Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var John Wycliffe og hvert var hans framlag til guðfræðinnar?

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

John Wycliffe fæddist um 1325 á Norður-Englandi, sonur efnaðra foreldra. Hann hélt til náms við háskólann í Oxford og er vitað að hann var þar 1345. Áhugi hans var fyrst aðallega á sviði stærðfræði og náttúrufræði en síðar einbeitti hann sér að námi í guðfræði, kirkjurétti og heimspeki og lauk meistaragráðu í guðfræði. Hugsanlegt er að Wycliffe hafi hlýtt á fyrirlestra hjá William Ockham (d. 1348), að minnsta kosti höfðu kenningar Ockham mikil áhrif á Wycliffe. Hann var sömuleiðis undir áhrifum frá Roger Bacon (um 1220-1292).

Áhrif og völd grábræðra eða Fransiskusmunka voru mikil í Oxford um þetta leyti. Wycliffe þótti mikið koma til kenninga þeirra og einkum áherslu þeirra á fátækt og líf í látleysi. Honum fannst þó snemma mikil mótsögn milli kenninga þeirra og lifnaðar og þótti að auðsöfnun væri ekki síðri meðal fylgjenda Frans frá Assisi en annarra hópa í samfélaginu. Þetta tók hann að gagnrýna og óx gagnrýni hans og náði til klausturlifnaðar almennt. Wycliffe gerðist talsmaður þeirra sem vildu afnema forréttindi klausturreglna í háskólalífinu í Oxford og var falið að setja á laggirnar og veita forstöðu samfélagi stúdenta og kennara sem byggðist ekki á klausturreglu. Um tíma var Wycliffe yfirmaður Balliol Hall í Oxford.

Meðal fyrstu opinberra afskipta Wycliffes var að tala gegn því að Englendingar væru skyldugir að gjalda páfanum, sem þá sat í Avignon, árlega skatt sem Jóhann konungur hafði heitið að greiða árið 1213 en hafði ekki verið greiddur um árabil. Þegar páfi gekk eftir gjaldinu við Englendinga mótmælti þingið því og fékk Wycliffe til að semja álitsgerðina. Wycliffe taldi óheimilt að inna slíkar greiðslur af hendi nema enska þingið samþykkti og orðaði í greinargerð sinni þá skoðun að páfi væri ekki æðri konunginum. Þvert á móti áleit hann eins og Ockham að veraldlega valdið ríkti í eigin rétti og stæði jafnfætis andlega valdinu. Smám saman fór Wycliffe að halda því fram að bannfærðir einstaklingar mættu áfrýja úrskurði kirkjulegra yfirvalda til veraldlegra dómstóla og það mætti jafnvel dæma presta fyrir veraldlegum dómstólum.

Reynt var að fá Wycliffe ákærðan fyrir villutrú en bæði þingið og háskólinn í Oxford héldu verndarhendi yfir honum meðal annars á þeirri forsendu að sjónarmið á borð við þau sem hann hélt fram hefðu lengi verið rædd innan háskólanna og margir flutt kenningar líkar þeim sem Wycliffe hélt fram án þess að liggja undir grun fyrir villutrú.

Með tímanum varð Wycliffe ákafari í gagnrýni sinni á kirkjuvaldið og klausturreglurnar og aflaði sér margra stuðningsmanna og fjandmanna. Fylgismenn hans voru nefndir Lollardar en merking nafnsins er óljós. Hreyfing Lollarda náði mikilli útbreiðslu og naut þess að Wycliffe var ritfær og rit hans þar sem hann gagnrýndi kirkjuvaldið, klausturreglurnar og sitthvað í kenningum kirkjunnar, þar á meðal kenninguna um altarissakramentið, fóru víða og höfðu mikil áhrif. Hann skrifaði bæði á ensku og latínu. Hægt var að lesa upp úr ritum hans meðal enskrar alþýðu og útbreiða þannig kenningar hans. Hin lærðu rit hans, sem hann skrifaði á latínu, breiddust út til meginlandsins og höfðu áhrif þar. Meðal þeirra sem urðu fyrir áhrifum frá Wycliffe og Lollördum var tékkneski andófsmaðurinn Jan Hus (1369-1415) og hreyfing hans.



Wycliffe á tali við Lollarda.

Wycliffe talaði ákaft fyrir því að Biblían yrði þýdd á ensku til þess að alþýða manna hefði beinan aðgang að frumheimild kristninnar, Biblíunni sjálfri. Wycliffe taldi að Biblían ætti ekki að vera lokuð bók sem hinir lærðu einir gætu skilið heldur öllum opin og á máli sem allir skildu. Með því að hafa aðgang að Biblíunni á móðurmáli sínu gat fólk sjálft séð hvort lærðir menn túlkuðu hana rétt eða ekki. Hann lét ekki sitja við orðin tóm heldur hóf sjálfur að þýða Nýja testamentið árið 1378. Talið er að Wycliffe hafi sjálfur þýtt allt Nýja testamentið en samstarfsmenn hans þýddu Gamla testamentið og var þýðingunni á allri Biblíunni lokið 1382. Þýðingin var endurbætt nokkrum sinnum og stóð samstarfsmaður hans John Purvey (um 1354 - um 1421) fyrir endurskoðuninni.

Wycliffe og samstarfsmenn hans þýddu Biblíuna úr latínu. Til voru á ensku eldri þýðingar á nokkrum ritum Biblíunnar en þýðing Wycliffe var fyrsta heildarþýðing Biblíunnar á ensku. Með þeirri þýðingu auk annarra ritstarfa þykir Wycliffe hafa mótað mjög enskt ritmál með líkum hætti og Lúther átti eftir að móta þýskt ritmál rúmlega einni öld síðar. Kirkjuleg yfirvöld reyndu að stemma stigu við starfi Wycliffe og Lollarda og bönnuðu útbreiðslu Biblíunnar. Kenningar hans og Lollarda voru lýstar villa árið 1382 en í úrskurðinum var nafn Wycliffes ekki nefnt og Oxfordháskóli hélt verndarhendi yfir honum ásamt nokkrum valdamiklum mönnum. Þá var Wycliffe illa farinn á heilsu og lést hann 1384. Um 20 árum síðar var lesinn bannfæringarúrskurður yfir honum og hreyfingu hans og brenna átti handrit að Biblíunni sem næðist í. Bein Wycliffes voru grafin upp og brennd og öskunni dreift í ána Swift sem rann gegnum heimabæ hans Lutterworth. Það kom ekki í veg fyrir að hreyfing Lollarda var útbreidd og Biblía hans var til í mörgum afskriftum. Margir afritarar breyttu ártali á titilsíðunni svo að það leit út fyrir að um væri að ræða eldri þýðingu en hina bönnuðu þýðingu Wycliffes. Meðal þeirra sem höfðu þýðingu Wycliffes í heiðri óvitandi um að hún væri runnin undan rifjum villutrúarmanns var kaþólski heimspekingurinn og dýrlingurinn Sir Thomas More (1478-1535).



Bein Wycliffes voru grafin upp og brennd og öskunni dreift í ána Swift. Trérista úr bók frá 1563.

Wycliffe var fyrirrennari eða forfaðir siðbreytingarinnar og var nefndur morgunstjarna siðbótarinnar (e. Morning Star of the Reformation). Margt af því sem hann kenndi átti eftir að enduróma í kenningum siðbótarmanna við upphaf 16. aldar svo sem kenning hans um að veraldlegt vald ætti ekki að lúta andlegu valdi heldur ríkja í eigin rétti, að leikmenn ættu að eiga íhlutunarrétt um kirkjuleg málefni, að heimildir trúarinnar ættu að vera öllum opnar og akademískt frelsi skyldi virt. Enskir siðbótarmenn gáfu ekki út Biblíuþýðingu hans þar eð hann hefði þýtt úr latínu en ekki úr frummálum Biblíunnar, hebresku og grísku. Texti Wycliffes mun þó hafa haft áhrif á enskar biblíuþýðingar meðal annars hina frægu þýðingu sem kennd er við Jakob konung og kom út 1611 eða fyrir réttum 400 árum.

Myndir:

Höfundur

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

prófessor í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

2.2.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hver var John Wycliffe og hvert var hans framlag til guðfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 2. febrúar 2011, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58333.

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). (2011, 2. febrúar). Hver var John Wycliffe og hvert var hans framlag til guðfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58333

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hver var John Wycliffe og hvert var hans framlag til guðfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 2. feb. 2011. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58333>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var John Wycliffe og hvert var hans framlag til guðfræðinnar?
John Wycliffe fæddist um 1325 á Norður-Englandi, sonur efnaðra foreldra. Hann hélt til náms við háskólann í Oxford og er vitað að hann var þar 1345. Áhugi hans var fyrst aðallega á sviði stærðfræði og náttúrufræði en síðar einbeitti hann sér að námi í guðfræði, kirkjurétti og heimspeki og lauk meistaragráðu í guðfræði. Hugsanlegt er að Wycliffe hafi hlýtt á fyrirlestra hjá William Ockham (d. 1348), að minnsta kosti höfðu kenningar Ockham mikil áhrif á Wycliffe. Hann var sömuleiðis undir áhrifum frá Roger Bacon (um 1220-1292).

Áhrif og völd grábræðra eða Fransiskusmunka voru mikil í Oxford um þetta leyti. Wycliffe þótti mikið koma til kenninga þeirra og einkum áherslu þeirra á fátækt og líf í látleysi. Honum fannst þó snemma mikil mótsögn milli kenninga þeirra og lifnaðar og þótti að auðsöfnun væri ekki síðri meðal fylgjenda Frans frá Assisi en annarra hópa í samfélaginu. Þetta tók hann að gagnrýna og óx gagnrýni hans og náði til klausturlifnaðar almennt. Wycliffe gerðist talsmaður þeirra sem vildu afnema forréttindi klausturreglna í háskólalífinu í Oxford og var falið að setja á laggirnar og veita forstöðu samfélagi stúdenta og kennara sem byggðist ekki á klausturreglu. Um tíma var Wycliffe yfirmaður Balliol Hall í Oxford.

Meðal fyrstu opinberra afskipta Wycliffes var að tala gegn því að Englendingar væru skyldugir að gjalda páfanum, sem þá sat í Avignon, árlega skatt sem Jóhann konungur hafði heitið að greiða árið 1213 en hafði ekki verið greiddur um árabil. Þegar páfi gekk eftir gjaldinu við Englendinga mótmælti þingið því og fékk Wycliffe til að semja álitsgerðina. Wycliffe taldi óheimilt að inna slíkar greiðslur af hendi nema enska þingið samþykkti og orðaði í greinargerð sinni þá skoðun að páfi væri ekki æðri konunginum. Þvert á móti áleit hann eins og Ockham að veraldlega valdið ríkti í eigin rétti og stæði jafnfætis andlega valdinu. Smám saman fór Wycliffe að halda því fram að bannfærðir einstaklingar mættu áfrýja úrskurði kirkjulegra yfirvalda til veraldlegra dómstóla og það mætti jafnvel dæma presta fyrir veraldlegum dómstólum.

Reynt var að fá Wycliffe ákærðan fyrir villutrú en bæði þingið og háskólinn í Oxford héldu verndarhendi yfir honum meðal annars á þeirri forsendu að sjónarmið á borð við þau sem hann hélt fram hefðu lengi verið rædd innan háskólanna og margir flutt kenningar líkar þeim sem Wycliffe hélt fram án þess að liggja undir grun fyrir villutrú.

Með tímanum varð Wycliffe ákafari í gagnrýni sinni á kirkjuvaldið og klausturreglurnar og aflaði sér margra stuðningsmanna og fjandmanna. Fylgismenn hans voru nefndir Lollardar en merking nafnsins er óljós. Hreyfing Lollarda náði mikilli útbreiðslu og naut þess að Wycliffe var ritfær og rit hans þar sem hann gagnrýndi kirkjuvaldið, klausturreglurnar og sitthvað í kenningum kirkjunnar, þar á meðal kenninguna um altarissakramentið, fóru víða og höfðu mikil áhrif. Hann skrifaði bæði á ensku og latínu. Hægt var að lesa upp úr ritum hans meðal enskrar alþýðu og útbreiða þannig kenningar hans. Hin lærðu rit hans, sem hann skrifaði á latínu, breiddust út til meginlandsins og höfðu áhrif þar. Meðal þeirra sem urðu fyrir áhrifum frá Wycliffe og Lollördum var tékkneski andófsmaðurinn Jan Hus (1369-1415) og hreyfing hans.



Wycliffe á tali við Lollarda.

Wycliffe talaði ákaft fyrir því að Biblían yrði þýdd á ensku til þess að alþýða manna hefði beinan aðgang að frumheimild kristninnar, Biblíunni sjálfri. Wycliffe taldi að Biblían ætti ekki að vera lokuð bók sem hinir lærðu einir gætu skilið heldur öllum opin og á máli sem allir skildu. Með því að hafa aðgang að Biblíunni á móðurmáli sínu gat fólk sjálft séð hvort lærðir menn túlkuðu hana rétt eða ekki. Hann lét ekki sitja við orðin tóm heldur hóf sjálfur að þýða Nýja testamentið árið 1378. Talið er að Wycliffe hafi sjálfur þýtt allt Nýja testamentið en samstarfsmenn hans þýddu Gamla testamentið og var þýðingunni á allri Biblíunni lokið 1382. Þýðingin var endurbætt nokkrum sinnum og stóð samstarfsmaður hans John Purvey (um 1354 - um 1421) fyrir endurskoðuninni.

Wycliffe og samstarfsmenn hans þýddu Biblíuna úr latínu. Til voru á ensku eldri þýðingar á nokkrum ritum Biblíunnar en þýðing Wycliffe var fyrsta heildarþýðing Biblíunnar á ensku. Með þeirri þýðingu auk annarra ritstarfa þykir Wycliffe hafa mótað mjög enskt ritmál með líkum hætti og Lúther átti eftir að móta þýskt ritmál rúmlega einni öld síðar. Kirkjuleg yfirvöld reyndu að stemma stigu við starfi Wycliffe og Lollarda og bönnuðu útbreiðslu Biblíunnar. Kenningar hans og Lollarda voru lýstar villa árið 1382 en í úrskurðinum var nafn Wycliffes ekki nefnt og Oxfordháskóli hélt verndarhendi yfir honum ásamt nokkrum valdamiklum mönnum. Þá var Wycliffe illa farinn á heilsu og lést hann 1384. Um 20 árum síðar var lesinn bannfæringarúrskurður yfir honum og hreyfingu hans og brenna átti handrit að Biblíunni sem næðist í. Bein Wycliffes voru grafin upp og brennd og öskunni dreift í ána Swift sem rann gegnum heimabæ hans Lutterworth. Það kom ekki í veg fyrir að hreyfing Lollarda var útbreidd og Biblía hans var til í mörgum afskriftum. Margir afritarar breyttu ártali á titilsíðunni svo að það leit út fyrir að um væri að ræða eldri þýðingu en hina bönnuðu þýðingu Wycliffes. Meðal þeirra sem höfðu þýðingu Wycliffes í heiðri óvitandi um að hún væri runnin undan rifjum villutrúarmanns var kaþólski heimspekingurinn og dýrlingurinn Sir Thomas More (1478-1535).



Bein Wycliffes voru grafin upp og brennd og öskunni dreift í ána Swift. Trérista úr bók frá 1563.

Wycliffe var fyrirrennari eða forfaðir siðbreytingarinnar og var nefndur morgunstjarna siðbótarinnar (e. Morning Star of the Reformation). Margt af því sem hann kenndi átti eftir að enduróma í kenningum siðbótarmanna við upphaf 16. aldar svo sem kenning hans um að veraldlegt vald ætti ekki að lúta andlegu valdi heldur ríkja í eigin rétti, að leikmenn ættu að eiga íhlutunarrétt um kirkjuleg málefni, að heimildir trúarinnar ættu að vera öllum opnar og akademískt frelsi skyldi virt. Enskir siðbótarmenn gáfu ekki út Biblíuþýðingu hans þar eð hann hefði þýtt úr latínu en ekki úr frummálum Biblíunnar, hebresku og grísku. Texti Wycliffes mun þó hafa haft áhrif á enskar biblíuþýðingar meðal annars hina frægu þýðingu sem kennd er við Jakob konung og kom út 1611 eða fyrir réttum 400 árum.

Myndir: