Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:59 • Sest 13:45 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:22 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:31 í Reykjavík

Af hverju er gróður í Surtsey?

Sigurður H. Magnússon

Surtsey myndaðist í gosi sem hófst í nóvember 1963. Við gosið hlóðst upp eyja sem í upphafi var algerlega gróðurlaus. En fljótlega eftir að hún myndaðist urðu menn varir við að fræ og aðrir plöntuhlutar bárust þangað, en plöntur hafa ýmsa möguleika á að dreifa sér til nýrra staða.

Surtsey séð úr lofti. Horft er til suðvesturs. (Ljósmyndari Sveinn P. Jakobsson, 20. ágúst 1982).

Sumar plöntur, eins og mosar og fléttur, dreifa sér með gróum sem eru örsmá og berast því nokkuð auðveldlega með vindi. Aðrar dreifa sér með fræjum, en fræ tegunda eru misvel aðlöguð að flutningi og nota ýmis brögð til að komast á nýjan stað. Sum eru til dæmis með sérstökum sviftækjum, eins og fræ túnfífils og víðis, og geta því svifið með vindi um alllangan veg. Önnur fleyta sér á vatni eða taka sér far á nýjan stað ýmist innan í eða utan á dýrum. Plöntur geta einnig borist á milli staða þegar misstórir plöntuhlutar, svo sem mosa- og fléttubrot eða rótarviskar og grashnausar, flytjast með vindi, vatni eða dýrum.

Talið er að plöntur hafi borist til Surtseyjar aðallega með þrennum hætti, það er með sjó, vindi og fuglum. Einnig er líklegt að eitthvað hafi borist með mönnum sem heimsótt hafa eyjuna. Til þess að nema land á nýjum stað er ferðalagið eða dreifingin ein og sér ekki nægileg, heldur verður áfangastaðurinn að bjóða upp á heppileg skilyrði fyrir hinn nýja landnema. Fræ verða að geta spírað og vaxtarskilyrði verða að vera það góð að hinn nýi landnemi, hvort sem það er fræplanta, ung gróplanta eða plöntuhluti, lifi af.

Blálilja og fjöruarfi í Surtsey. (Ljósmyndari Sigmar Metúsalemsson, júlí 2001).

Í Surtsey voru gróðurskilyrði í upphafi afar erfið. Yfirboðið var hraun, vikur eða öskubunkar. Þótt úrkoma væri ríkuleg hripaði vatn niður og var því illa aðgengilegt plöntum á þurrkatímum. Sum næringarefni voru af skornum skammti, eins og köfnunarefni (N), auk þess sem hvassir vindar feyktu til ösku og vikri sem svarf landnemagróður. Allt þetta gerði plöntunum afar erfitt fyrir.

Þrátt fyrir þetta hafa nú um 60 tegundir háplantna numið land í Surtsey. Margar mosa- og fléttutegundir hafa einnig náð fótfestu á eynni, auk sveppa og þörunga.

Fyrstu landnemar háplantna voru strandplöntur, svo sem fjörukál (Cakile arctica), melgresi (Leymus arenarius), blálilja (Mertensia maritima) og fjöruarfi (Honckenya peploides), en síðan bættust fleiri í hópinn. Árið 1971 urðu miklar breytingar á útbreiðslu fjöruarfans en þá þroskaði hann fræ í fyrsta sinn. Breiddist hann eftir það út um alla eyjuna og er nú algengasta og útbreiddasta háplöntutegundin í Surtsey. Hann vex nú nær alls staðar þar sem einhvern vikur eða sand er að finna.

Fjölbreyttur gróður vex nú í máfavarpi í Surtsey. (Ljósmyndari Sigmar Metúsalemsson, júlí 2001).

Gróður jókst síðan smátt og smátt á eyjunni, en eftir að fuglar tóku að verpa þar árið 1970 urðu mikil þáttaskil í gróðurframvindu. Árið 1986 verpti sílamáfur í fyrsta sinn í Surtsey og myndaðist síðan á fáum árum þétt máfabyggð suðvestast á eyjunni sem fór stækkandi með hverju ári. Árið 1990 voru varppör orðin nær 200 og var þar mest um sílamáf en einnig talsvert af silfurmáfi og svartbak.

Sílamáfurinn hefur haft langmestu áhrifin á framvindu gróðurs í Surtsey bæði með því að dreifa fræi en ekki síður með driti sínu og aðföngum. Það hefur aukið næringarástand jarðvegs verulega og skapað vaxtarskilyrði fyrir fjölmargar tegundir plantna. Í varpi sílamáfsins er gróður nú afar gróskumikill og þar er einnig flestar plöntutegundir eyjunnar að finna. Utan varpsins hefur gróður einnig aukist, en þó er langstærstur hluti eyjunnar enn lítt gróinn.

Sílamáfshreiður gert úr mosa í Surtsey. (Ljósmyndari Borgþór Magnússon, 1986).

Af ofansögðu er ljóst að ástæður þess að gróður er í Surtsey eru fjölmargar og að einstakir atburðir geta ráðið miklu um framvinduna. Farið er í árlega rannsóknarleiðangra til Surtseyjar, meðal annars til þess að fylgjast með framvindu gróðurs.

Tekið skal fram að Surtsey er friðlýst til að tryggja að landnám plantna og dýra, framvinda lífríkis og mótun jarðmyndanna verði með sem eðlilegustum hætti og verði fyrir sem minnstri truflun af mannavöldum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon og Jón Guðmundsson, 1997. Gróðurframvinda í Surtsey. Búvísindi 10: 253-272.
  • Borgþór Magnússon og Erling Ólafsson, 2003. Fuglar og framvinda í Surtsey. Fuglar. Ársrit Fuglaverndar 2003: 22-29.
  • Heimasíða Surtseyjarfélagsins

Allar myndir eru fengnar af Heimasíðu Surtseyjarfélagsins og birtar hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

plöntuvistfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands

Útgáfudagur

24.10.2006

Spyrjandi

Einar Sindri Ólafsson, f. 1993

Tilvísun

Sigurður H. Magnússon. „Af hverju er gróður í Surtsey?“ Vísindavefurinn, 24. október 2006. Sótt 11. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=6331.

Sigurður H. Magnússon. (2006, 24. október). Af hverju er gróður í Surtsey? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6331

Sigurður H. Magnússon. „Af hverju er gróður í Surtsey?“ Vísindavefurinn. 24. okt. 2006. Vefsíða. 11. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6331>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju er gróður í Surtsey?
Surtsey myndaðist í gosi sem hófst í nóvember 1963. Við gosið hlóðst upp eyja sem í upphafi var algerlega gróðurlaus. En fljótlega eftir að hún myndaðist urðu menn varir við að fræ og aðrir plöntuhlutar bárust þangað, en plöntur hafa ýmsa möguleika á að dreifa sér til nýrra staða.

Surtsey séð úr lofti. Horft er til suðvesturs. (Ljósmyndari Sveinn P. Jakobsson, 20. ágúst 1982).

Sumar plöntur, eins og mosar og fléttur, dreifa sér með gróum sem eru örsmá og berast því nokkuð auðveldlega með vindi. Aðrar dreifa sér með fræjum, en fræ tegunda eru misvel aðlöguð að flutningi og nota ýmis brögð til að komast á nýjan stað. Sum eru til dæmis með sérstökum sviftækjum, eins og fræ túnfífils og víðis, og geta því svifið með vindi um alllangan veg. Önnur fleyta sér á vatni eða taka sér far á nýjan stað ýmist innan í eða utan á dýrum. Plöntur geta einnig borist á milli staða þegar misstórir plöntuhlutar, svo sem mosa- og fléttubrot eða rótarviskar og grashnausar, flytjast með vindi, vatni eða dýrum.

Talið er að plöntur hafi borist til Surtseyjar aðallega með þrennum hætti, það er með sjó, vindi og fuglum. Einnig er líklegt að eitthvað hafi borist með mönnum sem heimsótt hafa eyjuna. Til þess að nema land á nýjum stað er ferðalagið eða dreifingin ein og sér ekki nægileg, heldur verður áfangastaðurinn að bjóða upp á heppileg skilyrði fyrir hinn nýja landnema. Fræ verða að geta spírað og vaxtarskilyrði verða að vera það góð að hinn nýi landnemi, hvort sem það er fræplanta, ung gróplanta eða plöntuhluti, lifi af.

Blálilja og fjöruarfi í Surtsey. (Ljósmyndari Sigmar Metúsalemsson, júlí 2001).

Í Surtsey voru gróðurskilyrði í upphafi afar erfið. Yfirboðið var hraun, vikur eða öskubunkar. Þótt úrkoma væri ríkuleg hripaði vatn niður og var því illa aðgengilegt plöntum á þurrkatímum. Sum næringarefni voru af skornum skammti, eins og köfnunarefni (N), auk þess sem hvassir vindar feyktu til ösku og vikri sem svarf landnemagróður. Allt þetta gerði plöntunum afar erfitt fyrir.

Þrátt fyrir þetta hafa nú um 60 tegundir háplantna numið land í Surtsey. Margar mosa- og fléttutegundir hafa einnig náð fótfestu á eynni, auk sveppa og þörunga.

Fyrstu landnemar háplantna voru strandplöntur, svo sem fjörukál (Cakile arctica), melgresi (Leymus arenarius), blálilja (Mertensia maritima) og fjöruarfi (Honckenya peploides), en síðan bættust fleiri í hópinn. Árið 1971 urðu miklar breytingar á útbreiðslu fjöruarfans en þá þroskaði hann fræ í fyrsta sinn. Breiddist hann eftir það út um alla eyjuna og er nú algengasta og útbreiddasta háplöntutegundin í Surtsey. Hann vex nú nær alls staðar þar sem einhvern vikur eða sand er að finna.

Fjölbreyttur gróður vex nú í máfavarpi í Surtsey. (Ljósmyndari Sigmar Metúsalemsson, júlí 2001).

Gróður jókst síðan smátt og smátt á eyjunni, en eftir að fuglar tóku að verpa þar árið 1970 urðu mikil þáttaskil í gróðurframvindu. Árið 1986 verpti sílamáfur í fyrsta sinn í Surtsey og myndaðist síðan á fáum árum þétt máfabyggð suðvestast á eyjunni sem fór stækkandi með hverju ári. Árið 1990 voru varppör orðin nær 200 og var þar mest um sílamáf en einnig talsvert af silfurmáfi og svartbak.

Sílamáfurinn hefur haft langmestu áhrifin á framvindu gróðurs í Surtsey bæði með því að dreifa fræi en ekki síður með driti sínu og aðföngum. Það hefur aukið næringarástand jarðvegs verulega og skapað vaxtarskilyrði fyrir fjölmargar tegundir plantna. Í varpi sílamáfsins er gróður nú afar gróskumikill og þar er einnig flestar plöntutegundir eyjunnar að finna. Utan varpsins hefur gróður einnig aukist, en þó er langstærstur hluti eyjunnar enn lítt gróinn.

Sílamáfshreiður gert úr mosa í Surtsey. (Ljósmyndari Borgþór Magnússon, 1986).

Af ofansögðu er ljóst að ástæður þess að gróður er í Surtsey eru fjölmargar og að einstakir atburðir geta ráðið miklu um framvinduna. Farið er í árlega rannsóknarleiðangra til Surtseyjar, meðal annars til þess að fylgjast með framvindu gróðurs.

Tekið skal fram að Surtsey er friðlýst til að tryggja að landnám plantna og dýra, framvinda lífríkis og mótun jarðmyndanna verði með sem eðlilegustum hætti og verði fyrir sem minnstri truflun af mannavöldum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon og Jón Guðmundsson, 1997. Gróðurframvinda í Surtsey. Búvísindi 10: 253-272.
  • Borgþór Magnússon og Erling Ólafsson, 2003. Fuglar og framvinda í Surtsey. Fuglar. Ársrit Fuglaverndar 2003: 22-29.
  • Heimasíða Surtseyjarfélagsins

Allar myndir eru fengnar af Heimasíðu Surtseyjarfélagsins og birtar hér með góðfúslegu leyfi....