- Sakramenti er heilög athöfn, sem Kristur stofnsetti sjálfur, þar sem hann veitir ósýnilegum, himneskum náðargjöfum gegnum sýnilegt, jarðneskt efni samkvæmt orði sínu.
Jesús stofnsetti altarissakramentið þegar hann sat síðast að borði með lærisveinum sínum og sagði yfir brauðinu og víninu: „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna” eins og segir í innsetningarorðum altarissakramentisins.
Rómversk-kaþólska kirkjan og rétttrúnaðarkirkjan telja sakramentin fleiri en tvö eða alls sjö og þau eru: Skírn, ferming, skriftir, heilög kvöldmáltíð, smurning sjúkra, prestsvígsla og hjónaband. Stofnun þeirra var rakin til Krists ýmist beint eða óbeint, gegnum postulana eins og það var orðað.
Í þeim deilum sem ollu klofningi kirkjunnar á 16. öld höfnuðu lútherskir menn fimm þessara athafna sem sakramentum annaðhvort á þeirri forsendu að Kristur hefði ekki stofnað þær (fermingin, smurning sjúkra, hjónaband) eða af því að efni vantaði (skriftir, prestsvígsla). En athafnirnar sem tengdust þessum sakramentum héldust allar innan lúthersku kirkjunnar og hafa verið álitnar mikilvægar eins þótt menn héldu ekki að það væri hægt að skýrgreina þær sem sakramenti.
Mynd: HB