Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hver var Unnsteinn Stefánsson og hvert var hans framlag til haffræðinnar?

Jón Ólafsson

Unnsteinn Stefánsson var frumkvöðull á vettvangi íslenskra hafrannsókna og um leið einn þeirra sem mótuðu vísindastörf þessarar smáþjóðar á vegi hennar til tæknivædds nútíma.

Unnsteinn fæddist 10. nóvember 1922 í Sómastaðagerði við Reyðarfjörð. Hann tók stúdentspróf frá MR 1942 og hélt svo til efnafræðináms við Wisconsin-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hann lauk BS- og síðan MS-gráðu 1946. Hann starfaði sem efnafræðingur á rannsóknastofu Fiskifélags Íslands 1947-1948. Árni Friðriksson (1898-1966), fiskifræðingur, mun hafa átt þátt í því að áhugi Unnsteins beindist að hafrannsóknum en að þeim tók hann að vinna 1949 hjá Fiskideild Atvinnudeildar Háskólans, forvera Hafrannsóknastofnunar.

Haffræði felst í því að beita grunngreinum raunvísinda, eðlisfræði, efnafræði, líffræði eða stærðfræði við rannsóknir á höfunum. Það er síst til trafala að vera vel að sér í að minnsta kosti tveimur þessara greina. Unnsteinn aflaði sér reynslu og þekkingar, dvaldi við rannsóknastofnanir í Danmörku, Noregi og Englandi 1948, við Woods Hole Oceanographic Institution í Bandaríkjunum 1953 og í Kaupmannahöfn 1958. Verk sín dró hann saman til doktorsgráðu í haffræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1962 með ritinu North Icelandic Waters. Í það verk hafa oft vitnað þeir sem vinna að rannsóknum á Norðurhöfum og í því felst mikilvægur grunnur til skilnings og mats á flæði hlýsjávar norður fyrir Ísland og á breytilegum aðstæðum í hafinu norðan Íslands frá einum tíma til annars. Hlýsjávarflæðið norður fyrir land er lítið afsprengi Golfstraumsins en það hefur mikil áhrif á veðurfar og loftslag.

Unnsteinn sá miklar breytingar verða í hafinu hér við land á árabilinu 1965-1970, hafísárunum, þegar hafís lagðist að landinu síðla vetrar og jafnvel fram í júní, hindraði siglingar, fiskveiðar og göngur mikilvægra fiskistofna breyttust, einkum síldarinnar.


Mynd sem sýnir Golfstrauminn.

Haffræðin í North Icelandic Waters er að mestu á grunni eðlisfræðinnar en að því verki loknu efldi Unnsteinn aðstöðu til hafefnarannsókna og hóf rannsóknir á næringarefnum og uppleystu súrefni í sjó, en þessi efni tengjast grunni vistkerfa og frjósemi hafsvæða. Unnsteinn felldi saman eðlis- og efnafræði sjávar í því skyni að skýra náttúru íslenskra hafsvæða. Hann skipulagði viðamikla rannsókn á árstíðasveiflum á landgrunninu við suðvesturland, sérstaklega Faxaflóa 1966-1967. Undan Suðvesturlandi eru hrygningarstöðvar margra nytjafiska til dæmis þorsks og ýsu. Niðurstöður þessara rannsókna vörpuðu ljósi á samspil þar sem við sögu kemur ferskvatn sem fellur til sjávar, næringarefni hlýsjávar sem streymir að landinu og vorið sem kemur með hækkandi sól. Með samvinnu Unnsteins og Þórunnar Þórðardóttur (1925-2007) þörungafræðings var þarna lagður grunnur til skilnings á vistkerfum landgrunnssvæða landsins.

Annar vettvangur frumkvæðis Unnsteins var rannsóknir á vötnum landsins, fyrst Meðalfellsvatni, síðar Mývatni og á síðustu starfsárum sínum beindi hann athyglinni að sérkennum vatna sem hafa samgang við sjó, eru fersk við yfirborð en sölt við botn, til dæmis Miklavatn í Fljótum og Ólafsfjarðarvatn.

Unnsteini var ætíð ljóst að mannkyni er nauðsyn að nýta höfin en jafnframt vernda þau, og að fræðsla og þekking væru grundvöllur að hvoru tveggja. Að þessum málefnum starfaði hann 1970 til 1973 hjá Menningar- og fræðslustofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í París og fór síðar á vegum þeirrar stofnunar til Íraks, Líbíu og Nígeríu til að vinna að skipulagningu hafrannsókna í þessum löndum.

Á tímabilinu 1965-1970 var Unnsteinn hluta úr ári aðjúnkt prófessor við Duke-háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, kenndi þar haffræði og stjórnaði jafnframt rannsóknum á Golfstraumssvæðinu við austurströnd Bandaríkjanna. Unnsteini lét einkar vel að miðla þekkingu sinni og kenna. Nokkrir nemenda hans við Duke urðu þekktir á vettvangi haffræðirannsókna. En Íslendingum hlotnaðist stærstur skerfur frá fræðaranum Unnsteini. Fyrst má nefna bókina Hafið, sem kom fyrst út 1961, alþýðlegt fræðirit sem vakti mikinn áhuga. Endurrituð útgáfa á Hafinu kom út 1999.

Frá 1975 til 1992 var Unnsteinn prófessor í haffræði við Háskóla Íslands og kenndi fræðin sem valgrein nemenda í efnafræði, líffræði, landafræði, jarðfræði og ef til vill fleiri greinum. Kennslubækur á sviði haffræði eru, nú á tímum, flestar ritaðar á ensku og fjalla um afmarkaða þætti en greina lítt eða ekki frá öðrum. Háskólanámsefni Unnsteins spannaði allan megingrunn haffræða en með sterkum skírskotunum til aðstæðna og rannsókna á hafinu við Ísland. Í bókunum kemur vel fram fjölþætt þekking hans og reynsla. Þetta námsefni kom út í bókunum Haffræði I (1991) og Haffræði II (1994). Þessar kennslubækur eru mikið verk, samtals yfir 900 blaðsíður, en það lýsir þeim ef til vill best að hvorki Norðmenn, Danir né Svíar eiga sambærilegar bækur á sínum tungumálum.

Árið 1999 kom út sérstakt hefti Rits Fiskideildar, 16. árgangur, Unnsteini til heiðurs. Þar er meðal annars samantekt Eiríks Þ. Einarssonar, bókasafnsfræðings, á ritverkum Unnsteins sem sjá má með því að smella hér.

Unnsteinn Stefánsson lést árið 2004.

Myndir:
  • Mynd af Unnsteini Stefánssyni: Mbl.is. Sótt 14.3.2011.
  • Mynd af Golfstraumi: Wikipedia.org. Sótt 15.3.2011.

Höfundur

Jón Ólafsson

prófessor emeritus í haffræði við HÍ

Útgáfudagur

15.3.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jón Ólafsson. „Hver var Unnsteinn Stefánsson og hvert var hans framlag til haffræðinnar?“ Vísindavefurinn, 15. mars 2011. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58560.

Jón Ólafsson. (2011, 15. mars). Hver var Unnsteinn Stefánsson og hvert var hans framlag til haffræðinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58560

Jón Ólafsson. „Hver var Unnsteinn Stefánsson og hvert var hans framlag til haffræðinnar?“ Vísindavefurinn. 15. mar. 2011. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58560>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Unnsteinn Stefánsson og hvert var hans framlag til haffræðinnar?
Unnsteinn Stefánsson var frumkvöðull á vettvangi íslenskra hafrannsókna og um leið einn þeirra sem mótuðu vísindastörf þessarar smáþjóðar á vegi hennar til tæknivædds nútíma.

Unnsteinn fæddist 10. nóvember 1922 í Sómastaðagerði við Reyðarfjörð. Hann tók stúdentspróf frá MR 1942 og hélt svo til efnafræðináms við Wisconsin-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hann lauk BS- og síðan MS-gráðu 1946. Hann starfaði sem efnafræðingur á rannsóknastofu Fiskifélags Íslands 1947-1948. Árni Friðriksson (1898-1966), fiskifræðingur, mun hafa átt þátt í því að áhugi Unnsteins beindist að hafrannsóknum en að þeim tók hann að vinna 1949 hjá Fiskideild Atvinnudeildar Háskólans, forvera Hafrannsóknastofnunar.

Haffræði felst í því að beita grunngreinum raunvísinda, eðlisfræði, efnafræði, líffræði eða stærðfræði við rannsóknir á höfunum. Það er síst til trafala að vera vel að sér í að minnsta kosti tveimur þessara greina. Unnsteinn aflaði sér reynslu og þekkingar, dvaldi við rannsóknastofnanir í Danmörku, Noregi og Englandi 1948, við Woods Hole Oceanographic Institution í Bandaríkjunum 1953 og í Kaupmannahöfn 1958. Verk sín dró hann saman til doktorsgráðu í haffræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1962 með ritinu North Icelandic Waters. Í það verk hafa oft vitnað þeir sem vinna að rannsóknum á Norðurhöfum og í því felst mikilvægur grunnur til skilnings og mats á flæði hlýsjávar norður fyrir Ísland og á breytilegum aðstæðum í hafinu norðan Íslands frá einum tíma til annars. Hlýsjávarflæðið norður fyrir land er lítið afsprengi Golfstraumsins en það hefur mikil áhrif á veðurfar og loftslag.

Unnsteinn sá miklar breytingar verða í hafinu hér við land á árabilinu 1965-1970, hafísárunum, þegar hafís lagðist að landinu síðla vetrar og jafnvel fram í júní, hindraði siglingar, fiskveiðar og göngur mikilvægra fiskistofna breyttust, einkum síldarinnar.


Mynd sem sýnir Golfstrauminn.

Haffræðin í North Icelandic Waters er að mestu á grunni eðlisfræðinnar en að því verki loknu efldi Unnsteinn aðstöðu til hafefnarannsókna og hóf rannsóknir á næringarefnum og uppleystu súrefni í sjó, en þessi efni tengjast grunni vistkerfa og frjósemi hafsvæða. Unnsteinn felldi saman eðlis- og efnafræði sjávar í því skyni að skýra náttúru íslenskra hafsvæða. Hann skipulagði viðamikla rannsókn á árstíðasveiflum á landgrunninu við suðvesturland, sérstaklega Faxaflóa 1966-1967. Undan Suðvesturlandi eru hrygningarstöðvar margra nytjafiska til dæmis þorsks og ýsu. Niðurstöður þessara rannsókna vörpuðu ljósi á samspil þar sem við sögu kemur ferskvatn sem fellur til sjávar, næringarefni hlýsjávar sem streymir að landinu og vorið sem kemur með hækkandi sól. Með samvinnu Unnsteins og Þórunnar Þórðardóttur (1925-2007) þörungafræðings var þarna lagður grunnur til skilnings á vistkerfum landgrunnssvæða landsins.

Annar vettvangur frumkvæðis Unnsteins var rannsóknir á vötnum landsins, fyrst Meðalfellsvatni, síðar Mývatni og á síðustu starfsárum sínum beindi hann athyglinni að sérkennum vatna sem hafa samgang við sjó, eru fersk við yfirborð en sölt við botn, til dæmis Miklavatn í Fljótum og Ólafsfjarðarvatn.

Unnsteini var ætíð ljóst að mannkyni er nauðsyn að nýta höfin en jafnframt vernda þau, og að fræðsla og þekking væru grundvöllur að hvoru tveggja. Að þessum málefnum starfaði hann 1970 til 1973 hjá Menningar- og fræðslustofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í París og fór síðar á vegum þeirrar stofnunar til Íraks, Líbíu og Nígeríu til að vinna að skipulagningu hafrannsókna í þessum löndum.

Á tímabilinu 1965-1970 var Unnsteinn hluta úr ári aðjúnkt prófessor við Duke-háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, kenndi þar haffræði og stjórnaði jafnframt rannsóknum á Golfstraumssvæðinu við austurströnd Bandaríkjanna. Unnsteini lét einkar vel að miðla þekkingu sinni og kenna. Nokkrir nemenda hans við Duke urðu þekktir á vettvangi haffræðirannsókna. En Íslendingum hlotnaðist stærstur skerfur frá fræðaranum Unnsteini. Fyrst má nefna bókina Hafið, sem kom fyrst út 1961, alþýðlegt fræðirit sem vakti mikinn áhuga. Endurrituð útgáfa á Hafinu kom út 1999.

Frá 1975 til 1992 var Unnsteinn prófessor í haffræði við Háskóla Íslands og kenndi fræðin sem valgrein nemenda í efnafræði, líffræði, landafræði, jarðfræði og ef til vill fleiri greinum. Kennslubækur á sviði haffræði eru, nú á tímum, flestar ritaðar á ensku og fjalla um afmarkaða þætti en greina lítt eða ekki frá öðrum. Háskólanámsefni Unnsteins spannaði allan megingrunn haffræða en með sterkum skírskotunum til aðstæðna og rannsókna á hafinu við Ísland. Í bókunum kemur vel fram fjölþætt þekking hans og reynsla. Þetta námsefni kom út í bókunum Haffræði I (1991) og Haffræði II (1994). Þessar kennslubækur eru mikið verk, samtals yfir 900 blaðsíður, en það lýsir þeim ef til vill best að hvorki Norðmenn, Danir né Svíar eiga sambærilegar bækur á sínum tungumálum.

Árið 1999 kom út sérstakt hefti Rits Fiskideildar, 16. árgangur, Unnsteini til heiðurs. Þar er meðal annars samantekt Eiríks Þ. Einarssonar, bókasafnsfræðings, á ritverkum Unnsteins sem sjá má með því að smella hér.

Unnsteinn Stefánsson lést árið 2004.

Myndir:
  • Mynd af Unnsteini Stefánssyni: Mbl.is. Sótt 14.3.2011.
  • Mynd af Golfstraumi: Wikipedia.org. Sótt 15.3.2011.
...