Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru vísindi?

Finnur Dellsén og Jón Ólafsson

Vísindin eru líklega það svið mannlegrar starfsemi sem hefur haft hvað mest áhrif á líf manna undanfarnar tvær til þrjár aldir. Án vísinda væru engir símar, engar flugvélar og engar tölvur. Geimflaugar væru ekki til og menn hefðu því aldrei farið út fyrir himinhvolf jarðar, hvað þá stigið fæti á tunglið. Ótal smitsjúkdómar sem tekist hefur að útrýma mundu enn hrjá mannkynið, svo sem mænusótt og mislingar, auk þess sem meðferð við sjúkdómum eins og krabbameini og alnæmi væru tæpast til staðar. Leysigeislar hefðu aldrei verið fundnir upp og sjónleiðréttingaraðgerðir fyrir þá sem annars þyrftu gleraugu væru því ekki í boði.

Leysigeislar eru dæmi um fyrirbæri sem útilokað hefði verið að búa til nema fyrir tilkomu og framþróun vísinda.

Í ljósi þessarar stöðu vísinda í samfélaginu og sögu okkar hafa margir velt því fyrir sér hvað einkenni vísindin. Hvað, ef nokkuð, greinir vísindi frá annarri mannlegri starfsemi? Í grófum dráttum má segja að þessari spurningu hafi verið svarað með tvennskonar hætti: Annars vegar hefur því verið haldið fram að vísindi hafi sérstöðu að því leyti að aðferðir þeirra, sem byggjast á því að rökstyðja kenningar með hjálp reynslu og rökhugsun, veiti okkur greiðari og betri aðgang að sannleikanum heldur en önnur mannleg starfsemi. Hins vegar hefur því einnig verið haldið fram að vísindin búi alls ekki yfir þessari miklu sérstöðu, heldur séu þau einungis ein af mörgum jafngildum leiðum til að kanna heiminn. Við skulum skoða þessi tvö viðhorf til vísinda aðeins betur.

Popper, afmörkunarvandinn og hjávísindi

Segja má að nútímavísindi séu reist á þeirri meginhugmynd upplýsingarinnar að öðlast megi þekkingu á heiminum með hjálp rökhugsunar og reynslu. Samkvæmt þessari hugsun eru vísindin skipuleg þekkingarleit af þessu tagi. Á hinn bóginn hefur lengi verið ljóst að eitt höfuðeinkenni vísindalegrar aðferðar er sífelld endurskoðun vísindalegra niðurstaðna. Mörgum vísindakenningum sem voru við lýði fyrir einni til tveimur öldum síðan hefur nú verið kastað fyrir róða og aðrar kenningar teknar upp í þeirra stað. Það er því ekki rétt, sem stundum er haldið fram, að vísindin séu óskeikul.

Engu að síður virðast vísindin einkennast af sérstakri aðferðafræði sem greinir þau frá annarri mannlegri starfsemi. Samkvæmt vísindaheimspekingnum Karl Popper byggist sérstaða vísinda á því að þau afmarka viðfangsefni sín þannig að alltaf sé ljóst með hvaða hætti megi hrekja kenningu eða tilgátu sem sett er fram í vísindum. Ef vísindaleg kenning eða tilgáta er ósönn þá er alltaf hægt að gera tilraun eða athugun sem sýni fram á að svo sé. Á öðrum sviðum – sér í lagi í gervi- eða hjávísindum – eru hins vegar settar fram tilgátur sem ómögulegt væri að hrekja með þessum hætti, jafnvel þótt þær væru ósannar. Megineinkenni vísinda – og það sem greinir sannkölluð vísindi frá hjávísindum – er því hrekjanleiki (e. falsifiability) vísindalegra kenninga.

Við skulum skoða þessa hugmynd aðeins betur. Segjum sem svo að ég setji fram þá kenningu að allir hrafnar séu svartir. Samkvæmt Popper er þetta vísindaleg kenning vegna þess að hún er hrekjanleg. Við getum ímyndað okkur þær athuganir sem myndu ótvírætt sýna fram á að kenningin sé ósönn. Ef þú bendir mér á hvítan (eða bláan, eða gulan, eða…) hrafn þá hefur þér tekist að hrekja kenninguna mína. Ef hrafnar af öðrum lit hafa ekki fundist er kenningin enn óhrakin, en hún er engu að síður hrekjanleg í þeim skilningi að við getum enn ímyndað okkur þær kringumstæður sem þyrftu að vera til staðar svo að kenninguna megi hrekja. Samkvæmt Popper eru allar vísindalegar kenningar þessu marki brenndar: Þær eru allar hrekjanlegar. Og þótt þær kenningar sem við lýði eru hverju sinni hafi að sjálfsögðu ekki verið hraktar þá er sá möguleiki alltaf til staðar að svo geti farið í framtíðinni.

Karl Popper (til vinstri) ásamt tékkneska sálfræðingnum Cyril Höschl.

Í samræmi við þetta hélt Popper því svo fram að það sem einkenni hjávísindi sé það að kenningar þeirra séu ekki hrekjanlegar. Popper tók sálgreinikenningar Freuds sem dæmi um hjávísindi og hélt því fram að engin leið væri að hrekja kenningarnar jafnvel þótt þær væru ósannar. Ef maður stæði á bryggju og væri að velta fyrir sér að ganga í sjóinn gætu kenningar Freuds bæði skýrt það að maðurinn fremdi sjálfsmorð og eins að maðurinn tæki ákvörðun um að ganga aftur á land. Kenningar Freuds hefðu „svör við öllu“ og kæmu sér þannig undan því að vera hraktar sama hvað gerist. Ólíkt alvöru vísindakenningar væru kenningarnar því óhrekjanlegar.

Þótt margir telji að það sé heilmikið til í því hjá Popper að vísindakenningar þurfi að vera hrekjanlegar í einhverjum skilningi, hefur einnig verið bent á að margar hjávísindakenningar séu hrekjanlegar – og raunar hraktar. Sem dæmi má nefna svokallaðar stjörnuspár, þar sem settar eru fram spár um framtíðina sem byggjast á stöðu stjarna og himintungla. Slíkar „spár“ eru oft hrekjanlegar því þótt spárnar séu oft nokkuð óljósar segja þær stundum til um tiltekna atburði í framtíðinni (svo sem að viðkomandi „auðgist verulega“ á árinu). Ef slíkir atburðir eiga sér ekki stað er kenningin sem stjörnuspáin byggist á hrakin og því eru stjörnuspár í raun hrekjanlegar tilgátur, þvert á hugmyndir Poppers um að kenningar hjávísinda séu ekki hrekjanlegar.

Sumir þeirra sem fylgja Popper að máli hafa sagt að þessi gagnrýni byggist á einfeldingslegri túlkun á verkum Poppers. Þótt Popper hafi sagt að vísindi þurfi að vera hrekjanleg hafi hann einnig lagt áherslu á að gerðar séu raunverulegar tilraunir til að hrekja kenninguna og að niðurstöður slíkra tilrauna séu teknar góðar og gildar. Það sem einkenni sum hjávísindi eins og stjörnuspeki sé einmitt að iðkendur hafi annað hvort ekki áhuga á að láta reyna á kenninguna í athugunum eða skeyti engu um það að athuganirnar stangist á við hana. Í sannkölluðum vísindum sé hins vegar rík áhersla lögð á að kenningar séu prófaðar í athugunum og mikill þrýstingur á að hafna vísindakenningum sem stangast á við slíkar athuganir.

Efasemdir um sérstöðu vísinda

Á síðari hluta 20. aldar höfnuðu heimspekingar því í auknum mæli að vísindi hefðu greiðari og betri aðgang að sannleikanum heldur en önnur mannleg starfsemi. Ber þar hæst að nefna vísindasagnfræðinginn Thomas Kuhn, sem hélt því fram að saga vísinda einkenndist af stórum breytingum – svokölluðum vísindabyltingum – sem ekki stjórnuðust af reynslu eða rökhugsun. Þegar vísindamenn hafna eða samþykkja kenningar og jafnvel athuganir, taldi Kuhn að þær væru undir miklum áhrifum af þeim tíðaranda og hleypidómum sem viðgangast hverju sinni. Vísindin eru því ekki svo ólík annarri mannlegri starfsemi þrátt fyrir allt.

Þó að hin mikla vísindatrú sem einkenndi fyrri hluta aldarinnar sé nú horfin að mestu og vísindamenn og fræðimenn um vísindi hafi bent á takmarkanir vísinda, bæði gagnvart sannleikanum sjálfum og gagnvart vandamálum manna, fer því að sjálfsögðu fjarri að hlutverk vísinda í stjórnmálum og samfélagsþróun hafi minnkað. Öll forspá og framtíðarskipulagning þróaðra samfélaga nú á dögum er byggð á vísindarannsóknum. Þetta endurspeglast í fræðilegri umræðu um vísindi sem snýst ekki síst um stöðu vísindanna í samfélaginu og félagslegar og siðferðilegar afleiðingar vísindalegra uppgötvana.

Ljóst er að vísindalegar uppgötvanir geta haft miklar og stundum mjög skaðlegar afleiðingar, kjarnorkusprengjan er gott dæmi um það.

Mörgum grundvallarspurningum um eðli vísinda má þó segja að sé ósvarað. Hvernig er hægt að réttlæta gífurlega áherslu vestrænna þjóðfélaga á hverskyns vísindarannsóknir þegar ekki er lengur reynt að halda því fram að vísindi séu hlutlaus um verðmæti? Hvað réttlætir vísindaiðkun þegar ókleift er að sýna fram á að niðurstöður vísinda séu „sannari“ en niðurstöður sem fengnar eru með óvísindalegum aðferðum? Hvað verður um vísindin þegar mönnum er orðið ljóst að þau, rétt eins og annað mannlegt atferli, eru háð praktískum, félagslegum og menningarlegum viðmiðum?

Margir fræðimenn hafa á síðari árum skoðað vísindin sem menningarlegt fyrirbæri og rýnt í það hvernig vísindin koma fram í valdaskipan og samfélagstogstreitu. Þannig má sjá að vísindaleg starfsemi ræðst mjög af hagsmunum og völdum. Orðræða vísindanna endurspeglar hagsmuni þeirra sem völdin hafa og er fráleitt hlutlaus. Því er þá vísað á bug að vísindi geti hafið sig yfir aðrar tegundir orðræðu. Samkvæmt þessu viðhorfi til vísinda er því þannig ekki aðeins hafnað að vísindin hafi einkarétt á sannleikanum, heldur er aðferð vísindanna lögð að jöfnu við hvaða aðferð sem vera skal við að festa skoðun í sessi.

Það má segja að þessi skoðun sé á vissan hátt and-vísindaleg eða and-fræðileg. Hún þarf þó ekki að vera það: Ekki er gert lítið úr hlutverki vísinda og vísindarannsókna. Það er sérstaða vísindanna sem efast er um og þar með sú aðferð sem helst er beitt til að vernda vísindalega orðræðu fyrir „óvísindalegri“ gagnrýni. Þó að vísindunum sé varpað af stalli þá eru þau svo snar þáttur í nútímamenningu að vel má halda því fram að þau endurreisi sig jafnóðum sjálfkrafa. Ástæðan er meðal annars sú að í mörgum greinum samfélags- og stjórnmála hafa vísindin einfaldlega orðið óháður vettvangur sem málsaðilar neyðast til að fallast á. Það merkir ekki að vísindalegar niðurstöður séu einhlítur úrskurður en þær geta orðið innlegg í deilur sem málsaðilar verða að taka tillit til.

Eins hafa auknar efasemdir manna um að tengja megi árangur stærðfræði og náttúruvísinda beint við sannleikann orðið til þess að víkka svið vísinda. Augljóslega rúmast fleira innan vísindahugtaksins falli menn frá því að telja grundvallarmarkmið vísinda vera að draga upp heildarmynd af veruleikanum eins og hann sé „í raun og veru.“ Hvernig sem á það er litið þá eru vísindi einn af grundvallarþáttum nútímasamfélags. Þau eru því miklu meira heldur en safn skoðana á veruleikanum eða aðferða til að gera uppgötvanir. Orðræða vísindanna blandast inn í allar tilraunir til að skýra, meta eða skipuleggja mannlegt líf og samneyti.

Heimildir og frekara lesefni:

  • Erlendur Jónsson (2008). Hvað eru vísindi? Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Erlendur Jónsson (2013). Inngangur að rökfræði I. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Kuhn, Thomas S. (2015). Vísindabyltingar. Íslensk þýðing eftir Kristján G. Arngrímsson, Eyja Margrét Brynjarsdóttir ritaði inngang. Reykjavík. Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Popper, Karl (2009). Ský og klukkur. Íslensk þýðing eftir Gunnar Ragnarsson; inngangur eftir Huginn F. Þorsteinsson. Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands.

Myndir:

Seinni hluti þessa svars byggir að stærstum hluta á eldra svari Jóns Ólafssonar við sömu spurningu. Það svar birtist 3. júlí 2000. Finnur Dellsén skrifaði fyrri hluta þessa svars í janúar 2016.

Höfundar

Finnur Dellsén

dósent í heimspeki

Jón Ólafsson

prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands

Útgáfudagur

22.1.2016

Síðast uppfært

20.5.2019

Spyrjandi

Þóra Huld Magnúsdóttir, Fannar Freyr Ívarsson, Skarphéðinn Þór

Tilvísun

Finnur Dellsén og Jón Ólafsson. „Hvað eru vísindi?“ Vísindavefurinn, 22. janúar 2016, sótt 15. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=609.

Finnur Dellsén og Jón Ólafsson. (2016, 22. janúar). Hvað eru vísindi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=609

Finnur Dellsén og Jón Ólafsson. „Hvað eru vísindi?“ Vísindavefurinn. 22. jan. 2016. Vefsíða. 15. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=609>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru vísindi?
Vísindin eru líklega það svið mannlegrar starfsemi sem hefur haft hvað mest áhrif á líf manna undanfarnar tvær til þrjár aldir. Án vísinda væru engir símar, engar flugvélar og engar tölvur. Geimflaugar væru ekki til og menn hefðu því aldrei farið út fyrir himinhvolf jarðar, hvað þá stigið fæti á tunglið. Ótal smitsjúkdómar sem tekist hefur að útrýma mundu enn hrjá mannkynið, svo sem mænusótt og mislingar, auk þess sem meðferð við sjúkdómum eins og krabbameini og alnæmi væru tæpast til staðar. Leysigeislar hefðu aldrei verið fundnir upp og sjónleiðréttingaraðgerðir fyrir þá sem annars þyrftu gleraugu væru því ekki í boði.

Leysigeislar eru dæmi um fyrirbæri sem útilokað hefði verið að búa til nema fyrir tilkomu og framþróun vísinda.

Í ljósi þessarar stöðu vísinda í samfélaginu og sögu okkar hafa margir velt því fyrir sér hvað einkenni vísindin. Hvað, ef nokkuð, greinir vísindi frá annarri mannlegri starfsemi? Í grófum dráttum má segja að þessari spurningu hafi verið svarað með tvennskonar hætti: Annars vegar hefur því verið haldið fram að vísindi hafi sérstöðu að því leyti að aðferðir þeirra, sem byggjast á því að rökstyðja kenningar með hjálp reynslu og rökhugsun, veiti okkur greiðari og betri aðgang að sannleikanum heldur en önnur mannleg starfsemi. Hins vegar hefur því einnig verið haldið fram að vísindin búi alls ekki yfir þessari miklu sérstöðu, heldur séu þau einungis ein af mörgum jafngildum leiðum til að kanna heiminn. Við skulum skoða þessi tvö viðhorf til vísinda aðeins betur.

Popper, afmörkunarvandinn og hjávísindi

Segja má að nútímavísindi séu reist á þeirri meginhugmynd upplýsingarinnar að öðlast megi þekkingu á heiminum með hjálp rökhugsunar og reynslu. Samkvæmt þessari hugsun eru vísindin skipuleg þekkingarleit af þessu tagi. Á hinn bóginn hefur lengi verið ljóst að eitt höfuðeinkenni vísindalegrar aðferðar er sífelld endurskoðun vísindalegra niðurstaðna. Mörgum vísindakenningum sem voru við lýði fyrir einni til tveimur öldum síðan hefur nú verið kastað fyrir róða og aðrar kenningar teknar upp í þeirra stað. Það er því ekki rétt, sem stundum er haldið fram, að vísindin séu óskeikul.

Engu að síður virðast vísindin einkennast af sérstakri aðferðafræði sem greinir þau frá annarri mannlegri starfsemi. Samkvæmt vísindaheimspekingnum Karl Popper byggist sérstaða vísinda á því að þau afmarka viðfangsefni sín þannig að alltaf sé ljóst með hvaða hætti megi hrekja kenningu eða tilgátu sem sett er fram í vísindum. Ef vísindaleg kenning eða tilgáta er ósönn þá er alltaf hægt að gera tilraun eða athugun sem sýni fram á að svo sé. Á öðrum sviðum – sér í lagi í gervi- eða hjávísindum – eru hins vegar settar fram tilgátur sem ómögulegt væri að hrekja með þessum hætti, jafnvel þótt þær væru ósannar. Megineinkenni vísinda – og það sem greinir sannkölluð vísindi frá hjávísindum – er því hrekjanleiki (e. falsifiability) vísindalegra kenninga.

Við skulum skoða þessa hugmynd aðeins betur. Segjum sem svo að ég setji fram þá kenningu að allir hrafnar séu svartir. Samkvæmt Popper er þetta vísindaleg kenning vegna þess að hún er hrekjanleg. Við getum ímyndað okkur þær athuganir sem myndu ótvírætt sýna fram á að kenningin sé ósönn. Ef þú bendir mér á hvítan (eða bláan, eða gulan, eða…) hrafn þá hefur þér tekist að hrekja kenninguna mína. Ef hrafnar af öðrum lit hafa ekki fundist er kenningin enn óhrakin, en hún er engu að síður hrekjanleg í þeim skilningi að við getum enn ímyndað okkur þær kringumstæður sem þyrftu að vera til staðar svo að kenninguna megi hrekja. Samkvæmt Popper eru allar vísindalegar kenningar þessu marki brenndar: Þær eru allar hrekjanlegar. Og þótt þær kenningar sem við lýði eru hverju sinni hafi að sjálfsögðu ekki verið hraktar þá er sá möguleiki alltaf til staðar að svo geti farið í framtíðinni.

Karl Popper (til vinstri) ásamt tékkneska sálfræðingnum Cyril Höschl.

Í samræmi við þetta hélt Popper því svo fram að það sem einkenni hjávísindi sé það að kenningar þeirra séu ekki hrekjanlegar. Popper tók sálgreinikenningar Freuds sem dæmi um hjávísindi og hélt því fram að engin leið væri að hrekja kenningarnar jafnvel þótt þær væru ósannar. Ef maður stæði á bryggju og væri að velta fyrir sér að ganga í sjóinn gætu kenningar Freuds bæði skýrt það að maðurinn fremdi sjálfsmorð og eins að maðurinn tæki ákvörðun um að ganga aftur á land. Kenningar Freuds hefðu „svör við öllu“ og kæmu sér þannig undan því að vera hraktar sama hvað gerist. Ólíkt alvöru vísindakenningar væru kenningarnar því óhrekjanlegar.

Þótt margir telji að það sé heilmikið til í því hjá Popper að vísindakenningar þurfi að vera hrekjanlegar í einhverjum skilningi, hefur einnig verið bent á að margar hjávísindakenningar séu hrekjanlegar – og raunar hraktar. Sem dæmi má nefna svokallaðar stjörnuspár, þar sem settar eru fram spár um framtíðina sem byggjast á stöðu stjarna og himintungla. Slíkar „spár“ eru oft hrekjanlegar því þótt spárnar séu oft nokkuð óljósar segja þær stundum til um tiltekna atburði í framtíðinni (svo sem að viðkomandi „auðgist verulega“ á árinu). Ef slíkir atburðir eiga sér ekki stað er kenningin sem stjörnuspáin byggist á hrakin og því eru stjörnuspár í raun hrekjanlegar tilgátur, þvert á hugmyndir Poppers um að kenningar hjávísinda séu ekki hrekjanlegar.

Sumir þeirra sem fylgja Popper að máli hafa sagt að þessi gagnrýni byggist á einfeldingslegri túlkun á verkum Poppers. Þótt Popper hafi sagt að vísindi þurfi að vera hrekjanleg hafi hann einnig lagt áherslu á að gerðar séu raunverulegar tilraunir til að hrekja kenninguna og að niðurstöður slíkra tilrauna séu teknar góðar og gildar. Það sem einkenni sum hjávísindi eins og stjörnuspeki sé einmitt að iðkendur hafi annað hvort ekki áhuga á að láta reyna á kenninguna í athugunum eða skeyti engu um það að athuganirnar stangist á við hana. Í sannkölluðum vísindum sé hins vegar rík áhersla lögð á að kenningar séu prófaðar í athugunum og mikill þrýstingur á að hafna vísindakenningum sem stangast á við slíkar athuganir.

Efasemdir um sérstöðu vísinda

Á síðari hluta 20. aldar höfnuðu heimspekingar því í auknum mæli að vísindi hefðu greiðari og betri aðgang að sannleikanum heldur en önnur mannleg starfsemi. Ber þar hæst að nefna vísindasagnfræðinginn Thomas Kuhn, sem hélt því fram að saga vísinda einkenndist af stórum breytingum – svokölluðum vísindabyltingum – sem ekki stjórnuðust af reynslu eða rökhugsun. Þegar vísindamenn hafna eða samþykkja kenningar og jafnvel athuganir, taldi Kuhn að þær væru undir miklum áhrifum af þeim tíðaranda og hleypidómum sem viðgangast hverju sinni. Vísindin eru því ekki svo ólík annarri mannlegri starfsemi þrátt fyrir allt.

Þó að hin mikla vísindatrú sem einkenndi fyrri hluta aldarinnar sé nú horfin að mestu og vísindamenn og fræðimenn um vísindi hafi bent á takmarkanir vísinda, bæði gagnvart sannleikanum sjálfum og gagnvart vandamálum manna, fer því að sjálfsögðu fjarri að hlutverk vísinda í stjórnmálum og samfélagsþróun hafi minnkað. Öll forspá og framtíðarskipulagning þróaðra samfélaga nú á dögum er byggð á vísindarannsóknum. Þetta endurspeglast í fræðilegri umræðu um vísindi sem snýst ekki síst um stöðu vísindanna í samfélaginu og félagslegar og siðferðilegar afleiðingar vísindalegra uppgötvana.

Ljóst er að vísindalegar uppgötvanir geta haft miklar og stundum mjög skaðlegar afleiðingar, kjarnorkusprengjan er gott dæmi um það.

Mörgum grundvallarspurningum um eðli vísinda má þó segja að sé ósvarað. Hvernig er hægt að réttlæta gífurlega áherslu vestrænna þjóðfélaga á hverskyns vísindarannsóknir þegar ekki er lengur reynt að halda því fram að vísindi séu hlutlaus um verðmæti? Hvað réttlætir vísindaiðkun þegar ókleift er að sýna fram á að niðurstöður vísinda séu „sannari“ en niðurstöður sem fengnar eru með óvísindalegum aðferðum? Hvað verður um vísindin þegar mönnum er orðið ljóst að þau, rétt eins og annað mannlegt atferli, eru háð praktískum, félagslegum og menningarlegum viðmiðum?

Margir fræðimenn hafa á síðari árum skoðað vísindin sem menningarlegt fyrirbæri og rýnt í það hvernig vísindin koma fram í valdaskipan og samfélagstogstreitu. Þannig má sjá að vísindaleg starfsemi ræðst mjög af hagsmunum og völdum. Orðræða vísindanna endurspeglar hagsmuni þeirra sem völdin hafa og er fráleitt hlutlaus. Því er þá vísað á bug að vísindi geti hafið sig yfir aðrar tegundir orðræðu. Samkvæmt þessu viðhorfi til vísinda er því þannig ekki aðeins hafnað að vísindin hafi einkarétt á sannleikanum, heldur er aðferð vísindanna lögð að jöfnu við hvaða aðferð sem vera skal við að festa skoðun í sessi.

Það má segja að þessi skoðun sé á vissan hátt and-vísindaleg eða and-fræðileg. Hún þarf þó ekki að vera það: Ekki er gert lítið úr hlutverki vísinda og vísindarannsókna. Það er sérstaða vísindanna sem efast er um og þar með sú aðferð sem helst er beitt til að vernda vísindalega orðræðu fyrir „óvísindalegri“ gagnrýni. Þó að vísindunum sé varpað af stalli þá eru þau svo snar þáttur í nútímamenningu að vel má halda því fram að þau endurreisi sig jafnóðum sjálfkrafa. Ástæðan er meðal annars sú að í mörgum greinum samfélags- og stjórnmála hafa vísindin einfaldlega orðið óháður vettvangur sem málsaðilar neyðast til að fallast á. Það merkir ekki að vísindalegar niðurstöður séu einhlítur úrskurður en þær geta orðið innlegg í deilur sem málsaðilar verða að taka tillit til.

Eins hafa auknar efasemdir manna um að tengja megi árangur stærðfræði og náttúruvísinda beint við sannleikann orðið til þess að víkka svið vísinda. Augljóslega rúmast fleira innan vísindahugtaksins falli menn frá því að telja grundvallarmarkmið vísinda vera að draga upp heildarmynd af veruleikanum eins og hann sé „í raun og veru.“ Hvernig sem á það er litið þá eru vísindi einn af grundvallarþáttum nútímasamfélags. Þau eru því miklu meira heldur en safn skoðana á veruleikanum eða aðferða til að gera uppgötvanir. Orðræða vísindanna blandast inn í allar tilraunir til að skýra, meta eða skipuleggja mannlegt líf og samneyti.

Heimildir og frekara lesefni:

  • Erlendur Jónsson (2008). Hvað eru vísindi? Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Erlendur Jónsson (2013). Inngangur að rökfræði I. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Kuhn, Thomas S. (2015). Vísindabyltingar. Íslensk þýðing eftir Kristján G. Arngrímsson, Eyja Margrét Brynjarsdóttir ritaði inngang. Reykjavík. Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Popper, Karl (2009). Ský og klukkur. Íslensk þýðing eftir Gunnar Ragnarsson; inngangur eftir Huginn F. Þorsteinsson. Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands.

Myndir:

Seinni hluti þessa svars byggir að stærstum hluta á eldra svari Jóns Ólafssonar við sömu spurningu. Það svar birtist 3. júlí 2000. Finnur Dellsén skrifaði fyrri hluta þessa svars í janúar 2016.

...