Eftirfarandi er byggt á grein Kristjáns Sæmundssonar, Jarðfræði Kröflukerfisins (1991). Mývatn í núverandi mynd varð til fyrir rúmum 2000 árum þegar gaus í gígaröðinni Þrengslaborgum og Lúdentsborgum, á 12 km löngum kafla. Hraunið sem upp kom í þessu gosi, og Sigurður Þórarinsson nefndi Laxárhraunið yngra, er um 220 km2 að flatarmáli, stærsta hraun í Mývatnssveit frá nútíma. Það myndar botn Mývatns nema Ytriflóa (NA-hluti Mývatns á mynd hér fyrir ofan) og hefur flætt niður Laxárdal og Aðaldal og út í sjó við Skjálfanda. Þyrpingar gervigíga eru um allt hraunið, frá Dimmuborgum og Mývatni niður í Aðaldal. Í Mývatnslægðinni hefur myndast uppistaða hrauns sem miðlað hefur rennsli niður Laxárdal. Vatnsstæðið hefur orðið til þegar sjatnaði í hraun-uppistöðunni. Eftir stóðu hraunflákar með gervigígaþyrpingunum og gefa til kynna útlínur Mývatns fyrir gosið. Dimmuborgir eru nokkurs konar hraunbóla í Laxárhrauni yngra, hlaðin upp úr þunnum hraunskánum. Hraunbólan er næstum hringlaga og um 2 km í þvermál. Hún er hæst í miðju, um 20 m yfir umhverfið, og aflíðandi halli út frá. Miðsvæðis í bólunni hefur verið hrauntjörn og runnið þunnar hraunskvettur til hliðanna. Þannig hefur bólan smám saman byggst upp. Aðfærslan að henni hefur verið niðri í hrauninu ofan frá Þrengslaborgum. Þar hefur komið að hrauntjörnin brast fram (um Borgarás). Hemað hefur yfir hana og sjást hraunskarir innanvert í tjarnarstæðinu og á gas- og gufustrompum þar sem pústað hefur upp úr hrauntjörninni. Í Dimmuborgum finnst nokkuð af gjalli og mikið af kleprum sem bendir til þess að þær (borgirnar) séu í ætt við gervigíga. Hverfjall myndaðist sennilega í forvera Mývatns fyrir um 2800 árum, en þá varð goshrina á 25 km langri gossprungu, frá Hverfjalli í suðri til Éthóla í norðri. Það nefnast Hverfjallseldar. Hverfjall er öskugígur, sömu gerðar og Surtsey, myndaður í gufusprengigosi þar sem basaltkvika hefur komist í greiða snertingu við vatn. Þegar þetta gos varð hefur Mývatn líklegast náð þangað sem Hverfjall er nú, en þegar gýs við slíkar aðstæður, tætist kvikan vegna gufusprenginga og verður að ösku sem hleðst í kringum uppvarpið. Hraun frá þessu gosi má til dæmis sjá við austurströnd Ytriflóa.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvernig myndaðist Meðalfellsvatn í Kjós? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvernig er Reynisvatn myndað? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvernig myndaðist Kerið í Grímsnesi og hvers vegna er vatn í því? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvernig mynduðust Kvosin og Tjörnin í miðbæ Reykjavíkur? eftir Sigurð Steinþórsson
- Kristján Sæmundsson (1991). Jarðfræði Kröflukerfisins. Bls. 24-95 í Náttúra Mývatns, ritstj. Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson. Hið íslenska náttúrufræðifélag, 1991.
- Árni Einarsson (1991). Lífríki í 2000 ár. Bls. 320-336 í Náttúra Mývatns, ritstj. Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson. Hið íslenska náttúrufræðifélag, 1991.
- Sigurður Þórarinsson (1960). The postglacial history of the Mývatn area and the area between Mývatn and Jökulsá á Fjöllum. Bls. 60-69 í On the Geology and Geophysics of Iceland. International Geological Congress XXI, Guide to Excursion No A2. Ritstj. Sigurður Þórarinsson.