Karlmanni hverjum fulltíða, er vit hefir til þess, er skylt að kunna orð þau að skíra barn, og þau atferli er þar fylgja. En ef hann kann eigi fyrir óræktar sakir, og varðar fjörbaugsgarð, og á biskup að ráða fyrir sök þeirri. Hverjum manni er skylt, bæði karlmanni og konu er hyggindi hefir til, að kunna Pater noster og Credo. En ef hann vill eigi kunna og hafi hann vit til, það varðar fjörbaugsgarð. Biskup skal ráða hver þá sök skal sækja. (Grágás 1992: 5)Hér er þess með öðrum orðum krafist að allir heilbrigðir einstaklingar kunni Faðirvorið (Pater noster) og trúarjátninguna (Credo). Karlar áttu líka að kunna að skíra börn skemmri skírn sem mikilvægt var að geta gripið til þegar ekki náðist til prests. Raunar var líka reiknað með að konur kynnu að skíra. Þær áttu að geta kennt karlmönnum og jafnvel leiðbeint lítt uppfræddum drengjum meðan á skírninni stóð. Þær máttu hins vegar alls ekki skíra sjálfar ef mögulega var hægt að ná í karlmann til verksins! Þessar fræðslukröfur voru teknar alvarlega vegna þess að það varðaði þriggja ára útlegð úr landi (fjörbaugsgarð) að þverskallast. Hér skal þess getið að kristinréttur er ekki kirkjuleg heldur veraldleg löggjöf. Til þess að vera fullgildur þegn í íslenska samfélaginu um 1130 þurfti sem sé að afla sér þessarar þekkingar. Lítið er vitað hvernig tókst að framfylgja þessum fræðslukröfum. Prestum var snemma boðið að fara oft í þessi atriði með fólki og sennilega hefur það fljótt komið í hlut heimilanna, einkum mæðra, amma og fóstra, að annast uppfræðsluna. Skírnarorðin hafa verið lærð á íslensku. Sennilega hefur verið miðað við að fólk kynni Faðirvorið og trúarjátninguna á latínu en vissi líka eitthvað dálítið um hvað þessir textar snerust. Þegar frá leið komst því á vísir að fræðslukerfi í landinu þar sem heimilin sáu um framkvæmd en kirkjan leit eftir að fræðslukröfum væri fullnægt. Inntak fræðslunnar var einvörðungu trúarlegt og stóð svo allt fram á 18. öld að minnsta kosti. Þá hóf lestrarkennsla innreið sína fyrir alvöru en þá einkum sem hjálpargrein við trúfræðsluna. Hér á undan hefur aðeins verið rætt um almenningsfræðsluna. En í kjölfar kristnitökunnar hófst einnig æðri menntun í landinu. Helsta markmið hennar var að mennta klerka til þjónustu við kirkjuna og var latína uppistaðan í menntun þeirra. Á grunni þeirrar menntastarfsemi hófst síðan umfangsmikil bókmenning á móðurmáli og skipti þar líklega miklu að kirkjumenning og höfðingjamenning þróaðist mjög í sama farvegi á fyrstu öldum kristni í landinu. Athyglisvert er að á rúmlega 100 árum nær svo öflugt menntastarf að þróast í landinu að rit á borð við Íslendingabók Ara fróða voru færð í letur. Skýringin á þessari öru þróun er ugglaust sú að það voru einungis örfáir ungir karlmenn sem tóku þátt í henni. Margir þeirra voru af höfðingjaættum og aðrir skjólstæðingar höfðingja. Menning þeirra gefur hins vegar enga mynd af menntunarstöðu samfélagsins í heild.
Hvað lærði fólk árið 1000? Var um einhverja „menntun“ að ræða?
Útgáfudagur
22.3.2000
Síðast uppfært
31.3.2023
Spyrjandi
Sigrún Svafa Ólafsdóttir
Tilvísun
Hjalti Hugason. „Hvað lærði fólk árið 1000? Var um einhverja „menntun“ að ræða?“ Vísindavefurinn, 22. mars 2000, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=274.
Hjalti Hugason. (2000, 22. mars). Hvað lærði fólk árið 1000? Var um einhverja „menntun“ að ræða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=274
Hjalti Hugason. „Hvað lærði fólk árið 1000? Var um einhverja „menntun“ að ræða?“ Vísindavefurinn. 22. mar. 2000. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=274>.