Ptólemaíos var uppi bæði löngu eftir að hinu veraldlega veldi Forngrikkja tók að hnigna á fjórðu öld f.Kr. og auk þess í öðru landi en það hafði staðið. Alexander mikli (356-323 f.Kr.) stofnaði að minnsta kosti 15 „Alexandríur“ á rösklegri yfirreið sinni um þekktar mannabyggðir, en frægust þeirra og voldugust varð einmitt Alexandría í Egyptalandi og hún ein varð honum „verðugur“ minnisvarði til langframa.
Á dögum Ptólemaíosar var þessi egypska borg helsta fræðamiðstöð heimsins þó að hið veraldlega vald væri saman komið í Rómaborg. Meðal annars komu eftirmenn Alexanders á þessum slóðum, svokallaðir „Ptólemaíar“, á fót víðfrægu bókasafni í Alexandríu, og víst væri sagan með talsvert öðru móti ef bæði Rómverjar og kristnir menn hefðu ekki gert safninu skráveifur, allt frá því að sjálfur Sesar var að eltast við Kleópötru árið 47 f.Kr. og þar til kristnir menn lögðu síðustu leifar safnsins í rúst árið 391.
Ptólemaíos var einn af síðustu meiri háttar vísindamönnum hellenistíska eða síðgríska tímans og því vel í sveit settur, bæði hvað snertir stað og tíma. Hjá honum er eins og þræðirnir komi saman í einum punkti og hann kunni vissulega að færa sér það í nyt. Hann lagði sjálfstætt mat á hugmyndir fyrirrennara sinna og byggði á öllum athugunum sem þá höfðu safnast fyrir í meira en þúsund ár, bæði frá Egyptalandi, Babýloníu, Grikklandi og nýlendum þess og fleiri stöðum. Einnig er hann talinn hafa verið fær stjörnuathugandi sjálfur, auk þess sem hann var vel að sér í stærðfræði og beitti henni óspart.
Meginrit Ptólemaíosar um stjörnufræði er varðveitt undir nafninu Almagest. Þetta fræga rit hans er saman sett á rökvísan hátt. Í fyrstu bók er gerð grein fyrir grundvallarforsendum heimsmyndarinnar, svo sem þeirri að festingin snúist eins og kúla, að jörðin sé kúlulaga, að hún sé í miðju himinhvolfsins og að hún sé hreyfingarlaus. Fyrir öllum þessum atriðum færir Ptólemaíos sterk og sannfærandi rök. Einnig er í fyrstu bókunum fjallað um ýmiss konar stærðfræðileg atriði sem Ptólemaíos þarf á að halda.
Í þriðju bók er tekin fyrir lengd ársins og síðan ýmis frávik í göngu sólar. Í fjórðu, fimmtu og sjöttu bók er fjallað um tunglið, umferðartíma þess, hreyfingu og myrkva, og verður sú saga allflókin áður en lýkur.
Í sjöundu og áttundu bók kemur röðin að fastastjörnunum, og er þá fyrst sýnt fram á að þær séu innbyrðis fastar en síðan fjallað um fyrrnefnda hreyfingu fastastjörnuhvelsins sem heildar miðað við sólbaug. Síðan er rætt um stjörnuskrá, um vetrarbrautina og fleira.
Í níundu bók tekur Ptólemaíos fyrir ýmis almenn atriði í hreyfingu förustjarnanna, svo sem röð föruhnattanna, lotubundna hreyfingu og þess háttar, og síðan kemur röðin að Merkúríusi. Til loka elleftu bókar eru förustjörnurnar teknar fyrir hver á fætur annarri og fjallað um jarðfirð þeirra, stærð aukahringa, hjámiðjur og lotubundnar hreyfingar. Tólfta bók snýst um lykkjuhreyfingu förustjarnanna hverrar af annarri og þrettánda bók fjallar um breytingar á breidd förustjarnanna, með öðrum orðum frávik þeirra frá sólbaug.
Í aðalatriðum hugsar Ptólemaíos sér hreyfingu föruhnattanna eins og þeir sætu hver um sig á hring sem kallast aukahringur og snerust með jöfnum hraða um miðju hans. Miðjan færist jafnframt með jöfnum hraða eftir öðrum og stærri hring sem við getum kallað aðalhring og hefur í fyrstu atrennu miðpunkt í miðju jarðar. Með þessu móti getur sem hægast komið fram lykkjuhreyfing hjá föruhnöttunum en fjarlægð þeirra frá jörðu getur þá verið síbreytileg. Það getur skýrt breytilega birtu þeirra.
Enn fremur notaðist Ptólemaíos við svokallaðar hjámiðjur, þá að aðalhringurinn hefði ekki endilega miðju í jörð. Ptólemaíos gat þannig gert grein fyrir misjafnri lengd árstíðanna með því að beita hjámiðjum við gang sólar miðað við jörð. Þá neyddist Ptólemaíos til að stinga inn í hringakerfi sitt ímynduðum punkti sem við getum kallað á íslensku jafngöngupunkt og var þeirrar náttúru að miðja aukahringsins hreyfðist með jöfnum hornhraða miðað við þann punkt.
Þótti þetta löngum til nokkurra lýta á kerfi hans og átti til að mynda eftir að verða Kópernikusi sérstakur þyrnir í augum þegar fram liðu stundir. Fleiri minni háttar veilur voru á heimsmynd Ptólemaíosar sem hljóta að hafa verið honum ljósar í upphafi, en hann kýs þó að láta þær liggja milli hluta. Eitt frægasta dæmið varðar meðferð hans á tunglinu, sem leiddi hann í slíkar ógöngur að hann sat á endanum uppi með líkan þar sem fjarlægð tungls frá jörðu átti að breytast verulega, þannig að það átti að sýnast allt að því helmingi stærra í jarðnánd en í jarðfirð. Auðvitað vissi Ptólemaíos ekkert síður en við að tunglið hagar sér ekki þannig!

Mér er ljóst að ég er dauðlegur og að dagar mínir eru taldir; en þegar ég fylgi eftir í huganum hinum flóknu hringbrautum stjarnanna, snerta fætur mínir ekki jörðina lengur; við hlið sjálfs Seifs sit ég og snæði fylli mína af ódáinsfæðu.Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er miðpunktur alheimsins? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hver var Galíleó Galíleí? eftir Hrafnhildi L. Runólfsdóttur og Þorstein Vilhjálmsson
- Hver var Jóhannes Kepler? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvað getið þið sagt mér um ævi Nikulásar Kópernikusar? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Ívar Daða Þorvaldsson
- Er sólin kyrr? Ef svo er, hvað heldur henni þá fastri? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Wikipedia.com - Ptolemy. Sótt 25.3.2011.
- Wikipedia.com - Ptolemy. Kortið gerði Johannes Schnitzer árið 1482. Sótt 25.3.2011.
Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun um Ptólemaíos í bókinni Heimsmynd á hverfanda hveli II eftir Þorstein Vilhjálmsson.