Sólin Sólin Rís 03:36 • sest 23:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:09 • Sest 23:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 17:27 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:36 • sest 23:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:09 • Sest 23:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 17:27 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er miðpunktur alheimsins?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Í eina tíð héldu menn einfaldlega að við mennirnir værum miðpunktur alheimsins, eða kannski öllu heldur heimkynni okkar, jörðin. Hún væri í miðju sólkerfisins og einnig í miðju kúlunnar sem menn töldu fastastjörnurnar sitja á. -- Einstaka menn efuðust um þessa heimsmynd, til dæmis hjá Forngrikkjum nokkrum öldum fyrir Krist, en hugmyndir þeirra leiddu til mótsagna við önnur atriði heimsmyndarinnar og þeim var því vísað frá.

En svo kom pólski stjörnufræðingurinn Nikulás Kópernikus (1473-1543) til sögunnar. Hann hélt því fram í bókinni Um snúninga himinhvelanna frá árinu 1543 með mörgum góðum rökum að jörðin væri ekki í miðju sólkerfisins heldur sólin. Og vísindamenn sannfærðust um þetta á næstu 1-2 öldum.

Fyrst eftir þetta héldu menn kannski að sólkerfið væri þá í miðjum heiminum. Sólin væri þá ekki aðeins miðja sólkerfisins heldur líka alheimsins. En þessi hugmynd stóð ekki lengi því að í ljós kom að fastastjörnurnar eru á reglubundinni hreyfingu miðað við sólina -- eða hún miðað við þær. Og síðan komust menn að því að sólin er á sífelldri hringferð um miðju Vetrarbrautarinnar.

Flest líkön sem menn gera sér af alheiminum nú á dögum fela í sér að í honum er engin sérstök miðja. Þó að heimurinn sé að þenjast út miðast sú þensla ekki við neina tiltekna miðju. -- Hugsum okkur til dæmis að við séum stödd á yfirborði blöðru sem er að þenjast út. Þá er alveg sama hvar við erum á blöðrunni; útþenslan lítur alls staðar eins út og það er engin sérstök miðja í þenslunni.

Líka er gaman að hugsa út í það að menn héldu í eina tíð að maðurinn væri eins konar miðpunktur lífsins eða lífsögunnar. Hann væri í einhverjum skilningi æðsta lífveran á jörðinni og einhvers konar endastöð í tilkomu og sögu lífsins.

En þá kom til skjalanna breski líffræðingurinn Charles Darwin (1809-1882). Hann setti fram þróunarkenninguna í bókinni Um uppruna tegundanna sem kom út árið 1859. Þar sýndi hann fram á að lífið á jörðinni hefði orðið til með þróun á óralöngum tíma og allar lífverur væru þannig komnar af einni og sömu rót. Maðurinn væri bara ein tegund af fjöldamörgum sem hefðu orðið til með þróun, og slík þróun héldi áfram án afláts.

Við erum sem sagt hvorki í miðpunkti alheimsins né heldur erum við einhvers konar miðpunktur lífsins á jörðinni, hvort sem okkur líkar betur eða verr!

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

4.5.2004

Spyrjandi

Helga Björnsdóttir

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er miðpunktur alheimsins?“ Vísindavefurinn, 4. maí 2004, sótt 13. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4228.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2004, 4. maí). Hver er miðpunktur alheimsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4228

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er miðpunktur alheimsins?“ Vísindavefurinn. 4. maí. 2004. Vefsíða. 13. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4228>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er miðpunktur alheimsins?
Í eina tíð héldu menn einfaldlega að við mennirnir værum miðpunktur alheimsins, eða kannski öllu heldur heimkynni okkar, jörðin. Hún væri í miðju sólkerfisins og einnig í miðju kúlunnar sem menn töldu fastastjörnurnar sitja á. -- Einstaka menn efuðust um þessa heimsmynd, til dæmis hjá Forngrikkjum nokkrum öldum fyrir Krist, en hugmyndir þeirra leiddu til mótsagna við önnur atriði heimsmyndarinnar og þeim var því vísað frá.

En svo kom pólski stjörnufræðingurinn Nikulás Kópernikus (1473-1543) til sögunnar. Hann hélt því fram í bókinni Um snúninga himinhvelanna frá árinu 1543 með mörgum góðum rökum að jörðin væri ekki í miðju sólkerfisins heldur sólin. Og vísindamenn sannfærðust um þetta á næstu 1-2 öldum.

Fyrst eftir þetta héldu menn kannski að sólkerfið væri þá í miðjum heiminum. Sólin væri þá ekki aðeins miðja sólkerfisins heldur líka alheimsins. En þessi hugmynd stóð ekki lengi því að í ljós kom að fastastjörnurnar eru á reglubundinni hreyfingu miðað við sólina -- eða hún miðað við þær. Og síðan komust menn að því að sólin er á sífelldri hringferð um miðju Vetrarbrautarinnar.

Flest líkön sem menn gera sér af alheiminum nú á dögum fela í sér að í honum er engin sérstök miðja. Þó að heimurinn sé að þenjast út miðast sú þensla ekki við neina tiltekna miðju. -- Hugsum okkur til dæmis að við séum stödd á yfirborði blöðru sem er að þenjast út. Þá er alveg sama hvar við erum á blöðrunni; útþenslan lítur alls staðar eins út og það er engin sérstök miðja í þenslunni.

Líka er gaman að hugsa út í það að menn héldu í eina tíð að maðurinn væri eins konar miðpunktur lífsins eða lífsögunnar. Hann væri í einhverjum skilningi æðsta lífveran á jörðinni og einhvers konar endastöð í tilkomu og sögu lífsins.

En þá kom til skjalanna breski líffræðingurinn Charles Darwin (1809-1882). Hann setti fram þróunarkenninguna í bókinni Um uppruna tegundanna sem kom út árið 1859. Þar sýndi hann fram á að lífið á jörðinni hefði orðið til með þróun á óralöngum tíma og allar lífverur væru þannig komnar af einni og sömu rót. Maðurinn væri bara ein tegund af fjöldamörgum sem hefðu orðið til með þróun, og slík þróun héldi áfram án afláts.

Við erum sem sagt hvorki í miðpunkti alheimsins né heldur erum við einhvers konar miðpunktur lífsins á jörðinni, hvort sem okkur líkar betur eða verr!...