Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 01:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:37 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:53 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Gera Íslendingar tilkall til allra nýrra eyja sem gætu myndast á Mið-Atlantshafshryggnum?

Halldór Gunnar Haraldsson

Nei, íslenska ríkið hefur ekki gert slíkt tilkall. Íslenska landhelgin er, samkvæmt 1. gr. laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, mörkuð af línu sem nær 12 sjómílur út frá svokölluðum grunnlínum. Innan grunnlínanna eru flóar og firðir landsins. Íslenska ríkið hefur fullveldisrétt yfir landhelginni. Í honum felst fullur og óskoraður ríkisyfirráðaréttur sem að mestu er sambærilegur við yfirráð ríkisins yfir landinu.

Utan landhelginnar er efnahagslögsagan, en hún nær 200 sjómílur út frá grunnlínum. Efnahagslögsögunni er í daglegu tali oft ruglað saman við landhelgina. Yfirráð íslenska ríkisins yfir efnahagslögsögunni eru þó minni en í landhelginni.

Þá geta ríki gert tilkall til ákveðinna réttinda á svokölluðu landgrunni sem getur náð út fyrir efnahagslögsöguna. Er hið lögfræðilega landgrunn, sem ekki má rugla saman við jarðfræðilegt landgrunn, skilgreint í 76. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna.

Spyrjandi gerir væntanlega ráð fyrir því að Mið-Atlantshafshryggurinn allur geti talist til íslenska landgrunnsins. Svo er þó ekki því í 3. mgr. 76. gr. samningsins segir að "hinn djúpi hafsbotn með úthafshryggjum sínum eða jarðlögin undir honum" teljist ekki til landgrunnsins. Auk þess fela landgrunnsréttindin aðeins í sér ákveðin réttindi til nýtingar auðlinda hafsbotnsins en ekki fullan ríkisyfirráðarétt. Af þessu má ljóst vera að vandséð er hvernig íslenska ríkið ætti að fara að því að rökstyðja tilkall til allra nýrra eyja sem gætu myndast á Mið-Atlantshafshryggnum með vísan til 76. gr. samningsins.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Landnám er vitaskuld heimilt samkvæmt þjóðarétti. Íslendingar gætu vissulega numið land á nýrri eyju sem myndaðist á Mið-Atlantshafshryggnum, svo framarlega sem ekkert annað ríki ætti lögformlegt tilkall til slíkrar eyjar. Fyrir því að öðlast yfirráð yfir landi með landnámi eru samkvæmt þjóðarétti sett tvö meginskilyrði. Í fyrsta lagi þarf ótvíræður vilji til ríkisyfirráða að vera fyrir hendi og í annan stað þyrfti framkvæmd slíks drottinvalds að vera ótvíræð.

Með ótvíræðri framkvæmd drottinvalds er átt við einhvers konar aðgerðir. Yfirlýsingar duga ekki einar og sér. Hér má taka sem dæmi að 10. júlí 1931 lýsti Noregur yfir landnámi sínu á Austur-Grænlandi. Danir mótmæltu og endaði deilan fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Danir unnu málið þar sem þeir höfðu verið fyrri til að taka sér ríkisyfirráð og halda þeim fram á ótvíræðan hátt.

Heimild

Gunnar G. Schram, Ágrip af þjóðarétti, útg. 1984

Höfundur

Útgáfudagur

8.2.2001

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Halldór Gunnar Haraldsson. „Gera Íslendingar tilkall til allra nýrra eyja sem gætu myndast á Mið-Atlantshafshryggnum?“ Vísindavefurinn, 8. febrúar 2001. Sótt 18. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1326.

Halldór Gunnar Haraldsson. (2001, 8. febrúar). Gera Íslendingar tilkall til allra nýrra eyja sem gætu myndast á Mið-Atlantshafshryggnum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1326

Halldór Gunnar Haraldsson. „Gera Íslendingar tilkall til allra nýrra eyja sem gætu myndast á Mið-Atlantshafshryggnum?“ Vísindavefurinn. 8. feb. 2001. Vefsíða. 18. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1326>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Gera Íslendingar tilkall til allra nýrra eyja sem gætu myndast á Mið-Atlantshafshryggnum?
Nei, íslenska ríkið hefur ekki gert slíkt tilkall. Íslenska landhelgin er, samkvæmt 1. gr. laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, mörkuð af línu sem nær 12 sjómílur út frá svokölluðum grunnlínum. Innan grunnlínanna eru flóar og firðir landsins. Íslenska ríkið hefur fullveldisrétt yfir landhelginni. Í honum felst fullur og óskoraður ríkisyfirráðaréttur sem að mestu er sambærilegur við yfirráð ríkisins yfir landinu.

Utan landhelginnar er efnahagslögsagan, en hún nær 200 sjómílur út frá grunnlínum. Efnahagslögsögunni er í daglegu tali oft ruglað saman við landhelgina. Yfirráð íslenska ríkisins yfir efnahagslögsögunni eru þó minni en í landhelginni.

Þá geta ríki gert tilkall til ákveðinna réttinda á svokölluðu landgrunni sem getur náð út fyrir efnahagslögsöguna. Er hið lögfræðilega landgrunn, sem ekki má rugla saman við jarðfræðilegt landgrunn, skilgreint í 76. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna.

Spyrjandi gerir væntanlega ráð fyrir því að Mið-Atlantshafshryggurinn allur geti talist til íslenska landgrunnsins. Svo er þó ekki því í 3. mgr. 76. gr. samningsins segir að "hinn djúpi hafsbotn með úthafshryggjum sínum eða jarðlögin undir honum" teljist ekki til landgrunnsins. Auk þess fela landgrunnsréttindin aðeins í sér ákveðin réttindi til nýtingar auðlinda hafsbotnsins en ekki fullan ríkisyfirráðarétt. Af þessu má ljóst vera að vandséð er hvernig íslenska ríkið ætti að fara að því að rökstyðja tilkall til allra nýrra eyja sem gætu myndast á Mið-Atlantshafshryggnum með vísan til 76. gr. samningsins.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Landnám er vitaskuld heimilt samkvæmt þjóðarétti. Íslendingar gætu vissulega numið land á nýrri eyju sem myndaðist á Mið-Atlantshafshryggnum, svo framarlega sem ekkert annað ríki ætti lögformlegt tilkall til slíkrar eyjar. Fyrir því að öðlast yfirráð yfir landi með landnámi eru samkvæmt þjóðarétti sett tvö meginskilyrði. Í fyrsta lagi þarf ótvíræður vilji til ríkisyfirráða að vera fyrir hendi og í annan stað þyrfti framkvæmd slíks drottinvalds að vera ótvíræð.

Með ótvíræðri framkvæmd drottinvalds er átt við einhvers konar aðgerðir. Yfirlýsingar duga ekki einar og sér. Hér má taka sem dæmi að 10. júlí 1931 lýsti Noregur yfir landnámi sínu á Austur-Grænlandi. Danir mótmæltu og endaði deilan fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Danir unnu málið þar sem þeir höfðu verið fyrri til að taka sér ríkisyfirráð og halda þeim fram á ótvíræðan hátt.

Heimild

Gunnar G. Schram, Ágrip af þjóðarétti, útg. 1984...