Sólin Sólin Rís 11:03 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:22 • Síðdegis: 18:41 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:09 • Síðdegis: 12:39 í Reykjavík

Er hægt að dæma mann fyrir morð ef hann drepur einhvern sem þegar hefur verið úrskurðaður látinn og þurrkaður út af þjóðskrá?

Hulda Elsa Björgvinsdóttir

Rétthæfi manns lýkur þegar hann deyr. Samkvæmt íslenskum rétti geta allir menn átt réttindi og borið skyldur og getur því sérhver maður verið réttaraðili, en í því er rétthæfi einmitt fólgið. Hafi maður horfið og líkur benda til þess að hann sé ekki lengur á lífi er unnt að ákveða með dómi að horfinn maður skuli talinn látinn, enda hafi á undan farið opinber stefna í Lögbirtingablaði um að slíkt mál verði höfðað, og að fullnægðum öðrum þeim skilyrðum sem nefnd eru í lögum um horfna menn nr. 44/1981.

Nú getur það gerst að maður sem talinn hefur verið látinn í dómi reynist vera á lífi. Við þær aðstæður er meginreglan sú að réttindi hans og skyldur vakna að nýju. Í lögunum um horfna menn sem nefnd voru hér áðan er kveðið skilmerkilega á um þetta.

Hugtakið "morð" kemur hvergi fyrir í íslenskum lögum. Greinarmunur sá sem gerður var á manndrápi og morði í eldri hegningarlögum frá 1869 var afnuminn með núgildandi hegningarlögum. Þegar sú háttsemi er höfð í huga sem hugtakið "morð" felur í sér í daglegu tali, það er að drepa mann með leynd, með köldu blóði, með ráðnum huga eða af ásettu ráði, þá fellur sú háttsemi undir verknaðarlýsingu 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar segir: "Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt." Engar verknaðaraðferðir eru tilgreindar í ákvæðinu, megináherslan er lögð á afleiðinguna sem af hlýst. En það er vegna þess að manndráp er svo alvarlegt afbrot að ekki er talið skipta máli hvaða aðferð er viðhöfð (nema þá að því leyti að það getur haft áhrif á refsiákvörðun). Sá verknaður að svipta annan mann lífi felur í sér, að dánarstund mannsins er flýtt með ólögmætum hætti.

Friðhelgi mannlegs lífs er grundvallarregla sem er bæði skráð og óskráð. Hún birtist meðal annars í nefndu ákvæði almennra hegningarlaga. Hún birtist líka í því að mönnum er lögskylt að koma þeim til hjálpar sem staddir eru í lífsháska, samanber 221. gr. almennra hegningarlaga. Þessi grundvallarregla er svo mikilvæg að þótt maður (A) samþykki það að annar maður (B) drepi hann, þá leysir samþykkið B ekki undan refsingu fyrir manndráp eða manndrápstilraun. Og hafi maður ráðist með manndrápsásetningi að látnum manni í þeirri trú að hann væri enn lifandi, þá er hugsanlegt að dæma manninn fyrir tilraun til manndráps (en þetta kallast "pútatíft brot" í refsirétti).

Mannréttindareglur treysta friðhelgi lífs enn frekar, en í 2. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu er ákvæði sem fjallar um réttinn til lífs. Einnig kemur fram í 6. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi að sérhver maður hefur meðfæddan rétt til lífs. Þess ber og að geta að manndrápssök fyrnist ekki, sjá 81. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Verknaðarþoli manndráps, það er sá maður sem er drepinn, getur verið sérhver lifandi manneskja. Aðstæður verknaðarþola skipta engu máli, en það helgast af framangreindri grundvallarreglu um friðhelgi mannlegs lífs. Aldur þess sem er drepinn, ásigkomulag og aðrar aðstæður breyta því engu um eðli verknaðar.

Samkvæmt framansögðu er svarið já, það er hægt að dæma mann fyrir manndráp af ásetningi samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga ef hann drepur mann sem hefur verið úrskurðaður látinn fyrir dómi.

Höfundur

Útgáfudagur

24.11.2000

Spyrjandi

Sigurður Arnarson

Tilvísun

Hulda Elsa Björgvinsdóttir. „Er hægt að dæma mann fyrir morð ef hann drepur einhvern sem þegar hefur verið úrskurðaður látinn og þurrkaður út af þjóðskrá?“ Vísindavefurinn, 24. nóvember 2000. Sótt 8. desember 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=1170.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir. (2000, 24. nóvember). Er hægt að dæma mann fyrir morð ef hann drepur einhvern sem þegar hefur verið úrskurðaður látinn og þurrkaður út af þjóðskrá? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1170

Hulda Elsa Björgvinsdóttir. „Er hægt að dæma mann fyrir morð ef hann drepur einhvern sem þegar hefur verið úrskurðaður látinn og þurrkaður út af þjóðskrá?“ Vísindavefurinn. 24. nóv. 2000. Vefsíða. 8. des. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1170>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er hægt að dæma mann fyrir morð ef hann drepur einhvern sem þegar hefur verið úrskurðaður látinn og þurrkaður út af þjóðskrá?
Rétthæfi manns lýkur þegar hann deyr. Samkvæmt íslenskum rétti geta allir menn átt réttindi og borið skyldur og getur því sérhver maður verið réttaraðili, en í því er rétthæfi einmitt fólgið. Hafi maður horfið og líkur benda til þess að hann sé ekki lengur á lífi er unnt að ákveða með dómi að horfinn maður skuli talinn látinn, enda hafi á undan farið opinber stefna í Lögbirtingablaði um að slíkt mál verði höfðað, og að fullnægðum öðrum þeim skilyrðum sem nefnd eru í lögum um horfna menn nr. 44/1981.

Nú getur það gerst að maður sem talinn hefur verið látinn í dómi reynist vera á lífi. Við þær aðstæður er meginreglan sú að réttindi hans og skyldur vakna að nýju. Í lögunum um horfna menn sem nefnd voru hér áðan er kveðið skilmerkilega á um þetta.

Hugtakið "morð" kemur hvergi fyrir í íslenskum lögum. Greinarmunur sá sem gerður var á manndrápi og morði í eldri hegningarlögum frá 1869 var afnuminn með núgildandi hegningarlögum. Þegar sú háttsemi er höfð í huga sem hugtakið "morð" felur í sér í daglegu tali, það er að drepa mann með leynd, með köldu blóði, með ráðnum huga eða af ásettu ráði, þá fellur sú háttsemi undir verknaðarlýsingu 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar segir: "Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt." Engar verknaðaraðferðir eru tilgreindar í ákvæðinu, megináherslan er lögð á afleiðinguna sem af hlýst. En það er vegna þess að manndráp er svo alvarlegt afbrot að ekki er talið skipta máli hvaða aðferð er viðhöfð (nema þá að því leyti að það getur haft áhrif á refsiákvörðun). Sá verknaður að svipta annan mann lífi felur í sér, að dánarstund mannsins er flýtt með ólögmætum hætti.

Friðhelgi mannlegs lífs er grundvallarregla sem er bæði skráð og óskráð. Hún birtist meðal annars í nefndu ákvæði almennra hegningarlaga. Hún birtist líka í því að mönnum er lögskylt að koma þeim til hjálpar sem staddir eru í lífsháska, samanber 221. gr. almennra hegningarlaga. Þessi grundvallarregla er svo mikilvæg að þótt maður (A) samþykki það að annar maður (B) drepi hann, þá leysir samþykkið B ekki undan refsingu fyrir manndráp eða manndrápstilraun. Og hafi maður ráðist með manndrápsásetningi að látnum manni í þeirri trú að hann væri enn lifandi, þá er hugsanlegt að dæma manninn fyrir tilraun til manndráps (en þetta kallast "pútatíft brot" í refsirétti).

Mannréttindareglur treysta friðhelgi lífs enn frekar, en í 2. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu er ákvæði sem fjallar um réttinn til lífs. Einnig kemur fram í 6. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi að sérhver maður hefur meðfæddan rétt til lífs. Þess ber og að geta að manndrápssök fyrnist ekki, sjá 81. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Verknaðarþoli manndráps, það er sá maður sem er drepinn, getur verið sérhver lifandi manneskja. Aðstæður verknaðarþola skipta engu máli, en það helgast af framangreindri grundvallarreglu um friðhelgi mannlegs lífs. Aldur þess sem er drepinn, ásigkomulag og aðrar aðstæður breyta því engu um eðli verknaðar.

Samkvæmt framansögðu er svarið já, það er hægt að dæma mann fyrir manndráp af ásetningi samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga ef hann drepur mann sem hefur verið úrskurðaður látinn fyrir dómi....