Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru stjörnuspár sannar?

Sævar Helgi Bragason

Hér er einnig svarað eftirfarandi spurningum:
  • Er fylgni milli hegðunar eða persónuleika við fæðingardag? (Albert Teitsson)
  • Hvað er til í stjörnumerkjafræði; að þessi sé svona eða hinsegin eftir því hvenær hann er fæddur? (Sigurlaug Jónasdóttir)
Í stuttu máli: nei.



Stjörnuspeki virkar ekki og spárnar eru því ekki sannar. Ekki hefur verið sýnt fram á fylgni milli hegðunar og persónuleika manna og fæðingardags einstaklingsins svo óyggjandi sé. Fæðingardagur hefur því engin áhrif á persónuleika manna.

Áður en við byrjum að rökstyðja fullyrðingar okkar hér að ofan er mikilvægt að skoða muninn á stjörnufræði annars vegar og stjörnuspeki hins vegar. Stjörnufræði er vísindagrein -- rannsókn manna á alheiminum eins og hann var og er -- og byggist á þekktum vísindalegum staðreyndum. Stjörnuspeki telst hins vegar til gervivísinda sem svo eru kölluð. Fylgjendur hennar vilja telja hana til vísinda og gefa henni yfirbragð þeirra en í raun er hún ekki vísindi enda setur hún fram fullyrðingar sem byggjast ekki á staðreyndum og á því ekki við nein rök að styðjast. Engu að síður eru stjörnufræði og stjörnuspeki greinar af sama meiði í skilningi hugmyndasögunnar.

Grunnforsenda stjörnuspekinnar, eða stjörnuspáfræðinnar, er einföld. Hún staðhæfir að tilhögun fastastjarnanna og plánetanna á tíma fæðingarinnar, hafi mikil áhrif á líf okkar og persónuleika í framtíðinni. Ekkert bendir til að þetta eigi við rök að styðjast.

Fyrir nokkrum árþúsundum þróaðist sú hugmynd meðal Babýlóníumanna að pláneturnar ákvörðuðu örlög konunga, þjóðhöfðingja og keisaravelda. Sólin og stjörnurnar stjórnuðu árstíðunum og því fæðu manna. Tunglið stjórnaði flóði og fjöru, lífshringjum margra dýrategunda, og ef til vill tíðahring kvenna, en það var mikilvægt fyrir dygga dýrategund sem einsetur sér að eignast börn og tryggja áframhaldandi veru sína á jörðinni. Á himninum voru einnig annars konar fyrirbæri, reikular flækingsstjörnur sem nefndust plánetur.



Stjörnuspekingar athuguðu hreyfingar plánetnanna og spurðu sjálfa sig hvað gerst hafði á síðasta ári, til dæmis þegar Venus reis í Steingeitinni. Ef til vill myndi eitthvað svipað gerast á sama tíma næsta ár. Þetta var áhættusöm starfsgrein. Stjörnuspekingar voru oft við hirðir konunga og í mörgum löndum var það litið alvarlegum augum ef annar en stjörnuspekingur konungs las í himininn. Spárnar voru greinilega ekki óbrigðular því sagnir eru til um kínverska stjörnuspekinga sem teknir voru af lífi fyrir ónákvæmar spár. Aðrir voru kænni og breyttu einfaldlega útreikningunum eftir á, þannig að þeir voru ávallt í fullkomnu samræmi við liðna atburði. Svo hafa menn líka fljótlega fundið þá leið sem hefur verið opin spámönnum allra tíma, að hafa spádómana svo loðna að alltaf væri hægt að segja eftir á að þeir hefðu ræst.

En ef pláneturnar gátu sagt til um örlög konunga og jafnvel heilla þjóða, þá hlutu þær einnig að geta haft áhrif á það sem koma ætti fyrir hvern og einn á morgun. Hugmyndin um persónulega stjörnuspeki þróaðist í Alexandríu í Egyptalandi og barst þaðan til Grikklands og Rómaveldis fyrir meira en 2000 árum. Enn bera orð í nútímatungumálum keim af fornri stjörnuspeki; til dæmis orðin "disaster" og "consider". Enska orðið "disaster" merkir stórslys en á grísku þýðir það "slæm stjarna", og "consider", sem þýðir að íhuga, álíta eða telja, merkir "með plánetunum" á grísku. Áður fyrr voru pláneturnar jafnvel taldar valda dauða fólks. Á skrá yfir dauðamein 9535 manna í Lundúnaborg frá árinu 1632 kennir ýmissa grasa. Innan um hræðilega sjúkdóma eins og "illindi konungs" og "ris ljónsins" er getið um 13 manns sem dóu vegna "plánetu", fleiri en létust af völdum krabbameins það ár. Það væri gaman að vita hver einkenni þess sjúkdóms voru.

Nútíma stjörnuspeki má rekja til Kládíusar Ptólemaíosar. Allt varðandi rísandi plánetur í þessu eða öðru húsi, eða "Öld Vatnsberans", er komið frá Ptólemaíosi sem batt stjörnuspeki Babýlóníumanna í heildstætt kerfi. Í bók hans Tetrabiblios, er greinilegt að Ptólemaíos telur ekki aðeins að pláneturnar og stjörnurnar hafi áhrif á hegðunarmynstur fólks, heldur einnig þroska þess, útlit, eðli og jafnvel meðfædda líkamsfötlun. Stjörnuspekingar hafa þó að mestu horfið frá þessu, sem betur fer.

Ef stjörnuspeki ætti við vísindaleg rök að styðjast væri nærtækast að það væri þyngdarkrafturinn sem bæri áhrifin frá himintunglunum til okkar. Hann hefur vissulega áhrif á okkur; hann heldur okkur á jörðinni og þyngdaráhrif tungls og sólar mynda sjávarföllin. En hvernig getur fjarlæg reikistjarna eins og Mars haft meiri áhrif á okkur á tíma fæðingarinnar en til dæmis fæðingarlæknirinn sem tók á móti okkur? Mars hefur vissulega miklu meiri massa en fæðingarlæknirinn er miklu nær okkur.

Auk þess gera stjörnuspekingar ekki greinarmun á því hvort Mars sé sömu megin við sólina og jörðin þegar menn fæðast, eða hinu megin þar sem þyngdartog hennar á jörðina er margfalt minna. Telja mætti að þetta væri mjög mikilvægt atriði, en samt er það hunsað í flestum stjörnuspám.

Samkvæmt stjörnuspekinni á Mars að hafa svipuð áhrif okkur og tunglið. Þyngdaráhrif tunglsins á jörðina og okkur í leiðinni er miklu meira en samanlagt þyngdartog allra reikistjarnanna. Með réttu ætti því tunglið að hafa miklu meiri áhrif á okkur en pláneturnar, ef stjörnuspekingar vilja halda sig við að þyngdarkrafturinn sé ráðandi í stjörnuspeki. Auk þess er auðvelt að reikna út að þyngdaráhrif og breytingar á þeim eru miklu meiri frá ýmsum jarðneskum hlutum, svo sem stórhýsum, heldur en frá reikistjörnunum.

Þegar sýnt er fram á að þyngdarkrafturinn dugir ekki til að finna kenningum stjörnuspekinnar stað leita stjörnuspekingar oft til annarra krafta eins og rafsegulkrafta. Það dugir þeim þó enn síður því að áhrif rafsegulkrafts sólarinnar einnar á okkur er milljón sinnum meiri en allra annarra fyrirbæra himinsins. Sterk rafsegulgeislun sólvinds getur valdið rafmagnsleysi á jörðinni og skemmt gervitungl. Rafmagnsleysi með tilheyrandi sjónvarpsleysi hefur líklega sömuleiðis miklu meiri sálfræðileg áhrif á daglegt líf okkar, heldur en rafsegulgeislun frá reikistjörnunum.

Eitt er það sem stjörnuspekingar nútímans gleyma sem Ptólmaíos kunni skil á, en það er framsókn jafndægrapunkta. Engu að síður viðurkennir stjörnuspekin framsóknina að hluta til með því að tilkynna um "Öld Vatnsberans" en tekur það samt ekki með í stjörnuspárnar þó að það ætti að skipta sköpum ef stjörnuspekin ætti sér einhvern grundvöll í eðlisfræði. Stjörnuspekingar láta sig engu varða um ljósbrot lofthjúpsins og hunsa öll hin fjölmörgu tungl sólkerfisins, smástirnin og halastjörnurnar, dulstirnin og tifstirnin, breytistjörnurnar, vetrarbrautirnar og röntgenuppspretturnar sem ekki höfðu uppgötvast á tíma Ptólemaíosar. Ef áhrif þyngarkraftsins breytast ekkert með aukinni fjarlægð, eins og stjörnuspekningar virðast halda, ættu þessi fyrirbæri þá ekki að hafa einhver áhrif á okkur? Þau eru hins vegar aldrei tilgreind í stjörnuspeki.

Auk alls þessa skiptir engu í stjörnuspeki hvar nákvæmlega maður fæðist, það er á hvaða lengdar- og breiddargráðu. Og hvernig stendur á því að smástirni sem fara nálægt jörðinni koma hvergi fram í stjörnuspekinni?

Stjörnuspár eru búnar til eftir því í hvaða merki sólin, tungl eða tiltekin pláneta var í á degi fæðingarinnar. Merkin sem stjörnuspárnar starfa útfrá mynda Dýrahringinn og í stjörnuspáfræði eru þessi merki tólf sem sólin gengur í. Pólvelta jarðar veldur því hins vegar að sólin gengur ekki gegnum sömu merki á sama árstíma og á dögum Ptólmæosar. Einnig veldur eiginhreyfing stjarnanna sjálfra því að lögun merkjanna breytist. Þessar staðreyndir ættu að skipta höfuðmáli í sambandi við nákvæmni stjörnuspádóma ef þeir ættu sér einhvern vísindalegan grundvöll.

Vegna framsóknar jafndægrapunkta hefur Dýrahringurinn breyst í dag á þann hátt að sólin er ekki í "réttum" merkjum á tilteknum tíma. Af þessu leiðir að þegar fólk les stjörnuspána sína, er það að öllum líkindum að lesa vitlausa stjörnuspá. Hin þrettán raunverulegu merki Dýrahringsins eru því sem hér segir:
  • Fiskarnir -- 12. mars til 18. apríl
  • Hrúturinn -- 19. apríl til 13. maí
  • Nautið -- 14. maí til 19. júní
  • Tvíburarnir -- 20. júní til 20. júlí
  • Krabbinn -- 21. júlí til 9. ágúst
  • Ljónið -- 10. ágúst til 15. september
  • Meyjan -- 16. september til 30. október
  • Vogin -- 31. október til 22. nóvember
  • Sporðdrekinn -- 23. nóvember til 29. nóvember
  • Naðurvaldi -- 30. nóvember til 17. desember
  • Bogmaðurinn -- 18. desember til 18. janúar
  • Steingeitin -- 19. janúar til 15. febrúar
  • Vatnsberinn -- 16. febrúar til 11. mars
Þrátt fyrir allt þetta lifir persónuleg stjörnuspekin enn góðu lífi í dag og virðist vinsælli en oft áður. Daglega birta dagblöð og vikublöð um allan heim stjörnuspádóma sem fólk les, af mismikilli alvöru þó. Við skulum skoða tvær íslenskar stjörnuspár, aðra úr Morgunblaðinu og hina frá Dagblaðinu. Tökum sem dæmi spá fyrir Fiskamerkið, en samkvæmt stjörnuspekingum eru þeir/þær sem fæddir/-ar eru milli 19. febrúar og 20. mars í því.

Stjörnuspekingur Dagblaðsins segir:
Þú gerir áætlanir varðandi framtíðina og það er líklegt að þær standist. Gefðu þér meiri tíma fyrir sjálfan þig, það borgar sig.
En stjörnuspekingur Morgunblaðsins segir hins vegar:
Þú ert rómantísk manneskja og í dag verður þessi eiginleiki þinn áberandi. Vertu óhrædd(ur) við að sýna öðrum að þér þyki vænt um þá.
Eins og hér sést, eru þessar spár alls engar spár; heldur nokkurs konar ráðleggingar; reyndar ágætar í sjálfu sér. Spárnar segja okkur hvað við ættum að gera en ekki hvað muni gerast. Af ásettu ráði eru þær orðaðar þannig að þær geti átt við hvern sem er, jafnvel þó að sú eða sá sé ekki í Fiskamerkinu. Einnig sést að spárnar eru mjög ólíkar. Hvernig stendur á því að stjörnuspá fyrir sömu manneskjurnar, birtar sama dag eftir tvo stjörnuspekinga, geta verið svona ólíkar?

Við getum prófað áreiðanleika stjörnuspáa með tvíburaprófi. Bæði börnin fæðast á sama stað með ef til vill nokkurra mínútna millibili. Nákvæmlega sömu pláneturnar voru að rísa á tíma fæðingarinnar. Mörg dæmi eru til um að annar tvíburinn deyi í fæðingu, eða barnæsku, á meðan hinn lifi góðu og löngu lífi. Ef stjörnuspekin virkaði, hvers vegna eru örlög tvíburana svona ólík?

Samkvæmt bandarískri könnun frá 1984 trúðu 59% Bandaríkjamanna á gildi stjörnuspáa. Í Bandaríkjunum eru um tíu sinnum fleiri stjörnuspekingar en stjörnufræðingar og í Frakklandi eru fleiri stjörnuspekingar heldur en rómversk-kaþólskir klerkar. Það er því ljóst að þetta er mikill iðnaður, sem veltir án efa miklum fjárhæðum árlega. Þrátt fyrir augljósan fjölda fólks sem trúir á stjörnuspár, hlógu margir þegar fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, Nancy Reagan, lagði traust sitt á stjörnuspeking til að skipuleggja fundi þegar henni þóttu blikur á lofti. Þetta er þó varla aðhlátursefni; maður hennar var forseti Bandaríkjanna og hún treysti á stjörnuspeking. Bara ef fólk hefði í sér aðeins meiri rökhugsun.

Stjörnuspeki eru trúarbrögð í augum sumra og trúarbrögð krefjast fullyrðinga án sannana. Á vissan hátt eru sannanir fordæmdar af trúarbrögðum; trúaðir eiga að trúa án þess að krefjast sannana. Í raun má segja að stjörnuspekin verki á sama hátt. Vonandi taka flestir stjörnuspekinni eins og hverri annarri skemmtun og dægradvöl en þó eru alltaf einhverjir sem trúa staðfastlega á hana.

Skoðið einnig skyld svör:Heimildir og frekara lesefni:
  • Grétar Pálsson. Hvað segja stjörnurnar um þig? Vaka Helgafell, Reykjavík, 1996.
  • Gunnlaugur Guðmundsson. Hvað býr í framtíðinni? Iðunn, Reykjavík, 1989.
  • Plait, Philip. Bad Astronomy: Misuses and Misunderstandings Revealed from Astrology to the Moon Landing ?Hoax?. Wiley & Sons, New York, 2002.
  • Sagan, Carl. Cosmos. Random House, New York, 1983.
  • Sagan, Carl. The Demon-Haunted World: Science as a Candle in the Dark. Ballantine Books, New York, 1996.
  • Þorsteinn Sæmundsson. Stjörnufræði-Rímfræði, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 1972.



Mynd af táknum sjörnuspekinnar: Astrological Knowledge - Explaining your Natal Chart Glyphs

Mynd af stjörnumerkjum: University of California, Berkeley Library, Earth Sciences and Map Library

Mynd af Kládíusi Ptólmæosi: University of California at Berkeley - The Ptolemy Project

Lítil mynd af sól og stjörnumerkjum Crystalinks

Mynd af Nancy og Ronald Reagan: The Ronald Reagan Home Page

Höfundur

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

19.7.2002

Spyrjandi

Selma Ósk Höskuldsdóttir

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason. „Eru stjörnuspár sannar?“ Vísindavefurinn, 19. júlí 2002, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2601.

Sævar Helgi Bragason. (2002, 19. júlí). Eru stjörnuspár sannar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2601

Sævar Helgi Bragason. „Eru stjörnuspár sannar?“ Vísindavefurinn. 19. júl. 2002. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2601>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru stjörnuspár sannar?
Hér er einnig svarað eftirfarandi spurningum:

  • Er fylgni milli hegðunar eða persónuleika við fæðingardag? (Albert Teitsson)
  • Hvað er til í stjörnumerkjafræði; að þessi sé svona eða hinsegin eftir því hvenær hann er fæddur? (Sigurlaug Jónasdóttir)
Í stuttu máli: nei.



Stjörnuspeki virkar ekki og spárnar eru því ekki sannar. Ekki hefur verið sýnt fram á fylgni milli hegðunar og persónuleika manna og fæðingardags einstaklingsins svo óyggjandi sé. Fæðingardagur hefur því engin áhrif á persónuleika manna.

Áður en við byrjum að rökstyðja fullyrðingar okkar hér að ofan er mikilvægt að skoða muninn á stjörnufræði annars vegar og stjörnuspeki hins vegar. Stjörnufræði er vísindagrein -- rannsókn manna á alheiminum eins og hann var og er -- og byggist á þekktum vísindalegum staðreyndum. Stjörnuspeki telst hins vegar til gervivísinda sem svo eru kölluð. Fylgjendur hennar vilja telja hana til vísinda og gefa henni yfirbragð þeirra en í raun er hún ekki vísindi enda setur hún fram fullyrðingar sem byggjast ekki á staðreyndum og á því ekki við nein rök að styðjast. Engu að síður eru stjörnufræði og stjörnuspeki greinar af sama meiði í skilningi hugmyndasögunnar.

Grunnforsenda stjörnuspekinnar, eða stjörnuspáfræðinnar, er einföld. Hún staðhæfir að tilhögun fastastjarnanna og plánetanna á tíma fæðingarinnar, hafi mikil áhrif á líf okkar og persónuleika í framtíðinni. Ekkert bendir til að þetta eigi við rök að styðjast.

Fyrir nokkrum árþúsundum þróaðist sú hugmynd meðal Babýlóníumanna að pláneturnar ákvörðuðu örlög konunga, þjóðhöfðingja og keisaravelda. Sólin og stjörnurnar stjórnuðu árstíðunum og því fæðu manna. Tunglið stjórnaði flóði og fjöru, lífshringjum margra dýrategunda, og ef til vill tíðahring kvenna, en það var mikilvægt fyrir dygga dýrategund sem einsetur sér að eignast börn og tryggja áframhaldandi veru sína á jörðinni. Á himninum voru einnig annars konar fyrirbæri, reikular flækingsstjörnur sem nefndust plánetur.



Stjörnuspekingar athuguðu hreyfingar plánetnanna og spurðu sjálfa sig hvað gerst hafði á síðasta ári, til dæmis þegar Venus reis í Steingeitinni. Ef til vill myndi eitthvað svipað gerast á sama tíma næsta ár. Þetta var áhættusöm starfsgrein. Stjörnuspekingar voru oft við hirðir konunga og í mörgum löndum var það litið alvarlegum augum ef annar en stjörnuspekingur konungs las í himininn. Spárnar voru greinilega ekki óbrigðular því sagnir eru til um kínverska stjörnuspekinga sem teknir voru af lífi fyrir ónákvæmar spár. Aðrir voru kænni og breyttu einfaldlega útreikningunum eftir á, þannig að þeir voru ávallt í fullkomnu samræmi við liðna atburði. Svo hafa menn líka fljótlega fundið þá leið sem hefur verið opin spámönnum allra tíma, að hafa spádómana svo loðna að alltaf væri hægt að segja eftir á að þeir hefðu ræst.

En ef pláneturnar gátu sagt til um örlög konunga og jafnvel heilla þjóða, þá hlutu þær einnig að geta haft áhrif á það sem koma ætti fyrir hvern og einn á morgun. Hugmyndin um persónulega stjörnuspeki þróaðist í Alexandríu í Egyptalandi og barst þaðan til Grikklands og Rómaveldis fyrir meira en 2000 árum. Enn bera orð í nútímatungumálum keim af fornri stjörnuspeki; til dæmis orðin "disaster" og "consider". Enska orðið "disaster" merkir stórslys en á grísku þýðir það "slæm stjarna", og "consider", sem þýðir að íhuga, álíta eða telja, merkir "með plánetunum" á grísku. Áður fyrr voru pláneturnar jafnvel taldar valda dauða fólks. Á skrá yfir dauðamein 9535 manna í Lundúnaborg frá árinu 1632 kennir ýmissa grasa. Innan um hræðilega sjúkdóma eins og "illindi konungs" og "ris ljónsins" er getið um 13 manns sem dóu vegna "plánetu", fleiri en létust af völdum krabbameins það ár. Það væri gaman að vita hver einkenni þess sjúkdóms voru.

Nútíma stjörnuspeki má rekja til Kládíusar Ptólemaíosar. Allt varðandi rísandi plánetur í þessu eða öðru húsi, eða "Öld Vatnsberans", er komið frá Ptólemaíosi sem batt stjörnuspeki Babýlóníumanna í heildstætt kerfi. Í bók hans Tetrabiblios, er greinilegt að Ptólemaíos telur ekki aðeins að pláneturnar og stjörnurnar hafi áhrif á hegðunarmynstur fólks, heldur einnig þroska þess, útlit, eðli og jafnvel meðfædda líkamsfötlun. Stjörnuspekingar hafa þó að mestu horfið frá þessu, sem betur fer.

Ef stjörnuspeki ætti við vísindaleg rök að styðjast væri nærtækast að það væri þyngdarkrafturinn sem bæri áhrifin frá himintunglunum til okkar. Hann hefur vissulega áhrif á okkur; hann heldur okkur á jörðinni og þyngdaráhrif tungls og sólar mynda sjávarföllin. En hvernig getur fjarlæg reikistjarna eins og Mars haft meiri áhrif á okkur á tíma fæðingarinnar en til dæmis fæðingarlæknirinn sem tók á móti okkur? Mars hefur vissulega miklu meiri massa en fæðingarlæknirinn er miklu nær okkur.

Auk þess gera stjörnuspekingar ekki greinarmun á því hvort Mars sé sömu megin við sólina og jörðin þegar menn fæðast, eða hinu megin þar sem þyngdartog hennar á jörðina er margfalt minna. Telja mætti að þetta væri mjög mikilvægt atriði, en samt er það hunsað í flestum stjörnuspám.

Samkvæmt stjörnuspekinni á Mars að hafa svipuð áhrif okkur og tunglið. Þyngdaráhrif tunglsins á jörðina og okkur í leiðinni er miklu meira en samanlagt þyngdartog allra reikistjarnanna. Með réttu ætti því tunglið að hafa miklu meiri áhrif á okkur en pláneturnar, ef stjörnuspekingar vilja halda sig við að þyngdarkrafturinn sé ráðandi í stjörnuspeki. Auk þess er auðvelt að reikna út að þyngdaráhrif og breytingar á þeim eru miklu meiri frá ýmsum jarðneskum hlutum, svo sem stórhýsum, heldur en frá reikistjörnunum.

Þegar sýnt er fram á að þyngdarkrafturinn dugir ekki til að finna kenningum stjörnuspekinnar stað leita stjörnuspekingar oft til annarra krafta eins og rafsegulkrafta. Það dugir þeim þó enn síður því að áhrif rafsegulkrafts sólarinnar einnar á okkur er milljón sinnum meiri en allra annarra fyrirbæra himinsins. Sterk rafsegulgeislun sólvinds getur valdið rafmagnsleysi á jörðinni og skemmt gervitungl. Rafmagnsleysi með tilheyrandi sjónvarpsleysi hefur líklega sömuleiðis miklu meiri sálfræðileg áhrif á daglegt líf okkar, heldur en rafsegulgeislun frá reikistjörnunum.

Eitt er það sem stjörnuspekingar nútímans gleyma sem Ptólmaíos kunni skil á, en það er framsókn jafndægrapunkta. Engu að síður viðurkennir stjörnuspekin framsóknina að hluta til með því að tilkynna um "Öld Vatnsberans" en tekur það samt ekki með í stjörnuspárnar þó að það ætti að skipta sköpum ef stjörnuspekin ætti sér einhvern grundvöll í eðlisfræði. Stjörnuspekingar láta sig engu varða um ljósbrot lofthjúpsins og hunsa öll hin fjölmörgu tungl sólkerfisins, smástirnin og halastjörnurnar, dulstirnin og tifstirnin, breytistjörnurnar, vetrarbrautirnar og röntgenuppspretturnar sem ekki höfðu uppgötvast á tíma Ptólemaíosar. Ef áhrif þyngarkraftsins breytast ekkert með aukinni fjarlægð, eins og stjörnuspekningar virðast halda, ættu þessi fyrirbæri þá ekki að hafa einhver áhrif á okkur? Þau eru hins vegar aldrei tilgreind í stjörnuspeki.

Auk alls þessa skiptir engu í stjörnuspeki hvar nákvæmlega maður fæðist, það er á hvaða lengdar- og breiddargráðu. Og hvernig stendur á því að smástirni sem fara nálægt jörðinni koma hvergi fram í stjörnuspekinni?

Stjörnuspár eru búnar til eftir því í hvaða merki sólin, tungl eða tiltekin pláneta var í á degi fæðingarinnar. Merkin sem stjörnuspárnar starfa útfrá mynda Dýrahringinn og í stjörnuspáfræði eru þessi merki tólf sem sólin gengur í. Pólvelta jarðar veldur því hins vegar að sólin gengur ekki gegnum sömu merki á sama árstíma og á dögum Ptólmæosar. Einnig veldur eiginhreyfing stjarnanna sjálfra því að lögun merkjanna breytist. Þessar staðreyndir ættu að skipta höfuðmáli í sambandi við nákvæmni stjörnuspádóma ef þeir ættu sér einhvern vísindalegan grundvöll.

Vegna framsóknar jafndægrapunkta hefur Dýrahringurinn breyst í dag á þann hátt að sólin er ekki í "réttum" merkjum á tilteknum tíma. Af þessu leiðir að þegar fólk les stjörnuspána sína, er það að öllum líkindum að lesa vitlausa stjörnuspá. Hin þrettán raunverulegu merki Dýrahringsins eru því sem hér segir:
  • Fiskarnir -- 12. mars til 18. apríl
  • Hrúturinn -- 19. apríl til 13. maí
  • Nautið -- 14. maí til 19. júní
  • Tvíburarnir -- 20. júní til 20. júlí
  • Krabbinn -- 21. júlí til 9. ágúst
  • Ljónið -- 10. ágúst til 15. september
  • Meyjan -- 16. september til 30. október
  • Vogin -- 31. október til 22. nóvember
  • Sporðdrekinn -- 23. nóvember til 29. nóvember
  • Naðurvaldi -- 30. nóvember til 17. desember
  • Bogmaðurinn -- 18. desember til 18. janúar
  • Steingeitin -- 19. janúar til 15. febrúar
  • Vatnsberinn -- 16. febrúar til 11. mars
Þrátt fyrir allt þetta lifir persónuleg stjörnuspekin enn góðu lífi í dag og virðist vinsælli en oft áður. Daglega birta dagblöð og vikublöð um allan heim stjörnuspádóma sem fólk les, af mismikilli alvöru þó. Við skulum skoða tvær íslenskar stjörnuspár, aðra úr Morgunblaðinu og hina frá Dagblaðinu. Tökum sem dæmi spá fyrir Fiskamerkið, en samkvæmt stjörnuspekingum eru þeir/þær sem fæddir/-ar eru milli 19. febrúar og 20. mars í því.

Stjörnuspekingur Dagblaðsins segir:
Þú gerir áætlanir varðandi framtíðina og það er líklegt að þær standist. Gefðu þér meiri tíma fyrir sjálfan þig, það borgar sig.
En stjörnuspekingur Morgunblaðsins segir hins vegar:
Þú ert rómantísk manneskja og í dag verður þessi eiginleiki þinn áberandi. Vertu óhrædd(ur) við að sýna öðrum að þér þyki vænt um þá.
Eins og hér sést, eru þessar spár alls engar spár; heldur nokkurs konar ráðleggingar; reyndar ágætar í sjálfu sér. Spárnar segja okkur hvað við ættum að gera en ekki hvað muni gerast. Af ásettu ráði eru þær orðaðar þannig að þær geti átt við hvern sem er, jafnvel þó að sú eða sá sé ekki í Fiskamerkinu. Einnig sést að spárnar eru mjög ólíkar. Hvernig stendur á því að stjörnuspá fyrir sömu manneskjurnar, birtar sama dag eftir tvo stjörnuspekinga, geta verið svona ólíkar?

Við getum prófað áreiðanleika stjörnuspáa með tvíburaprófi. Bæði börnin fæðast á sama stað með ef til vill nokkurra mínútna millibili. Nákvæmlega sömu pláneturnar voru að rísa á tíma fæðingarinnar. Mörg dæmi eru til um að annar tvíburinn deyi í fæðingu, eða barnæsku, á meðan hinn lifi góðu og löngu lífi. Ef stjörnuspekin virkaði, hvers vegna eru örlög tvíburana svona ólík?

Samkvæmt bandarískri könnun frá 1984 trúðu 59% Bandaríkjamanna á gildi stjörnuspáa. Í Bandaríkjunum eru um tíu sinnum fleiri stjörnuspekingar en stjörnufræðingar og í Frakklandi eru fleiri stjörnuspekingar heldur en rómversk-kaþólskir klerkar. Það er því ljóst að þetta er mikill iðnaður, sem veltir án efa miklum fjárhæðum árlega. Þrátt fyrir augljósan fjölda fólks sem trúir á stjörnuspár, hlógu margir þegar fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, Nancy Reagan, lagði traust sitt á stjörnuspeking til að skipuleggja fundi þegar henni þóttu blikur á lofti. Þetta er þó varla aðhlátursefni; maður hennar var forseti Bandaríkjanna og hún treysti á stjörnuspeking. Bara ef fólk hefði í sér aðeins meiri rökhugsun.

Stjörnuspeki eru trúarbrögð í augum sumra og trúarbrögð krefjast fullyrðinga án sannana. Á vissan hátt eru sannanir fordæmdar af trúarbrögðum; trúaðir eiga að trúa án þess að krefjast sannana. Í raun má segja að stjörnuspekin verki á sama hátt. Vonandi taka flestir stjörnuspekinni eins og hverri annarri skemmtun og dægradvöl en þó eru alltaf einhverjir sem trúa staðfastlega á hana.

Skoðið einnig skyld svör:Heimildir og frekara lesefni:
  • Grétar Pálsson. Hvað segja stjörnurnar um þig? Vaka Helgafell, Reykjavík, 1996.
  • Gunnlaugur Guðmundsson. Hvað býr í framtíðinni? Iðunn, Reykjavík, 1989.
  • Plait, Philip. Bad Astronomy: Misuses and Misunderstandings Revealed from Astrology to the Moon Landing ?Hoax?. Wiley & Sons, New York, 2002.
  • Sagan, Carl. Cosmos. Random House, New York, 1983.
  • Sagan, Carl. The Demon-Haunted World: Science as a Candle in the Dark. Ballantine Books, New York, 1996.
  • Þorsteinn Sæmundsson. Stjörnufræði-Rímfræði, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 1972.



Mynd af táknum sjörnuspekinnar: Astrological Knowledge - Explaining your Natal Chart Glyphs

Mynd af stjörnumerkjum: University of California, Berkeley Library, Earth Sciences and Map Library

Mynd af Kládíusi Ptólmæosi: University of California at Berkeley - The Ptolemy Project

Lítil mynd af sól og stjörnumerkjum Crystalinks

Mynd af Nancy og Ronald Reagan: The Ronald Reagan Home Page...