Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er skammdegisþunglyndi og hvað veldur því?

Elsa Eiríksdóttir

Þegar geðslag fólks versnar til muna á vissum árstímum getur verið um árstíðarbundið þunglyndi að ræða. Undir árstíðarbundið þunglyndi fellur skammdegisþunglyndi og sumarþunglyndi. Hér verður einkum fjallað um skammdegisþunglyndi.

Skammdegisþunglyndi er árstíðarbundin andleg vanlíðan (mood disorder) sem hefst þegar daga tekur að stytta á haustin og lýkur þegar dagar lengjast á vorin. Skammdegisþunglyndi er þrálátt að því leyti að það endurtekur sig frá ári til árs og getur oft orðið mjög alvarlegt og hamlað eðlilegri virkni fólks.

Skammdegisþunglyndi virðist tengjast magni dagsbirtu og þar af leiðandi þeirri breiddargráðu sem fólk býr á. Það sýnir sig meðal annars í því að þunglyndið getur horfið á nokkrum dögum þegar fólk ferðast suður á bóginn á veturna en ef það ferðast norður getur þunglyndið versnað. Skammdegisþunglyndi er nær óþekkt í löndum við miðbaug þar sem dagarnir eru alltaf jafn langir. Sambandið milli breiddargráðu og skammdegisþunglyndis er ekki einfalt því tiltölulega fáir sem búa næst heimskautunum fá skammdegisþunglyndi. Svo virðist sem sumar þjóðir sem lengi hafa búið við þessi skilyrði hafi aðlagast skammdeginu. Til dæmis hefur komið í ljós að tíðni skammdegisþunglyndis hjá Íslendingum er óvenju lág miðað við það sem ætla mætti út frá legu landsins.

Um báðar gerðir af árstíðarbundnu þunglyndi gildir að þess fer yfirleitt ekki að gæta fyrr en á þrítugsaldri og það virðist vera algengara hjá konum en körlum.

Hvað veldur skammdegisþunglyndi?

Nokkrar tilgátur hafa verið settar fram um hvernig birta hefur áhrif á líðan fólks. Einn möguleiki er að það sé tengt bæði dægursveiflu (hringrás svefns og vöku) og hormóninu melantónín sem heiladingull framleiðir, en dagsbirta hefur áhrif á þetta tvennt. Reyndar bendir ýmislegt til þess að allar gerðir þunglyndis tengist á einhvern hátt truflunum á svefntakti. Dægursveiflu svefns og vöku er stjórnað af undirstúku (hypothalamus) í heila. Ljós verkar sem tímagjafi (Zeitgeber) og samhæfir virkni líffræðilegrar klukku manna við sólarhringinn. Mögulegt er að fólk með skammdegisþunglyndi þurfi sterkari eða öflugri tímagjafa en venjulega til að endurstilla líffræðilegu klukkuna.

Nokkrir rannsakendur hafa komið fram með þá kenningu að það sé ekki einungis ljós sem verki sem tímagjafi og að sum tilfelli þunglyndis stafi af tapi á félagslegum tímagjöfum. Til dæmis hefur fólk tilhneigingu til að samhæfa dagtakt sinn við dagtakt maka síns. Eftir að fólk missir maka sinn fer hversdagstaktur þess úrskeiðis og margir upplifa þunglyndi af þeim sökum auk annars. Aðrir rannsakendur hafa bent á að sumir séu sérstaklega næmir fyrir truflandi áhrifum breytinga á félagslegum samskiptum og reglulegum dagstakti. Til dæmis geta ýmsir viðburðir sem rjúfa dagtakt fólks valdið tímabundnu þunglyndi, eins og til dæmis barnsfæðing eða vinnumissir.

Í Bandaríkjunum var borin saman tíðni skammdegisþunglyndis á mismunandi breiddargráðum. Niðurstöður voru á þá leið að eftir því sem norðar dró var meira um skammdegisþunglyndi. Það sama hefur komið fram í Noregi.

Á Íslandi hefur tíðni skammdegisþunglyndis verið athuguð og voru niðurstöður þær að tíðni skammdegisþunglyndis og milds skammdegisþunglyndis var lægri hjá Íslendingum en fólki búsettu á austurströnd Bandaríkjanna þrátt fyrir að Ísland liggi talsvert norðar. Þessar niðurstöður komu mjög á óvart þar sem talið hefur verið að skortur á ljósi yfir vetrartímann sé ein aðalorsök skammdegisþunglyndis. Munurinn á þessum tveimur rannsóknum verður ekki skýrður með mun á aðferðum, lifnaðarháttum, starfi þátttakenda, búsetu eða mismunandi tíðni líðanaraskana almennt í löndunum tveimur. Tilgáta rannsakenda var sú að þar sem Íslendingar hafa búið einangrað í um 1000 ár við erfiðar aðstæður er hugsanlegt að þeir sem hafa erft tilhneigingu til skammdegisþunglyndis hafi átt erfiðara með að finna sér maka og lifa af við þessar erfiðu aðstæður allan ársins hring. Einnig hefur þetta fólk sennilega átt erfiðara með að sjá um börn sín en aðrir og hátt hlutfall ungbarnadauða (allt að 50%) fyrr á öldum átt sinn þátt í því að skammdegisþunglyndi erfðist síður. Því hefði getað orðið einhvers konar náttúruval þar sem aukið þol við skammdegi hefur valist úr.

Í framhaldi af þessari rannsókn var gerð önnur könnun þar sem tíðni skammdegisþunglyndis var athuguð hjá afkomendum Íslendinga sem búsettir eru í Kanada, en ættir þeirra voru raktar aftur til 1840. Þarna kom einnig fram lægri tíðni heldur hjá Bandaríkjamönnum. Tíðnin hjá þessum hóp var lægri en hjá Íslendingum. Þetta bendir til þess að tengsl skammdegisþunglyndis við legu á breiddargráðu séu flóknari en áður var talið. Mögulegt er að um sé að ræða samvirkni breiddargráðu og erfða, þannig að áhrif mismunandi breiddargráðu komi fram hjá hópum sem hafa svipaða arfgerð.

© Geðheilsa ehf, 2000. Öll réttindi áskilin.


Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vefsetrinu persona.is. Þar er einnig að finna ítarlegri umfjöllun um þetta efni.

Mynd:

Höfundur

BA í sálfræði

Útgáfudagur

13.12.2000

Spyrjandi

Heiðdís Sveinsdóttir, 1979

Tilvísun

Elsa Eiríksdóttir. „Hvað er skammdegisþunglyndi og hvað veldur því?“ Vísindavefurinn, 13. desember 2000, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1239.

Elsa Eiríksdóttir. (2000, 13. desember). Hvað er skammdegisþunglyndi og hvað veldur því? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1239

Elsa Eiríksdóttir. „Hvað er skammdegisþunglyndi og hvað veldur því?“ Vísindavefurinn. 13. des. 2000. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1239>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er skammdegisþunglyndi og hvað veldur því?
Þegar geðslag fólks versnar til muna á vissum árstímum getur verið um árstíðarbundið þunglyndi að ræða. Undir árstíðarbundið þunglyndi fellur skammdegisþunglyndi og sumarþunglyndi. Hér verður einkum fjallað um skammdegisþunglyndi.

Skammdegisþunglyndi er árstíðarbundin andleg vanlíðan (mood disorder) sem hefst þegar daga tekur að stytta á haustin og lýkur þegar dagar lengjast á vorin. Skammdegisþunglyndi er þrálátt að því leyti að það endurtekur sig frá ári til árs og getur oft orðið mjög alvarlegt og hamlað eðlilegri virkni fólks.

Skammdegisþunglyndi virðist tengjast magni dagsbirtu og þar af leiðandi þeirri breiddargráðu sem fólk býr á. Það sýnir sig meðal annars í því að þunglyndið getur horfið á nokkrum dögum þegar fólk ferðast suður á bóginn á veturna en ef það ferðast norður getur þunglyndið versnað. Skammdegisþunglyndi er nær óþekkt í löndum við miðbaug þar sem dagarnir eru alltaf jafn langir. Sambandið milli breiddargráðu og skammdegisþunglyndis er ekki einfalt því tiltölulega fáir sem búa næst heimskautunum fá skammdegisþunglyndi. Svo virðist sem sumar þjóðir sem lengi hafa búið við þessi skilyrði hafi aðlagast skammdeginu. Til dæmis hefur komið í ljós að tíðni skammdegisþunglyndis hjá Íslendingum er óvenju lág miðað við það sem ætla mætti út frá legu landsins.

Um báðar gerðir af árstíðarbundnu þunglyndi gildir að þess fer yfirleitt ekki að gæta fyrr en á þrítugsaldri og það virðist vera algengara hjá konum en körlum.

Hvað veldur skammdegisþunglyndi?

Nokkrar tilgátur hafa verið settar fram um hvernig birta hefur áhrif á líðan fólks. Einn möguleiki er að það sé tengt bæði dægursveiflu (hringrás svefns og vöku) og hormóninu melantónín sem heiladingull framleiðir, en dagsbirta hefur áhrif á þetta tvennt. Reyndar bendir ýmislegt til þess að allar gerðir þunglyndis tengist á einhvern hátt truflunum á svefntakti. Dægursveiflu svefns og vöku er stjórnað af undirstúku (hypothalamus) í heila. Ljós verkar sem tímagjafi (Zeitgeber) og samhæfir virkni líffræðilegrar klukku manna við sólarhringinn. Mögulegt er að fólk með skammdegisþunglyndi þurfi sterkari eða öflugri tímagjafa en venjulega til að endurstilla líffræðilegu klukkuna.

Nokkrir rannsakendur hafa komið fram með þá kenningu að það sé ekki einungis ljós sem verki sem tímagjafi og að sum tilfelli þunglyndis stafi af tapi á félagslegum tímagjöfum. Til dæmis hefur fólk tilhneigingu til að samhæfa dagtakt sinn við dagtakt maka síns. Eftir að fólk missir maka sinn fer hversdagstaktur þess úrskeiðis og margir upplifa þunglyndi af þeim sökum auk annars. Aðrir rannsakendur hafa bent á að sumir séu sérstaklega næmir fyrir truflandi áhrifum breytinga á félagslegum samskiptum og reglulegum dagstakti. Til dæmis geta ýmsir viðburðir sem rjúfa dagtakt fólks valdið tímabundnu þunglyndi, eins og til dæmis barnsfæðing eða vinnumissir.

Í Bandaríkjunum var borin saman tíðni skammdegisþunglyndis á mismunandi breiddargráðum. Niðurstöður voru á þá leið að eftir því sem norðar dró var meira um skammdegisþunglyndi. Það sama hefur komið fram í Noregi.

Á Íslandi hefur tíðni skammdegisþunglyndis verið athuguð og voru niðurstöður þær að tíðni skammdegisþunglyndis og milds skammdegisþunglyndis var lægri hjá Íslendingum en fólki búsettu á austurströnd Bandaríkjanna þrátt fyrir að Ísland liggi talsvert norðar. Þessar niðurstöður komu mjög á óvart þar sem talið hefur verið að skortur á ljósi yfir vetrartímann sé ein aðalorsök skammdegisþunglyndis. Munurinn á þessum tveimur rannsóknum verður ekki skýrður með mun á aðferðum, lifnaðarháttum, starfi þátttakenda, búsetu eða mismunandi tíðni líðanaraskana almennt í löndunum tveimur. Tilgáta rannsakenda var sú að þar sem Íslendingar hafa búið einangrað í um 1000 ár við erfiðar aðstæður er hugsanlegt að þeir sem hafa erft tilhneigingu til skammdegisþunglyndis hafi átt erfiðara með að finna sér maka og lifa af við þessar erfiðu aðstæður allan ársins hring. Einnig hefur þetta fólk sennilega átt erfiðara með að sjá um börn sín en aðrir og hátt hlutfall ungbarnadauða (allt að 50%) fyrr á öldum átt sinn þátt í því að skammdegisþunglyndi erfðist síður. Því hefði getað orðið einhvers konar náttúruval þar sem aukið þol við skammdegi hefur valist úr.

Í framhaldi af þessari rannsókn var gerð önnur könnun þar sem tíðni skammdegisþunglyndis var athuguð hjá afkomendum Íslendinga sem búsettir eru í Kanada, en ættir þeirra voru raktar aftur til 1840. Þarna kom einnig fram lægri tíðni heldur hjá Bandaríkjamönnum. Tíðnin hjá þessum hóp var lægri en hjá Íslendingum. Þetta bendir til þess að tengsl skammdegisþunglyndis við legu á breiddargráðu séu flóknari en áður var talið. Mögulegt er að um sé að ræða samvirkni breiddargráðu og erfða, þannig að áhrif mismunandi breiddargráðu komi fram hjá hópum sem hafa svipaða arfgerð.

© Geðheilsa ehf, 2000. Öll réttindi áskilin.


Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vefsetrinu persona.is. Þar er einnig að finna ítarlegri umfjöllun um þetta efni.

Mynd:

...