Bakgrunnur Kalvíns skiptir miklu máli fyrir störf hans síðar á ævinni. Faðir hans hafði verið í þjónustu kaþólsku kirkjunnar á sviði fjármála en komist upp á kant við yfirmenn sína og verið bannfærður. Ólst sonurinn upp í presta- og kirkjugagnrýnu umhverfi. Kalvín fékk lögfræðilega menntun í borgunum Orléans og Bourges og lagði síðar stund á guðfræði og heimspeki í París. Á þessu skeiði tilheyrði hann kaþólskri siðbótarhreyfingu sem einkenndist af jákvæðum mannskilningi og menningarsýn.
Einhvern tímann skömmu fyrir 1534 lifði Kalvín trúarlegt afturhvarf sem leiddi hann til þeirrar grundvallarafstöðu að í Biblíunni einni væri hinn sanna trúarlærdóm að finna. Þar með missti erfikenning kirkjunnar og úrskurðarvald páfa, hornsteinar í kenningu kaþólsku kirkjunnar, gildi sitt í huga hans. Líkt og hjá Lúther var afturhvarfið ávöxtur áralangs náms og rannsókna en ekki sálarfræðilegrar eða tilfinningalegrar reynslu.
Í heimalandi sínu mætti Kalvín og siðaskiptahreyfing hans harðri andstöðu og varð hann landflótta 1535 og starfaði eftir það einkum í Sviss. Kom höfuðrit hans Institutio Religionis Christianae út í Basel 1536 og varð það grundvöllur að trúfræðslu í kirkju þeirri sem Kalvín lagði grunn að líkt og segja má um Fræði Lúthers.
Í guðfræði Lúthers stendur Kristur og endurlausnarverk hans í forgrunni. Hjá Kalvín er það fremur hinn hátt upp hafni Guð sem er í öndvegi. Vald hans og máttur er það sem yfirskyggir allt og náð hans er manninum óskiljanleg. Hjá Lúther er hinn opinberaði Guð þannig í forgrunni en hinn huldi eða óþekkjanlegi Guð hjá Kalvín. Þá einkennir útvalningarkenningin guðfræði Kalvíns á þann hátt að maðurinn er í engu talinn geta áunnið sér náð eða velþóknun Guðs heldur er frelsun hans undir útvalningu Guðs komin.
Mynd:- en.wikipedia.org - John Calvin. Sótt 13.7.2011.
Hvað getið þið sagt mér um Jóhannes Kalvín? Ég finn nánast ekkert um hann á íslensku á Netinu.