
Skömmu eftir að hraungosinu lauk í Surti II hófst neðansjávargos um 600 m austnorðaustur af Surtsey og eyjan Syrtlingur hlóðst upp á tímabilinu 22. maí til 17. október 1965. Syrtlingur skolaðist burt í lok október 1965. Um jólaleytið 1965 varð enn vart við gos og nú 900 m suðvestur af Surtsey. Þarna hlóðst upp eyjan Jólnir frá 26. desember 1965 til 10. ágúst 1966. Jólnir var sokkinn í sæ í september 1966. Síðasti áfangi Surtseyjargossins hófst 19. ágúst 1966 með hraungosi úr sprungu í Surti I og þakti hraunið smám saman austurhluta eyjarinnar. Surtseyjargosinu lauk 5. júní 1967. Sumarið 1969 varð vart við verulega ummyndun og hörðnun í gosöskubingnum sem myndast hafði á fyrstu mánuðum gossins, og hitamælingar sýndu 100°C hita á litlu dýpi þar sem áður hafði enginn hiti verið. Á næstu árum jókst útbreiðsla jarðhitasvæðanna og bergið harðnaði enn. Sumarið 1979 var boruð 181 m djúp kjarnahola í Surt I, alveg niður að sjávarbotni. Hæstur hiti í holunni mældist 141°C og gosaskan var orðin að móbergi þar sem hiti var hærri en 80°C. Þetta sýnir að hörðnun og ummyndun gjósku í móberg er hraðfara ferli sem líta má á sem lokastig eldgosa í vatni eða undir jöklum. Síðan Surtseyjargosinu lauk hafa miklar breytingar orðið á eynni, háir sjávarhamrar myndast og eyjan minnkað mjög að flatarmáli auk þess sem lífið tók sér snemma bólfestu á eynni. Hægt er að lesa meira um Surtsey í grein sama höfundar "Surtur fer sunnan" í bókinni Undur veraldar, Mál og menning, Reykjavík 1998. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Af hverju er gróður í Surtsey? eftir Sigurð H. Magnússon
- Hversu algengt er að nýjar eyjar verði til í eldgosum? eftir Sigurð Steinþórsson
- Af hverju gaus í Vestmannaeyjum? eftir Olgeir Sigmarsson
Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvenær var Surtseyjargosið?