Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Lorenzo Valla fæddist árið 1407 í Róm á Ítalíu og voru foreldrar hans af virtum borgaraættum. Hann nam guðfræði og sóttist eftir því að komast í þjónustu páfa. Það gekk ekki og í nokkur ár gegndi hann stöðu prófessors í mælskufræði (retórík) við háskólann í Pavía. Hann varð snemma deilugjarn og átti í útistöðum við aðra háskólamenn, ekki síst um það hvað væri góður stíll. Um þrítugt staðfestist Valla í þjónustu Alfonso konungs af Aragon og Sikiley sem einmitt árið 1437 freistaði þess að ná Napólí á sitt vald. Höfuðstöðvar konungs voru í bænum Gaeta og þar sat Valla við hirðina næstu árin eða fylgdi konungi í hernað. Verkefni Valla voru að þýða grísk fornrit yfir á latínu og að skrifa rit um heimspeki og annað sem konungur hafði ánægju af, sem og ævisögu hans.
Áður en Valla hóf störf hjá konungi hafði hann gefið út bók um ánægjuna (De voluptate) en á vegum konungs skrifaði hann sín helstu rit um latneska tungu (De elegantia linguae latinae), heimspeki (Repastinatio dialecticae et philosophiae) og guðfræði (De libero arbitrio). Valla naut virðingar menntamanna á Ítalíu en aflaði sér jafnframt óvildar með háðsglósum og þrætugirni. Hann settist að í Napólí þegar Alfonso náði henni á sitt vald sumarið 1442 og var þar næstu sex árin en þá tókst honum eftir ítrekaðar tilraunir að komast í þjónustu páfa. Hann kenndi jafnframt mælskufræði við háskólann í Róm til dauðadags 1. ágúst 1457.
Meðal þess sem Valla skrifaði í þjónustu Alfonsos árin 1439-40 var ritið De falso credita et ementita Constantini donatione eða Um falsað og ranglega álitið gjafabréf Konstantínusar. Það mun vera þekktasta rit hans nú um stundir. Þar tók hann sér fyrir hendur að sýna fram á að skjal sem páfar höfðu um aldabil notað til að rökstyðja veraldleg yfirráð sín í stórum hluta Ítalíu og vald sitt yfir keisurum og konungum í Evrópu, væri falsað og þar með dautt og ómerkt. Skjalið var gjafabréf Konstantínusar keisara í Róm til Silvesters páfa í byrjun 4. aldar.
Rök Valla voru af tvennum toga. Með sögulegum rökum sýndi hann að þessi afhending gat ekki hafa átt sér stað. Konstantínus var einfaldlega ekki í aðstöðu til að gera þetta og páfi ekki til að taka við veraldlegum yfirráðum. Gjöf sem þessi hefði brotið í bága við skilgreiningu keisaralegs valds á þessum tíma og sjálfsmynd kirkjunnar, sem enn hafði lítil sem engin ítök í rómversku samfélagi. Þar að auki voru engin önnur gögn til frá þessum tíma eða næstu áratugum og öldum um slíka gjöf sem hefði áreiðanlega mætt andstöðu valdamikilla manna í Róm. Önnur rök Valla voru málfarsleg og niðurstaðan sú að textinn gat ekki verið skrifaður á 4. öld heldur hlaut að vera yngri. Til dæmis var orðið papa notað um páfa sem ekki tíðkaðist svo snemma. Gjafabréfið var þar að auki á lélegri latínu. Ekki getur Valla sér til hvenær skjalið kunni að hafa orðið til en vissi hvenær það kom fyrst við sögu í samskiptum páfa og keisara, nefnilega árið 817.
Rit Valla er skrifað af ógurlegri andagift og sannfæringarkrafti. Höfundur ávarpar Konstantínus og Silvester og lætur þá halda ræður. Það er ekki langt, rétt um hundrað blaðsíður í litlu broti. Ekki er ljóst hvers vegna hann ákvað að skrifa gegn gjafabréfi Konstantínusar. Hann skýrir ekki frá því sjálfur en tekur í upphafi fram að hann hafi til þessa lagt sig í líma við að skrifa gegn viðteknum hugmyndum og spáir því að nú muni menn enn reiðast sér, jafnvel meira en nokkru sinni fyrr. Fræðimenn telja helst að Valla hafi skrifað ritið fyrir Alfonso konung til notkunar í baráttu hans við Evgeníus páfa. Ekki ætlaði Valla sér þó að ráðast að embætti páfa sem slíku, því hann vildi ekkert frekar en fá vinnu í Róm. Mikið var um það rætt um miðja 15. öld að nauðsynlegt væri að koma á sáttum milli kirkjulegs valds og konungsvalds, og sennilega ætlaði Valla ritinu hlutverk í þeirri samræðu.
Konstantínus keisari afhendir hér Silvester páfa hið meinta gjafabréf.
Strangt til tekið sagði Valla ekkert nýtt um gjafabréf Konstantínusar. Það hafði lengi sætt gagnrýni á þeirri forsendu að páfi ætti alls ekki að hafa veraldleg yfirráð. Þetta álitu ekki minni menn en franski ábótinn Bernharður af Clairvaux og ítölsku skáldin Francesco Petrarca og Dante Alighieri. Bréfið sem slíkt var fyrst tekið í gegn undir lok 14. aldar er Baldus de Ubaldis benti á að orðalag á nokkrum stöðum fengi ekki staðist miðað við að skjalið ætti að vera frá 4. öld. Á kirkjuþinginu í Basel árið 1433 fullyrti Nikulás af Kusa í ræðu að ekkert benti til þess að bréfið hefði verið í umferð næstu aldir á eftir og sýndi að hvergi yrði þess vart að keisarar eða páfar færu eftir því. Að mati Nikulásar var gjafabréfið tilbúningur (lat. conficta scriptura) en hann lét fulltrúum á kirkjuþinginu eftir að draga frekari ályktanir. Valla fylgdist grannt með því sem fram fór á kirkjuþinginu og þekkti óefað til ræðunnar, sem annars hafði lítil áhrif á viðstadda.
Sama gilti um ritsmíð Valla. Hvorki guðfræðingar né lögfræðingar létu sannfærast og allra síst páfi. Í Páfagarði vildu menn að Valla tæki orð sín aftur, nokkuð sem hann neitaði að gera og fékk þó vinnu þar nokkrum árum síðar. Til eru um 20 handrit ritsins frá síðari hluta 15. aldar og byrjun 16. aldar en fyrst kom það út á prenti árið 1506, líklega í Strassborg. Siðaskiptamenn í Þýskalandi nýtt sér ritið í áróðri gegn páfa og hélt Lúther mikið upp á það. Það var þýtt á tékknesku árið 1513 en á frönsku 1522, þýsku 1524, ensku 1534 og ítölsku 1546. Á latínu var það gefið nokkrum sinnum út á 16. öld, meðal annars í heildarútgáfu á verkum Valla í Basel árið 1540 og aftur 1543. Það var virkur þáttur í pólitískum deilum manna um tengsl kirkjunnar og keisaradæmisins en á 16. öld og á 17. öld var það prentað að minnsta kosti sex sinnum. Margir urðu til að rita gegn því og freistuðu þess að sýna að gjafabréfið væri alls ekki falsað, til að mynda ítalski munkurinn Agostino Steuco, sem fullyrti að Valla hefði hreinlega ekki grafist fyrir um betri eintök textans en þá styttu gerð sem er í kirkjuréttarsafni Gratíanusar frá miðri 12. öld. Fornbréfafræðingar í lok síðustu aldar tóku undir þetta sjónarmið og skilgreindu Valla sem viðvaning, enda hefði hann einungis sannað að gjafabréfið væri falsað en ekki ákvarðað aldur eða markmið fölsunarinnar. Þessi gagnrýni breytir þó ekki því að gagnrýni Valla er mikilvæg þegar hugað er að sögulegri þróun húmanískra fræða.
Mynd:
Már Jónsson. „Hver var Lorenzo Valla og hvert var hans framlag til fræðilegrar textarýni?“ Vísindavefurinn, 17. mars 2011, sótt 4. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58606.
Már Jónsson. (2011, 17. mars). Hver var Lorenzo Valla og hvert var hans framlag til fræðilegrar textarýni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58606
Már Jónsson. „Hver var Lorenzo Valla og hvert var hans framlag til fræðilegrar textarýni?“ Vísindavefurinn. 17. mar. 2011. Vefsíða. 4. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58606>.