Hvað heita tungl Júpíters, hvað eru þau þung, hvað eru þau stór og hvað eru þau mörg?
Sævar Helgi Bragason
Samkvæmt nýjustu upplýsingum (árið 2002) ganga að minnsta kosti 61 tungl umhverfis stærstu reikistjörnu sólkerfisins, Júpíter. Tunglin skiptast í tvo hópa, óregluleg og regluleg. Óreglulegu tunglin eru að minnsta kosti 31. Af þeim eru 25 í um tuttugu milljón kílómetra fjarlægð frá Júpíter og hafa brautarhalla nærri 150 til 160 gráður, sem þýðir að brautarhreyfing þeirra er í öfuga átt um plánetuna miðað við hreyfingu hennar. Fimm óreglulegu tunglanna eru í um 11.000.000 kílómetra fjarlægð frá Júpíter og braut þeirra hallar um 30 gráður, sem þýðir að þau hreyfast í sömu átt og plánetan gengur um sól. Eitt óreglulegt tungl fellur ekki inn í þessa hópa. Það gengur í sömu átt og plánetan, er í um sjö milljón kílómetra fjarlægð og brautinni hallar 45 gráður. Talið er líklegt að óreglulegu tunglin hafi upprunalega verið smástirni sem Júpíter fangaði einhvern tímann í árdaga sólkerfisins.
Reglulegu tunglin eru átta talsins. Þau sveima öll á reglulegum hringlaga brautum umhverfis Júpíter og brautunum hallar lítið. Öll eru þau í innan við tveggja milljón km fjarlægð frá plánetunni og hafa líklega myndast á svipuðum tíma og hún.
Fjögur innstu tunglin hafa veikt þyngdarsvið og missa þess vegna frá sér efni þegar litlir loftsteinar rekast á þau. Efnið sem þannig fellur til fer í þunna hringinn umhverfis Júpíter.
Fjögur ytri tunglin í hópi reglulegu tunglanna eru kennd við Galíleó og eru langstærstu tungl Júpíters. Um Galíleótunglin og fleiri tungl má lesa nánar í svari sama höfundar við spurningunni: Hvað er einkennandi fyrir tungl Júpíters, sérstaklega Kallistó, Ganýmedes, Íó og Evrópu?
Eitt tunglanna, S/1975 J1, týndist og fannst svo aftur árið 2000 og var þá til bráðabirgða nefnt S/2000 J1. Númeraheiti tunglanna eru til bráðabirgða. Hér fyrir neðan er tafla þar sem sjá má stærð tunglanna, massa, fjarlægð, hver uppgötvaði þau og hvenær.
Sævar Helgi Bragason. „Hvað heita tungl Júpíters, hvað eru þau þung, hvað eru þau stór og hvað eru þau mörg?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2002. Sótt 27. janúar 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=2428.
Sævar Helgi Bragason. (2002, 28. maí). Hvað heita tungl Júpíters, hvað eru þau þung, hvað eru þau stór og hvað eru þau mörg? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2428
Sævar Helgi Bragason. „Hvað heita tungl Júpíters, hvað eru þau þung, hvað eru þau stór og hvað eru þau mörg?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2002. Vefsíða. 27. jan. 2021. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2428>.
Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!