Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær urðu Forngrikkir að Grikkjum?

Geir Þ. Þórarinsson

Þessa spurningu má skilja á ólíka vegu: Annars vegar þannig að spurt sé hvenær í fornöld (Forn-)Grikkir urðu til sem þjóð – og hvað voru þeir áður en þeir voru Grikkir? Hins vegar þannig að spurt sé hvenær Forngrikkir hættu að vera Forn-Grikkir – og hvað urðu þeir þá í staðinn?

Á bilinu 2100 til 1900 f.Kr. fluttist fólk af indóevrópskum uppruna suður Balkanskaga og niður til þess landsvæðis sem í dag heitir Grikkland. Indóevrópskt merkir að þetta fólk rak uppruna sinn til landsvæðis norðan Kákasusfjalla og Svartahafs og talaði mál sem er skylt málum annarra hópa fólks sem rak uppruna sinn til sama staðar. Af þessu frumindóevrópska máli eru meðal annars komin flest tungumál sem töluð eru í Evrópu í dag, þar á meðal íslenska.

Fólkið sem flutti suður Balkanskagann og til Grikklands talaði mál sem var mjög gömul gríska, sumir vilja kalla mál þeirra frum-grísku og halda því fram að forngríska tungumálið sem við þekkjum hafi ekki orðið til fyrr en eftir komuna suður til Grikklands. Þetta fólk settist einmitt að í Grikklandi og blandaðist við þá íbúa sem fyrir voru en það fólk talaði ekki indóevrópskt mál. Málið sem aðkomumennirnir töluðu var hins vegar grísk mállýska sem nefnist mýkenska (nefnd eftir borginni Mýkenu á Pelópsskaga).


Gullgríma sem Heinrich Schliemann gróf upp í Mýkenu. Gríman er frá því um 1500 f.Kr.

Seinna – um 1100 f.Kr. – kom önnur bylgja aðkomumanna sömu leið. Þeir töluðu aðra en skylda mállýsku, dórísku, en um svipað leyti dó mýkenska mállýskan út. Þá var eftir dórískan ásamt jónísku og æólísku mállýskunum sem höfðu þróast í landinu um aldir. Ýmis afbrigði voru til af öllum þessum mállýskum en æólíska, jóníska og dóríska voru meginmállýskurnar þrjár sem talaðar voru á klassískum tíma Forngrikkja.

Af því að fólkið sem fluttist suður Balkanskaga og settist að á því sem svæði sem í dag heitir Grikkland talaði grísku (eða frum-grísku) er það stundum nefnt Grikkir og sagt að Grikkir hafi komið suður Balkanskaga. En það er þó ekki ljóst að þar hafi verið þjóðarvitund til staðar og eins og áður sagði er meira að segja umdeilt hvort gríska tungumálið hafi verið til áður en þessir hópar fólks settust að í Grikklandi. Á 8. öld f.Kr. – löngu eftir þessa þjóðflutninga – er tvímælalaust komin einhver þjóðarvitund meðal Grikkja – vitund um að þeir væru jú allir Grikkir, töluðu meira eða minna sama málið og áttu sameiginleg trúarbrögð, siði og hátíðir, til dæmis Ólympíuleikana sem voru fyrst haldnir 776 f.Kr. Og þjóðarvitund Grikkja efldist til muna við upphaf 5. aldar f.Kr. þegar grísku borgríkjunum stóð sameiginleg ógn af innrás Persa. Grikkjum tókst samt aldrei að gera pólitíska einingu úr þessari þjóðarvitund sinni.

Það má því ef til vill segja að ákveðnir indóevrópskir þjóðflokkar hafi orðið Grikkir á löngum tíma seint á bronsöld, frá því um 2100 til 1000 f.Kr. og svo hafi þjóðarvitund þeirra eflst enn frekar næstu aldirnar.

Hvenær hættu þá Forngrikkir að vera Forn-Grikkir? Og hvað urðu þeir í staðinn? Þegar forskeytið „forn“ er notað á þennan hátt, þá er það gert til þess að gefa til kynna að samhengið sem um ræðir er fornöldin. Með öðrum orðum eru Forngrikkir grískumælandi menn í fornöld og forngríska sú gríska sem töluð var í fornöld, forngrískar bókmenntir þær bókmenntir sem samdar voru á forngrísku (í fornöld) og svo framvegis. Af þessu ætti að vera ljóst að Forngrikkir hætta að vera Forn-Grikkir þegar fornöld er á enda. En hvenær var það? Oft er miðað við fall Vestrómverska ríkisins og þá árið 476, þegar síðasti vestrómverski keisarinn, Romulus Augustulus, var sendur í útlegð. En þá hafði Rómaveldi þegar klofnað í tvennt og Grikkland tilheyrði Austrómverska ríkinu, sem féll einmitt ekki, heldur hélt velli til ársins 1453. Í staðinn mætti miða við tilurð Austrómverska ríkisins, sem oft er nefnt Býsansríkið, og segja að þá hafi Forngrikkir orðið Býsansgrikkir. Borgin Býzantíon var gerð að höfuðborg Rómaveldis árið 330 en skipting ríkisins í austur- og vesturhluta var ekki alger og varanleg fyrr en síðar. Keisarinn Theodosius I var síðasti keisarinn sem ríkti yfir báðum hlutum Rómaveldis en hann lést árið 395. Svo að ef til vill má miða við þann vendipunkt og segja að Forngrikkir hafi orðið Býsansgrikkir árið 395 eða að minnsta kosti einhvern tímann á 5. öldinni. Þetta er ekki breyting sem verður yfir nóttu og raunar ekki breyting sem Grikkir þessa tíma hefðu áttað sig almennilega á heldur verður skipting sögunnar í tímabil til eftir á og mörkin oft svolítið óljós.

Eins og áður sagði féll Býsansríkið ekki fyrr en árið 1453. Þegar Býsanríkið féll komst Grikkland undir stjórn Ottómanaveldisins. Grikkir gerðu uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði frá Ottómönum þann 25. mars árið 1821 en sjálfstæði þeirra var viðurkennt árið 1832 og þá hefst nútímasaga Grikkja.

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

12.10.2010

Spyrjandi

Sigríður Guðbjartsdóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvenær urðu Forngrikkir að Grikkjum?“ Vísindavefurinn, 12. október 2010, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=19304.

Geir Þ. Þórarinsson. (2010, 12. október). Hvenær urðu Forngrikkir að Grikkjum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=19304

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvenær urðu Forngrikkir að Grikkjum?“ Vísindavefurinn. 12. okt. 2010. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=19304>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær urðu Forngrikkir að Grikkjum?
Þessa spurningu má skilja á ólíka vegu: Annars vegar þannig að spurt sé hvenær í fornöld (Forn-)Grikkir urðu til sem þjóð – og hvað voru þeir áður en þeir voru Grikkir? Hins vegar þannig að spurt sé hvenær Forngrikkir hættu að vera Forn-Grikkir – og hvað urðu þeir þá í staðinn?

Á bilinu 2100 til 1900 f.Kr. fluttist fólk af indóevrópskum uppruna suður Balkanskaga og niður til þess landsvæðis sem í dag heitir Grikkland. Indóevrópskt merkir að þetta fólk rak uppruna sinn til landsvæðis norðan Kákasusfjalla og Svartahafs og talaði mál sem er skylt málum annarra hópa fólks sem rak uppruna sinn til sama staðar. Af þessu frumindóevrópska máli eru meðal annars komin flest tungumál sem töluð eru í Evrópu í dag, þar á meðal íslenska.

Fólkið sem flutti suður Balkanskagann og til Grikklands talaði mál sem var mjög gömul gríska, sumir vilja kalla mál þeirra frum-grísku og halda því fram að forngríska tungumálið sem við þekkjum hafi ekki orðið til fyrr en eftir komuna suður til Grikklands. Þetta fólk settist einmitt að í Grikklandi og blandaðist við þá íbúa sem fyrir voru en það fólk talaði ekki indóevrópskt mál. Málið sem aðkomumennirnir töluðu var hins vegar grísk mállýska sem nefnist mýkenska (nefnd eftir borginni Mýkenu á Pelópsskaga).


Gullgríma sem Heinrich Schliemann gróf upp í Mýkenu. Gríman er frá því um 1500 f.Kr.

Seinna – um 1100 f.Kr. – kom önnur bylgja aðkomumanna sömu leið. Þeir töluðu aðra en skylda mállýsku, dórísku, en um svipað leyti dó mýkenska mállýskan út. Þá var eftir dórískan ásamt jónísku og æólísku mállýskunum sem höfðu þróast í landinu um aldir. Ýmis afbrigði voru til af öllum þessum mállýskum en æólíska, jóníska og dóríska voru meginmállýskurnar þrjár sem talaðar voru á klassískum tíma Forngrikkja.

Af því að fólkið sem fluttist suður Balkanskaga og settist að á því sem svæði sem í dag heitir Grikkland talaði grísku (eða frum-grísku) er það stundum nefnt Grikkir og sagt að Grikkir hafi komið suður Balkanskaga. En það er þó ekki ljóst að þar hafi verið þjóðarvitund til staðar og eins og áður sagði er meira að segja umdeilt hvort gríska tungumálið hafi verið til áður en þessir hópar fólks settust að í Grikklandi. Á 8. öld f.Kr. – löngu eftir þessa þjóðflutninga – er tvímælalaust komin einhver þjóðarvitund meðal Grikkja – vitund um að þeir væru jú allir Grikkir, töluðu meira eða minna sama málið og áttu sameiginleg trúarbrögð, siði og hátíðir, til dæmis Ólympíuleikana sem voru fyrst haldnir 776 f.Kr. Og þjóðarvitund Grikkja efldist til muna við upphaf 5. aldar f.Kr. þegar grísku borgríkjunum stóð sameiginleg ógn af innrás Persa. Grikkjum tókst samt aldrei að gera pólitíska einingu úr þessari þjóðarvitund sinni.

Það má því ef til vill segja að ákveðnir indóevrópskir þjóðflokkar hafi orðið Grikkir á löngum tíma seint á bronsöld, frá því um 2100 til 1000 f.Kr. og svo hafi þjóðarvitund þeirra eflst enn frekar næstu aldirnar.

Hvenær hættu þá Forngrikkir að vera Forn-Grikkir? Og hvað urðu þeir í staðinn? Þegar forskeytið „forn“ er notað á þennan hátt, þá er það gert til þess að gefa til kynna að samhengið sem um ræðir er fornöldin. Með öðrum orðum eru Forngrikkir grískumælandi menn í fornöld og forngríska sú gríska sem töluð var í fornöld, forngrískar bókmenntir þær bókmenntir sem samdar voru á forngrísku (í fornöld) og svo framvegis. Af þessu ætti að vera ljóst að Forngrikkir hætta að vera Forn-Grikkir þegar fornöld er á enda. En hvenær var það? Oft er miðað við fall Vestrómverska ríkisins og þá árið 476, þegar síðasti vestrómverski keisarinn, Romulus Augustulus, var sendur í útlegð. En þá hafði Rómaveldi þegar klofnað í tvennt og Grikkland tilheyrði Austrómverska ríkinu, sem féll einmitt ekki, heldur hélt velli til ársins 1453. Í staðinn mætti miða við tilurð Austrómverska ríkisins, sem oft er nefnt Býsansríkið, og segja að þá hafi Forngrikkir orðið Býsansgrikkir. Borgin Býzantíon var gerð að höfuðborg Rómaveldis árið 330 en skipting ríkisins í austur- og vesturhluta var ekki alger og varanleg fyrr en síðar. Keisarinn Theodosius I var síðasti keisarinn sem ríkti yfir báðum hlutum Rómaveldis en hann lést árið 395. Svo að ef til vill má miða við þann vendipunkt og segja að Forngrikkir hafi orðið Býsansgrikkir árið 395 eða að minnsta kosti einhvern tímann á 5. öldinni. Þetta er ekki breyting sem verður yfir nóttu og raunar ekki breyting sem Grikkir þessa tíma hefðu áttað sig almennilega á heldur verður skipting sögunnar í tímabil til eftir á og mörkin oft svolítið óljós.

Eins og áður sagði féll Býsansríkið ekki fyrr en árið 1453. Þegar Býsanríkið féll komst Grikkland undir stjórn Ottómanaveldisins. Grikkir gerðu uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði frá Ottómönum þann 25. mars árið 1821 en sjálfstæði þeirra var viðurkennt árið 1832 og þá hefst nútímasaga Grikkja.

Mynd:

...