Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:39 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:21 • Sest 14:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:54 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:00 • Síðdegis: 19:45 í Reykjavík

Er lögfræðinám forritun á hugsunarhætti? Hvernig er námið skipulagt?

Skúli Magnússon

Eitt af viðfangsefnum lögfræðinnar er að fjalla um sig sjálfa, ef svo má að orði komast. Lögfræðin leitar þannig svara við því hvernig lögfræðingar komist að niðurstöðum um hvað séu gildandi lög, en álitamál sem þessi eru nátengd spurningum um almenn einkenni eða eðli laga. Lögfræðin fæst því til dæmis við að skýra hvers vegna lögfræðinga greinir á um hvað séu gildandi lög og hvaða sjónarmið og aðferðir leiði til ólíkra niðurstaðna þeirra.

Segja má að þessi almenni hluti lögfræðinnar sé undirstaða allra annarra greina lögfræðinnar sem fjalla um gildandi réttarreglur á ákveðnu sviði. Af þessum sökum er almenn lögfræði kennd þegar á fyrsta ári í lagadeild Háskóla Íslands þótt ljóst sé að hér er oft um nokkuð erfið viðfangsefni að ræða. Að því loknu taka við ýmsar greinar í hinum sérstaka hluta lögfræðinnar, svo sem stjórnskipunarréttur, samningaréttur, sifjaréttur og skaðabótaréttur, en að loknum þremur árum geta laganemar valið milli ýmissa kjörgreina.

Flest fullorðið fólk kann allmikið af gildandi lögum samfélagsins, yfirleitt án þess að hafa nokkurn tímann lagt skipulega stund á lögfræði. Hér má nefna sem dæmi umferðarreglurnar sem byrjað er að kenna nemendum á Íslandi þegar í fyrstu bekkjum grunnskóla. Þannig er ljóst að hægt er að læra lög án þess að leggja stund á lögfræði. Með öðrum orðum er mögulegt að öðlast gagnrýnislaust þekkingu á efni laga í samfélagi sínu og um leið öðlast virðingu fyrir þeim.

Munurinn á laganámi sem þessu og því laganámi sem fram fer í háskóla felst í grófum dráttum í því að í háskóla er fjallað á gagnrýninn eða fræðilegan hátt um ýmis grundvallaratriði laga og réttar. Auk þess er leitast við að skýra gildandi lög samfélagsins á hinum ýmsu sviðum út í ystu æsar með hliðsjón af hverju tilviki sem upp kann að koma en úrlausn slíkra álitamála er oft háð afstöðu manna til ýmissa grundvallarspurninga um lögin. Þannig styður almenna lögfræðin við hin einstöku svið lögfræðinnar, eins og áður segir. Þetta sést ágætlega þegar lögfræðinga greinir á um ýmis efni stjórnskipunarréttar, til dæmis mannréttindi, þar sem hugtök eins og lýðræði, réttarríki, réttlæti og jafnræði skjóta iðulega upp kollinum. Lögfræðilegur ágreiningur er þó síður en svo bundinn við stjórnskipunarrétt þótt þessi ágreiningur sé líklega kunnastur almenningi vegna umræðu um ýmsa dóma Hæstaréttar á þessu sviði undanfarin ár.

Lögfræðingar þurfa að sjálfsögðu að kunna skil á þeim aðferðum sem almennt eru viðurkenndar í samfélaginu á hverjum tíma við að komast að niðurstöðu um lög. Auk þessa þurfa lögfræðingar að þekkja efni fjölmargra réttarreglna þótt lögfræðingar séu auðvitað ekki gangandi laga- og dómasöfn. Það sem lögfræðingar eiga að hafa umfram ólöglærða er ekki aðeins þekking á fleiri réttarreglum heldur einnig dýpri skilningur á lögunum. Þessi skilningur er síðan nauðsynlegur þegar leysa þarf úr erfiðum spurningum um lög og rétt sem iðulega koma upp, einkum fyrir dómstólum.

Samkvæmt þessu getur lögfræðin aldrei fjallað gagnrýnislaust um lögin, ef hún á að standa undir nafni sem akademísk fræðigrein. Af þessu leiðir þá einnig að laganám getur aldrei orðið „forritun á ákveðnum hugsunarhætti” nema þá ef til vill einhvers konar forritun á gagnrýninni hugsun og afstöðu til laganna.

Mynd:

Höfundur

lektor við lagadeild HÍ

Útgáfudagur

23.1.2001

Spyrjandi

Vilborg Gissurardóttir

Tilvísun

Skúli Magnússon. „Er lögfræðinám forritun á hugsunarhætti? Hvernig er námið skipulagt?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2001. Sótt 6. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=1291.

Skúli Magnússon. (2001, 23. janúar). Er lögfræðinám forritun á hugsunarhætti? Hvernig er námið skipulagt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1291

Skúli Magnússon. „Er lögfræðinám forritun á hugsunarhætti? Hvernig er námið skipulagt?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2001. Vefsíða. 6. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1291>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er lögfræðinám forritun á hugsunarhætti? Hvernig er námið skipulagt?
Eitt af viðfangsefnum lögfræðinnar er að fjalla um sig sjálfa, ef svo má að orði komast. Lögfræðin leitar þannig svara við því hvernig lögfræðingar komist að niðurstöðum um hvað séu gildandi lög, en álitamál sem þessi eru nátengd spurningum um almenn einkenni eða eðli laga. Lögfræðin fæst því til dæmis við að skýra hvers vegna lögfræðinga greinir á um hvað séu gildandi lög og hvaða sjónarmið og aðferðir leiði til ólíkra niðurstaðna þeirra.

Segja má að þessi almenni hluti lögfræðinnar sé undirstaða allra annarra greina lögfræðinnar sem fjalla um gildandi réttarreglur á ákveðnu sviði. Af þessum sökum er almenn lögfræði kennd þegar á fyrsta ári í lagadeild Háskóla Íslands þótt ljóst sé að hér er oft um nokkuð erfið viðfangsefni að ræða. Að því loknu taka við ýmsar greinar í hinum sérstaka hluta lögfræðinnar, svo sem stjórnskipunarréttur, samningaréttur, sifjaréttur og skaðabótaréttur, en að loknum þremur árum geta laganemar valið milli ýmissa kjörgreina.

Flest fullorðið fólk kann allmikið af gildandi lögum samfélagsins, yfirleitt án þess að hafa nokkurn tímann lagt skipulega stund á lögfræði. Hér má nefna sem dæmi umferðarreglurnar sem byrjað er að kenna nemendum á Íslandi þegar í fyrstu bekkjum grunnskóla. Þannig er ljóst að hægt er að læra lög án þess að leggja stund á lögfræði. Með öðrum orðum er mögulegt að öðlast gagnrýnislaust þekkingu á efni laga í samfélagi sínu og um leið öðlast virðingu fyrir þeim.

Munurinn á laganámi sem þessu og því laganámi sem fram fer í háskóla felst í grófum dráttum í því að í háskóla er fjallað á gagnrýninn eða fræðilegan hátt um ýmis grundvallaratriði laga og réttar. Auk þess er leitast við að skýra gildandi lög samfélagsins á hinum ýmsu sviðum út í ystu æsar með hliðsjón af hverju tilviki sem upp kann að koma en úrlausn slíkra álitamála er oft háð afstöðu manna til ýmissa grundvallarspurninga um lögin. Þannig styður almenna lögfræðin við hin einstöku svið lögfræðinnar, eins og áður segir. Þetta sést ágætlega þegar lögfræðinga greinir á um ýmis efni stjórnskipunarréttar, til dæmis mannréttindi, þar sem hugtök eins og lýðræði, réttarríki, réttlæti og jafnræði skjóta iðulega upp kollinum. Lögfræðilegur ágreiningur er þó síður en svo bundinn við stjórnskipunarrétt þótt þessi ágreiningur sé líklega kunnastur almenningi vegna umræðu um ýmsa dóma Hæstaréttar á þessu sviði undanfarin ár.

Lögfræðingar þurfa að sjálfsögðu að kunna skil á þeim aðferðum sem almennt eru viðurkenndar í samfélaginu á hverjum tíma við að komast að niðurstöðu um lög. Auk þessa þurfa lögfræðingar að þekkja efni fjölmargra réttarreglna þótt lögfræðingar séu auðvitað ekki gangandi laga- og dómasöfn. Það sem lögfræðingar eiga að hafa umfram ólöglærða er ekki aðeins þekking á fleiri réttarreglum heldur einnig dýpri skilningur á lögunum. Þessi skilningur er síðan nauðsynlegur þegar leysa þarf úr erfiðum spurningum um lög og rétt sem iðulega koma upp, einkum fyrir dómstólum.

Samkvæmt þessu getur lögfræðin aldrei fjallað gagnrýnislaust um lögin, ef hún á að standa undir nafni sem akademísk fræðigrein. Af þessu leiðir þá einnig að laganám getur aldrei orðið „forritun á ákveðnum hugsunarhætti” nema þá ef til vill einhvers konar forritun á gagnrýninni hugsun og afstöðu til laganna.

Mynd:...