki afgerandi. Efnahagsmáttur Þýskalands var nær óskertur. Næstum engar þýskar verksmiðjur höfðu verið eyðilagðar. En Bandaríkin stóðu með pálmann í höndunum og voru ótvírætt öflugast stórveldi heims að stríðinu loknu.

Þótt heimsstyrjöldinni hafi formlega lokið 11. nóvember 1918 fór því fjarri að friður ríkti í Evrópu og Austurlöndum nær. Víða var barist áfram, einkum í austur- og suðausturhluta Evrópu. Í hinum nýju þjóðríkjum máttu þjóðernisminnihlutar víða þola ójöfnuð og valdbeitingu, til dæmis voru nær þúsund múslimar drepnir í Bosníu á árinu 1919. Tyrkir og Grikkir háðu styrjöld á árunum 1919–1922 og í kjölfar þess flúðu eða hröktust á aðra milljón Grikkja frá byggðum við Asíuströnd Eyjahafs og til Grikklands og um hálf milljón múslima frá Grikkland til Tyrklands. Rússar og Pólverjar áttu í stríði 1919–1921 og grimmileg borgarastyrjöld geisaði í Rússlandi eftir byltingu bolsévika. Henni lauk ekki fyrr en á árinu 1922.

Lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar fagnað í London.

Í júní 1919 var undirritaður friðarsamningur milli bandamanna og Þjóðverja í Versölum skammt fyrir utan Parísarborg. Friðarsamningar við Austurríkismenn, Búlgara og Tyrki voru gerðir á næstu mánuðum og misserum. Friðarsamningarnir lögðu ekki grunn að varanlegum sáttum og friðsamlegri sambúð Evrópuþjóða, þvert á móti. Stórveldin sem hrósuðu sigri í stríðinu réðu lögum og lofum við friðarsamningana og höfðu eigin hagsmuni að leiðarljósi. Hugsjónin um sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna, sem í orði kveðnu átti að verða hornsteinn nýs ríkjaskipulags, var auk þess óframkvæmanleg víða þar sem þjóðir og þjóðernishópar bjuggu í einni bendu.

Árið 1918 mun jafnan verða talið með merkustu árum veraldarsögunnar fyrir þær sakir að á því slotaði hinum tröllslegasta og blóðugasta hildarleik sem sögur fara af: veraldarstyrjöldinni miklu. Sá stórmerki atburður mun ljóma varpa á það um aldir alda.

Þetta mátti lesa í Reykjavíkurblaðinu Ísafold 4. janúar 1919. En ljóminn dofnaði fljótt. Þriðji og fjórði áratugur 20. aldar voru ár óstöðugleika, kreppu og átaka. Svo fór að árið 1939 skall á önnur heimsstyrjöld, enn blóðugri og grimmilegri en fyrri heimsstyrjöldin hafði verið.

Bækur á íslensku:
  • Gunnar Þór Bjarnason, Stríðið mikla 1914-1918. Þegar siðmenningin fór fjandans til – Íslendingar og heimsstyrjöldin fyrri, Reykjavík 2016.
  • Gunnar M. Magnúss, Ísland og heimsstyrjöldin fyrri 1914–1918 (Árin sem aldrei gleymast, 2. bindi), Hafnarfjörður 1965.
  • Þorsteinn Gíslason, Heimsstyrjöldin 1914–1918 og eftirköst hennar. Samtíma frásögn, Reykjavík 1922 og 1924.

Myndir:

Höfundur

Gunnar Þór Bjarnason

sagnfræðingur

Útgáfudagur

11.11.2018

Spyrjandi

Anna Guðný Gröndal

Tilvísun

Gunnar Þór Bjarnason. „Hvenær lauk fyrri heimsstyröldinni?“ Vísindavefurinn, 11. nóvember 2018. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=11440.

Gunnar Þór Bjarnason. (2018, 11. nóvember). Hvenær lauk fyrri heimsstyröldinni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=11440

Gunnar Þór Bjarnason. „Hvenær lauk fyrri heimsstyröldinni?“ Vísindavefurinn. 11. nóv. 2018. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=11440>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær lauk fyrri heimsstyröldinni?
Heimsstyrjöldinni fyrri lauk formlega þegar vopnahlé tók gildi á vesturvígstöðvunum kl. 11:00 mánudagsmorguninn 11. nóvember 1918. Fulltrúar Þýskalands höfðu undirritað vopnahlésskilmála bandamanna í járnbrautarvagni í Compiégne-skógi í Norður-Frakklandi klukkan 5:10 að morgni þessa dags. Talið er að nær þrjú þúsund hermenn hafi fallið á þeim þeim sex klukkustundum sem liðu frá því að samið var um vopnahlé og þar til það tók gildi.

Gengið var frá samningi um vopnahlé í fyrri heimsstyrjöldinni í járnbrautarvagni í Compiégne-skógi í Frakklandi þann 11. nóvember 1918. Annar frá hægri er Ferdinand Foch, yfirmaður herja bandamanna.

Merkilegt má telja að eftir að hersveitir Þýskalands gersigruðu Frakklandsher á nokkrum vikum í maí og júní árið 1940 skipaði Adolf Hitler svo fyrir að fulltrúar Frakklands skyldu undirrita vopnahlésskilmála í sama járnbrautarvagni og á sama stað og Þjóðverjar gáfust upp árið 1918. Það gerðist laugardaginn 22. júní 1940.

Í Austur-Evrópu hafði Þýskaland fagnað sigri á Rússum eftir byltingu bolsévika (kommúnista) í Rússlandi síðla árs 1917. Í mars 1918 blésu Þjóðverjar til stórsóknar á vesturvígstöðvunum og áttu góðu gengi að fagna í fyrstu og virtist sigur blasa við þeim. En svo tókst breskum, frönskum og bandarískum hersveitum að snúa við blaðinu. Í orrustu við borgina Amiens í Frakklandi 8. ágúst biðu Þjóðverjar afgerandi ósigur. Hófst þá „hundrað daga sókn“ bandamanna sem leiddi til sigurs þeirra um haustið. Vilhjálmur II. Þýskalandskeisari afsalaði sér völdum og flúði til Hollands. Þýskaland varð lýðveldi.

Heimsstyrjöldinni fyrri lauk með sigri bandamanna en helstu ríki þeirra voru Bretland, Frakkland, Bandaríkin og Ítalía (sjá svar á Vísindavefnum: Hverjir tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni?) Þrjú bandalagsríki Þýskalands höfðu helst úr lestinni skömmu áður. Búlgaría gafst upp í septemberlok 1918, austurríska keisaradæmið (Austurríki-Ungverjaland) og Tyrkjaveldi mánuði síðar.

Austurríska keisaradæmið leystist upp í nokkur þjóðríki. Tyrkjaveldi hvarf af sjónarsviðinu en á rústum þess reis Tyrkland í þeirri mynd sem það er nú á dögum. Í Austurlöndum nær sömdu Bretar og Frakkar um áhrifavæði og ákváðu hvar landamæri skyldu dregin. Í arabaheiminum má segja að menn séu enn að kljást við afleiðingarnar af þeirri uppstokkun sem varð við lok heimsstyjaldarinnar fyrri.

Bandarískir hermenn fagna fréttum af friðarsamkomulagi 11. nóvember 1918.

Þótt gömlu nýlenduveldin, Bretland og Frakkland, stæðu uppi sem sigurvegarar í stríðinu höfðu þau í raun ekki ástæðu til að fagna miklu. Stríðið reyndist þeim dýrkeypt og gróf undan stórveldisstöðu þeirra. Sigurinn var auk þess ekki afgerandi. Efnahagsmáttur Þýskalands var nær óskertur. Næstum engar þýskar verksmiðjur höfðu verið eyðilagðar. En Bandaríkin stóðu með pálmann í höndunum og voru ótvírætt öflugast stórveldi heims að stríðinu loknu.

Þótt heimsstyrjöldinni hafi formlega lokið 11. nóvember 1918 fór því fjarri að friður ríkti í Evrópu og Austurlöndum nær. Víða var barist áfram, einkum í austur- og suðausturhluta Evrópu. Í hinum nýju þjóðríkjum máttu þjóðernisminnihlutar víða þola ójöfnuð og valdbeitingu, til dæmis voru nær þúsund múslimar drepnir í Bosníu á árinu 1919. Tyrkir og Grikkir háðu styrjöld á árunum 1919–1922 og í kjölfar þess flúðu eða hröktust á aðra milljón Grikkja frá byggðum við Asíuströnd Eyjahafs og til Grikklands og um hálf milljón múslima frá Grikkland til Tyrklands. Rússar og Pólverjar áttu í stríði 1919–1921 og grimmileg borgarastyrjöld geisaði í Rússlandi eftir byltingu bolsévika. Henni lauk ekki fyrr en á árinu 1922.

Lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar fagnað í London.

Í júní 1919 var undirritaður friðarsamningur milli bandamanna og Þjóðverja í Versölum skammt fyrir utan Parísarborg. Friðarsamningar við Austurríkismenn, Búlgara og Tyrki voru gerðir á næstu mánuðum og misserum. Friðarsamningarnir lögðu ekki grunn að varanlegum sáttum og friðsamlegri sambúð Evrópuþjóða, þvert á móti. Stórveldin sem hrósuðu sigri í stríðinu réðu lögum og lofum við friðarsamningana og höfðu eigin hagsmuni að leiðarljósi. Hugsjónin um sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna, sem í orði kveðnu átti að verða hornsteinn nýs ríkjaskipulags, var auk þess óframkvæmanleg víða þar sem þjóðir og þjóðernishópar bjuggu í einni bendu.

Árið 1918 mun jafnan verða talið með merkustu árum veraldarsögunnar fyrir þær sakir að á því slotaði hinum tröllslegasta og blóðugasta hildarleik sem sögur fara af: veraldarstyrjöldinni miklu. Sá stórmerki atburður mun ljóma varpa á það um aldir alda.

Þetta mátti lesa í Reykjavíkurblaðinu Ísafold 4. janúar 1919. En ljóminn dofnaði fljótt. Þriðji og fjórði áratugur 20. aldar voru ár óstöðugleika, kreppu og átaka. Svo fór að árið 1939 skall á önnur heimsstyrjöld, enn blóðugri og grimmilegri en fyrri heimsstyrjöldin hafði verið.

Bækur á íslensku:
  • Gunnar Þór Bjarnason, Stríðið mikla 1914-1918. Þegar siðmenningin fór fjandans til – Íslendingar og heimsstyrjöldin fyrri, Reykjavík 2016.
  • Gunnar M. Magnúss, Ísland og heimsstyrjöldin fyrri 1914–1918 (Árin sem aldrei gleymast, 2. bindi), Hafnarfjörður 1965.
  • Þorsteinn Gíslason, Heimsstyrjöldin 1914–1918 og eftirköst hennar. Samtíma frásögn, Reykjavík 1922 og 1924.

Myndir:

...