Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er ritstuldur?

Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson

Erlend heiti um það sem við nefnum ritstuld eru dregin af latneskum stofni sem kemur fram í sögninni plagiare sem merkir bókstaflega að stela annarra manna þræl eða hneppa frjálsan mann í þrældóm. Á ensku er talað um 'plagiarism' og á frönsku 'plagiat' en þessi orð eru ekki eingöngu höfð um "stuld" eða misnotkun á ritverkum annarra heldur einnig um önnur hugverk. Nákvæmari þýðing væri því hugverkastuldur sem merkir í stuttu máli það að eigna sér hugverk annarra eins og þau væru eftir mann sjálfan.

Rómverska skáldið Martialis (um 40 - um 103) notaði hugtakið fyrstur manna í yfirfærðri merkingu um ritþjóf á fyrstu öld eftir Krist. Það er eina dæmið um orðið í þessari merkingu í klassískri latínu en rekja má notkun þess allar götur þaðan til nútímans. Rétt fyrir miðja 15. öld skýtur hugtakinu þannig upp aftur í yfirfærðri merkingu þegar ítalski húmanistinn Lorenzo Valla (1407-1457) skrifar um mann sem hefur stolið skrifum hans. Valla hefur hugtakið og notkun þess beint frá rómverska silfurskáldinu.

Í bókinni Hugtök og heiti í bókmenntafræði stendur meðal annars þetta um ritstuld:
Bein og vísvitandi not á ritverki annars manns án þess að geta heimildar, þannig að höfundur birtir orð eða fræðilegar niðurstöður annarra sem sitt eigið verk.
Og í sömu heimild segir ennfremur:
Aftur á móti verður ekki talinn r. þótt höfundar noti sér eldri ritverk með því að setja efni þeirra í nýtt samhengi, skapa úr því nýja heildarmynd; það hafa margir höfundar gert allt fram á þennan dag.
Dæmi um slíka notkun væri til dæmis Gerpla Halldórs Laxness þar sem efnið er unnið úr Fóstbræðra sögu og mörgum öðrum Íslendingasögum, eða bókin Ulysses eftir James Joyce þar sem stuðst er á frjálslegan hátt við Ódysseifskviðu gríska skáldsins Hómers. Í bókmenntafræðinni er slíkt kallað textatengsl og þykir ekki tiltökumál.

Fyrir enskumælandi lesanda felur orðið plagiarism ekkert endilega í sér vísun til þjófnaðar eins og íslenska orðið gerir gagnvart íslenskum lesanda. Þessi vísun íslenska orðsins er að sumu leyti óheppileg því að ritstuldur þarf ekki að þýða að stolið hafi verið frá neinum tilteknum höfundi í venjulegum skilningi. Til dæmis getur maður nýtt sér hugverk með rangindum þó að það sé eftir óþekktan höfund eða jafnvel ekki eftir neinn tiltekinn mann, samanber til dæmis þjóðlög og þjóðsögur.

Einnig getum við hugsað okkur að maður afli leyfis hjá upphaflegum höfundi hugverks til að nýta sér það sem sitt eigið verk án þess að geta höfundarins. Þó að undarlegt kunni að virðast er slíkt einnig ritstuldur samkvæmt skilgreiningunni sem tilgreind var hér á undan.

Þetta byggist á því að sá sem birtir verk annars manns sem sitt eigið er ekki eingöngu að ganga á hlut upphaflegs höfundar ef við á, heldur einnig að blekkja lesendur sína í einföldum staðreyndum um tilkomu verksins. Þetta á bæði við um almenna lesendur og þá sem leggja sérstaklega mat á verkið eins og nú er altíttt, bæði í ritdómum í fjölmiðlum, við úthlutun ýmiss konar styrkja og viðurkenninga og við mat á störfum manna í heild eins og gert er til dæmis í háskólum. Þannig getur hugverkastuldur sem ekki kemst upp hæglega orðið manni til efnislegra hagsbóta rétt eins og venjulegur þjófnaður.

Sá sem stelur einhverju frá öðrum ætlar oft að nýta sér það, til dæmis í auknum afköstum og minni fyrirhöfn. Þetta á augljóslega við þegar menn stela peningum eða hlutum sem þeir hyggjast fénýta sér, en einnig þegar lausafé eins og bílum eða reiðhjólum er stolið til til eigin nota. Á sama hátt kann það að horfa til vinnusparnaðar fyrir höfunda hugverka að nýta sér parta úr verkum annarra eins og um eigið verk væri að ræða. Ritstuldur eða annar hugverkastuldur er því að ýmsu leyti býsna hliðstæður venjulegum þjófnaði.

Til skamms tíma hefur mönnum orðið tíðræddast um ritstuld eða hugverkastuld í bókmenntum og öðrum listum, en í seinni tíð hefur ritstuldur í fræðastörfum komið mjög til umræðu, meðal annars með tilkomu tölvutækni og veraldarvefs, en einnig vegna vaxandi kröfu um heiðarleika, vönduð vinnubrögð og gagnsæi í vísindum.

Í grein bandaríska veftímaritsins History News Network kemur fram að ásakanir um ritstuld meðal fræðimanna fari sjaldan fyrir dómstóla þar sem lagaleg skilgreining á ritstuldi sé mun þrengri en þær siðareglur sem gilda um vandaða fræðimennsku. Séu ásakanir um ritstuld háskólakennara á rökum reistar geta háskólar beitt ýmsum viðurlögum svo sem að lækka laun, seinka stöðuhækkun, segja manni upp eða krefjast innköllunar og leiðréttingar á verki sem um ræðir. Þetta er þá gert vegna óvandaðra vinnubragða en ekki með vísun til þess að landslög hafi endilega verið brotin.

Spurningin um ritstuld í vísindum kann að leyna svolítið á sér vegna þess að vísindamönnum þykir yfirleitt eftirsóknarvert að aðrir fræðimenn vitni í verk þeirra, en hins vegar er þá auðvitað átt við fullgilda tilvitnun sem gerir lesanda kleift að hafa upp á verkinu sem um ræðir. Hitt hefur þó einnig færst í vöxt að menn nota verk annarra vísindamanna án þess að vísa til þeirra. Sá sem gerir slíkt á á hættu að hljóta ámæli af hálfu starfssystkina og vísindasamfélagsins eða fulltrúa þess, svo sem háskólayfirvalda og rannsóknaráða í hinum ýmsu löndum, eða jafnvel að missa aðgang að sjóðum sem úthluta styrkjum til rannsókna.

Eitt af því sem veldur nokkrum ruglingi í umræðunni um hugverkastuld í vísindum er það að kröfur um frágang fræðilegra verka að þessu leyti hafa verið að aukast að undanförnu og eru til dæmis allt aðrar núna en þær voru fyrir 100 árum eða svo.

Sömuleiðis byrgir það mönnum sýn á köflum að vísindamenn taka stundum upp á því að skrifa rit fyrir almenning og þá þykir ekki endilega við hæfi að trufla lesandann með bókfræðilegum tilvísunum. Ef höfundur kýs að sleppa þess konar kröfum eða slaka verulega á þeim ber honum að láta þess getið auk þess sem hann verður þá að sæta því að rit hans sé metið samkvæmt þessu - og kann það þó að vera býsna gott að öllu öðru leyti. Í þessu viðfangi skiptir líklega mestu að ritið sé eins og það sýnist vera þannig að lesandi geti strax séð hvorum flokkinum það tilheyrir.

Heimildir:

Höfundar

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

25.7.2005

Spyrjandi

Inga Dóra Gunnarssdóttir
Birgir Steinn, f. 1988

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er ritstuldur?“ Vísindavefurinn, 25. júlí 2005, sótt 16. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5154.

Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2005, 25. júlí). Hvað er ritstuldur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5154

Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er ritstuldur?“ Vísindavefurinn. 25. júl. 2005. Vefsíða. 16. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5154>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er ritstuldur?
Erlend heiti um það sem við nefnum ritstuld eru dregin af latneskum stofni sem kemur fram í sögninni plagiare sem merkir bókstaflega að stela annarra manna þræl eða hneppa frjálsan mann í þrældóm. Á ensku er talað um 'plagiarism' og á frönsku 'plagiat' en þessi orð eru ekki eingöngu höfð um "stuld" eða misnotkun á ritverkum annarra heldur einnig um önnur hugverk. Nákvæmari þýðing væri því hugverkastuldur sem merkir í stuttu máli það að eigna sér hugverk annarra eins og þau væru eftir mann sjálfan.

Rómverska skáldið Martialis (um 40 - um 103) notaði hugtakið fyrstur manna í yfirfærðri merkingu um ritþjóf á fyrstu öld eftir Krist. Það er eina dæmið um orðið í þessari merkingu í klassískri latínu en rekja má notkun þess allar götur þaðan til nútímans. Rétt fyrir miðja 15. öld skýtur hugtakinu þannig upp aftur í yfirfærðri merkingu þegar ítalski húmanistinn Lorenzo Valla (1407-1457) skrifar um mann sem hefur stolið skrifum hans. Valla hefur hugtakið og notkun þess beint frá rómverska silfurskáldinu.

Í bókinni Hugtök og heiti í bókmenntafræði stendur meðal annars þetta um ritstuld:
Bein og vísvitandi not á ritverki annars manns án þess að geta heimildar, þannig að höfundur birtir orð eða fræðilegar niðurstöður annarra sem sitt eigið verk.
Og í sömu heimild segir ennfremur:
Aftur á móti verður ekki talinn r. þótt höfundar noti sér eldri ritverk með því að setja efni þeirra í nýtt samhengi, skapa úr því nýja heildarmynd; það hafa margir höfundar gert allt fram á þennan dag.
Dæmi um slíka notkun væri til dæmis Gerpla Halldórs Laxness þar sem efnið er unnið úr Fóstbræðra sögu og mörgum öðrum Íslendingasögum, eða bókin Ulysses eftir James Joyce þar sem stuðst er á frjálslegan hátt við Ódysseifskviðu gríska skáldsins Hómers. Í bókmenntafræðinni er slíkt kallað textatengsl og þykir ekki tiltökumál.

Fyrir enskumælandi lesanda felur orðið plagiarism ekkert endilega í sér vísun til þjófnaðar eins og íslenska orðið gerir gagnvart íslenskum lesanda. Þessi vísun íslenska orðsins er að sumu leyti óheppileg því að ritstuldur þarf ekki að þýða að stolið hafi verið frá neinum tilteknum höfundi í venjulegum skilningi. Til dæmis getur maður nýtt sér hugverk með rangindum þó að það sé eftir óþekktan höfund eða jafnvel ekki eftir neinn tiltekinn mann, samanber til dæmis þjóðlög og þjóðsögur.

Einnig getum við hugsað okkur að maður afli leyfis hjá upphaflegum höfundi hugverks til að nýta sér það sem sitt eigið verk án þess að geta höfundarins. Þó að undarlegt kunni að virðast er slíkt einnig ritstuldur samkvæmt skilgreiningunni sem tilgreind var hér á undan.

Þetta byggist á því að sá sem birtir verk annars manns sem sitt eigið er ekki eingöngu að ganga á hlut upphaflegs höfundar ef við á, heldur einnig að blekkja lesendur sína í einföldum staðreyndum um tilkomu verksins. Þetta á bæði við um almenna lesendur og þá sem leggja sérstaklega mat á verkið eins og nú er altíttt, bæði í ritdómum í fjölmiðlum, við úthlutun ýmiss konar styrkja og viðurkenninga og við mat á störfum manna í heild eins og gert er til dæmis í háskólum. Þannig getur hugverkastuldur sem ekki kemst upp hæglega orðið manni til efnislegra hagsbóta rétt eins og venjulegur þjófnaður.

Sá sem stelur einhverju frá öðrum ætlar oft að nýta sér það, til dæmis í auknum afköstum og minni fyrirhöfn. Þetta á augljóslega við þegar menn stela peningum eða hlutum sem þeir hyggjast fénýta sér, en einnig þegar lausafé eins og bílum eða reiðhjólum er stolið til til eigin nota. Á sama hátt kann það að horfa til vinnusparnaðar fyrir höfunda hugverka að nýta sér parta úr verkum annarra eins og um eigið verk væri að ræða. Ritstuldur eða annar hugverkastuldur er því að ýmsu leyti býsna hliðstæður venjulegum þjófnaði.

Til skamms tíma hefur mönnum orðið tíðræddast um ritstuld eða hugverkastuld í bókmenntum og öðrum listum, en í seinni tíð hefur ritstuldur í fræðastörfum komið mjög til umræðu, meðal annars með tilkomu tölvutækni og veraldarvefs, en einnig vegna vaxandi kröfu um heiðarleika, vönduð vinnubrögð og gagnsæi í vísindum.

Í grein bandaríska veftímaritsins History News Network kemur fram að ásakanir um ritstuld meðal fræðimanna fari sjaldan fyrir dómstóla þar sem lagaleg skilgreining á ritstuldi sé mun þrengri en þær siðareglur sem gilda um vandaða fræðimennsku. Séu ásakanir um ritstuld háskólakennara á rökum reistar geta háskólar beitt ýmsum viðurlögum svo sem að lækka laun, seinka stöðuhækkun, segja manni upp eða krefjast innköllunar og leiðréttingar á verki sem um ræðir. Þetta er þá gert vegna óvandaðra vinnubragða en ekki með vísun til þess að landslög hafi endilega verið brotin.

Spurningin um ritstuld í vísindum kann að leyna svolítið á sér vegna þess að vísindamönnum þykir yfirleitt eftirsóknarvert að aðrir fræðimenn vitni í verk þeirra, en hins vegar er þá auðvitað átt við fullgilda tilvitnun sem gerir lesanda kleift að hafa upp á verkinu sem um ræðir. Hitt hefur þó einnig færst í vöxt að menn nota verk annarra vísindamanna án þess að vísa til þeirra. Sá sem gerir slíkt á á hættu að hljóta ámæli af hálfu starfssystkina og vísindasamfélagsins eða fulltrúa þess, svo sem háskólayfirvalda og rannsóknaráða í hinum ýmsu löndum, eða jafnvel að missa aðgang að sjóðum sem úthluta styrkjum til rannsókna.

Eitt af því sem veldur nokkrum ruglingi í umræðunni um hugverkastuld í vísindum er það að kröfur um frágang fræðilegra verka að þessu leyti hafa verið að aukast að undanförnu og eru til dæmis allt aðrar núna en þær voru fyrir 100 árum eða svo.

Sömuleiðis byrgir það mönnum sýn á köflum að vísindamenn taka stundum upp á því að skrifa rit fyrir almenning og þá þykir ekki endilega við hæfi að trufla lesandann með bókfræðilegum tilvísunum. Ef höfundur kýs að sleppa þess konar kröfum eða slaka verulega á þeim ber honum að láta þess getið auk þess sem hann verður þá að sæta því að rit hans sé metið samkvæmt þessu - og kann það þó að vera býsna gott að öllu öðru leyti. Í þessu viðfangi skiptir líklega mestu að ritið sé eins og það sýnist vera þannig að lesandi geti strax séð hvorum flokkinum það tilheyrir.

Heimildir:...