Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Spyrjandi setti spurningu sína fram sem hér segir:
Hvernig breytir maður einingunni ml/l í míkrómól á kg fyrir súrefnishlutfall í sjó, t.d. 8,223 ml/l miðað við hitastig 7,81°C og seltu 30,284 á 0 m dýpi?
Það er því miður ekki á verksviði Vísindavefsins almennt að svara svona spurningum sem flokkast undir tæknilega ráðgjöf frekar en almenna fræðslu. Við víkjum þó stundum frá þessu til dæmis til að sýna aðferðir sem við teljum hafa almennt gildi fyrir einhvern hóp lesenda, og það höfum við gert í þessu tilviki. En um leið höfum við lagað spurningu og svar að þessum markmiðum okkar.
Spyrjandi hafði áður sett spurninguna fram án þess að tilgreina í hvaða efni súrefnið væri. Við skildum málið þá þannig að um væri að ræða gasblöndu, en svarið er í raun einfaldara úr því að súrefnið er í sjó. Að vísu er þá ef til vill réttast að byrja á að gera sér grein fyrir að uppistaðan í sjó er efnasambandið vatn, H2O, og um það bil 8/9 af massa hverrar vatnssameindar er súrefni. Það er þó ekki þetta súrefni sem átt er við með upphaflegu spurningunni, heldur óbundið, uppleyst súrefni sem yfirleitt er að finna í vatni og sjó í náttúrunni og er nauðsynlegt lífverum sem þar eru.
Við hugsum okkur að súrefnið sé við staðalskilyrði sem kallað er (STP, Standard Temperature and Pressure), það er að segja hitastigið 0°C og þrýstinginn eina loftþyngd (atm). Eitt mól af gasi við þau skilyrði er 22,4 lítrar.
Við reiknum þá hversu mörg míkrómól eru í hverjum millilítra:
1 ml O2 = (1/1000) l = (1/22400) mól = 44,6 míkrómól
Til þess að umreikna lítra af sjó í kg þurfum við að vita eðlismassa sjávarins. Við venjuleg skilyrði, svipuð þeim sem spyrjandi tilgreinir í upphaflegri spurningu sinni, er hann um 1,03 kg á lítra. Við fáum þá í heild:
1 ml O2/l af sjó = 44,6 míkrómól O2/1,03 kg af sjó =
42,3 míkrómól O2/kg af sjó
Þessir reikningar eru miðaðir við þrjá marktæka stafi sem kallað er en tölur spyrjanda eru með meiri nákvæmni en það. Í þær vantar þó enn loftþrýstinginn þegar mælingin er gerð en áhrif hans kunna vel að hafa verið sambærileg við seltu og hita.
Um súrefni í sjó og ýmsa eiginleika sjávar má lesa nánar í bók Unnsteins Stefánssonar, Haffræði I-II, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1991-1992. Á blaðsíðu 334 í 1. bindi er til dæmis sýndur umreikningur svipaður þeim sem hér um ræðir. Í bókinni eru einnig gögn sem duga til að meta áhrif frávika frá staðalskilyrðum ef á þarf að halda.
ÞV. „Hvernig á að breyta einingunni ml/l um magn óbundins súrefnis í sjó í míkrómól á kg?“ Vísindavefurinn, 30. nóvember 2000, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1206.
ÞV. (2000, 30. nóvember). Hvernig á að breyta einingunni ml/l um magn óbundins súrefnis í sjó í míkrómól á kg? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1206
ÞV. „Hvernig á að breyta einingunni ml/l um magn óbundins súrefnis í sjó í míkrómól á kg?“ Vísindavefurinn. 30. nóv. 2000. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1206>.