Sólin Sólin Rís 03:46 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:11 • Síðdegis: 18:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:13 • Síðdegis: 12:17 í Reykjavík

Hvaða skólar voru starfræktir á Íslandi á miðöldum?

Hjalti Hugason

Hér skiptir miklu máli hvaða merkingu við leggjum í orðið skóli. Almennt merkir það fastmótaða stofnun sem starfar með reglubundnum hætti í langan tíma eftir formlegri skipulagsskrá og þar sem kennarar fræða nemendur. Sé þessu hugtaki beitt er óvíst hvenær skólahald hófst hér, hversu margir skólar voru í landinu og svo framvegis. Betra væri því að ræða um kennslu en skóla og má í því sambandi minna á að allt fram til 1831 var mjög algengt að piltar lykju námi til stúdentsprófs hjá einkakennara, oftast presti, sem hafði jafnvel fleiri nemendur í læri samtímis. Nægði slíkt nám til prestsskapar. Eins hefur verið á miðöldum, flestir hafa ugglaust hlotið kennslu utan formlegs skóla eða á mörkum skóla og einkakennslu.

Frá fornu fari voru að minnsta kosti höfðingjasynir fræddir í ýmsum hagnýtum greinum eins og lögum, ættfræði (meðal annars vegna erfðamála), skáldskaparfræði til að geta skilið kveðskap eða jafnvel sjálfir orðið skáld, helst hirðskáld, og loks „mannfræði“, það er frásagnir af minnisverðum persónum. Þessi fræðsla hefur farið fram munnlega þar til farið var að færa lög í letur á 12. öld, þar til Landnámuritun hófst á 12.-13. öld og þar til Snorri Sturluson (1178-1241) tók saman hin miklu skáldskaparfræði sín.


Hólar í Hjaltadal.

Í sumum tilvikum hafa konur annast kennsluna eins og segir um móður Þorláks biskups Þórhallssonar. Í miðaldabókmenntum segir víðar frá því að konur hafi kennt en hins vegar hvergi að þær hafi verið formlega í læri. Má ætla að þær hafi í flestum tilvikum menntast óformlega líkt og á seinni öldum þegar stúlkur urðu læsar af því að fylgjast með lærdómi bræðra sinna. Konur gátu því verið varðveitendur og miðlendur þekkingar þrátt fyrir að tækifæri þeirra til menntunar væru fá.

Með kristninni kom fram ný þörf fyrir menntun; menntun presta og síðar munka og nunna. Í fyrstu voru námskröfurnar takmarkaðar. Prestefni átti að vera læs á latneskar helgisiðabækur kirkjunnar og geta yfirfært texta í karlkyni yfir á kvenkyn, til dæmis við skírn. Í fyrstu hefur því verið um kennslu í lestri og skrift að ræða auk tæknilegrar þjálfunar í messuflutningi og öðru helgihaldi. Nám af þessu tagi hefur að líkindum verið stundað hvar sem lærðan mann var að finna en það hefur oftast verið við höfuðkirkjur í eigu höfðingja.

Með aukinni festu kirkjunnar efldist fræðslan og skólar í einhverri merkingu tóku að myndast þótt ekki sé í neinu tilviki hægt að segja til um hversu stöðugt skólahald var á einstökum stöðum. Það var hlutverk biskupa að ábyrgjast menntun presta og því hefur snemma verið efnt til kennslu og síðar skólahalds á biskupsstólunum á Hólum og í Skálholti.

Þá hefur fræðsla farið fram í klaustrunum sem urðu að gera nýliða hæfa til helgihalds en til þess þurfti að minnsta kosti bænarbókarfæri á latínu, það er fólk varð að vera læst á texta sem það að hluta til kunni vegna endurtekningarinnar. Lesturinn studdi þannig við minnið. Erlendis var talað um svokallaða innri og ytri skóla. Fyrrnefndu skólarnir voru hluti af klausturstarfinu og voru aðeins fyrir verðandi munka og nunnur en hinir síðarnefndu fyrir aðra, oftast verðandi presta.


Skálholt.

Loks er talað um skóla á höfðingjasetrunum Haukadal og Odda. Kunna að hafa verið sérstök tengsl milli Skálholts og Haukadals vegna ættartengsla í tíð fyrstu tveggja Skálholtsbiskupanna. Þá eru til sagnir af skóla að Völlum í Svarfaðardal en þær eru hæpnar. Kann að mega skilja þær svo að skólameistari á Hólum hafi haft tekjur sínar af Völlum. Loks fer sögnum af skólahaldi í Stafholti í Borgarfirði í tíð Ólafs Þórðarsonar hvítaskálds (d. 1259). Allir hafa þessir skólar tengst kirkjum á höfðingjasetrum og þar hafa ef til vill vafist saman klerkleg menntun og hin innlendu fræði sem að framan voru nefnd.

Þegar fram liðu stundir kann að vera að allar hinar svokölluðu sjö frjálsu listir hafi verið stundaðar í skólum hér á landi eins og erlendis; það er málfræði, rökfræði, mælskulist, stærðfræði, flatarmálsfræði, stjörnufræði og tónlist.

Skólarnir voru almennt hugsaðir út frá þörfum kirkjunnar og náminu því lokið með því að nemendur urðu prestar, munkar eða nunnur. Eftir 1190 þegar erkibiskup bannaði að sami maður færi með goðorð og væri prestvígður hefur þeim fjölgað sem námu til prests án þess að taka vígslu. Því kunna skólarnir að einhverju leyti að hafa þjónað höfðingjasonum hafi þeir verið nægilega burðugir til að þjóna fleirum en kirkjan þurfti til starfa. Lengi var það svo að höfðingjar höfðu lægri vígslur en lifðu að öðru leyti veraldlegu lífi. Sýnir það að þeir hafa hlotið nokkra menntun og ef til vill fullgilda prestmenntun þótt þeir nýttu sér hana ekki af fyrrgreindum ástæðum.

Í heild má segja að menntun og skólahald hafi verið sameiginlegt hlutverk kirkju og höfðingja eins og flest annað sem að kirkju og menningu laut á miðöldum. Frumhlutverk skólanna hefur verið kirkjulegt en þeir að einhverju leyti þjónað samfélaginu í víðara samhengi. Ekki er hins vegar mögulegt að fullyrða hversu stöðugt skólahaldið var. Einkum má þó ætla að á biskupsstólunum hafi jafnan farið fram kennsla.

Þeir sem vilja lesa lýsingu á skólahaldi á miðöldum ættu að líta á lokin á 8. kap. Jóns sögu helga en þar er brugðið upp fegraðri mynd af skólahaldi á Hólum í tíð Jóns Ögmundarsonar (1106-1121). (Sjá t.d. Íslenzk fornrit, XV. bindi., Biskupa sögur I síðari hluta. Reykjavík, Hið íslenzka fornritafélag. 2003, bls. 217-218.)

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir:

Spyrjandi bætir einnig við:
Hverjir stóðu að þeim hvað var kennt og fyrir hverja voru þessir skólar hugsaðir?

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

11.6.2004

Spyrjandi

Guðrún Jóhannsdóttir

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvaða skólar voru starfræktir á Íslandi á miðöldum?“ Vísindavefurinn, 11. júní 2004. Sótt 23. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4342.

Hjalti Hugason. (2004, 11. júní). Hvaða skólar voru starfræktir á Íslandi á miðöldum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4342

Hjalti Hugason. „Hvaða skólar voru starfræktir á Íslandi á miðöldum?“ Vísindavefurinn. 11. jún. 2004. Vefsíða. 23. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4342>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða skólar voru starfræktir á Íslandi á miðöldum?
Hér skiptir miklu máli hvaða merkingu við leggjum í orðið skóli. Almennt merkir það fastmótaða stofnun sem starfar með reglubundnum hætti í langan tíma eftir formlegri skipulagsskrá og þar sem kennarar fræða nemendur. Sé þessu hugtaki beitt er óvíst hvenær skólahald hófst hér, hversu margir skólar voru í landinu og svo framvegis. Betra væri því að ræða um kennslu en skóla og má í því sambandi minna á að allt fram til 1831 var mjög algengt að piltar lykju námi til stúdentsprófs hjá einkakennara, oftast presti, sem hafði jafnvel fleiri nemendur í læri samtímis. Nægði slíkt nám til prestsskapar. Eins hefur verið á miðöldum, flestir hafa ugglaust hlotið kennslu utan formlegs skóla eða á mörkum skóla og einkakennslu.

Frá fornu fari voru að minnsta kosti höfðingjasynir fræddir í ýmsum hagnýtum greinum eins og lögum, ættfræði (meðal annars vegna erfðamála), skáldskaparfræði til að geta skilið kveðskap eða jafnvel sjálfir orðið skáld, helst hirðskáld, og loks „mannfræði“, það er frásagnir af minnisverðum persónum. Þessi fræðsla hefur farið fram munnlega þar til farið var að færa lög í letur á 12. öld, þar til Landnámuritun hófst á 12.-13. öld og þar til Snorri Sturluson (1178-1241) tók saman hin miklu skáldskaparfræði sín.


Hólar í Hjaltadal.

Í sumum tilvikum hafa konur annast kennsluna eins og segir um móður Þorláks biskups Þórhallssonar. Í miðaldabókmenntum segir víðar frá því að konur hafi kennt en hins vegar hvergi að þær hafi verið formlega í læri. Má ætla að þær hafi í flestum tilvikum menntast óformlega líkt og á seinni öldum þegar stúlkur urðu læsar af því að fylgjast með lærdómi bræðra sinna. Konur gátu því verið varðveitendur og miðlendur þekkingar þrátt fyrir að tækifæri þeirra til menntunar væru fá.

Með kristninni kom fram ný þörf fyrir menntun; menntun presta og síðar munka og nunna. Í fyrstu voru námskröfurnar takmarkaðar. Prestefni átti að vera læs á latneskar helgisiðabækur kirkjunnar og geta yfirfært texta í karlkyni yfir á kvenkyn, til dæmis við skírn. Í fyrstu hefur því verið um kennslu í lestri og skrift að ræða auk tæknilegrar þjálfunar í messuflutningi og öðru helgihaldi. Nám af þessu tagi hefur að líkindum verið stundað hvar sem lærðan mann var að finna en það hefur oftast verið við höfuðkirkjur í eigu höfðingja.

Með aukinni festu kirkjunnar efldist fræðslan og skólar í einhverri merkingu tóku að myndast þótt ekki sé í neinu tilviki hægt að segja til um hversu stöðugt skólahald var á einstökum stöðum. Það var hlutverk biskupa að ábyrgjast menntun presta og því hefur snemma verið efnt til kennslu og síðar skólahalds á biskupsstólunum á Hólum og í Skálholti.

Þá hefur fræðsla farið fram í klaustrunum sem urðu að gera nýliða hæfa til helgihalds en til þess þurfti að minnsta kosti bænarbókarfæri á latínu, það er fólk varð að vera læst á texta sem það að hluta til kunni vegna endurtekningarinnar. Lesturinn studdi þannig við minnið. Erlendis var talað um svokallaða innri og ytri skóla. Fyrrnefndu skólarnir voru hluti af klausturstarfinu og voru aðeins fyrir verðandi munka og nunnur en hinir síðarnefndu fyrir aðra, oftast verðandi presta.


Skálholt.

Loks er talað um skóla á höfðingjasetrunum Haukadal og Odda. Kunna að hafa verið sérstök tengsl milli Skálholts og Haukadals vegna ættartengsla í tíð fyrstu tveggja Skálholtsbiskupanna. Þá eru til sagnir af skóla að Völlum í Svarfaðardal en þær eru hæpnar. Kann að mega skilja þær svo að skólameistari á Hólum hafi haft tekjur sínar af Völlum. Loks fer sögnum af skólahaldi í Stafholti í Borgarfirði í tíð Ólafs Þórðarsonar hvítaskálds (d. 1259). Allir hafa þessir skólar tengst kirkjum á höfðingjasetrum og þar hafa ef til vill vafist saman klerkleg menntun og hin innlendu fræði sem að framan voru nefnd.

Þegar fram liðu stundir kann að vera að allar hinar svokölluðu sjö frjálsu listir hafi verið stundaðar í skólum hér á landi eins og erlendis; það er málfræði, rökfræði, mælskulist, stærðfræði, flatarmálsfræði, stjörnufræði og tónlist.

Skólarnir voru almennt hugsaðir út frá þörfum kirkjunnar og náminu því lokið með því að nemendur urðu prestar, munkar eða nunnur. Eftir 1190 þegar erkibiskup bannaði að sami maður færi með goðorð og væri prestvígður hefur þeim fjölgað sem námu til prests án þess að taka vígslu. Því kunna skólarnir að einhverju leyti að hafa þjónað höfðingjasonum hafi þeir verið nægilega burðugir til að þjóna fleirum en kirkjan þurfti til starfa. Lengi var það svo að höfðingjar höfðu lægri vígslur en lifðu að öðru leyti veraldlegu lífi. Sýnir það að þeir hafa hlotið nokkra menntun og ef til vill fullgilda prestmenntun þótt þeir nýttu sér hana ekki af fyrrgreindum ástæðum.

Í heild má segja að menntun og skólahald hafi verið sameiginlegt hlutverk kirkju og höfðingja eins og flest annað sem að kirkju og menningu laut á miðöldum. Frumhlutverk skólanna hefur verið kirkjulegt en þeir að einhverju leyti þjónað samfélaginu í víðara samhengi. Ekki er hins vegar mögulegt að fullyrða hversu stöðugt skólahaldið var. Einkum má þó ætla að á biskupsstólunum hafi jafnan farið fram kennsla.

Þeir sem vilja lesa lýsingu á skólahaldi á miðöldum ættu að líta á lokin á 8. kap. Jóns sögu helga en þar er brugðið upp fegraðri mynd af skólahaldi á Hólum í tíð Jóns Ögmundarsonar (1106-1121). (Sjá t.d. Íslenzk fornrit, XV. bindi., Biskupa sögur I síðari hluta. Reykjavík, Hið íslenzka fornritafélag. 2003, bls. 217-218.)

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir:

Spyrjandi bætir einnig við:
Hverjir stóðu að þeim hvað var kennt og fyrir hverja voru þessir skólar hugsaðir?
...