Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Galíleó Galíleí var einn af frægustu raunvísindamönnum nýaldar. Hann gerði margar uppgötvanir í eðlis- og stjörnufræði og barðist fyrir skoðunum sínum á heimsmynd og aðferðum vísinda.
Hann fæddist 15. febrúar 1564 í borginni Písa í Toskana-héraði þar sem nú er Mið-Ítalía. Faðir hans, Vincenzíó Galíleí var tónlistarmaður og tónskáld og eru sum verka hans enn leikin við tækifæri. Michelangeló, bróðir Galíleós, var einnig tónlistarmaður, og Galíleó átti það sjálfur til að grípa í lútu og spila á hana þegar að honum kreppti.
Árið 1581 innritaðist Galíleó í læknanám í háskólann í Písa, en á þeim tíma fólst kennslan að mörgu leyti í upplestri úr verkum fornaldarhöfundanna Galenosar og Aristótelesar. Með því átti að innræta nemendum tilhýðilega virðingu fyrir þeim, en Galíleó leiddist mjög slíkt þóf og lét það óspart í ljós við kennarana. Og fyrir vikið fékk hann á sig orð fyrir þrasgirni og þrjósku. Hann sneri sér fljótt að stærðfræði og heimspeki og hætti í háskólanum árið 1585 án þess þó að ljúka prófi.
Hann hélt heim til föður síns í Flórens þar sem hann dvaldist í fjögur ár. Á meðan lagði hann stund á ýmislegt, einkum bókmenntir, og hélt fyrirlestra. Hann skrifaði nokkrar greinar um hegðun kyrrstæðra vökva og birti stærðfræðilegar setningar um massamiðjur í hlutum, en þannig tókst honum að vinna sér nokkurn orðstír þótt próflaus væri.
Árið 1589 fékk Galíleó svo stöðu stærðfræðikennara við háskólann í Písa. Hann gegndi því starfi í einungis þrjú ár, meðal annars vegna þess að hann lenti í útistöðum við launson stórhertogans í Toskana. Á þessum tíma á Galíleó að hafa framkvæmt tilraunir með fall misþungra hluta ofan frá Skakka turninum í Písa, að viðstöddum nemendum og öðrum prófessorum. Þessi saga hefur oft verið sögð, en það er umdeilt hversu bókstaflega beri að taka hana, enda er tilraunanna hvergi getið í samtímaheimildum.
Árið 1592 var honum útveguð staða stærðfræðiprófessors við Háskóla Feneyjalýðveldisins í Padova, en þar var hann í átján ár sem hann sagði seinna að hafi verið ein þau bestu í lífi hans. Árið 1599 tók feneysk kona að nafni María Gamba upp samband við hann. Þau áttu þrjú börn, einn son og tvær dætur, en þau giftust ekki.
Galíleó er talinn hafa unnið að tilraunum í aflfræði á þessum tíma, meðal annars á hlutum með hröðun. Hann velti einnig fyrir sér þáttum stjörnufræðinnar sem snúa að heimsmynd, en hann var fylgjandi sólmiðjukenningu Kópernikusar, og lýsti yfir stuðningi sínum við hana í bréfi til þýska stjörnufræðingsins Jóhannesar Keplers (1571-1630) árið 1597.
Árið 1609 urðu þáttaskil í sögu stjörnufræðinnar á fleiri en einum vettvangi. Kepler sendi frá sér bók sem hann kallaði Nýja stjörnufræði sem átti síðar eftir að hafa veruleg áhrif á hugmyndasöguna. Sama ár frétti Galíleó af furðulegu ljósfræðitæki í Hollandi, og skömmu síðar tókst honum að smíða sjónauka. Menn hafa deilt um það hvort Galíleó hafi beint sjónauka að himinhnöttunum fyrstur manna en hann varð óumdeilanlega fyrstur til að birta niðurstöður úr skipulegum, vísindalegum athugunum á himintunglum í kíki. Hann sá meðal annars höf og fjöll á tunglinu og uppgötvaði fjögur stærstu tungl Júpiters, og þau hafa síðar verið kölluð Galíleó-tunglin. Rit hans um þetta efni kom út í mars árið 1610. Það er ekki nema hálft hundrað síður og nefnist Sendiboði stjarnanna.
Sama ár gerðist hann yfirstærðfræðingur og -heimspekingur stórhertogans af Toskana í Fírenze. Vísindafrægð hans jókst mjög eftir að hann flutti til Toskana; það mátti eiginlega segja að bókin hans hafi gert hann frægan á skammri stundu. Hann hélt til Rómar snemma árs 1611 til að kynna stjörnukíkinn og uppgötvanirnar sem hann hafði gert með honum. Árið eftir kom út önnur bók eftir hann sem hét Umræða um hluti sem fljóta, en þar er meðal annars að finna harða gagnrýni á hina heildstæðu heimsmynd Aristótelesar.
Þegar Bréf um sólbletti komu út árið 1613 lenti hann í deilum við ýmsa sem mótmæltu því sem að hann hélt þar fram, meðal annars mann að nafni Christófer Scheiner. Fjandskapur hans átti eftir að verða Galíleó þungur í skauti enda fylgdi andstaða hinnar valdamiklu Kristmunkareglu með í kaupunum áður en lauk. Og það sem Galíleó sagði um sólbletti, stöðu þeirra og eðli stangaðist á við heimsmynd Aristótelesar og kirkjunnar. Eftir að Bréf um sólbletti komu út hætti Galíleó að senda frá sér efni sem fjallaði einungis um uppgötvanir hans, og næstu rit hans fjalla um það, hvernig venslum trúar og vísinda skuli háttað, og um hugmyndir hans um aðferðir og heimspeki vísindanna.
Galíleó rannsakaði hreyfingar himintunglanna og uppgötvaði meðal annars kvartilaskipti reikistjörnunnar Venusar. Út frá athugunum sínum sannfærðist hann um að sumar efnisheildir snerust ekki um jörðina, en eins og fram hefur komið var hann stuðningsmaður sólmiðjukenningar Kópernikusar. Hann átti lengi í deilum við kirkjunnar menn, og nokkrum sinnum fór hann til Rómar til að tala máli sínu.
Eitt sinn árið 1615 voru fullyrðingar Galíleós um hreyfingu sólar og jarðar lagðar fyrir guðfræðilega dómara svo sem siður var um slík mál. Og hinn 23. febrúar árið 1616 kváðu dómararnir upp þann úrskurð að þeir töldu þær vera heimskulegar og fáránlegar út frá fræðilegu sjónarmiði. Þær voru taldar trúarlega rangar og Galíleó fékk áminningu, en honum var skipað að falla með öllu frá sólmiðjukenninguna, sem hann samþykkti.
Galíleó átti lengi við heilsuleysi að stríða, einkum þráláta liðagigt sem gerði honum lífið leitt á þessum árum. Átökin í Róm höfðu sitt að segja, auðmýkingin hefur sært viðkvæmt stolt hans, og það má vera að starfsþrek hans hafi í fyrstu verið skert. Dóttir Galíleós, Virginía, var nú orðin nunna og hét Systir María Celeste. Samband þeirra var náið, en þau skrifuðust á og hún var honum til ósegjanlegrar gleði á efri árum.
Þrátt fyrir skipanir og dómsúrskurð kirkjunnar manna hélt Galíleó áfram að rannsaka og velta fyrir sér heimsmyndinni og sólmiðjukenningunni. Hann hélt áfram að skrifa og á árunum 1623-1632 sendi hann frá sér fjögur rit. Eins og fyrr sagði hafði honum verið gert skylt að falla frá sólmiðjukenningunni með öllu og hann mátti ekki vísa til hennar, en í staðinn réðst hann nú gegn lærðum orðavaðli og akademískum fordómum. En Galíleó eignaðist við þetta enn fleiri óvini sem reyndu að klekkja á honum hvenær sem færi gafst.
Þegar síðasta ritið af þessum fjórum, Samræða um helstu heimskerfin tvö, kom út árið 1632 ákváðu yfirvöld kirkjunnar að nóg væri komið og Galíleó var kallaður fyrir Rannsóknarréttinn í Róm. Galíleó sagðist taka þessum fyrirmælum af fúsum og frjálsum vilja en reyndi allt hvað hann gat til að fá þessum kaleik vikið frá sér. Hann bar meðal annars við háum aldri, heilsuleysi og fleiru, en yfirvöld kirkjunnar tóku slíkt ekki gilt og var hann færður til Rómar 20. janúar 1633 þrátt fyrir vottorð lækna. Í fyrstu dvaldist hann í fangageymslum en var síðan leyft að búa hjá sendiherra sem hét Niccoliní.
Í apríl sama ár fór hann í tvær yfirheyrslur hjá Rannsóknarréttinum og 22. júní var hann dæmdur til að afneita sólmiðjukenningunni. Samkvæmt dóminum hefði hann átt að vera í fangelsi Rannsóknarréttarins eins lengi og réttinum þóknaðist en þegar eftir var leitað féllst páfinn, Úrban áttundi, á það að hann færi til vinar síns, Piccolóminís erkibiskups í Síena. Þar átti hann að vera í stofufangelsi og ekki að fá heimsóknir, þar til annað yrði ákveðið.
Systir María Celeste veiktist hastarlega á fyrstu mánuðum ársins 1634, og í apríl lést hún á 34. aldursári. Fráfall hennar tók mjög á gamla manninn, en hann var þó fljótur að ná sér aftur á strik, og hélt áfram vinnu að nýrri bók sem heitir Umræður um tvær nýjar vísindagreinar, sem hann sagði sjálfur taka fram öllu öðru sem hingað til hefði verið gefið út eftir sig. Það reyndist hins vegar erfitt að fá hana gefna út því að kaþólska kirkjan hafði bannað að gefa út verk hans í kaþólskum löndum. En eftir allflókið ferðalag endaði handritið hjá forlagi í Hollandi og kom út á ítölsku árið 1638. Heilsu Galíleós var þá tekið að hraka verulega og aðfaranótt 8. janúar 1642 lést hann í Arcetrí, 77 ára að aldri.
Heimildir og mynd:
Heimsmynd á hverfandi hveli II eftir Þorstein Vilhjálmsson, Mál og menning 1987.
Hrafnhildur L. Runólfsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver var Galíleó Galíleí?“ Vísindavefurinn, 2. júlí 2001, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1758.
Hrafnhildur L. Runólfsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 2. júlí). Hver var Galíleó Galíleí? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1758
Hrafnhildur L. Runólfsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver var Galíleó Galíleí?“ Vísindavefurinn. 2. júl. 2001. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1758>.