Sólin Sólin Rís 03:32 • sest 23:21 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 04:00 • Sest 07:28 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:38 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:36 • Síðdegis: 15:37 í Reykjavík

Hver var Hildegard frá Bingen og fyrir hvað er hún þekkt?

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

Í sögu kristinnar guðfræði eru ekki margar nafngreindar konur og lengst af hefur afrekum þeirra lítt verið haldið á loft. Á síðari árum hefur þetta viðhorf mjög breyst og hlutur kvenna í kirkjusögunni verið dreginn fram. Á miðöldum voru nokkrar konur sem mörkuðu spor og voru þekktar og ein þeirra er abbadísin Hildegard af Bingen (um 1098-1179).

Tólfta öldin var merkileg í mörgu tilliti. Þá átti sér stað trúarleg, menningarleg og félagsleg vakning víða í löndum Evrópu og er oft talað um endurreisnina á 12. öld sem eins konar fyrirrennara hinnar eiginlegu endurreisnar á 15. öld. Á 12. öld efldust menntir og fræði ekki síst fyrir tilstuðlan kirkjunnar og bæði munka- og nunnuklaustur mótuðust sem lærdóms- og menningarmiðstöðvar. Áhrifin náðu hingað út til Íslands. Skólarnir í Skálholti og á Hólum áttu blómaskeið auk menningar- og fræðasetra í Odda og á Þingeyrum svo að dæmi séu nefnd. Í Jóns sögu helga Ögmundssonar á Hólum segir að hann hafi flutt inn lærdómsmenn bæði frá Svíþjóð og Frakklandi sem kenndu í skóla hans. Í sögunni er líka getið konu sem Ingunn hét og var Arnórsdóttir, afasystir Kolbeins Tumasonar sem einnig var menntaður maður og orti sálminn kunna „Heyr, himnasmiður“. Ingunn átti heima á Hólum um daga Jóns Ögmundssonar og var menntuð í latínu og öðrum fræðum til jafns á við pilta og kenndi piltum latínu við Hólaskóla.

Hildegard af Bingen fæddist um 1098 í Böckelheim við ána Nahe í Rínardalnum. Hún var af aðalsættum og tíunda barn foreldra sinna. Hún var gefin til uppeldis í klaustri í Rínarlöndum og naut handleiðslu þekktrar einsetukonu sem Jutta hét. Það var algengt um þetta leyti að börn væru send í klaustur til fósturs, sérstaklega yngstu börnin í stórum fjölskyldum og er það sennilega skýringin á því að Hildegard var gefin í klaustur. Auk þess var Hildegard heilsuveil og átti við mikil veikindi að stríða fram eftir aldri og hefur það líka haft áhrif á að henni var fengið uppeldi í klaustri. Í klaustrinu lærði Hildegard að lesa og skrifa og syngja tíðagjörðina á latínu. Jutta var kennari hennar að því leyti sem henni var unnt og auk þess kenndi henni munkur að nafni Volmar sem síðar gerðist ritari hennar.

Strax sem telpa fór Hildegard að sjá sýnir og verða fyrir opinberunum. Jutta fóstra hennar hvatti hana og áleit vitranir hennar sannar en sjálf var Hildegard oft óttaslegin af vitrunum sínum. Orðrómurinn um vitranir hennar og sýnir breiddist út og flykktist fólk í klaustrið til að leita ráða hjá henni. Fór mikið orð af Hildegard og hlaut hún viðurnefnið Völva Rínarlanda. Við andlát Juttu var Hildegard útnefnd magistra – kennslukona – í klaustrinu en kærði sig ekki um frekari framgang þar þó að biskup hennar vildi það. Biskupinn varð að láta í minni pokann enda gat Hildegard skírskotað til eigin vitrana og sýnt fram á að í hvert sinn sem biskupinn reyndi að láta hana fara gegn vilja Drottins með hana, sló Guð hana sjúkdómi. Loks settist Hildegard að í klaustrinu Eibingen eða Bingen við Rín sem hún var síðan kennd við. Þar valdist hún til forstöðu.

Hildegard fékk vitrun um að skrifa vitranir sínar niður í bók og nefnist hún Scivias myndað af orðunum Sci vias veritatis (eða lucis) – það er Þekktu vegu sannleikans (eða ljóssins). Þar lýsir hún vitrunum sínum og skýrir þær út frá Heilagri ritningu. Hún skýrir þær einnig myndrænt og eru myndir hennar undir áhrifum af lýsingum í miðaldahandritum. Aðrar bækur um vitranir hennar eru Liber vitae meritorum – Bók um verðleika lífsins – og De operatione Dei – Um starf Guðs, sem er líka kölluð Liber divinorum operum – Bók um verk Guðs. Volmar, fyrrum kennari hennar og síðar ritari, aðstoðaði hana við skriftirnar og við að tengja vitranirnar Biblíunni.

Auk þess að skrifa þessar bækur um vitranir sínar skrifaði hún einnig bækur um náttúruna og um lækningar. Hún gekk út frá heildrænni hugsun og út frá sköpunarsögu Biblíunnar ítrekaði hún að hinn sýnilegi heimur væri góður og ætlaður mönnum til að nota sér til gagns. En allt yrði að fara fram með reglu og hafa dygðirnar að leiðarljósi. Hún leiðbeindi um lækningar og hafði trú á lækningamætti jurta, steina og vatns. Hún samdi tónlist og hafa varðveist lög sem hún samdi og byggjast á reglum tíðasöngs kirkjunnar.Hildegard frá Bingen fær vitrun og skrifar hana niður.

Hildegard naut mikillar hylli. Hún ferðaðist og prédikaði og kenndi einkum í klaustrum og er það merkilegt miðað við að konum var sjaldan leyft að kenna. Feminískir fræðimenn nútímans hafa bent á að Hildegard hafi komist svona langt af því að hún beygði sig sjálfviljug undir reglur feðraveldisins og þess vegna náði hún áheyrn fólks af öllum stéttum þjóðfélagsins. Veraldlegir og andlegir valdsmenn leituðu ráða hjá Hildegard, líka erkibiskupar og páfar. Hún var ófeimin við að skrifa þeim en smjaðraði engan veginn fyrir valdsmönnum heldur gekk fram með gagnrýni á hegðun þeirra ef henni þóttu þeir framganga í ósamræmi við vilja Guðs. Hún fordæmdi spillingu valdsmanna, ekki síst að embætti gengu kaupum og sölum. Með leiðbeiningum sínum leitaðist hún við að kalla valdsmenn frá illsku og til réttrar breytni og stjórnvisku. Kærleikurinn var æðsta dygðin því að hann endurspeglar Guð sem er kærleikur.

Hildegard af Bingen lést 17. september 1179.

Áhrif Hildegard af Bingen hafa verið mikil. Rit hennar voru þekkt og fljótlega eftir að prentöld hófst var farið að prenta úr þeim. Á síðari árum og áratugum hefur áhugi vaxið á verkum hennar. Útdrættir úr ritum hennar hafa komið út í handhægum útgáfum, tónlist hennar hefur komið út á hljómdiskum og matreiðslubækur hafa verið samdar sem byggjast á leiðbeiningum í ritum hennar. Guðfræðingar hafa rýnt og skoðað rit hennar og hrifist af jákvæðri sýn hennar á sköpun Guðs og margt kristið fólk hefur af lestri bóka hennar sótt sér endurnæringu í trú sína. Hildegard hefur líka haft áhrif út fyrir raðir kristins fólk, meðal annars á nýaldarfólk.

Hildegard af Bingen var aldrei formlega tekin í dýrlingatölu en hún er nefnd í rómverskri skrá yfir píslarvotta. Hún er samt sem áður oft kölluð heilög og meðal þeirra sem hafa nefnt hana heilaga eru bæði núverandi páfi Benedikt XVI. og fyrirrennari hans Jóhannes Páll II. Minningardagur Hildegard er dánardagur hennar 17. september.

Myndir:

Höfundur

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

prófessor í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

28.2.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hver var Hildegard frá Bingen og fyrir hvað er hún þekkt?“ Vísindavefurinn, 28. febrúar 2011. Sótt 28. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58448.

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). (2011, 28. febrúar). Hver var Hildegard frá Bingen og fyrir hvað er hún þekkt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58448

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hver var Hildegard frá Bingen og fyrir hvað er hún þekkt?“ Vísindavefurinn. 28. feb. 2011. Vefsíða. 28. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58448>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Hildegard frá Bingen og fyrir hvað er hún þekkt?
Í sögu kristinnar guðfræði eru ekki margar nafngreindar konur og lengst af hefur afrekum þeirra lítt verið haldið á loft. Á síðari árum hefur þetta viðhorf mjög breyst og hlutur kvenna í kirkjusögunni verið dreginn fram. Á miðöldum voru nokkrar konur sem mörkuðu spor og voru þekktar og ein þeirra er abbadísin Hildegard af Bingen (um 1098-1179).

Tólfta öldin var merkileg í mörgu tilliti. Þá átti sér stað trúarleg, menningarleg og félagsleg vakning víða í löndum Evrópu og er oft talað um endurreisnina á 12. öld sem eins konar fyrirrennara hinnar eiginlegu endurreisnar á 15. öld. Á 12. öld efldust menntir og fræði ekki síst fyrir tilstuðlan kirkjunnar og bæði munka- og nunnuklaustur mótuðust sem lærdóms- og menningarmiðstöðvar. Áhrifin náðu hingað út til Íslands. Skólarnir í Skálholti og á Hólum áttu blómaskeið auk menningar- og fræðasetra í Odda og á Þingeyrum svo að dæmi séu nefnd. Í Jóns sögu helga Ögmundssonar á Hólum segir að hann hafi flutt inn lærdómsmenn bæði frá Svíþjóð og Frakklandi sem kenndu í skóla hans. Í sögunni er líka getið konu sem Ingunn hét og var Arnórsdóttir, afasystir Kolbeins Tumasonar sem einnig var menntaður maður og orti sálminn kunna „Heyr, himnasmiður“. Ingunn átti heima á Hólum um daga Jóns Ögmundssonar og var menntuð í latínu og öðrum fræðum til jafns á við pilta og kenndi piltum latínu við Hólaskóla.

Hildegard af Bingen fæddist um 1098 í Böckelheim við ána Nahe í Rínardalnum. Hún var af aðalsættum og tíunda barn foreldra sinna. Hún var gefin til uppeldis í klaustri í Rínarlöndum og naut handleiðslu þekktrar einsetukonu sem Jutta hét. Það var algengt um þetta leyti að börn væru send í klaustur til fósturs, sérstaklega yngstu börnin í stórum fjölskyldum og er það sennilega skýringin á því að Hildegard var gefin í klaustur. Auk þess var Hildegard heilsuveil og átti við mikil veikindi að stríða fram eftir aldri og hefur það líka haft áhrif á að henni var fengið uppeldi í klaustri. Í klaustrinu lærði Hildegard að lesa og skrifa og syngja tíðagjörðina á latínu. Jutta var kennari hennar að því leyti sem henni var unnt og auk þess kenndi henni munkur að nafni Volmar sem síðar gerðist ritari hennar.

Strax sem telpa fór Hildegard að sjá sýnir og verða fyrir opinberunum. Jutta fóstra hennar hvatti hana og áleit vitranir hennar sannar en sjálf var Hildegard oft óttaslegin af vitrunum sínum. Orðrómurinn um vitranir hennar og sýnir breiddist út og flykktist fólk í klaustrið til að leita ráða hjá henni. Fór mikið orð af Hildegard og hlaut hún viðurnefnið Völva Rínarlanda. Við andlát Juttu var Hildegard útnefnd magistra – kennslukona – í klaustrinu en kærði sig ekki um frekari framgang þar þó að biskup hennar vildi það. Biskupinn varð að láta í minni pokann enda gat Hildegard skírskotað til eigin vitrana og sýnt fram á að í hvert sinn sem biskupinn reyndi að láta hana fara gegn vilja Drottins með hana, sló Guð hana sjúkdómi. Loks settist Hildegard að í klaustrinu Eibingen eða Bingen við Rín sem hún var síðan kennd við. Þar valdist hún til forstöðu.

Hildegard fékk vitrun um að skrifa vitranir sínar niður í bók og nefnist hún Scivias myndað af orðunum Sci vias veritatis (eða lucis) – það er Þekktu vegu sannleikans (eða ljóssins). Þar lýsir hún vitrunum sínum og skýrir þær út frá Heilagri ritningu. Hún skýrir þær einnig myndrænt og eru myndir hennar undir áhrifum af lýsingum í miðaldahandritum. Aðrar bækur um vitranir hennar eru Liber vitae meritorum – Bók um verðleika lífsins – og De operatione Dei – Um starf Guðs, sem er líka kölluð Liber divinorum operum – Bók um verk Guðs. Volmar, fyrrum kennari hennar og síðar ritari, aðstoðaði hana við skriftirnar og við að tengja vitranirnar Biblíunni.

Auk þess að skrifa þessar bækur um vitranir sínar skrifaði hún einnig bækur um náttúruna og um lækningar. Hún gekk út frá heildrænni hugsun og út frá sköpunarsögu Biblíunnar ítrekaði hún að hinn sýnilegi heimur væri góður og ætlaður mönnum til að nota sér til gagns. En allt yrði að fara fram með reglu og hafa dygðirnar að leiðarljósi. Hún leiðbeindi um lækningar og hafði trú á lækningamætti jurta, steina og vatns. Hún samdi tónlist og hafa varðveist lög sem hún samdi og byggjast á reglum tíðasöngs kirkjunnar.Hildegard frá Bingen fær vitrun og skrifar hana niður.

Hildegard naut mikillar hylli. Hún ferðaðist og prédikaði og kenndi einkum í klaustrum og er það merkilegt miðað við að konum var sjaldan leyft að kenna. Feminískir fræðimenn nútímans hafa bent á að Hildegard hafi komist svona langt af því að hún beygði sig sjálfviljug undir reglur feðraveldisins og þess vegna náði hún áheyrn fólks af öllum stéttum þjóðfélagsins. Veraldlegir og andlegir valdsmenn leituðu ráða hjá Hildegard, líka erkibiskupar og páfar. Hún var ófeimin við að skrifa þeim en smjaðraði engan veginn fyrir valdsmönnum heldur gekk fram með gagnrýni á hegðun þeirra ef henni þóttu þeir framganga í ósamræmi við vilja Guðs. Hún fordæmdi spillingu valdsmanna, ekki síst að embætti gengu kaupum og sölum. Með leiðbeiningum sínum leitaðist hún við að kalla valdsmenn frá illsku og til réttrar breytni og stjórnvisku. Kærleikurinn var æðsta dygðin því að hann endurspeglar Guð sem er kærleikur.

Hildegard af Bingen lést 17. september 1179.

Áhrif Hildegard af Bingen hafa verið mikil. Rit hennar voru þekkt og fljótlega eftir að prentöld hófst var farið að prenta úr þeim. Á síðari árum og áratugum hefur áhugi vaxið á verkum hennar. Útdrættir úr ritum hennar hafa komið út í handhægum útgáfum, tónlist hennar hefur komið út á hljómdiskum og matreiðslubækur hafa verið samdar sem byggjast á leiðbeiningum í ritum hennar. Guðfræðingar hafa rýnt og skoðað rit hennar og hrifist af jákvæðri sýn hennar á sköpun Guðs og margt kristið fólk hefur af lestri bóka hennar sótt sér endurnæringu í trú sína. Hildegard hefur líka haft áhrif út fyrir raðir kristins fólk, meðal annars á nýaldarfólk.

Hildegard af Bingen var aldrei formlega tekin í dýrlingatölu en hún er nefnd í rómverskri skrá yfir píslarvotta. Hún er samt sem áður oft kölluð heilög og meðal þeirra sem hafa nefnt hana heilaga eru bæði núverandi páfi Benedikt XVI. og fyrirrennari hans Jóhannes Páll II. Minningardagur Hildegard er dánardagur hennar 17. september.

Myndir: ...