Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Af hverju ætti Guð að leiða okkur í freistni eins og segir í Faðirvorinu?

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

Faðir vor er bænin sem Jesús kenndi okkur. Það er að finna á tveimur stöðum í Nýja testamentinu, annars vegar í Fjallræðu Jesú í Matteusarguðspjalli, 6. kapitula, 9.-13. versi og hins vegar í Lúkasarguðspjalli, 11. kapitula, 2.-4. versi.

Útgáfan í Fjallræðunni er sú sem er okkur töm. Þar kemur Faðir vor á eftir orðum þar sem Jesús varar menn við að nota ónytjumælgi í bænum sínum að hætti heiðingja sem "hyggja að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína." Jesús segir að við skulum ekki líkjast þeim af því að "faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann." Samt sem áður álítur Jesús bæn ekki óþarfa því að hann segir í beinu framhaldi þessara orða: "En þannig skuluð þér biðja." Og síðan fylgir Faðir vorið sem hin eiginlega, sanna eða rétta bæn.

Bænir Faðir vorsins eru alls sjö og er bæn sú sem hér er spurt um, "eigi leið þú oss í freistni," sjötta bænin. Orðið sem þýtt er með freistni er á frummáli Nýja testamentisins "peirasmos" sem þýðir freisting, raunir, erfiðleikar, erfið reynsla. Í bæninni biðjum við með öðrum orðum þess að Guð leiði okkur ekki inn í freistingar eða erfiðleika.

Orðalag bænarinnar hefur vafist fyrir mönnum á öllum öldum. Menn hafa ætíð ratað í raunir og freistingar og andspænis þeim hafa menn spurt með Faðir vor í huga: Er það faðir vor á himnum sem leiðir okkur í slíkar ógöngur? Flestir þeir kristnu kennimenn sem hafa fjallað um Faðir vorið hafa skilið sjöttu bænina svo að í henni biðjum við fyrst og fremst um vernd í freistingum og raunum. Þá skýringu lesum við meðal annars í Hómilíubókinni íslensku og sömuleiðis í Fræðum Lúthers minni sem hefur til þessa verið uppistaðan í fermingarlærdómnum. Bæði Hómilíubókin og Lúther eru sammála um að Guð freisti einskis manns og við séum þess vegna hér að biðja um vernd svo að freistingar og raunir þessa lífs verði ekki til þess að við glötum trúnni og voninni. Og þess má geta að skýringar Hómilíubókar og Lúthers eru báðar bergmál af skýringum Ágústínusar á Fjallræðunni mörgum öldum fyrr.

Páll postuli er hugsanlega að takast á við sama vandamál þegar hann segir í fyrra Korintubréfi: "Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um að þér fáið staðist." (1Kor 10.23) Þarna segir hann að Guð láti ekki freista okkar umfram það sem við þolum og muni koma því til leiðar að við stöndumst þegar hann reyni okkur. Í frumtextanum koma þarna fyrir nafnorðið "peirasmos" og sögn sem leidd er af því.

Og nú er það svo, að margt trúað fólk hefur á öllum öldum vitnað um að Guð hafi lagt á það þungar raunir en haldið slíkri verndarhendi yfir því að það stóðst og kom sterkara út úr erfiðleikunum en það var áður. Ugglaust þekkjum við það mörg úr eigin lífi að raunir og erfiðleikar hafi styrkt okkur til þess að takast á við lífið. Að trúað fólk metur það svo að Guð sé að reyna það þegar erfiðleikar dynja yfir er af þeirri sök að fólk sem treystir leiðsögn Guðs, getur ekki viðurkennt að Guð hafi sleppt af því hendinni þegar það lendir í erfiðleikum og vill því hugga sig við að Guð hafi lagt raunirnar á það. Jafnframt þakkar fólk Guði fyrir að hann lét það standast þessa erfiðleika svo að það kom jafnvel sterkara út úr þeim. Við þekkjum svona vitnisburð úr munni og penna margs fólks fyrr og síðar.

Þarna er að sjálfsögðu um að ræða skýringar fólks eftir á. Erfiðleikar og raunir geta ekki verið neitt sem fólk biður um. En ef við höfum þá vitund að Guð sé sá sem leiði okkur, styðji og verndi, þá trúum við því líka að hann dragi ekki hönd sína aftur í erfiðleikunum heldur treystum við því að hann sé hjá okkur einnig þar. Og Guð sér hlutina fyrirfram. Við getum aðeins gert okkur grein fyrir þeim eftir á.

Bænina "eigi leið þú oss í freistni" biðjum við í trausti þess að Guð leiði okkur líka í freistingum og raunum þessa lífs, að Guð leiði okkur svo að freistingin reynist okkur ekki um megn. Í bæninni biðjum við þá þess að við megum halda trú okkar, trausti og von, líka í erfiðum freistingum og raunum. Sjöunda bænin fylgir þá í rökréttu framhaldi: Heldur frelsa oss frá illu. Sjöttu og sjöundu bænina virðist því mega umrita þannig: Vernda þú okkur í raunum og erfiðleikum og frelsa okkur frá öllu böli.

Er þá ekki rétt að breyta orðalaginu og segja: Vernda oss fyrir freistingum? Það er ekki alls kostar víst að við þurfum að gera það. En bænina biðjum við hins vegar ekki í skilningslausri blindu heldur leggjum við þá merkingu í hana sem okkur virðist rétt út frá trú okkar á Guð og er í samræmi við trúarreynslu okkar og forfeðra okkar og mæðra. Þar stendur upp úr sá skilningur að við biðjum hér um leiðsögn Guðs og vernd í freistingum og því er rétt að leggja þá merkingu í bænina. Þess vegna er mikill sannleikur fólginn í því sem Lúther segir í útleggingu sinni á Fjallræðunni: "Í Faðir vorinu er það fremur svo að Guð kennir okkur það sem við þörfnumst en að við séum að fræða hann um þarfir okkar."

Höfundur

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

prófessor í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

26.2.2000

Spyrjandi

Gunnar Bergmann

Tilvísun

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Af hverju ætti Guð að leiða okkur í freistni eins og segir í Faðirvorinu?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2000. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=145.

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). (2000, 26. febrúar). Af hverju ætti Guð að leiða okkur í freistni eins og segir í Faðirvorinu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=145

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Af hverju ætti Guð að leiða okkur í freistni eins og segir í Faðirvorinu?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2000. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=145>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju ætti Guð að leiða okkur í freistni eins og segir í Faðirvorinu?
Faðir vor er bænin sem Jesús kenndi okkur. Það er að finna á tveimur stöðum í Nýja testamentinu, annars vegar í Fjallræðu Jesú í Matteusarguðspjalli, 6. kapitula, 9.-13. versi og hins vegar í Lúkasarguðspjalli, 11. kapitula, 2.-4. versi.

Útgáfan í Fjallræðunni er sú sem er okkur töm. Þar kemur Faðir vor á eftir orðum þar sem Jesús varar menn við að nota ónytjumælgi í bænum sínum að hætti heiðingja sem "hyggja að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína." Jesús segir að við skulum ekki líkjast þeim af því að "faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann." Samt sem áður álítur Jesús bæn ekki óþarfa því að hann segir í beinu framhaldi þessara orða: "En þannig skuluð þér biðja." Og síðan fylgir Faðir vorið sem hin eiginlega, sanna eða rétta bæn.

Bænir Faðir vorsins eru alls sjö og er bæn sú sem hér er spurt um, "eigi leið þú oss í freistni," sjötta bænin. Orðið sem þýtt er með freistni er á frummáli Nýja testamentisins "peirasmos" sem þýðir freisting, raunir, erfiðleikar, erfið reynsla. Í bæninni biðjum við með öðrum orðum þess að Guð leiði okkur ekki inn í freistingar eða erfiðleika.

Orðalag bænarinnar hefur vafist fyrir mönnum á öllum öldum. Menn hafa ætíð ratað í raunir og freistingar og andspænis þeim hafa menn spurt með Faðir vor í huga: Er það faðir vor á himnum sem leiðir okkur í slíkar ógöngur? Flestir þeir kristnu kennimenn sem hafa fjallað um Faðir vorið hafa skilið sjöttu bænina svo að í henni biðjum við fyrst og fremst um vernd í freistingum og raunum. Þá skýringu lesum við meðal annars í Hómilíubókinni íslensku og sömuleiðis í Fræðum Lúthers minni sem hefur til þessa verið uppistaðan í fermingarlærdómnum. Bæði Hómilíubókin og Lúther eru sammála um að Guð freisti einskis manns og við séum þess vegna hér að biðja um vernd svo að freistingar og raunir þessa lífs verði ekki til þess að við glötum trúnni og voninni. Og þess má geta að skýringar Hómilíubókar og Lúthers eru báðar bergmál af skýringum Ágústínusar á Fjallræðunni mörgum öldum fyrr.

Páll postuli er hugsanlega að takast á við sama vandamál þegar hann segir í fyrra Korintubréfi: "Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um að þér fáið staðist." (1Kor 10.23) Þarna segir hann að Guð láti ekki freista okkar umfram það sem við þolum og muni koma því til leiðar að við stöndumst þegar hann reyni okkur. Í frumtextanum koma þarna fyrir nafnorðið "peirasmos" og sögn sem leidd er af því.

Og nú er það svo, að margt trúað fólk hefur á öllum öldum vitnað um að Guð hafi lagt á það þungar raunir en haldið slíkri verndarhendi yfir því að það stóðst og kom sterkara út úr erfiðleikunum en það var áður. Ugglaust þekkjum við það mörg úr eigin lífi að raunir og erfiðleikar hafi styrkt okkur til þess að takast á við lífið. Að trúað fólk metur það svo að Guð sé að reyna það þegar erfiðleikar dynja yfir er af þeirri sök að fólk sem treystir leiðsögn Guðs, getur ekki viðurkennt að Guð hafi sleppt af því hendinni þegar það lendir í erfiðleikum og vill því hugga sig við að Guð hafi lagt raunirnar á það. Jafnframt þakkar fólk Guði fyrir að hann lét það standast þessa erfiðleika svo að það kom jafnvel sterkara út úr þeim. Við þekkjum svona vitnisburð úr munni og penna margs fólks fyrr og síðar.

Þarna er að sjálfsögðu um að ræða skýringar fólks eftir á. Erfiðleikar og raunir geta ekki verið neitt sem fólk biður um. En ef við höfum þá vitund að Guð sé sá sem leiði okkur, styðji og verndi, þá trúum við því líka að hann dragi ekki hönd sína aftur í erfiðleikunum heldur treystum við því að hann sé hjá okkur einnig þar. Og Guð sér hlutina fyrirfram. Við getum aðeins gert okkur grein fyrir þeim eftir á.

Bænina "eigi leið þú oss í freistni" biðjum við í trausti þess að Guð leiði okkur líka í freistingum og raunum þessa lífs, að Guð leiði okkur svo að freistingin reynist okkur ekki um megn. Í bæninni biðjum við þá þess að við megum halda trú okkar, trausti og von, líka í erfiðum freistingum og raunum. Sjöunda bænin fylgir þá í rökréttu framhaldi: Heldur frelsa oss frá illu. Sjöttu og sjöundu bænina virðist því mega umrita þannig: Vernda þú okkur í raunum og erfiðleikum og frelsa okkur frá öllu böli.

Er þá ekki rétt að breyta orðalaginu og segja: Vernda oss fyrir freistingum? Það er ekki alls kostar víst að við þurfum að gera það. En bænina biðjum við hins vegar ekki í skilningslausri blindu heldur leggjum við þá merkingu í hana sem okkur virðist rétt út frá trú okkar á Guð og er í samræmi við trúarreynslu okkar og forfeðra okkar og mæðra. Þar stendur upp úr sá skilningur að við biðjum hér um leiðsögn Guðs og vernd í freistingum og því er rétt að leggja þá merkingu í bænina. Þess vegna er mikill sannleikur fólginn í því sem Lúther segir í útleggingu sinni á Fjallræðunni: "Í Faðir vorinu er það fremur svo að Guð kennir okkur það sem við þörfnumst en að við séum að fræða hann um þarfir okkar."

...