Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svarið við spurningunni er já. Allmargir Vestur-Íslendingar dóu í skotgröfum fyrri heimsstyrjaldarinnar, allir á vesturvígstöðvunum í Belgíu og Norður-Frakklandi.
Heimsstyrjöldin fyrri hófst 28. júlí 1914 og henni lauk 11. nóvember 1918. Upplýsingar eru til um 1.245 Vestur-Íslendinga sem tóku þátt í stríðinu. Af þeim voru 989 í Kanadaher og 256 í Bandaríkjaher. Til viðbótar hafa fundist rúmlega hundrað íslensk nöfn á herskrám en lítið eða ekkert er vitað nánar um þá menn. Af þessum 1.245 hermönnum fæddust 456 í Kanada, 391 á Íslandi og 304 í Bandaríkjunum. Um fæðingarstað þeirra 94 sem eftir standa er allt á huldu.
Vestur-íslenskir hermenn börðust í nokkrum af mannskæðustu orrustum styrjaldarinnar, til að mynda við Ypres og Passendale í Belgíu og Somme í Frakklandi. 144 týndu lífi, þar af 96 á vígvellinum (að meðtöldum tveimur sem aldrei fundust). Tveir létust af slysförum, 19 af sárum sem þeir urðu fyrir í bardaga og 27 úr sjúkdómum (margir úr spönsku veikinni). Tíu vestur-íslenskir hermenn voru teknir til fanga af Þjóðverjum og dvöldu um lengri eða skemmri tíma í fangabúðum í Þýskalandi. Af þeim 144 sem dóu var 61 fæddur á Íslandi. Engar tölur eru til um fjölda þeirra vestur-íslensku hermanna sem sneru heim úr stríðinu lemstraðir á líkama og sál. Margir hlutu alvarlega áverka og glímdu við heilsubrest alla ævi. Árni Johnson, fæddur í Laugaseli í Helgastaðahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu, særðist svo illa í orrustunni við Somme 1916 að „af varð að taka hægra fótinn um læri ofarlega“.
Fjölmargir kanadískir hermenn féllu í orrustunni við Passchendaele í Belgíu, þeirra á meðal voru Vestur-Íslendingar.
Langflestir Vestur-Íslendinganna féllu á síðustu misserum stríðsins, 1917 og 1918. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig allir hermennirnir létu lífið. Ýmist urðu þeir fyrir skotum eða sprengjum Þjóðverja og einhverjir kunna að hafa fallið í návígi við óvininn. Að minnsta kosti þrír létust „af eiturlofti“, eins og það var orðað, en í apríl 1915 urðu Þjóðverjar fyrstir ófriðarþjóðanna til að beita eiturgasi. Tveir þeirra dóu ekki fyrr en að stríði loknu eftir sárar og langvinnar þjáningar. Tveir vestur-íslenskir hermenn féllu í loftorrustum. Annar þeirra hét Hallgrímur Jónsson, fæddur á Mýri í Bárðardal en fluttist til Kanada 15 ára gamall árið 1900, gekk í herinn 1916 og lærði flug á Englandi. Hallgrímur lést í loftbardaga yfir norðurhéruðum Frakklands í september 1918.
Af þeim Vestur-Íslendingum sem týndu lífi börðust 128 í Kanadaher og 16 í Bandaríkjaher. Kanada var hluti af Bretaveldi og fyrstu kanadísku hersveitirnar gengu til orrustu í mars 1915, við þorpið Neuve-Chapelle nyrst í Frakklandi. Bandaríkjamenn stóðu utan við stríðsátökin þar til 6. apríl 1917 að þeir sögðu Þjóðverjum stríð á hendur. Nær fjórar milljónir Bandaríkjamanna voru kvaddar til vopna. Um sex hundruð þúsund Kanadamenn gegndu herþjónustu en í Kanada var herskylda ekki leidd í lög fyrr en á árinu 1917. Vestur-Íslendingar voru aðeins brotabrot af öllum þeim fjölda Norður-Ameríkubúa sem börðust í þessum mikla hildarleik.
Nokkrir vestur-íslensku hermannanna sem féllu í heimsstyrjöldinni voru nýfluttir vestur um haf. Einn þeirra var Gunnar Richardson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð, sonur Ríkharðs Torfasonar prests. Gunnar fæddist 1896 og fluttist til Manitóbafylkis í Kanada sumarið 1914 en þá hafði hann stundað nám í Menntaskólanum í Reykjavík í tvö ár. Nokkrum mánuðum eftir að hann settist að í nýjum heimkynnum gerðist hann sjálfboðaliði í Kanadaher og var sendur á vígstöðvarnar sumarið 1916 eða um það leyti sem margir skólabræður hans í MR voru að ljúka stúdentsprófi. Gunnar dó í grennd við borgina Lens í mars 1918 þegar þýsk sprengja féll rétt við fallbyssu sem hann stýrði.
Fyrsti Vestur-Íslendingurinn sem féll í heimsstyrjöldinni hét Ástýr Valgeir Magdal Hermannsson, kallaður Magdal. Hann var fæddur á Fornastekk við Seyðisfjörð en fluttist með foreldrum sínum til Kanada níu ára gamall. Hann gekk í herinn snemma í ágúst 1914 og var meðal fyrstu sjálfboðaliðanna sem skráðu sig í Kanadaher eftir að stríðið braust út. Magdal særðist illa í orrustu við Langemark í Belgíu í apríl 1915 og lést af sárum sínum fáeinum dögum síðar, einungis 19 ára að aldri. Hann var ekki eini vestur-íslenski hermaðurinn sem lést af völdum stríðsins svo ungur að árum. Guðmundur Kristinn Bjarnason, fæddur í Reykjavík aldamótaárið 1900, féll fyrir skoti frá þýskri leyniskyttu í september 1918, rétt rúmlega 18 ára. Guðmundur Kristinn var einungis 15 ára gamall þegar hann bauð sig fram til herþjónustu í desember 1915. Óskar Goodman, fæddur í Langadal í Húnavatnssýslu, var ekki heldur nema 18 ára þegar hann varð fyrir sprengju og lést haustið 1916.
Kanadískir hermenn á vesturvígstöðvunum.
Ein kona er talin meðal vestur-íslenskra fórnarlamba stríðsins, Christine Fredericksen (Kristín Friðriksdóttir) hjúkrunarkona. Hún fæddist að Hamri í Hegranesi í Skagafirði og flutti ung með foreldrum sínum til Kanada. Christine útskrifaðist sem hjúkrunarkona í mars 1916 og hóf störf á hermannaspítala í Edmonton í Kanada. Hún sinnti hermönnum sem höfðu annaðhvort særst eða veikst. Undir lok stríðsins veiktust margir kanadískir hermenn af spænsku veikinni og kom það í hlut Christine að hjúkra þeim. Við það sýktist hún sjálf og andaðist í októberlok 1918, 22 ára gömul. Að minnsta kosti 14 vestur-íslenskar hjúkrunarkonur störfuðu við hjúkrun bandarískra og kanadískra hermanna í stríðinu, ýmist í Bandaríkjunum, Kanada eða á hersjúkrahúsum á Englandi og í Frakklandi. Fjórar þeirra voru fæddar á Íslandi.
Á stríðsárunum birtust í íslenskum blöðum alloft fréttir af „löndum vorum“ í stríðinu. „Fallinn Íslendingur“, hét til dæmis lítil grein í Morgunblaðinu 3. maí 1917. Þar segir frá því að Magnús Pétursson, 22 ára, hafi farist í stríðinu. Magnús hafði flutt til Vesturheims 17 ára gamall en foreldrar hans bjuggu í Reykjavík. Íslendingar áttu, margir hverjir, erfitt með að skilja hernaðarbrölt Vestur-Íslendinga. Skúli Thoroddsen, einn þekktasti stjórnmálamaður Íslands á þessum árum, skrifaði í blað sitt Þjóðviljann þann 4. desember 1915 að skoða ætti alla þá sem skráðu sig sjálfviljugir í „manndrápa-leikinn“ sem „vitfirringa“.
Líkt og víða um lönd blossaði upp heit þjóðernisstefna í Kanada á fyrstu dögum og vikum stríðsins. Margir innflytjendur, þar á meðal Íslendingar, vildu ólmir sanna hollustu sína við Kanada og skráðu sig unnvörpum í herinn. En Vestur-Íslendingar voru ekki einhuga um þátttöku í stríðinu. Höfuðskáld Íslendinga vestanhafs, Stephan G. Stephansson, var til dæmis ákafur friðarsinni og deildi hart á stríðsæsingar landa sinna. Aðrir litu á það sem sjálfsagða skyldu Vestur-Íslendinga að berjast fyrir hið nýja föðurland. Að stríði loknu skrifaði vestur-íslenski læknirinn Björn B. Jónsson að Vestur-Íslendingar hefðu fulla ástæðu til að vera ákaflega stoltir af íslenskum hermönnum sem börðust í stríðinu og lögðu lífið í sölurnar fyrir góðan málstað. Og hann hafði þetta að segja:
En það er víst, að þátttaka Vestur-Íslendinga í stríðinu hefir í för með sér stórkostlegar afleiðingar fyrir þá sjálfa. Útlendingar verða þeir ekki framar í landi hér. Dýru verði hafa þeir heimilisréttinn keyptan. Sagan segir, að þjóðunum hafi sjaldan orðið ættjörðin kær fyr en þær höfðu vökvað hana blóði sínu. Nú hefir svo farið, að íslenzku blóði hefir úthelt verið fyrir ættjörðina nýju, og nú elskum vér hana ekki með orðagjálfri, heldur blóði, – blóði, jafn heitu og því, er bunaði úr hjarta hermannsins, sem fyrir oss dó. Hörmungar stríðsins, sárin og tárin, hafa keypt oss einlæga ættjarðarást í landi hér.
Orð Björns B. Jónssonar eru sótt í Minningarrit íslenzkra hermanna 1914–1918 sem gefið var út Winnipeg árið 1923. Mikið af þeim upplýsingum sem koma fram í þessari grein eru einnig fengnar þaðan. Þetta er mikið rit að vöxtum, á sjötta hundrað blaðsíður, og sneisafullt af fróðleik um ættir og uppruna, líf og örlög þeirra Vestur-Íslendinga sem tóku þátt í heimsstyrjöldinni fyrri.
Heimildir og lesefni:
Erla Dóris Halldórsdóttir, „Englar líknar og ljóss. Vestur-íslenskar hjúkrunarkonur sem störfuðu við hjúkrun særðra og sjúkra hermanna í fyrri heimsstyrjöldinni“, Tímarit hjúkrunarfræðinga, 75:2 (1999), bls. 97–102.
„Fallinn Íslendingur“, Morgunblaðið 3. maí 1917.
„Frá Vestur-Íslendingum“, Þjóðviljinn 29. apríl og 4. desember 1915.
„Íslendingar í Kanadaher“, Morgunblaðið 15. nóvember 1914.
„Íslenzk hersveit“, Morgunblaðið 13. október 1914.
„Íslenzku hermennirnir“, Morgunblaðið 26. október 1915.
Sólrún B. Jensdóttir, Ísland á brezku valdsvæði 1914–1918 (Sagnfræðirannsóknir 6, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, ritstj. Þórhallur Vilmundarson), Reykjavík 1980.
Viðar Hreinsson, Andvökuskáld. Ævisaga Stephans G. Stephanssonar, II, Reykjavík 2003.
Þorsteinn Gíslason, Heimsstyrjöldin 1914–1918 og eftirköst hennar. Samtíma frásögn, Reykjavík 1922 og 1924.
Gunnar Þór Bjarnason. „Dóu Vestur-Íslendingar í skotgröfum fyrri heimstyrjaldarinnar?“ Vísindavefurinn, 4. febrúar 2014, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=21422.
Gunnar Þór Bjarnason. (2014, 4. febrúar). Dóu Vestur-Íslendingar í skotgröfum fyrri heimstyrjaldarinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=21422
Gunnar Þór Bjarnason. „Dóu Vestur-Íslendingar í skotgröfum fyrri heimstyrjaldarinnar?“ Vísindavefurinn. 4. feb. 2014. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=21422>.