Sólin Sólin Rís 05:47 • sest 21:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 11:52 • Sest 06:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:29 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:11 • Síðdegis: 20:41 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hvað gerðist í fyrri heimsstyrjöldinni?

Gunnar Þór Bjarnason

Hér er stórt spurt og ekki hlaupið að því að svara í stuttu máli. Heimsstyrjöldin fyrri var fyrst og fremst Evrópustríð og þetta voru mestu átök í sögu álfunnar. Jafnframt teygði hún anga sína víða um heim. Hátt í 70 milljónir manna voru kallaðar til vopna. Þegar upp var staðið lágu að minnsta kosti 15 milljónir í valnum, hermenn og óbreyttir borgarar. (Sjá svör sama höfundar við spurningunum Hverjir tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni? og Hversu margir dóu í heimsstyrjöldinni fyrri?).

Vesturvígstöðvarnar: Á fyrstu vikum stríðsins í ágúst 1914 sóttu Þjóðverjar fram í vestri og lögðu undir sig stærstan hluta Belgíu og Norður-Frakklands. Snemma í september stöðvuðu franskar og breskar hersveitir framsókn Þjóðverja við ána Marne, skammt frá París. Eftir það sat allt meira og minna fast í fjögur ár. Þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir og hroðalegt mannfall tókst hvorugri stríðsfylkingunni að brjótast í gegnum víglínuna sem teygði sig um 700 km frá Sviss að Ermasundi. Hermennirnir grófu sig niður í skotgrafir sem urðu með tímanum gríðarmikil mannvirki. Skotgrafahernaðurinn á vesturvígstöðvunum hefur orðið að nokkurs konar táknmynd fyrir styrjöldina í heild. Þekktustu orrusturnar voru háðar við ána Somme og bæinn Verdun í Frakklandi á árinu 1916. Einnig var hart barist um borgina Ypres í suðvesturhorni Belgíu, þar á meðal seinni hluta árs 1917 við þorpið Passchendaele (sbr. samnefnda kvikmynd frá árinu 2008). Vestur-íslenskir hermenn börðust við Somme og Ypres. Þýski rithöfundurinn Erich Maria Remarque lýsir hlutskipti hermanna eftirminnilega í skáldsögunni Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum (Im Westen nichts Neues) sem kom upphaflega út árið 1929 og hefur verið þýdd á meira en 50 tungumál. Sagan hefur tvívegis verið kvikmynduð (1930 og 1979).

Júlí 1916. Breskir hermenn í skotgröf við Somme í Frakklandi. Einn hermaður á verði meðan hinir sofa.

Austurvígstöðvarnar: Þær náðu allt frá Eystrasalti í norðri að Svartahafi í suðri. Meginátökin áttu sér stað milli Rússlands annars vegar og Þýskalands og Austurríkis-Ungverjalands hins vegar. Búlgaría og Rúmenía blönduðust einnig í átökin. Á ýmsu gekk og færðist víglínan oft til. Eftir að bylting braust út í Rússlandi og bolsévikar náðu völdum síðla árs 1917 unnu þýskar og austurrískar hersveitir mikil lönd af Rússum. Nýir valdhafar í Rússlandi skrifuðu undir friðarsamning við miðveldin í Brest-Litovsk 3. mars 1918. Eftir ósigur Þjóðverja á vesturvígstöðvunum og hrakfarir Austurríkismanna á öðrum vígstöðvum haustið 1918 drógu miðveldin herlið sitt til baka frá herteknum landsvæðum í Austur-Evrópu. Áfram geisuðu þó átök á þessum slóðum og borgarstyrjöld í Rússlandi lauk ekki fyrr en 1921.

Balkanskagi: Stríðsyfirlýsing Austurríkis-Ungverjalands á hendur Serbíu þann 28. júlí 1914 markaði upphaf heimsstyrjaldarinnar. Serbum tókst að halda velli fram á haust 1915 en biðu þá ósigur. Mátti serbneska þjóðin þola miklar hörmungar en engin þjóð varð fyrir hlutfallslega eins miklu manntjóni í stríðinu. Árið 1918 snerist stríðsgæfan bandamönnum í vil og draumur Serba um sameiginlegt ríki Suður-Slava rættist þegar Konungdæmi Serba, Króata og Slóvena (seinna Júgóslavía) varð sjálfstætt konungsríki 1. desember 1918.

Serbneskir hermenn á leið á vígvöllinn.

Alparnir: Þar áttust við austurrískar hersveitir annars vegar og ítalskar hins vegar. Víglínan lá frá Týról í vestri og austur að Isonzo-fljóti og færðist lítið til þar til haustið 1917 þegar Ítalíuher galt afhroð við borgina Capórettó (nú í Slóveníu og nefnist Kobarit). Nutu Austurríkismenn liðsstyrks Þjóðverja. Þessir atburðir eru bakgrunnur skáldsögunnar Vopnin kvödd eftir Ernest Hemingway. Sigurinn reyndist skammgóður vermir fyrir austurríska keisaradæmið. Sumarið 1918 sneru Ítalir vörn í sókn og þann 3. nóvember játuðu Austurríkismenn sig sigraða.

Tyrkjaveldi og Miðausturlönd: Tyrkjaveldi lagðist (ásamt Búlgaríu) á sveif með Þýskalandi og Austurríki-Ungverjalandi. Herjum Tyrkjaveldis og Rússlands laust saman á nokkrum stöðum í Kákasusfjöllum og enginn vafi er á því að Tyrkir bera ábyrgð á þjóðarmorði á Armenum á árunum 1915 og 1916. Fræg er misheppnuð innrás bandamanna á Gallipoliskaga við Hellusund í Evrópuhluta Tyrkjaveldis árið 1915. Við upphaf stríðsins réðu Tyrkir yfir Miðausturlöndum austur að Persíu (Íran). Breskar hersveitir sóttu fram gegn Tyrkjaher í Palestínu og Írak en höfðu ekki erindi sem erfiði lengst af, náðu til dæmis ekki Jerúsalem á sitt vald fyrr en í desember 1917. Eftir ósigur Tyrkja haustið 1918 deildu og drottnuðu Bretar og Frakkar í Miðausturlöndum og réðu því hvernig fyrrum yfirráðasvæði Tyrkja var skipt upp í ríki. Er sú ríkjaskipan að verulegu leyti enn við lýði. (Ísraelsríki kom þó ekki til sögunnar fyrr en 1948). Goðsagnakennd er sagan af Arabíu-Lárens og hlutdeild hans í uppreisn araba gegn yfirráðum Tyrkja. Frá því segir í bókinni Uppreisninni í eyðimörkinni og á henni byggir kvikmyndin Lawrence of Arabia (1962).

Frá apríl 1915 til janúar 1916 gerðu bandamenn misheppnaða tilraun til þess að ná yfirráðum yfir Gallipoliskaga við Hellusund. Aðgerðin kostaði hundruð þúsunda mannslífa. Hermaður við gröf fallins félaga við Cape Helles þar sem landtaka bandamanna fór fram.

Afríka: Þjóðverjar áttu nokkrar nýlendur í Afríku þar sem nú eru Namibía, Kamerún, Tansanía, Rúanda, Búrúndí og Tógó. Bandamenn hrifsuðu þær til sín en í Tansaníu (þýsku Austur-Afríku) stýrði Þjóðverjinn Paul Emil von Lettow-Vorbeck hersveitum sem voru ósigraðar í stríðslok.

Asía: Bandamenn náðu fljótlega yfirráðum í nýlendum og „verndarsvæðum“ Þjóðverja í Asíu (þýsku Nýju-Gíneu, Samóa, nokkrum eyjum í Míkrónesíu og Bismarck-eyjaklasanum sem svo var nefndur). Að auki réðu Þjóðverjar yfir Tsingtau í Kína. Þar gafst þýska herliðið upp fyrir japönskum og breskum hersveitum snemma í nóvember 1914 eftir harða bardaga.

Sjóhernaður: Um mánaðarmótin maí–júní 1916 átti sér stað mesta sjóorrusta sögunnar úti fyrir vesturströnd Jótlands. Þar tókust á breski og þýski flotinn og gat hvorugur í raun hrósað sigri. En þýska flotanum mistókst að brjóta sér leið úr herkví Breta og lá í heimahöfn allt til stríðsloka. Áður höfðu smáskærur átt sér stað milli breskra og þýskra herskipa á Norðursjó og Bretar ráðið niðurlögum þýskra herskipa hér og þar á úthöfum. Herskip nokkurra ófriðarþjóða létu einnig til sín taka á Miðjarðarhafi og Svartahafi. Þýskir kafbátar ollu bandamönnum miklu tjóni, sérstaklega eftir að Þjóðverjar hófu ótakmarkaðan kafbátahernað 1. febrúar 1917. Í kjölfarið sögðu Bandaríkjamenn Þjóðverjum stríð á hendur. Nokkur íslensk skip voru skotin niður af þýskum kafbátum.

Flugtæknin þróaðist ört á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Flugvélar voru einkum notaðar til að afla vitneskju um óvininn en einnig voru þær nýttar í bardögum.

Lofthernaður: Árið 1914 áttu ófriðarþjóðirnar samtals um eitt þúsund flugvélar en flugtækni þróaðist ört á stríðsárunum. Bardagar voru háðir í lofti en einkum nýttust flugvélar þó til að afla vitneskju um herflutninga og staðsetningu óvinaherja. Loftbelgir voru einnig töluvert notaðir í sama skyni. Nokkuð var um loftárásir á borgir. Í Bretlandi létust til dæmis um 1400 óbreyttir borgarar í árásum þýskra flugvéla og Zeppelin-loftfara.

Fallbyssur og vélbyssur voru áhrifaríkustu vopn heimsstyrjaldarinnar fyrri. Ný vopn komu einnig til sögunnar, til dæmis eldvörpur og skriðdrekar. Í apríl 1915 urðu Þjóðverjar fyrstir til að beita eiturgasi í bardögum við Ypres í Belgíu. Þótt ný tækni hafi sett mark sitt á hernaðarátökin var margt sem minnti á liðna tíð. Bardagar í návígi voru tíðir og byssustingurinn varð mörgum hermönnum að fjörtjóni. Aldrei hafa fleiri hestar verið notaðir í ófriði. Um 7000 hestar voru drepnir á einum degi í orrustunni við Verdun.

Á leið til Verdun í Frakklandi. Milljónir hesta tóku þátt í heimsstyrjöldinni fyrri. Bæði bandamenn og miðveldin voru með riddaraliðssveitir. Hestar voru þó ekki síst mikilvægir til flutninga; þeir voru notaðir til þess að flytja særða hermenn, vopn og vistir, og sem fararskjótar fyrir sendiboða.

Heimsstyrjöldin fyrri hafði mikil áhrif á daglegt líf almennings í stríðslöndunum. Atvinnuþátttaka kvenna jókst. Allt snerist um styrjöldina og oft var stríðsáróðurinn yfirþyrmandi. Þegar á leið varð skortur á nauðsynjavörum og hungrið svarf að. Styrjöldin setti líka mark sitt á Ísland, sérstaklega reyndust seinni ófriðarárin íslenskum almenningi erfið.

Friðarsinnar áttu erfiða daga. Í desember 1915 voru til dæmis tveir breskir karlmenn dæmdir í sex mánaða fangelsi fyrir að dreifa bæklingi um friðarboðskap Fjallræðunnar. Þeim sem neituðu að gegna herþjónustu af samviskuástæðum var refsað og þeir jafnvel dæmdir til dauða. Dæmi um baráttu friðarsinna á stríðsárunum er alþjóðleg friðarráðstefna kvenna í Den Haag í Hollandi vorið 1915.

Á annað þúsund konur frá 12 löndum hittust á friðarráðstefnu í Haag í Hollandi í apríl 1915. Í bandarísku sendinefndinni var meðal annars Jane Addams sem var ötul baráttukona fyrir mannréttindum, náttúruvernd og friði og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1932.

Heimsstyrjöldinni fyrri lauk með vopnahléi á vesturvígstöðvunum sem gekk í gildi kl. 11 fyrir hádegi þann 11. nóvember 1918. Bandamenn hrósuðu sigri. Þjóðverjar voru í sárum, Vilhjálmur II. keisari flúði til Hollands og Þýskaland varð lýðveldi. Stórveldin Austurríki-Ungverjaland og Tyrkjaveldi liðu undir lok. Um leið varð til fjöldi nýrra ríkja í Evrópu og Miðausturlöndum.

Heimildir og lesefni:

 • Ferro, Marc, The Great War 1914–1918, London og New York 1973. [Frumútgáfa á frönsku 1969, La Grande Guerre.]
 • Hemingway, Ernst, Vopnin kvödd, Halldór Laxness þýddi, Reykjavík 1941.
 • Keegan, John, The First World War, London 1988.
 • Lawrence, Thomas Edward, Uppreisnin í eyðimörkinni, Bogi Ólafsson þýddi, Reykjavík 1940–1941.
 • Münkler, Herfried, Der Große Krieg. Die Welt 1914–1918, Berlín 2013.
 • Remarque, Erich María, Tíðindalaust á Vesturvígstöðvunum, Björn Franzson þýddi, Reykjavík 1930.
 • Sørensen, Nils Arne, Den store krigen. Europeernes første verdenskrig, Ósló 2010.
 • Taylor, A.J.P., The First World War. An illustrated history, London 1963.
 • Þorsteinn Gíslason, Heimsstyrjöldin 1914–1918 og eftirköst hennar. Samtíma frásögn, Reykjavík 1922 og 1924.

Greinar um heimsstyrjöldina fyrri hafa birst í Sögunni allri sem hóf göngu sína árið 2007. Einnig má benda á skemmtilegt vefrit, Lemúrinn, sem birt hefur áhugavert myndefni frá árum fyrri heimsstyrjaldar.

Myndir:


Í gegnum tíðina hefur Vísindavefurinn fengið ýmsar spurningar um fyrri heimsstyrjöldina. Hér er einnig svarað spurningunum:

 • Hver var atburðarásin í fyrri heimsstyrjöldinni?
 • Hvað getur þú sagt mér um fyrri heimsstyrjöldina?
 • Hvernig var fyrri heimstyrjöldin í grófum dráttum?

Aðrir spyrjendur eru: Hrafnhildur Ólafía Axelsdóttir, Kristófer Páll Lentz, Arnór Gunnarsson, Jenný Gunnarsdóttir, Kristín Salín og Ómar Ómarsson.

Höfundur

Gunnar Þór Bjarnason

sagnfræðingur

Útgáfudagur

28.7.2014

Spyrjandi

Gunnar Bjarni

Tilvísun

Gunnar Þór Bjarnason. „Hvað gerðist í fyrri heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 28. júlí 2014. Sótt 17. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=26650.

Gunnar Þór Bjarnason. (2014, 28. júlí). Hvað gerðist í fyrri heimsstyrjöldinni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=26650

Gunnar Þór Bjarnason. „Hvað gerðist í fyrri heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 28. júl. 2014. Vefsíða. 17. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=26650>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað gerðist í fyrri heimsstyrjöldinni?
Hér er stórt spurt og ekki hlaupið að því að svara í stuttu máli. Heimsstyrjöldin fyrri var fyrst og fremst Evrópustríð og þetta voru mestu átök í sögu álfunnar. Jafnframt teygði hún anga sína víða um heim. Hátt í 70 milljónir manna voru kallaðar til vopna. Þegar upp var staðið lágu að minnsta kosti 15 milljónir í valnum, hermenn og óbreyttir borgarar. (Sjá svör sama höfundar við spurningunum Hverjir tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni? og Hversu margir dóu í heimsstyrjöldinni fyrri?).

Vesturvígstöðvarnar: Á fyrstu vikum stríðsins í ágúst 1914 sóttu Þjóðverjar fram í vestri og lögðu undir sig stærstan hluta Belgíu og Norður-Frakklands. Snemma í september stöðvuðu franskar og breskar hersveitir framsókn Þjóðverja við ána Marne, skammt frá París. Eftir það sat allt meira og minna fast í fjögur ár. Þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir og hroðalegt mannfall tókst hvorugri stríðsfylkingunni að brjótast í gegnum víglínuna sem teygði sig um 700 km frá Sviss að Ermasundi. Hermennirnir grófu sig niður í skotgrafir sem urðu með tímanum gríðarmikil mannvirki. Skotgrafahernaðurinn á vesturvígstöðvunum hefur orðið að nokkurs konar táknmynd fyrir styrjöldina í heild. Þekktustu orrusturnar voru háðar við ána Somme og bæinn Verdun í Frakklandi á árinu 1916. Einnig var hart barist um borgina Ypres í suðvesturhorni Belgíu, þar á meðal seinni hluta árs 1917 við þorpið Passchendaele (sbr. samnefnda kvikmynd frá árinu 2008). Vestur-íslenskir hermenn börðust við Somme og Ypres. Þýski rithöfundurinn Erich Maria Remarque lýsir hlutskipti hermanna eftirminnilega í skáldsögunni Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum (Im Westen nichts Neues) sem kom upphaflega út árið 1929 og hefur verið þýdd á meira en 50 tungumál. Sagan hefur tvívegis verið kvikmynduð (1930 og 1979).

Júlí 1916. Breskir hermenn í skotgröf við Somme í Frakklandi. Einn hermaður á verði meðan hinir sofa.

Austurvígstöðvarnar: Þær náðu allt frá Eystrasalti í norðri að Svartahafi í suðri. Meginátökin áttu sér stað milli Rússlands annars vegar og Þýskalands og Austurríkis-Ungverjalands hins vegar. Búlgaría og Rúmenía blönduðust einnig í átökin. Á ýmsu gekk og færðist víglínan oft til. Eftir að bylting braust út í Rússlandi og bolsévikar náðu völdum síðla árs 1917 unnu þýskar og austurrískar hersveitir mikil lönd af Rússum. Nýir valdhafar í Rússlandi skrifuðu undir friðarsamning við miðveldin í Brest-Litovsk 3. mars 1918. Eftir ósigur Þjóðverja á vesturvígstöðvunum og hrakfarir Austurríkismanna á öðrum vígstöðvum haustið 1918 drógu miðveldin herlið sitt til baka frá herteknum landsvæðum í Austur-Evrópu. Áfram geisuðu þó átök á þessum slóðum og borgarstyrjöld í Rússlandi lauk ekki fyrr en 1921.

Balkanskagi: Stríðsyfirlýsing Austurríkis-Ungverjalands á hendur Serbíu þann 28. júlí 1914 markaði upphaf heimsstyrjaldarinnar. Serbum tókst að halda velli fram á haust 1915 en biðu þá ósigur. Mátti serbneska þjóðin þola miklar hörmungar en engin þjóð varð fyrir hlutfallslega eins miklu manntjóni í stríðinu. Árið 1918 snerist stríðsgæfan bandamönnum í vil og draumur Serba um sameiginlegt ríki Suður-Slava rættist þegar Konungdæmi Serba, Króata og Slóvena (seinna Júgóslavía) varð sjálfstætt konungsríki 1. desember 1918.

Serbneskir hermenn á leið á vígvöllinn.

Alparnir: Þar áttust við austurrískar hersveitir annars vegar og ítalskar hins vegar. Víglínan lá frá Týról í vestri og austur að Isonzo-fljóti og færðist lítið til þar til haustið 1917 þegar Ítalíuher galt afhroð við borgina Capórettó (nú í Slóveníu og nefnist Kobarit). Nutu Austurríkismenn liðsstyrks Þjóðverja. Þessir atburðir eru bakgrunnur skáldsögunnar Vopnin kvödd eftir Ernest Hemingway. Sigurinn reyndist skammgóður vermir fyrir austurríska keisaradæmið. Sumarið 1918 sneru Ítalir vörn í sókn og þann 3. nóvember játuðu Austurríkismenn sig sigraða.

Tyrkjaveldi og Miðausturlönd: Tyrkjaveldi lagðist (ásamt Búlgaríu) á sveif með Þýskalandi og Austurríki-Ungverjalandi. Herjum Tyrkjaveldis og Rússlands laust saman á nokkrum stöðum í Kákasusfjöllum og enginn vafi er á því að Tyrkir bera ábyrgð á þjóðarmorði á Armenum á árunum 1915 og 1916. Fræg er misheppnuð innrás bandamanna á Gallipoliskaga við Hellusund í Evrópuhluta Tyrkjaveldis árið 1915. Við upphaf stríðsins réðu Tyrkir yfir Miðausturlöndum austur að Persíu (Íran). Breskar hersveitir sóttu fram gegn Tyrkjaher í Palestínu og Írak en höfðu ekki erindi sem erfiði lengst af, náðu til dæmis ekki Jerúsalem á sitt vald fyrr en í desember 1917. Eftir ósigur Tyrkja haustið 1918 deildu og drottnuðu Bretar og Frakkar í Miðausturlöndum og réðu því hvernig fyrrum yfirráðasvæði Tyrkja var skipt upp í ríki. Er sú ríkjaskipan að verulegu leyti enn við lýði. (Ísraelsríki kom þó ekki til sögunnar fyrr en 1948). Goðsagnakennd er sagan af Arabíu-Lárens og hlutdeild hans í uppreisn araba gegn yfirráðum Tyrkja. Frá því segir í bókinni Uppreisninni í eyðimörkinni og á henni byggir kvikmyndin Lawrence of Arabia (1962).

Frá apríl 1915 til janúar 1916 gerðu bandamenn misheppnaða tilraun til þess að ná yfirráðum yfir Gallipoliskaga við Hellusund. Aðgerðin kostaði hundruð þúsunda mannslífa. Hermaður við gröf fallins félaga við Cape Helles þar sem landtaka bandamanna fór fram.

Afríka: Þjóðverjar áttu nokkrar nýlendur í Afríku þar sem nú eru Namibía, Kamerún, Tansanía, Rúanda, Búrúndí og Tógó. Bandamenn hrifsuðu þær til sín en í Tansaníu (þýsku Austur-Afríku) stýrði Þjóðverjinn Paul Emil von Lettow-Vorbeck hersveitum sem voru ósigraðar í stríðslok.

Asía: Bandamenn náðu fljótlega yfirráðum í nýlendum og „verndarsvæðum“ Þjóðverja í Asíu (þýsku Nýju-Gíneu, Samóa, nokkrum eyjum í Míkrónesíu og Bismarck-eyjaklasanum sem svo var nefndur). Að auki réðu Þjóðverjar yfir Tsingtau í Kína. Þar gafst þýska herliðið upp fyrir japönskum og breskum hersveitum snemma í nóvember 1914 eftir harða bardaga.

Sjóhernaður: Um mánaðarmótin maí–júní 1916 átti sér stað mesta sjóorrusta sögunnar úti fyrir vesturströnd Jótlands. Þar tókust á breski og þýski flotinn og gat hvorugur í raun hrósað sigri. En þýska flotanum mistókst að brjóta sér leið úr herkví Breta og lá í heimahöfn allt til stríðsloka. Áður höfðu smáskærur átt sér stað milli breskra og þýskra herskipa á Norðursjó og Bretar ráðið niðurlögum þýskra herskipa hér og þar á úthöfum. Herskip nokkurra ófriðarþjóða létu einnig til sín taka á Miðjarðarhafi og Svartahafi. Þýskir kafbátar ollu bandamönnum miklu tjóni, sérstaklega eftir að Þjóðverjar hófu ótakmarkaðan kafbátahernað 1. febrúar 1917. Í kjölfarið sögðu Bandaríkjamenn Þjóðverjum stríð á hendur. Nokkur íslensk skip voru skotin niður af þýskum kafbátum.

Flugtæknin þróaðist ört á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Flugvélar voru einkum notaðar til að afla vitneskju um óvininn en einnig voru þær nýttar í bardögum.

Lofthernaður: Árið 1914 áttu ófriðarþjóðirnar samtals um eitt þúsund flugvélar en flugtækni þróaðist ört á stríðsárunum. Bardagar voru háðir í lofti en einkum nýttust flugvélar þó til að afla vitneskju um herflutninga og staðsetningu óvinaherja. Loftbelgir voru einnig töluvert notaðir í sama skyni. Nokkuð var um loftárásir á borgir. Í Bretlandi létust til dæmis um 1400 óbreyttir borgarar í árásum þýskra flugvéla og Zeppelin-loftfara.

Fallbyssur og vélbyssur voru áhrifaríkustu vopn heimsstyrjaldarinnar fyrri. Ný vopn komu einnig til sögunnar, til dæmis eldvörpur og skriðdrekar. Í apríl 1915 urðu Þjóðverjar fyrstir til að beita eiturgasi í bardögum við Ypres í Belgíu. Þótt ný tækni hafi sett mark sitt á hernaðarátökin var margt sem minnti á liðna tíð. Bardagar í návígi voru tíðir og byssustingurinn varð mörgum hermönnum að fjörtjóni. Aldrei hafa fleiri hestar verið notaðir í ófriði. Um 7000 hestar voru drepnir á einum degi í orrustunni við Verdun.

Á leið til Verdun í Frakklandi. Milljónir hesta tóku þátt í heimsstyrjöldinni fyrri. Bæði bandamenn og miðveldin voru með riddaraliðssveitir. Hestar voru þó ekki síst mikilvægir til flutninga; þeir voru notaðir til þess að flytja særða hermenn, vopn og vistir, og sem fararskjótar fyrir sendiboða.

Heimsstyrjöldin fyrri hafði mikil áhrif á daglegt líf almennings í stríðslöndunum. Atvinnuþátttaka kvenna jókst. Allt snerist um styrjöldina og oft var stríðsáróðurinn yfirþyrmandi. Þegar á leið varð skortur á nauðsynjavörum og hungrið svarf að. Styrjöldin setti líka mark sitt á Ísland, sérstaklega reyndust seinni ófriðarárin íslenskum almenningi erfið.

Friðarsinnar áttu erfiða daga. Í desember 1915 voru til dæmis tveir breskir karlmenn dæmdir í sex mánaða fangelsi fyrir að dreifa bæklingi um friðarboðskap Fjallræðunnar. Þeim sem neituðu að gegna herþjónustu af samviskuástæðum var refsað og þeir jafnvel dæmdir til dauða. Dæmi um baráttu friðarsinna á stríðsárunum er alþjóðleg friðarráðstefna kvenna í Den Haag í Hollandi vorið 1915.

Á annað þúsund konur frá 12 löndum hittust á friðarráðstefnu í Haag í Hollandi í apríl 1915. Í bandarísku sendinefndinni var meðal annars Jane Addams sem var ötul baráttukona fyrir mannréttindum, náttúruvernd og friði og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1932.

Heimsstyrjöldinni fyrri lauk með vopnahléi á vesturvígstöðvunum sem gekk í gildi kl. 11 fyrir hádegi þann 11. nóvember 1918. Bandamenn hrósuðu sigri. Þjóðverjar voru í sárum, Vilhjálmur II. keisari flúði til Hollands og Þýskaland varð lýðveldi. Stórveldin Austurríki-Ungverjaland og Tyrkjaveldi liðu undir lok. Um leið varð til fjöldi nýrra ríkja í Evrópu og Miðausturlöndum.

Heimildir og lesefni:

 • Ferro, Marc, The Great War 1914–1918, London og New York 1973. [Frumútgáfa á frönsku 1969, La Grande Guerre.]
 • Hemingway, Ernst, Vopnin kvödd, Halldór Laxness þýddi, Reykjavík 1941.
 • Keegan, John, The First World War, London 1988.
 • Lawrence, Thomas Edward, Uppreisnin í eyðimörkinni, Bogi Ólafsson þýddi, Reykjavík 1940–1941.
 • Münkler, Herfried, Der Große Krieg. Die Welt 1914–1918, Berlín 2013.
 • Remarque, Erich María, Tíðindalaust á Vesturvígstöðvunum, Björn Franzson þýddi, Reykjavík 1930.
 • Sørensen, Nils Arne, Den store krigen. Europeernes første verdenskrig, Ósló 2010.
 • Taylor, A.J.P., The First World War. An illustrated history, London 1963.
 • Þorsteinn Gíslason, Heimsstyrjöldin 1914–1918 og eftirköst hennar. Samtíma frásögn, Reykjavík 1922 og 1924.

Greinar um heimsstyrjöldina fyrri hafa birst í Sögunni allri sem hóf göngu sína árið 2007. Einnig má benda á skemmtilegt vefrit, Lemúrinn, sem birt hefur áhugavert myndefni frá árum fyrri heimsstyrjaldar.

Myndir:


Í gegnum tíðina hefur Vísindavefurinn fengið ýmsar spurningar um fyrri heimsstyrjöldina. Hér er einnig svarað spurningunum:

 • Hver var atburðarásin í fyrri heimsstyrjöldinni?
 • Hvað getur þú sagt mér um fyrri heimsstyrjöldina?
 • Hvernig var fyrri heimstyrjöldin í grófum dráttum?

Aðrir spyrjendur eru: Hrafnhildur Ólafía Axelsdóttir, Kristófer Páll Lentz, Arnór Gunnarsson, Jenný Gunnarsdóttir, Kristín Salín og Ómar Ómarsson....