Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Ættu framhaldsnemar að læra siðfræði vísinda og rannsókna?

Vilhjálmur Árnason

Hvers vegna ættu framhaldsnemar við Háskóla Íslands að læra undirstöðuatriði í siðfræði vísinda og rannsókna?[1] Þegar leitað er svara við þessari spurningu tel ég rétt að minna á meginmarkmið háskólamenntunar. Það er hlutverk menntunar að gera nemendum kleift að öðlast þekkingu í þeirri fræðigrein sem þeir hafa valið sér og færni til að nota þekkinguna við þau (lífs)verkefni sem þeir koma til með að fást við. Það er líka hlutverk háskólamenntunar að örva gagnrýna hugsun um það í hvaða skyni þekkingin er notuð, með hvaða hætti hennar er aflað og hvernig hún er sett fram. Í þessu samhengi er viðeigandi að minna á orð Páls Skúlasonar um siðfræði þekkingar „sem snýst um að fólk tileinki sér þær dygðir sem þarf að rækta í allri umgengni við þekkinguna, öflun hennar varðveislu og miðlun í mannlegu samfélagi. Þekkingin mótar þjóðfélagið og þess vegna er hér almannaheill í húfi.”[2] Páll minnti á ríka samfélagsábyrgð háskólaborgara og að þeir, sem voru við stjórnvölinn þegar hagkerfið hrundi og stjórnkerfið brást, „voru langflestir aldir upp af Háskóla Íslands einmitt til þess að annast þessi kerfi“. Og fyrrverandi háskólarektor varpaði fram ögrandi spurningum: „Hvað fór úrskeiðis í uppeldi Háskóla Íslands? […] Ber ekki Háskólanum að kalla þessa nemendur aftur til sín rétt eins og fyrirtækjum er skylt að kalla inn gallaða vöru sem þau hafa sent á markaðinn?“[3]

„Ber ekki Háskólanum að kalla þessa nemendur aftur til sín rétt eins og fyrirtækjum er skylt að kalla inn gallaða vöru sem þau hafa sent á markaðinn?“

Það sem Páll gerir hér að umtalsefni mætti kenna við ytra tilefni þess að ræða af alvöru nám í vísindasiðfræði við Háskóla Íslands. En það eru líka ýmis innri tilefni fyrir þessari umræðu, opinberar yfirlýsingar af hálfu háskólans sem rík ástæða er til að draga sjálfu sér samkvæmar ályktanir af og framfylgja af festu. Ég nefni fyrst samþykkt háskólaþings um „Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms“. Þar segir:

Doktorsnám skal stuðla að því að nemendur öðlist, auk sérhæfðrar fræðilegrar þekkingar, almenna og hagnýta þekkingu, s.s. á sviði siðfræði vísinda, aðferðafræði vísinda, gerðar styrkumsókna, hagnýtingar hugverka, kynningar vísindalegra niðurstaðna sinna fyrir sérfræðingum og almenningi, og öðlist þá faglegu og félagslegu færni sem þeir þurfa að búa yfir í framtíðarstarfi.[4]

Annað atriði sem vert er að minna hér á eru ákvæði úr Stefnu Háskóla Íslands 2001-2016 sem lúta að mikilvægi þess að efla vísindasiðferði og samfélagsábyrgð:

Í [HÍ] ríkir akademískt frelsi sem stuðlar að gagnrýninni og frjórri hugsun, áræðni og víðsýni. Starfsmenn rækja störf sín af fagmennsku og ábyrgð. Viðurkennd gildi vísindasiðferðis eru ávallt í heiðri höfð.

Lögð er rík áhersla á að efla siðferðilega dómgreind, vitund um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð starfsmanna jafnt sem nemenda og þar með samfélagsins alls til lengri tíma.

Öll fræðasvið og deildir setji sér markmið og skilgreini leiðir til að flétta saman siðfræði og faglegt nám, efla siðferðilega dómgreind og þjálfa gagnrýna hugsun.[5]

Þriðja innra tilefnið sem ég nefni hér er ákvæði úr reglum Vísindasiðanefndar HÍ um vísindalega ráðvendni rannsakenda og rannsóknastofnana:

Með óvönduðum starfsháttum er unnið gegn öflun nýrrar þekkingar. Krafan um rétt og vönduð vinnubrögð er því ófrávíkjanleg í öllum rannsóknum. Greina má á milli mismunandi alvarlegra frávika í rannsóknarstarfi, allt frá kæruleysi og óvönduðum vinnubrögðum til svika. Brotum í rannsóknum má skipta í tvennt: misferli og svik. Misferli eru skilgreind sem gróf vanræksla og ábyrgðarleysi við framkvæmd rannsókna. Svikum, sem fela í sér vísvitandi blekkingu, má skipta upp í uppspuna, villandi upplýsingar, ritstuld og misnotkun. [6]

Grundvallarskyldur vísindamanna eru að halla ekki réttu máli, að hafa jafnan það sem sannara reynist eins og Ari fróði orðaði þessa frumskyldu. En jafnframt því sem þetta er forsenda þekkingaröflunar þá felur vísindaleg óráðvendni líka í sér svik við samfélagið, því að grafið er undan þeim sem taka ákvarðanir sem varða almannahagsmuni. Það er vitaskuld lágmarkskrafa til vísindamanna að ástunda ekki svik eða misferli, sjálfsögð skylda sem er samofin öllu réttnefndu fræðastarfi. Til viðbótar þessari höfuðskyldu vil ég nefna kröfu um árvekni sem eðlilegt er að gera til fræðimanna, en hún felur í sér að vísindamenn ættu að vera á varðbergi gagnvart öflum sem ógna frjálsri rökræðu og hamla sannleiksleit.[7] Slíka árvekniskröfu mætti til dæmis útfæra nánar þannig að fræðimönnum (1) beri að leiðrétta rangfærslur á fræðasviðinu (svo sem um söguskilning, túlkun á tölfræðilegum niðurstöðum eða um stöðu náttúrusvæða þar sem til stendur að virkja eða byggja verksmiðju[8]); þeir ættu (2) að sporna gegn því að þekking sé notuð í skaðlegu skyni eða til þess að villa um fyrir almenningi (svo sem að niðurstöðum sé hagrætt í fjárhagslegu eða persónulegu hagnaðarskyni).

Mér virðist að vísindaleg ráðvendni og árvekni varði vandaða starfshætti í öllum fræðigreinum, óháð viðfangsefnum. Ólíkar og sértækari siðferðilegar spurningar rísa aftur á móti í tengslum við mismunandi fræðileg viðfangsefni, svo um framkomu við dýr og umhverfi í lífvísindum, áhrif rannsókna á fólki í heilbrigðisvísindum og félagsvísindum, og afleiðingar þekkingaröflunar, túlkunar hennar og notkunar, fyrir samfélagið í raunvísindum, verkfræði, félagsvísindum, hugvísindum og menntavísindum. Í viðleitni til að sporna gegn vísindalegri óráðvendi og tryggja virðingu fyrir viðfangsefnum vísinda hefur lengi verið lögð áhersla á að móta siðareglur eða viðmið um vandaða starfshætti og koma á eftirlitskerfi með þeim. Á síðustu árum hefur jafnframt þessu verið stóraukin áhersla verið lögð á að leitast við að fyrirbyggja óráðvendni og efla árvekni með því að efla menntun í siðfræði vísinda og rannsókna, einkum hjá doktorsnemum sem leggja munu stund á rannsóknir.[9] Þessu má líkja við heilsuvernd þar sem leitast er við að koma í veg fyrir slys og sjúkdóma og draga þar með úr þörfinni fyrir innlagnir og bráðaþjónustu.

Vísindaleg ráðvendni og árvekni varðar vandaða starfshætti í öllum fræðigreinum, óháð viðfangsefnum.

Til að stuðla að þessu markmiði hafa fjölmargir háskólar í nágrannalöndum okkar innleitt kennslu í vísindasiðfræði fyrir nemendur í rannsóknarnámi.[10] Við Háskóla Íslands hefur námskeiðið Siðfræði vísinda og rannsókna (SIÐ803F, 6 ECTS einingar) verið kennt á ensku í lotu á vormisseri undanfarin ár. Í námskeiðinu er rætt um siðferðilegar ákvarðanir og siðfræðileg álitamál sem eru sérstaklega tengd vísindum, svo sem hagsmunaárekstra og vísindalegt misferli á borð við ritstuld og falsanir á gögnum. Námskeiðið er kennt í formi málstofu þar sem nemendur fá þjálfun í rökræðu um siðferðileg tilvik og skoða sín eigin lokaverkefni með siðferðilegar spurningar í huga. Nemendur öðlast þekkingu á siðareglum um rannsóknir, kynnast verklagi við umsóknir til vísindasiðanefnda og ástæðunum fyrir því að viðhafa siðferðilegt eftirlit með rannsóknum. Nýta mætti námskeiðið Siðfræði vísinda og rannsókna sem kjarnanámskeið fyrir doktorsnema (framhaldsnema), en spila á móti því smærri námskeiðum á hinum ólíku fræðasviðum, svo sem þeim sem varða sérstaklega aðferðir og viðfangsefni viðkomandi greina. Þannig myndu bæði rannsóknanemendur við háskólann og kennarar sem koma að þjálfun þeirra öðlast þekkingu á siðfræði vísinda.

Að sjálfsögðu koma fleiri útfærslur eða aðrar leiðir til greina -- höfuðatriðið er að ná því markmiði um gæði námsins sem nám í vísindasiðfræði stuðlar að. Háskólinn þarf að standa við þau orð sem felast í stefnu hans um vísindasiðferði og samfélagslega ábyrgð, viðmiðum um gæði doktorsnáms og ákvæðum vísindasiðanefndar HÍ um ráðvendni og vönduð vinnubrögð í fræðastarfi. Loks má minna á að uglan hennar Mínervu eða Pallas Aþenu sem prýðir merki Háskóla Íslands er ímynd árvekninnar sem er aðalsmerki hugsandi háskólaborgara.

Tilvísanir:
  1. ^ Þetta svar var upprunalega flutt sem erindi á málþingi um siðfræði í vísindum og miðlun góðra vinnubragða til doktorsnema á vegum Miðstöðvar framhaldsnáms, Háskóla Íslands 22. janúar 2016.
  2. ^ Páll Skúlason, „Allir þurfa að læra siðfræði”, Stúdentablaðið 85 (2009:3): 31.
  3. ^ Sama stað.
  4. ^ „Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands“. Samþykkt á háskólaþingi 18. apríl og í háskólaráði 3. maí 2012. Sótt 15. febrúar 2016 á vefsíðu Háskóla Íslands: http://www.hi.is/sites/default/files/oldSchool/vidmid_og_krofur_um_gaedi_doktorsnams_vid_hi.pdf. Feitletrun mín. Fyrsta samþykktin um þetta efni var gerð á háskólafundi 21. maí 2004.
  5. ^ Sótt 15. febrúar 2016 á vefsíðu Háskóla Íslands: http://www.hi.is/adalvefur/stefna_haskola_islands_2011_2016. Feitletrun mín.
  6. ^ Sótt 15. febrúar 2016 á vefsíðu Háskóla Íslands: http://www.hi.is/sites/default/files/admin/meginmal/skjol/vshi_sidareglur_16_1_2014.pdf.
  7. ^ Sjá grein mína, „Árvekni eða auðsveipni. Hlutverk hugvísindamanna í samfélagsumræðu“, Hugsmíðar. Um siðferði, stjórnmál og samfélag (Háskólaútgáfan 2014), bls. 187-201.
  8. ^ Sjá gott dæmi um slíka árvekni jarðvísindamanns við Háskóla Íslands: http://www.ruv.is/frett/oheppilegasti-stadurinn-fyrir-malmbraedslu.
  9. ^ Research Integrity in the Nordic countries - national systems and procedures. NordForsk Expert Seminar, Oslo 9. apríl 2014 (Osló: NordForsk 2015). Netútgáfa: http://www.nordforsk.org/en/publications/publications_container/research-integrity-in-the-nordic-countries-2013-national-systems-and-procedures/view.
  10. ^ Sem dæmi má nefna: Við Edinborgarháskóla: http://www.ed.ac.uk/institute-academic-development/postgraduate/doctoral/courses/online-courses/greim. Við Karolinska Institutet (læknaháskóli): http://kiwas.ki.se/katalog/katalog/kurs/2174. Við danska háskóla: http://phdcourses.dk/?searchWord=research+ethics&x=14&y=13®ionId=&networkId=#.VsI20xiLSL2. Allar vefslóðir voru heimsóttar 15. febrúar 2016. Ég þakka Helgu Ögmundsdóttur, prófessor við læknadeild, fyrir að benda mér á þessi dæmi, en hún lagði út af þeim á málþingi um siðfræði í vísindum og miðlun góðra vinnubragða til doktorsnema á vegum Miðstöðvar framhaldsnáms, Háskóla Íslands 22. janúar 2016 .

Myndir:

Höfundur

Vilhjálmur Árnason

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

23.2.2016

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Vilhjálmur Árnason. „Ættu framhaldsnemar að læra siðfræði vísinda og rannsókna?“ Vísindavefurinn, 23. febrúar 2016. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=71705.

Vilhjálmur Árnason. (2016, 23. febrúar). Ættu framhaldsnemar að læra siðfræði vísinda og rannsókna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71705

Vilhjálmur Árnason. „Ættu framhaldsnemar að læra siðfræði vísinda og rannsókna?“ Vísindavefurinn. 23. feb. 2016. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71705>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Ættu framhaldsnemar að læra siðfræði vísinda og rannsókna?
Hvers vegna ættu framhaldsnemar við Háskóla Íslands að læra undirstöðuatriði í siðfræði vísinda og rannsókna?[1] Þegar leitað er svara við þessari spurningu tel ég rétt að minna á meginmarkmið háskólamenntunar. Það er hlutverk menntunar að gera nemendum kleift að öðlast þekkingu í þeirri fræðigrein sem þeir hafa valið sér og færni til að nota þekkinguna við þau (lífs)verkefni sem þeir koma til með að fást við. Það er líka hlutverk háskólamenntunar að örva gagnrýna hugsun um það í hvaða skyni þekkingin er notuð, með hvaða hætti hennar er aflað og hvernig hún er sett fram. Í þessu samhengi er viðeigandi að minna á orð Páls Skúlasonar um siðfræði þekkingar „sem snýst um að fólk tileinki sér þær dygðir sem þarf að rækta í allri umgengni við þekkinguna, öflun hennar varðveislu og miðlun í mannlegu samfélagi. Þekkingin mótar þjóðfélagið og þess vegna er hér almannaheill í húfi.”[2] Páll minnti á ríka samfélagsábyrgð háskólaborgara og að þeir, sem voru við stjórnvölinn þegar hagkerfið hrundi og stjórnkerfið brást, „voru langflestir aldir upp af Háskóla Íslands einmitt til þess að annast þessi kerfi“. Og fyrrverandi háskólarektor varpaði fram ögrandi spurningum: „Hvað fór úrskeiðis í uppeldi Háskóla Íslands? […] Ber ekki Háskólanum að kalla þessa nemendur aftur til sín rétt eins og fyrirtækjum er skylt að kalla inn gallaða vöru sem þau hafa sent á markaðinn?“[3]

„Ber ekki Háskólanum að kalla þessa nemendur aftur til sín rétt eins og fyrirtækjum er skylt að kalla inn gallaða vöru sem þau hafa sent á markaðinn?“

Það sem Páll gerir hér að umtalsefni mætti kenna við ytra tilefni þess að ræða af alvöru nám í vísindasiðfræði við Háskóla Íslands. En það eru líka ýmis innri tilefni fyrir þessari umræðu, opinberar yfirlýsingar af hálfu háskólans sem rík ástæða er til að draga sjálfu sér samkvæmar ályktanir af og framfylgja af festu. Ég nefni fyrst samþykkt háskólaþings um „Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms“. Þar segir:

Doktorsnám skal stuðla að því að nemendur öðlist, auk sérhæfðrar fræðilegrar þekkingar, almenna og hagnýta þekkingu, s.s. á sviði siðfræði vísinda, aðferðafræði vísinda, gerðar styrkumsókna, hagnýtingar hugverka, kynningar vísindalegra niðurstaðna sinna fyrir sérfræðingum og almenningi, og öðlist þá faglegu og félagslegu færni sem þeir þurfa að búa yfir í framtíðarstarfi.[4]

Annað atriði sem vert er að minna hér á eru ákvæði úr Stefnu Háskóla Íslands 2001-2016 sem lúta að mikilvægi þess að efla vísindasiðferði og samfélagsábyrgð:

Í [HÍ] ríkir akademískt frelsi sem stuðlar að gagnrýninni og frjórri hugsun, áræðni og víðsýni. Starfsmenn rækja störf sín af fagmennsku og ábyrgð. Viðurkennd gildi vísindasiðferðis eru ávallt í heiðri höfð.

Lögð er rík áhersla á að efla siðferðilega dómgreind, vitund um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð starfsmanna jafnt sem nemenda og þar með samfélagsins alls til lengri tíma.

Öll fræðasvið og deildir setji sér markmið og skilgreini leiðir til að flétta saman siðfræði og faglegt nám, efla siðferðilega dómgreind og þjálfa gagnrýna hugsun.[5]

Þriðja innra tilefnið sem ég nefni hér er ákvæði úr reglum Vísindasiðanefndar HÍ um vísindalega ráðvendni rannsakenda og rannsóknastofnana:

Með óvönduðum starfsháttum er unnið gegn öflun nýrrar þekkingar. Krafan um rétt og vönduð vinnubrögð er því ófrávíkjanleg í öllum rannsóknum. Greina má á milli mismunandi alvarlegra frávika í rannsóknarstarfi, allt frá kæruleysi og óvönduðum vinnubrögðum til svika. Brotum í rannsóknum má skipta í tvennt: misferli og svik. Misferli eru skilgreind sem gróf vanræksla og ábyrgðarleysi við framkvæmd rannsókna. Svikum, sem fela í sér vísvitandi blekkingu, má skipta upp í uppspuna, villandi upplýsingar, ritstuld og misnotkun. [6]

Grundvallarskyldur vísindamanna eru að halla ekki réttu máli, að hafa jafnan það sem sannara reynist eins og Ari fróði orðaði þessa frumskyldu. En jafnframt því sem þetta er forsenda þekkingaröflunar þá felur vísindaleg óráðvendni líka í sér svik við samfélagið, því að grafið er undan þeim sem taka ákvarðanir sem varða almannahagsmuni. Það er vitaskuld lágmarkskrafa til vísindamanna að ástunda ekki svik eða misferli, sjálfsögð skylda sem er samofin öllu réttnefndu fræðastarfi. Til viðbótar þessari höfuðskyldu vil ég nefna kröfu um árvekni sem eðlilegt er að gera til fræðimanna, en hún felur í sér að vísindamenn ættu að vera á varðbergi gagnvart öflum sem ógna frjálsri rökræðu og hamla sannleiksleit.[7] Slíka árvekniskröfu mætti til dæmis útfæra nánar þannig að fræðimönnum (1) beri að leiðrétta rangfærslur á fræðasviðinu (svo sem um söguskilning, túlkun á tölfræðilegum niðurstöðum eða um stöðu náttúrusvæða þar sem til stendur að virkja eða byggja verksmiðju[8]); þeir ættu (2) að sporna gegn því að þekking sé notuð í skaðlegu skyni eða til þess að villa um fyrir almenningi (svo sem að niðurstöðum sé hagrætt í fjárhagslegu eða persónulegu hagnaðarskyni).

Mér virðist að vísindaleg ráðvendni og árvekni varði vandaða starfshætti í öllum fræðigreinum, óháð viðfangsefnum. Ólíkar og sértækari siðferðilegar spurningar rísa aftur á móti í tengslum við mismunandi fræðileg viðfangsefni, svo um framkomu við dýr og umhverfi í lífvísindum, áhrif rannsókna á fólki í heilbrigðisvísindum og félagsvísindum, og afleiðingar þekkingaröflunar, túlkunar hennar og notkunar, fyrir samfélagið í raunvísindum, verkfræði, félagsvísindum, hugvísindum og menntavísindum. Í viðleitni til að sporna gegn vísindalegri óráðvendi og tryggja virðingu fyrir viðfangsefnum vísinda hefur lengi verið lögð áhersla á að móta siðareglur eða viðmið um vandaða starfshætti og koma á eftirlitskerfi með þeim. Á síðustu árum hefur jafnframt þessu verið stóraukin áhersla verið lögð á að leitast við að fyrirbyggja óráðvendni og efla árvekni með því að efla menntun í siðfræði vísinda og rannsókna, einkum hjá doktorsnemum sem leggja munu stund á rannsóknir.[9] Þessu má líkja við heilsuvernd þar sem leitast er við að koma í veg fyrir slys og sjúkdóma og draga þar með úr þörfinni fyrir innlagnir og bráðaþjónustu.

Vísindaleg ráðvendni og árvekni varðar vandaða starfshætti í öllum fræðigreinum, óháð viðfangsefnum.

Til að stuðla að þessu markmiði hafa fjölmargir háskólar í nágrannalöndum okkar innleitt kennslu í vísindasiðfræði fyrir nemendur í rannsóknarnámi.[10] Við Háskóla Íslands hefur námskeiðið Siðfræði vísinda og rannsókna (SIÐ803F, 6 ECTS einingar) verið kennt á ensku í lotu á vormisseri undanfarin ár. Í námskeiðinu er rætt um siðferðilegar ákvarðanir og siðfræðileg álitamál sem eru sérstaklega tengd vísindum, svo sem hagsmunaárekstra og vísindalegt misferli á borð við ritstuld og falsanir á gögnum. Námskeiðið er kennt í formi málstofu þar sem nemendur fá þjálfun í rökræðu um siðferðileg tilvik og skoða sín eigin lokaverkefni með siðferðilegar spurningar í huga. Nemendur öðlast þekkingu á siðareglum um rannsóknir, kynnast verklagi við umsóknir til vísindasiðanefnda og ástæðunum fyrir því að viðhafa siðferðilegt eftirlit með rannsóknum. Nýta mætti námskeiðið Siðfræði vísinda og rannsókna sem kjarnanámskeið fyrir doktorsnema (framhaldsnema), en spila á móti því smærri námskeiðum á hinum ólíku fræðasviðum, svo sem þeim sem varða sérstaklega aðferðir og viðfangsefni viðkomandi greina. Þannig myndu bæði rannsóknanemendur við háskólann og kennarar sem koma að þjálfun þeirra öðlast þekkingu á siðfræði vísinda.

Að sjálfsögðu koma fleiri útfærslur eða aðrar leiðir til greina -- höfuðatriðið er að ná því markmiði um gæði námsins sem nám í vísindasiðfræði stuðlar að. Háskólinn þarf að standa við þau orð sem felast í stefnu hans um vísindasiðferði og samfélagslega ábyrgð, viðmiðum um gæði doktorsnáms og ákvæðum vísindasiðanefndar HÍ um ráðvendni og vönduð vinnubrögð í fræðastarfi. Loks má minna á að uglan hennar Mínervu eða Pallas Aþenu sem prýðir merki Háskóla Íslands er ímynd árvekninnar sem er aðalsmerki hugsandi háskólaborgara.

Tilvísanir:
  1. ^ Þetta svar var upprunalega flutt sem erindi á málþingi um siðfræði í vísindum og miðlun góðra vinnubragða til doktorsnema á vegum Miðstöðvar framhaldsnáms, Háskóla Íslands 22. janúar 2016.
  2. ^ Páll Skúlason, „Allir þurfa að læra siðfræði”, Stúdentablaðið 85 (2009:3): 31.
  3. ^ Sama stað.
  4. ^ „Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands“. Samþykkt á háskólaþingi 18. apríl og í háskólaráði 3. maí 2012. Sótt 15. febrúar 2016 á vefsíðu Háskóla Íslands: http://www.hi.is/sites/default/files/oldSchool/vidmid_og_krofur_um_gaedi_doktorsnams_vid_hi.pdf. Feitletrun mín. Fyrsta samþykktin um þetta efni var gerð á háskólafundi 21. maí 2004.
  5. ^ Sótt 15. febrúar 2016 á vefsíðu Háskóla Íslands: http://www.hi.is/adalvefur/stefna_haskola_islands_2011_2016. Feitletrun mín.
  6. ^ Sótt 15. febrúar 2016 á vefsíðu Háskóla Íslands: http://www.hi.is/sites/default/files/admin/meginmal/skjol/vshi_sidareglur_16_1_2014.pdf.
  7. ^ Sjá grein mína, „Árvekni eða auðsveipni. Hlutverk hugvísindamanna í samfélagsumræðu“, Hugsmíðar. Um siðferði, stjórnmál og samfélag (Háskólaútgáfan 2014), bls. 187-201.
  8. ^ Sjá gott dæmi um slíka árvekni jarðvísindamanns við Háskóla Íslands: http://www.ruv.is/frett/oheppilegasti-stadurinn-fyrir-malmbraedslu.
  9. ^ Research Integrity in the Nordic countries - national systems and procedures. NordForsk Expert Seminar, Oslo 9. apríl 2014 (Osló: NordForsk 2015). Netútgáfa: http://www.nordforsk.org/en/publications/publications_container/research-integrity-in-the-nordic-countries-2013-national-systems-and-procedures/view.
  10. ^ Sem dæmi má nefna: Við Edinborgarháskóla: http://www.ed.ac.uk/institute-academic-development/postgraduate/doctoral/courses/online-courses/greim. Við Karolinska Institutet (læknaháskóli): http://kiwas.ki.se/katalog/katalog/kurs/2174. Við danska háskóla: http://phdcourses.dk/?searchWord=research+ethics&x=14&y=13®ionId=&networkId=#.VsI20xiLSL2. Allar vefslóðir voru heimsóttar 15. febrúar 2016. Ég þakka Helgu Ögmundsdóttur, prófessor við læknadeild, fyrir að benda mér á þessi dæmi, en hún lagði út af þeim á málþingi um siðfræði í vísindum og miðlun góðra vinnubragða til doktorsnema á vegum Miðstöðvar framhaldsnáms, Háskóla Íslands 22. janúar 2016 .

Myndir:

...