Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Jan Hus og hvert var hans framlag til guðfræðinnar?

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

Jan Hus, eða Jóhann Húss eins og hann hefur oft verið nefndur hér á landi, fæddist 1369 í héraðinu Husinec í Bæheimi sem nú er hluti Tékklands. Bæheimur var þá sjálfstætt, öflugt konungsríki og eitt af kjörfurstadæmum Hins heilaga rómverska keisaradæmis. Höfuðborgin Prag var annáluð menningarborg og nefnd Hin gullna Prag – Praga aurea. Háskólinn í Prag, Karlsháskóli, var stofnaður 1348. Hann var fjölmennur háskóli og öflugt menntasetur sem naut mikillar virðingar um alla álfuna og til hans sóttu margir fræðimenn af mörgum löndum bæði til að kenna og nema. Konungarnir Karl IV., sem háskólinn er kenndur við og ríkti sem keisari Hins heilaga rómverska keisaradæmis, og sonur hans Wenceslaus (Vaclav) IV. gerðu mikið til að efla vísindi, menningu og listir í ríki sínu. Í hinu fjölþjóðlega umhverfi 14. aldar leitaðist Wenceslaus við að efla hag og áhrif bæheimsku eða tékknesku þjóðarinnar í ríki sínu og draga úr áhrifum annarra þjóða.

Jan Hus hélt ungur til Prag til að afla sér menntunar. Meðan á náminu stóð vann hann fyrir sér með því að syngja og þjóna í kirkjum og laðaðist hann við það að kirkjulegri þjónustu svo að hann að afloknu meistaraprófi 1396 sneri sér að guðfræði og hlaut prestsvígslu árið 1400. Árið 1402 var hann skipaður rektor Karlsháskóla og gegndi þeirri stöðu í eitt ár. Um líkt leyti varð hann prestur við Betlehemskirkju í Prag.

Hus hafði orð á sér fyrir guðrækni og dygðugt líferni. Hann var vinsæll prédikari og í prédikunum sínum gerði hann hvort tveggja að halda fram réttindum tékknesku þjóðarinnar, efla þjóðlega vitund og metnað þjóðar sinnar og ráðast á ýmsa siðspillingu sem viðgekkst meðal presta og biskupa með kröfu um endurbætur á kirkjulífinu. Hann kynntist kenningum enska siðbótarmannsins Johns Wycliffes (1325-1384) í gegnum hóp fylgismanna hans sem sóttu háskólann í Prag og þýddi Hus nokkur rit Wycliffes á tékknesku. Eins og Wycliffe lagði Hus áherslu á að kirkjan væri ekki valdastofnun æðri ríkinu heldur söfnuður trúaðra. Páfi og biskupar væru þar með ekki valdsmenn æðri keisurum og konungum heldur þjónar sem einvörðungu gegndu andlegri þjónustu og ættu ekki að hafa veraldleg völd. Þá gagnrýndi hann sitthvað í yfirbótarkerfi kirkjunnar og andmælti eðlisbreytingarkenningunni um altarissakramentið án þess að mótmæla raunverulegri nálægð Krists í sakramentinu.

Bæði konungur og erkibiskup héldu verndarhendi yfir Hus. Erkibiskupinn lét hins vegar af stuðningi sínum þegar honum var gert ljóst að kenningar Hus væru ekki annað en bannfærð sjónarmið Wycliffes. Þegar Háskólinn í Oxford gaf árið 1408 út stuðningsyfirlýsingu við fylgismenn Wycliffes og véfengdi bannfæringarúrskurð páfa fannst Hus og fylgismönnum hans að þeir hefðu farið með sigur af hólmi. Árið 1409 veitti Wenceslaus konungur Tékkum óskoruð völd yfir Karlsháskóla og skipaði Hus í stöðu rektors á nýjan leik. Fræðimönnum og stúdentum af öðrum þjóðum fannst sér misboðið með þessum úrskurði konungs og yfirgáfu Prag. Þeir héldu hópum saman til annarra landa, meðal annars til Leipzig þar sem þeir stofnuðu háskólann sem þar er enn starfræktur. Þessir miklu fólksflutningar frá Prag beindu athygli manna að Hus og deilunum í Bæheimi.

Páfadæmið átti hins vegar í miklum erfiðleikum um þetta leyti. Um skeið eða frá árinu 1378 höfðu ríkt tveir páfar og sat annar í Róm en hinn í Avignon á Frakklandi. Þegar reynt var að ná sáttum árið 1409 og skipa nýjan páfa í stað hinna tveggja neituðu þeir að viðurkenna þann gjörning svo að páfar voru orðnir þrír. Wenceslaus vildi halda fram hlutleysi í þessum deilum um páfa í því skyni að efla stöðu sína innan keisaradæmisins. Hann studdi síðan þann páfa sem kjörinn var til málamiðlunar 1409. Sá páfi vildi hins vegar ganga hart fram gegn mótmælahreyfingu Hus. Þrátt fyrir stuðning konungs og margra framámanna innan Háskólans var Hus sjálfur bannfærður.

Í Prag er að finna minnisvarða um Jan Hus. Hann var reistur árið 1915.

Hus hélt hins vegar áfram að prédika og kenna og árið 1411 sauð upp úr. Þá efndi páfi til krossferðar gegn konunginum í Napólí og leitaðist við að fjármagna stríðið með sölu afláta. Hus hóf að því tilefni mikla baráttu gegn aflátssölu sem hann áleit eitt helsta merki um spillingu innan kirkjunnar. Hann efndi til kappræðna um aflát og ítrekaði að menn öðluðust fyrirgefningu syndanna með því að iðrast í sannleika og láta af vondri breytni en ekki með því að láta fjármuni af hendi. Hlutverk páfa og biskupa væri að biðja fyrir óvinum sínum og þeim sem ofsæktu þá en ekki að efna til styrjalda. Í kappræðunum tók guðfræðideild Karlsháskóla ekki undir með Hus heldur samsinnti bannfæringarúrskurði páfa og neyddist konungur þá til að láta af stuðningi við Hus og bannaði honum að kenna opinberlega. Því neitaði Hus og naut áfram stuðnings almennings og ákveðinna áhrifamanna innan Háskólans.

Þegar þrír fylgismenn Hus voru hálshöggnir fyrir að hafa brennt umburðarbréfum páfa sem geymdu bannfæringarúrskurð hans urðu miklar deilur og óeirðir í Prag. Konungur leitaðist við að sætta hinar stríðandi fylkingar og kallaði í því skyni til fundar þar sem leita skyldi sátta. Fyrir þann fund voru lagðar tillögur frá Hus þess efnis að kirkjan í Bæheimi ætti eins og kirkjur annarra landa að vera frjáls og úrskurðir páfa ættu hvergi að gilda nema með samþykki viðkomandi ríkisvalds.

Sættir tókust ekki og Hus var sendur í útlegð þar sem hann hélt áfram baráttu sinni. Þar ritaði hann nokkrar bækur og rit sem að miklu leyti byggðust á kenningum og ritum Wycliffes.

Jan Hus var dæmdur villutrúarmaður og brenndur á báli.

Árið 1414 var kallað saman allsherjarkirkjuþing í borginni Konstans og var hlutverk þess að leitast við að sameina kirkjuna um einn páfa og lægja ófriðaröldur. Þangað var Jan Hus kallaður til að gera grein fyrir kenningum sínum. Honum var heitið griðum en fljótlega eftir komu sína til Konstans var hann hnepptur í varðhald. Hann neitaði að afturkalla kenningar sínar nema tækist að sanna út frá Biblíunni að þær væru rangar. Þann 6. júlí 1415 var dómur kveðinn í máli hans án þess að hann hefði fengið tækifæri til að flytja vörn sína og var hann dæmdur villutrúarmaður. Samdægurs var hann brenndur á báli. Á dauðastundinni bað hann Guð að fyrirgefa óvinum sínum og játaði sig fúsan að deyja fyrir sannleika fagnaðarerindisins sem hann hefði ætíð boðað. Ösku hans var dreift í ána Rín. Fylgismenn hans mótuðu sjálfstæða kirkju í Bæheimi sem enn er til og starfar bæði í Tékklandi og í Bandaríkjunum þar sem hún nefnist The Moravian Church. Hus var af fylgismönnum sínum álitinn píslarvottur og nefndur heilagur. Marteinn Lúther hélt mikið upp á Hus og þýddi meðal annars sálm sem um það leyti var eignaður Hus og nefndi hann St. Johannes Hus Lied. Sá sálmur var þýddur á íslensku og nefndur í Sálmabók Guðbrands S. (= sankti) Joh. Huss lofsöngur. (Sjá núg. Sálmabók nr. 237)

Jan Hus er álitinn þjóðhetja í Tékklandi og minnst fyrir fleira en baráttu sína á trúmálasviðinu. Hann mótaði meðal annars ritmál Tékka og eru reglur hans um réttritun enn í gildi þar í landi og náðu þær til fleiri slavneskra þjóða. Dánardagur hans 6. júlí er hátíðisdagur í Tékklandi.

Myndir:

Höfundur

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

prófessor í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

26.7.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hver var Jan Hus og hvert var hans framlag til guðfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 26. júlí 2011, sótt 15. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60275.

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). (2011, 26. júlí). Hver var Jan Hus og hvert var hans framlag til guðfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60275

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hver var Jan Hus og hvert var hans framlag til guðfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 26. júl. 2011. Vefsíða. 15. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60275>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Jan Hus og hvert var hans framlag til guðfræðinnar?
Jan Hus, eða Jóhann Húss eins og hann hefur oft verið nefndur hér á landi, fæddist 1369 í héraðinu Husinec í Bæheimi sem nú er hluti Tékklands. Bæheimur var þá sjálfstætt, öflugt konungsríki og eitt af kjörfurstadæmum Hins heilaga rómverska keisaradæmis. Höfuðborgin Prag var annáluð menningarborg og nefnd Hin gullna Prag – Praga aurea. Háskólinn í Prag, Karlsháskóli, var stofnaður 1348. Hann var fjölmennur háskóli og öflugt menntasetur sem naut mikillar virðingar um alla álfuna og til hans sóttu margir fræðimenn af mörgum löndum bæði til að kenna og nema. Konungarnir Karl IV., sem háskólinn er kenndur við og ríkti sem keisari Hins heilaga rómverska keisaradæmis, og sonur hans Wenceslaus (Vaclav) IV. gerðu mikið til að efla vísindi, menningu og listir í ríki sínu. Í hinu fjölþjóðlega umhverfi 14. aldar leitaðist Wenceslaus við að efla hag og áhrif bæheimsku eða tékknesku þjóðarinnar í ríki sínu og draga úr áhrifum annarra þjóða.

Jan Hus hélt ungur til Prag til að afla sér menntunar. Meðan á náminu stóð vann hann fyrir sér með því að syngja og þjóna í kirkjum og laðaðist hann við það að kirkjulegri þjónustu svo að hann að afloknu meistaraprófi 1396 sneri sér að guðfræði og hlaut prestsvígslu árið 1400. Árið 1402 var hann skipaður rektor Karlsháskóla og gegndi þeirri stöðu í eitt ár. Um líkt leyti varð hann prestur við Betlehemskirkju í Prag.

Hus hafði orð á sér fyrir guðrækni og dygðugt líferni. Hann var vinsæll prédikari og í prédikunum sínum gerði hann hvort tveggja að halda fram réttindum tékknesku þjóðarinnar, efla þjóðlega vitund og metnað þjóðar sinnar og ráðast á ýmsa siðspillingu sem viðgekkst meðal presta og biskupa með kröfu um endurbætur á kirkjulífinu. Hann kynntist kenningum enska siðbótarmannsins Johns Wycliffes (1325-1384) í gegnum hóp fylgismanna hans sem sóttu háskólann í Prag og þýddi Hus nokkur rit Wycliffes á tékknesku. Eins og Wycliffe lagði Hus áherslu á að kirkjan væri ekki valdastofnun æðri ríkinu heldur söfnuður trúaðra. Páfi og biskupar væru þar með ekki valdsmenn æðri keisurum og konungum heldur þjónar sem einvörðungu gegndu andlegri þjónustu og ættu ekki að hafa veraldleg völd. Þá gagnrýndi hann sitthvað í yfirbótarkerfi kirkjunnar og andmælti eðlisbreytingarkenningunni um altarissakramentið án þess að mótmæla raunverulegri nálægð Krists í sakramentinu.

Bæði konungur og erkibiskup héldu verndarhendi yfir Hus. Erkibiskupinn lét hins vegar af stuðningi sínum þegar honum var gert ljóst að kenningar Hus væru ekki annað en bannfærð sjónarmið Wycliffes. Þegar Háskólinn í Oxford gaf árið 1408 út stuðningsyfirlýsingu við fylgismenn Wycliffes og véfengdi bannfæringarúrskurð páfa fannst Hus og fylgismönnum hans að þeir hefðu farið með sigur af hólmi. Árið 1409 veitti Wenceslaus konungur Tékkum óskoruð völd yfir Karlsháskóla og skipaði Hus í stöðu rektors á nýjan leik. Fræðimönnum og stúdentum af öðrum þjóðum fannst sér misboðið með þessum úrskurði konungs og yfirgáfu Prag. Þeir héldu hópum saman til annarra landa, meðal annars til Leipzig þar sem þeir stofnuðu háskólann sem þar er enn starfræktur. Þessir miklu fólksflutningar frá Prag beindu athygli manna að Hus og deilunum í Bæheimi.

Páfadæmið átti hins vegar í miklum erfiðleikum um þetta leyti. Um skeið eða frá árinu 1378 höfðu ríkt tveir páfar og sat annar í Róm en hinn í Avignon á Frakklandi. Þegar reynt var að ná sáttum árið 1409 og skipa nýjan páfa í stað hinna tveggja neituðu þeir að viðurkenna þann gjörning svo að páfar voru orðnir þrír. Wenceslaus vildi halda fram hlutleysi í þessum deilum um páfa í því skyni að efla stöðu sína innan keisaradæmisins. Hann studdi síðan þann páfa sem kjörinn var til málamiðlunar 1409. Sá páfi vildi hins vegar ganga hart fram gegn mótmælahreyfingu Hus. Þrátt fyrir stuðning konungs og margra framámanna innan Háskólans var Hus sjálfur bannfærður.

Í Prag er að finna minnisvarða um Jan Hus. Hann var reistur árið 1915.

Hus hélt hins vegar áfram að prédika og kenna og árið 1411 sauð upp úr. Þá efndi páfi til krossferðar gegn konunginum í Napólí og leitaðist við að fjármagna stríðið með sölu afláta. Hus hóf að því tilefni mikla baráttu gegn aflátssölu sem hann áleit eitt helsta merki um spillingu innan kirkjunnar. Hann efndi til kappræðna um aflát og ítrekaði að menn öðluðust fyrirgefningu syndanna með því að iðrast í sannleika og láta af vondri breytni en ekki með því að láta fjármuni af hendi. Hlutverk páfa og biskupa væri að biðja fyrir óvinum sínum og þeim sem ofsæktu þá en ekki að efna til styrjalda. Í kappræðunum tók guðfræðideild Karlsháskóla ekki undir með Hus heldur samsinnti bannfæringarúrskurði páfa og neyddist konungur þá til að láta af stuðningi við Hus og bannaði honum að kenna opinberlega. Því neitaði Hus og naut áfram stuðnings almennings og ákveðinna áhrifamanna innan Háskólans.

Þegar þrír fylgismenn Hus voru hálshöggnir fyrir að hafa brennt umburðarbréfum páfa sem geymdu bannfæringarúrskurð hans urðu miklar deilur og óeirðir í Prag. Konungur leitaðist við að sætta hinar stríðandi fylkingar og kallaði í því skyni til fundar þar sem leita skyldi sátta. Fyrir þann fund voru lagðar tillögur frá Hus þess efnis að kirkjan í Bæheimi ætti eins og kirkjur annarra landa að vera frjáls og úrskurðir páfa ættu hvergi að gilda nema með samþykki viðkomandi ríkisvalds.

Sættir tókust ekki og Hus var sendur í útlegð þar sem hann hélt áfram baráttu sinni. Þar ritaði hann nokkrar bækur og rit sem að miklu leyti byggðust á kenningum og ritum Wycliffes.

Jan Hus var dæmdur villutrúarmaður og brenndur á báli.

Árið 1414 var kallað saman allsherjarkirkjuþing í borginni Konstans og var hlutverk þess að leitast við að sameina kirkjuna um einn páfa og lægja ófriðaröldur. Þangað var Jan Hus kallaður til að gera grein fyrir kenningum sínum. Honum var heitið griðum en fljótlega eftir komu sína til Konstans var hann hnepptur í varðhald. Hann neitaði að afturkalla kenningar sínar nema tækist að sanna út frá Biblíunni að þær væru rangar. Þann 6. júlí 1415 var dómur kveðinn í máli hans án þess að hann hefði fengið tækifæri til að flytja vörn sína og var hann dæmdur villutrúarmaður. Samdægurs var hann brenndur á báli. Á dauðastundinni bað hann Guð að fyrirgefa óvinum sínum og játaði sig fúsan að deyja fyrir sannleika fagnaðarerindisins sem hann hefði ætíð boðað. Ösku hans var dreift í ána Rín. Fylgismenn hans mótuðu sjálfstæða kirkju í Bæheimi sem enn er til og starfar bæði í Tékklandi og í Bandaríkjunum þar sem hún nefnist The Moravian Church. Hus var af fylgismönnum sínum álitinn píslarvottur og nefndur heilagur. Marteinn Lúther hélt mikið upp á Hus og þýddi meðal annars sálm sem um það leyti var eignaður Hus og nefndi hann St. Johannes Hus Lied. Sá sálmur var þýddur á íslensku og nefndur í Sálmabók Guðbrands S. (= sankti) Joh. Huss lofsöngur. (Sjá núg. Sálmabók nr. 237)

Jan Hus er álitinn þjóðhetja í Tékklandi og minnst fyrir fleira en baráttu sína á trúmálasviðinu. Hann mótaði meðal annars ritmál Tékka og eru reglur hans um réttritun enn í gildi þar í landi og náðu þær til fleiri slavneskra þjóða. Dánardagur hans 6. júlí er hátíðisdagur í Tékklandi.

Myndir:...