Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í Marteini Lúther mætast andstæður, jafnvel öfgar. Þetta á jafnt við um persónu Lúthers og þá hreyfingu sem hann ýtti úr vör. Þegar í aflátsdeilunum 1517 verður ljóst að breytingarnar sem guðfræði Lúthers fela í sér er ekki hægt að skilgreina með tilvísun til tíðarandans, skipulags samfélagsins eða uppbyggingar kirkjunnar. Hér var um að ræða eitthvað nýtt og meira.
Með guðfræði sinni veitti Lúther hjálpræðiskerfi kirkjunnar nýjan grundvöll.1 Hann setti fram á skýran hátt að hjálpræði mannsins væri alfarið að finna í sambandi hans við Guð, sem mótaðist annaðhvort af viðleitninni til að skilgreina sig í krafti verka sinna eða náðar Guðs. Ef maðurinn byggir á verkum sínum og fetar veg verkaréttlætingar veldur það sálarangist sem steypir honum að lokum í glötun. Ef maðurinn tekur hins vegar við náð Guðs í trú og leyfir henni að móta persónu sína, sjálfsskilning og lífsafstöðu, þá öðlast hann hjálpræðið. Niðurstaða Lúthers er ótvíræð, annaðhvort er maðurinn skilgreindur af veruleika lögmálsins eða fagnaðarerindisins.
Kenning Lúthers um aðgreiningu lögmáls og fagnaðarerindis hefur allar götur síðan mótað evangelísk-lútherska guðfræði,2 en um aðgreininguna verður fjallað hér á eftir. Hún leiddi til uppgjörs við hjálpræðiskerfi rómversk-katólsku kirkjunnar og átti ríkan þátt í því að ryðja því tímabili sögunnar braut sem kallast nútími.3 Svo mjög kvað að guðfræði Lúthers að menn, borgir og ríki skiptust í hópa eftir afstöðu sinni til hennar. Það kemur því lítt á óvart að þýski guðfræðingurinn Friedrich Wilhelm Graf hefji umfjöllun sína um kirkjudeildir mótmælenda á orðunum: „Í upphafi var Lúther.“4Æviágrip
Marteinn Lúther fæddist 10. nóvember 1483 í Eisleben. Foreldrar hans tilheyrðu millistétt þess tíma og veittu honum gott uppeldi á þeirra tíma mælikvarða. Lúther var sendur í barna- eða alþýðuskóla í Mansfeld þar sem fjölskylda hans bjó en menntaskólanám sitt sótti hann í Magdeburg. 1501 hefur Lúther háskólanám í Erfurt og lýkur þaðan meistaraprófi 1505 og skráir sig í lögfræði. Eftir að hafa lent í lífsháska og í kjölfar tilvistaruppgjörs sem því fylgdi hættir Lúther lögfræðináminu og gerist munkur í betlimunkareglu sem kennd er við Ágústínus. Regla þessi var ströng og þekkt fyrir áherslu á fræðistörf og fræðsluskyldu þeirra sem henni tilheyrðu.
Árið 1507 tekur Lúther prestvígslu og er frá og með 1512 prófessor í ritskýringu við háskólann í Wittenberg. Embættinu fylgdu prestsskyldur eins og sálusorgun og guðsþjónusta. Þessi þáttur starfsins og tengsl hans við ritskýringu knúðu Lúther til að taka afstöðu til aflátssölu kirkjunnar. Í ljósi þeirrar niðurstöðu sem af ritskýringarstarfi hans leiddi sá hann sig knúinn 31. október 1517 til að festa 95 greinar gegn aflátssölunni á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg.5 Greinarnar leystu úr læðingi miklar deilur um aflátið og þann grundvöll sem Rómarkirkja vildi byggja hjálpræðiskerfi sitt á. Samkvæmt vitnisburði Lúthers hafði hann nokkru áður enduruppgötvað kenningu Páls postula um réttlætingu af trú. Inntak hennar er að maðurinn réttlætist fyrir náð sem hann meðtekur í trú á Krist, en ekki fyrir verk og eigin helgi. Kenning Páls varð til þess að Lúther öðlaðist hjálpræðisvissu, en það var nokkuð sem hjálpræðiskerfi miðaldakirkjunnar reyndist ófært um að veita mönnum.6 Í ljósi kenningarinnar um réttlætingu af trú ber, að áliti Lúthers, að taka ritninguna og vitnisburð hennar um Krist fram yfir hefðina og kennivald kirkjunnar. Trúin, Kristur, náðin og ritningin er mælistikan sem meta ber kirkjuna og kenningar hennar eftir.
Lúther lenti fljótlega í andstöðu við yfirmenn innan rómversku kirkjunnar og var krafinn um að afturkalla kenningar sínar. Það gerði hann þó ekki. Fyrir vikið bannfærði páfi hann en þeirri bannfæringu svaraði Lúther með því að brenna bannfæringarbréfið, páfalögin og rit sem fólu í sér hinn kanónska rétt.7 Fræðimenn deila um hvor atburðurinn hafi verið þýðingarmeiri, birtingin á greinunum 95 eða að brenna búllu páfa og kirkjuréttinn. Með því að gera það með svo táknrænum hætti má segja að sú skoðun hafi orðið ofan á að ein lög næðu yfir alla þegna, hvort sem þeir væru í þjónustu kirkjunnar eða ekki. Kanónskur réttur vék nú fyrir landslögum.
Eftir þessa atburði neyddist Lúther til að taka fyrir og gagnrýna æ fleiri þætti í hjálpræðiskenningu kirkjunnar sem vörðuðu hreinsunareldinn, sálumessur, dýrkun helgra manna, einlífi klerka, óskeikulleika páfa og svo framvegis.8 Þetta hafði þær afleiðingar að Lúther var stefnt 1521 á ríkisþing það sem Karl keisari V. hélt í Worms. Á þinginu var honum skipað að taka allt aftur sem hann hafði sagt, en þá féllu hin frægu orð Lúthers:
Verði ég ekki sannfærður með vitnisburði ritningarinnar og skýrum rökum — því að ég trúi hvorki páfa né kirkjuþingum, þar sem fullvíst er, að þeim hefur oft skjátlast og þau andmælt sjálfum sér, — þá fæ ég ekki staðist þau ritningarrök, sem ég hef vísað til. Og þar sem samviska mín er bundin í orði Guðs,9 get ég hvorki né vil afturkalla nokkuð, því að það er ekki áhættulaust eða heiðarlegt að breyta gegn samvisku sinni.10 Guð hjálpi mér. Amen.11
Í þessum orðum endurspeglast nýr skilningur á stöðu mannsins frammi fyrir Guði og heiminum. Hann gjörbreytir afstöðu manna til hlutverks og samspils skynsemi og trúar, veraldlegs og kirkjulegs valds. Kenningar Lúthers féllu í frjóan jarðveg innan háskólasamfélagsins og kirkjunnar, svo og hjá alþýðu manna, auk þess sem veraldleg yfirvöld lögðu við hlustir.
Lúther á ríkisþinginu í Worms. Málverk eftir Anton Alexander von Werner (1843-1915).
Eftir þetta fór Lúther frá Worms, en að undirlagi kjörfurstans af Saxlandi var hann handtekinn og leiddur í Wartburgarkastala í Saxlandi. Þar dvaldi hann í níu mánuði og þýddi Nýja testamentið úr grísku yfir á þýsku. Hún telst eitt af þrekvirkjunum í sögu biblíuþýðinga. Er Lúther frétti að starfsbróðir sinn, Karlstadt, hefði ásamt öðrum brotist inn í kirkjur og rifið niður myndir, ölturu og flæmt burt presta, sneri hann aftur og prédikaði í sjö daga á móti slíkum ofsa og kom hlutum aftur í lag. Eftir það dvaldi hann í Wittenberg, kenndi þar áfram og vann að framgangi siðbótarinnar, meðal annars með því að endurskipuleggja menntakerfið, uppbyggingu háskólans og kirkjunnar. Auk þess samdi hann mörg rit er sneru að ritskýringu ritningarinnar, sambandi veraldlegs og andlegs valds, og svo framvegis.
Segja má að í ritum sínum hafi Lúther verið fátt óviðkomandi. Með skrifum sínum tókst Lúther að koma í veg fyrir styrjöld milli kirkjudeildanna á meðan hann lifði. Hann bað presta að lifa grandvarlega, iðka vísindi og kenna í söfnuðum sínum. Þetta hafði þær afleiðingar að heimili presta urðu að menningarsetrum í löndum mótmælenda og mörg andans stórmenni koma frá þeim eða hafa notið á einhvern hátt góðs af þeim. Sjálfur kvæntist Marteinn Katarínu frá Bóra 1525, mitt í Bændauppreisninni, og má færa að því rök að með þeirri athöfn hafi hann bylt jafnvel meiru en með greinunum 95 og því að brenna búllu páfa. Lúther starfaði alla sína starfsævi í Wittenberg en lést á ferðalagi til Eisleben 18. febrúar 1546.
Innan fræðanna er greint á milli guðfræði hins unga og aldna Lúthers. Árið sem menn vilja staðsetja þessa breytingu í guðfræði hans er í kringum 1530. Í nýrri rannsóknum hefur verið bent á, að þennan áherslumun beri ekki að leita í persónu Lúthers og guðfræði, heldur í þeirri breyttu stöðu sem skapaðist eftir Ágsborgarfundinn 1530, þar eð eftir hann varð mönnum ljóst að sættir myndu ekki nást. Guðfræðilegur ágreiningur leiddi til æ meiri munar á kirkjudeildum. Eftir 1530 byrjuðu þær að mótast fyrir alvöru og borgir, furstadæmi og lönd að móta kirkjur sínar í samræmi við þær kirkjudeildir sem þau fylgdu.12
Árið 1522 þýddi Marteinn Lúther Nýja testamentið úr frummálinu á þýsku á nokkrum mánuðum. Síðar tók hann einnig til við að þýða Gamla testamentið úr hebresku og var Biblían í heild í þýðingu Lúthers gefin út árið 1534.
Lögmál og fagnaðarerindi
Til þess að gera grein fyrir guðfræði Marteins Lúthers er nauðsynlegt að þekkja til kenningarinnar um lögmál og fagnaðarerindi: Veruleikinn er reglubundinn, það er að segja heiminum er haldið saman af náttúrulögmálum og siðalögmálum sem gilda í samskiptum manna. Þegar þessi lögmál eru látin standa eins og þau koma fyrir er talað um „fyrstu notkun lögmálsins“. Það felur í sér að maðurinn greinir gildi lögmálsins fyrir allt líf sitt. Hér undir falla svokallaðar skikkanir skaparans eða stofnanir samfélagsins í öllum sínum margbreytileika. Staða mannsins sem syndari – það er í þverstæðufullum og firrtum veruleika – veldur því að hann notar siðalögmálin og náttúrulögmálin jöfnum höndum til að réttlæta sjálfan sig frammi fyrir Guði. Þegar lögmálið er þannig slitið úr sínu eðlilega samhengi verður það að tæki í samvisku mannsins sem Guð notar til að ásaka hann með og ljúka upp fyrir honum þverbrestum mannlegrar tilveru. Í þessu samhengi er talað um „aðra notkun lögmálsins“ en þegar maðurinn er bundinn lögmálinu á þennan hátt verða samviskuspurningar hans að hreinum vítiskvölum.
Nauðsynlegt er að greina skýrt á milli fyrstu og annarrar notkunar lögmálsins vegna þess að í reynslu mannsins er enginn slíkur greinarmunur. Aðgreining fyrstu og annarrar notkunar lögmálsins er einungis möguleg fyrir boðun fagnaðarerindisins. Í ljósi þess er lögmálinu vísað út úr innri veruleika mannsins (það er hjarta og samvisku) og það bundið við sitt eiginlega svið, sem er í hinum ytri veruleika. Fyrirgefningarorð Krists — sem felst í fagnaðarerindinu — á að ráða í hjarta mannsins en lögmál Guðs í fyrstu notkuninni heldur ytri veruleikanum saman.
Flestum er sú hugsun framandi að fagnaðarerindið noti lögmálið eins og tæki í þjónustu trúarinnar og að það fyrrnefnda knýi manninn til að virða fyrstu notkun þess.13 Þessa hugsun mætti orða svo að glíma mannsins við lögmálið í annarri notkun þess snertir tilvistarstöðu mannsins og mætir fagnaðarerindið honum þá sem persónulegur huggunarboðskapur. Í starfi kirkjunnar fer þessi huggun fram í sálusorgun, stórs hluta prédikunarinnar og fræðslu. Samspil fyrstu notkunar lögmálsins og fagnaðarerindisins snýr að ytri veruleika mannsins eða uppbyggingu samfélagsins og almennum reglum þess. Hlutverk fagnaðarerindisins er hér að tryggja að maðurinn virði veruleika fyrstu notkunarinnar um að meta heiminn sem heim, Guð sem Guð og mann sem mann. Í þessari viðleitni losar fagnaðarerindið skynsemina undan því oki að þjóna manninum sem hjálpræði eða sem tæki til að öðlast það með því að gera það að leið til hjálpræðis. Þannig spyrnir fagnaðarerindið gegn hjálpræðisvæðingu hins veraldlega, eða sköpunarinnar og nýtist manninum við að greina á milli fyrstu og annarrar notkunar lögmálsins. Það kemur þannig í veg fyrir að menn tengi saman tilvistarlegan vanda (sem önnur notkun lögmálsins lýkur upp fyrir manninum) við byggingu veruleikans sem snýr að fyrstu notkun lögmálsins.
Nauðsynlegt er að hafa í huga að í allri umræðu Lúthers um veruleika lögmálsins þá er ekki átt við boð og bönn ritningarinnar, heldur leggur Lúther að jöfnu lögmálið við heiminn og veruleika hans. Lögmálið og sköpun Guðs eru því nánast samheiti í guðfræðihugsun hans.14Tilvísanir:
1 Thomas Kaufmann, Martin Luther, München 2006, 7.
2 Hans-Martin Barth, „Gesetz und Evangelium I Systematisch Theologisch“, TRE 13. bindi 126–142. Yoshiro Ishida, „Gesetz und Evangelium II Ethisch“, TRE 13. bindi 142–147. Robert C. Schultz, Gesetz und Evangelium, Berlín 1958.
4 Friedrich Wilhelm Graf, Der Protestantismus, München 2006, 31.
5 Nokkuð hefur verið ritað um réttmæti þessarar dagsetningar. Tiltölulega snemma er vísað til hennar og verður 31. október í hugum mótmælenda að siðbótardeginum. Flest bendir til að hún sé rétt, en alla vega eftir að þær koma út hefjast deilurnar. Martin Brecht, Martin Luther Sein Weg zur Reformation 1483–1521, 1. bindi, 2. útg., Stuttgart 1983, 187–215.
10 Cum contra conscientiam agere neque tutum neque integrum sit. Sum handrit bæta hér við „hér stend ég og get ekki annað“.
11 WA 7, 838. Þessa áherslu á muninn á gamla og unga Lúther er tiltölulega gömul í rannsóknarsögunni og rekumst við meðal annars á hana í riti Magnúsar Jónssonar, Marteinn Lúther. Ævisaga, Prentsmiðjan Rún, Reykjavík 1917, 88.
12 Gottfried Seebaß, Geschichte des Christentum III Spätmittelalter – Reformation – Konfessionalisierung, Stuttgard 2006, 231–236; Ronald Bainton, Marteinn Lúther, Reykjavík 1984, 275–279.
Sigurjón Árni Eyjólfsson. „Hvað getið þið sagt mér um Martein Lúther?“ Vísindavefurinn, 20. júní 2011, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=27405.
Sigurjón Árni Eyjólfsson. (2011, 20. júní). Hvað getið þið sagt mér um Martein Lúther? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=27405
Sigurjón Árni Eyjólfsson. „Hvað getið þið sagt mér um Martein Lúther?“ Vísindavefurinn. 20. jún. 2011. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=27405>.