Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Er gríska elsta tungumál í heimi?

Geir Þ. Þórarinsson

Hér er einnig að finna svar við spurningunni:

Hvenær varð forngríska til?

Gríska er þjóðtunga Grikkja og er býsna gamalt tungumál. Hún er alls ekki elsta þekkta tungumálið en gríska er þó sennilega elsta tungumál heims sem á sér óslitna málsögu og enn er talað af innfæddum.

Sú gríska sem töluð var í fornöld kallast forngríska og hún á sér sögu sem nær aftur til miðrar bronsaldar á öðru árþúsundinu fyrir okkar tímatal. Það er ómögulegt að segja nákvæmlega til um það hvenær forngríska varð til sem tungumál, þótt þá sögu megi samt rekja að einhverju leyti.

Forngríska var í raun hópur af mállýskum sem voru innbyrðis ólíkar að ýmsu leyti. En mælendur þeirra gátu samt vandræðalaust skilið hverjir aðra og litu svo á að þeir töluðu allir sama málið. Með svolítilli einföldun má segja að elst þessara mállýska sé mýkenska sem er kennd við borgina Mýkenu á Pelópsskaga. Hún var töluð á Grikklandi frá því að minnsta kosti um 1600 fyrir okkar tímatal (f.o.t.) en elstu ritheimildirnar um hana eru frá því um 1450 f.o.t. Það eru leirtöflur skrifaðar með línuletri B sem var mynd- og atkvæðaletur byggt á eldra letri frá Krít sem er nefnt línuletur A. Hætt var að nota línuletur A um það leyti þegar línuletur B varð til en línuletur B hvarf úr notkun undir lok bronsaldar eða á milli 1200 og 1150 f.o.t. Á hinn bóginn barst gríska stafrófið sem er enn notað í dag ekki til Grikklands fyrr en undir lok járnaldar eða um 800 f.o.t. Línuletur B er því elstu minjar sem varðveittar eru um gríska tungumálið. Það var ráðið um miðja 20. öld en það gerðu þeir Michael Ventris og John Chadwick og kom uppgötvun þeirra að þar væri mýkensk mállýska nokkuð á óvart.[1] (Línuletur A er enn óráðið.)

Línuletur B var mynd- og atkvæðaletur byggt á eldra letri frá Krít. Línuletur B er elstu minjar sem varðveittar eru um gríska tungumálið.

Meðal tungumála sem eru eldri en gríska eru tungumál Súmera og fornegypska (bæði frá því um 2700 f.o.t.) og akkadíska sem töluð var í Mesópótamíu (Assýríu og Babýlon) frá um 2400 f.o.t. Tungumál Súmera er af óþekktum uppruna en bæði fornegypska og akkadíska eru afróasísk tungumál. Forngríska er aftur á móti indóevrópskt mál og má rekja hana til frumindóevrópsku.

Engin rituð heimild er til um frumindóevrópsku en þekking okkar á málinu er byggð alfarið á rannsóknum í samanburðarmálvísindum. Deilt hefur verið um nákvæmlega hvar og hvenær þetta mál var talað en flestir fræðimenn eru þeirrar skoðunar að frumindóevrópska hafi verið töluð á svæðinu norðan Kákasusfjalla milli Svartahafs og Kaspíahafs um 5000 f.o.t.[2] Svo hafi það einhvern tímann á bilinu 4500–2500 f.o.t. byrjað að þróast og breytast í ýmsar mállýskur sem dreifðust bæði austur og suður á bóginn til Asíu en líka vestur til Evrópu.

Skýringarmynd sem sýnir útbreiðslu frumindóevrópsku.

Málafjölskyldur indóevrópskra mála eru taldar vera 10–12 eftir því hvernig er talið.[3] Elsta grein indóevrópskra mála — sú sem virðist fyrst hafa klofnað frá móðurtungunni — er grein anatólískra mála sem barst til Anatólíu (eða þess svæðis sem í dag heitir Tyrkland). Þessari grein tilheyra meðal annars lýkíska og lúwíska en einnig hittitíska sem var mál Hittíta. Það er elsta þekkta indóevrópumálið en elstu ritheimildir um hittitísku eru brenndar leirtöflur frá því um 1800 f.o.t. Á þeim eru fleygrýnir (skyldar akkadískum fleygrúnum) sem ráðnar voru á fyrstu ártatugum 20. aldar. Önnur grein indóevrópskra mála barst austur til Mið-Asíu og varð seinna að þeim tungumálum sem kallast tokkaríska A og B. Enn önnur grein barst austur og suður í gegnum núverandi Kasakstan og Túrkmenistan til Persíu og Indlands. Það er indóíranska málafjölskyldan en þar eru fornpersneska, avestíska og sanskrít helstu málin. Margar bylgjur indóevrópskumælandi fólks bárust síðan vestur og norður um Evrópu og út frá þeim urðu um síðir til þær málafjölskyldur sem kenndar eru við baltó-slavnesk mál (stundum talin tvær málafjölskyldur fremur en ein), germönsk mál, keltnesk mál og ítalísk mál. Af ítalísku málunum varð latína ríkjandi um síðir og af henni eru komin öll rómönsku málin.

Venjulega er gríska talin vera indóevrópsk málafjölskylda út af fyrir sig en svo virðist sem næst henni standi armenska, sem er þó oftast líka talin tilheyra eigin málafjölskyldu. Síðasta málafjölskyldan er síðan albanska.

Elsta gerð forngrísku sem við þekkjum er mýkenska mállýskan sem töluð var á Grikklandi frá því um 1600 f.o.t. Á myndinni sést einn þekktasti forngripur mýkenskrar menningar. Hann er kallaður gríma Agamemnons.

Eins og áður sagði er elsta gerð forngrísku sem við þekkjum mýkenska mállýskan sem töluð var á Grikklandi frá því um 1600 f.o.t. Hún er indóevrópskt tungumál og er þess vegna orðin til úr frumindóevrópsku. Það hefur gerst með þeim hætti að fólk sem talaði indóevrópska mállýsku fluttist frá upprunalegum heimkynnum sínum norðan við Svartahaf, ferðaðist suður Balkanskagann og settist að á því svæði sem í dag heitir Grikkland. Við getum sagt að þetta indóevrópska fólk sem kom suður Balkanskagann hafi talað frumgrísku. Sumir fræðimenn hafa talið að frumgrískumælandi hópar hafi flust suður til Grikklands í nokkrum bylgjum og á það meðal annars að útskýra fjölbreytileika forngrískra mállýska á klassískum tíma. En þeir fyrstu hafa væntanlega sest að í Grikklandi á bilinu 2100 til 1900 f.o.t. Um það leyti eða skömmu fyrr hefur tungumál þeirra tekið ýmsum breytingum sem greina mál þeirra frá öðrum tungumálum, bæði hvað varðar hljóðkerfi málsins, beygingarfræði þess, setningagerð og málnotkun. Þannig urðu til dæmis rödduð, fráblásin lokhljóð öll órödduð, lokhljóð í enda orða hverfa og svo framvegis. Sumar af breytingunum eru sameiginlegar með grísku, armensku, frýgísku og indóírönsku málunum (persnesku, avestíska og sanskrit) og greina þessi mál öll frá hinum indóevrópsku málunum en önnur einkenni er einungis að finna í grísku mállýskunum en engum öðrum málum.[4] Auk þess virðist sem annað fólk hafi búið á svæðinu áður en hinir frumgrískumælandi hópar komu. Þessir frumbyggjar Grikklands, stundum nefndir Pelasgar, töluðu ekki indóevrópskt tungumál en ýmis orð úr þeirra máli unnu sér sess í máli Grikkjanna og er enn að finna í máli þeirra. Þetta eru bæði örnefni og ýmis algeng orð, s.s. ἀράχνη (arakhnē, könguló), θάλασσα (thalassa, sjór), Κόρινθος (Kórinta), Ὄλυμπος (Ólympos).

Þannig varð gríska — forngríska — til með því að mállýska ákveðins hóps eða ákveðinna hópa frumindóevrópumanna tók ákveðnum breytingum sem greindu mál þeirra frá öðrum tungumálum. Þessir frumgrískumælandi hópar fluttust svo suður á bóginn til þess svæðis sem í dag heitir Grikkland. Þar tóku þeir inn í mál sitt ýmis orð frá frumbyggjum landsins og gætu hafa orðið fyrir öðrum áhrifum frá þeim líka. Með tímanum þróaðist svo mál þeirra enn frekar og greindist í þær mállýskur sem til voru á klassískum tíma á 5. og 4. öld f.o.t. Í svari við spurningunni Er einhver munur á forngrísku og nýgrísku? má svo lesa um hvernig forngríska varð nýgríska.

Tilvísanir:
  1. ^ Afar áhugaverða frásögn af því er að finna hjá John Chadwick, The Decipherement of Linear B (Cambridge: Cambridge University Press, 1958, 2. útg. 1967).
  2. ^ Um heimahaga frumindóevrópumanna, sjá J.P. Mallory, „The Indo-European language family: The historical question“. Í A History of Ancient Greek: From the Beginning to Late Antiquity, ritstýrt af A.-F. Christidis endursk. útg. (Cambridge: Cambridge University Press, 2010), 170–77. Enn fremur J.P. Mallory, In Search of the Indo-Europeans (London: Thames & Hudson, 1989, 2. útg. 1991); David W. Anthony, The Horse, the Wheel, and Language: How Bronze-Age Riders from the Eurasian Steppes Shaped the Modern World (Princeton: Princeton University Press, 2007); Asya Pereltsvaig og Martin W. Lewis, The Indo-European Controversy: Facts and Fallacies in Historical Linguistics (Cambridge: Cambridge University Press, 2015).
  3. ^ B.D. Joseph, „The Indo-European language family: The linguistic evidence“. Í A History of Ancient Greek: From the Beginning to Late Antiquity, ritstýrt af A.-F. Christidis endursk. útg. (Cambridge: Cambridge University Press, 2010), 161–69. Um indóevrópsk málvísindi má einnig lesa hjá James Clackson, Indo-European Linguistics: An Introduction (Cambridge: Cambridge University Press, 2007).
  4. ^ Um þær málbreytingar sem skópu forngrísku, sjá J. Clackson, „The genesis of Greek“. Í A History of Ancient Greek: From the Beginning to Late Antiquity, ritstýrt af A.-F. Christidis endursk. útg. (Cambridge: Cambridge University Press, 2010), 185–92.

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

10.1.2022

Spyrjandi

Stefán Stefánsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Er gríska elsta tungumál í heimi? “ Vísindavefurinn, 10. janúar 2022. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=82985.

Geir Þ. Þórarinsson. (2022, 10. janúar). Er gríska elsta tungumál í heimi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=82985

Geir Þ. Þórarinsson. „Er gríska elsta tungumál í heimi? “ Vísindavefurinn. 10. jan. 2022. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=82985>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er gríska elsta tungumál í heimi?
Hér er einnig að finna svar við spurningunni:

Hvenær varð forngríska til?

Gríska er þjóðtunga Grikkja og er býsna gamalt tungumál. Hún er alls ekki elsta þekkta tungumálið en gríska er þó sennilega elsta tungumál heims sem á sér óslitna málsögu og enn er talað af innfæddum.

Sú gríska sem töluð var í fornöld kallast forngríska og hún á sér sögu sem nær aftur til miðrar bronsaldar á öðru árþúsundinu fyrir okkar tímatal. Það er ómögulegt að segja nákvæmlega til um það hvenær forngríska varð til sem tungumál, þótt þá sögu megi samt rekja að einhverju leyti.

Forngríska var í raun hópur af mállýskum sem voru innbyrðis ólíkar að ýmsu leyti. En mælendur þeirra gátu samt vandræðalaust skilið hverjir aðra og litu svo á að þeir töluðu allir sama málið. Með svolítilli einföldun má segja að elst þessara mállýska sé mýkenska sem er kennd við borgina Mýkenu á Pelópsskaga. Hún var töluð á Grikklandi frá því að minnsta kosti um 1600 fyrir okkar tímatal (f.o.t.) en elstu ritheimildirnar um hana eru frá því um 1450 f.o.t. Það eru leirtöflur skrifaðar með línuletri B sem var mynd- og atkvæðaletur byggt á eldra letri frá Krít sem er nefnt línuletur A. Hætt var að nota línuletur A um það leyti þegar línuletur B varð til en línuletur B hvarf úr notkun undir lok bronsaldar eða á milli 1200 og 1150 f.o.t. Á hinn bóginn barst gríska stafrófið sem er enn notað í dag ekki til Grikklands fyrr en undir lok járnaldar eða um 800 f.o.t. Línuletur B er því elstu minjar sem varðveittar eru um gríska tungumálið. Það var ráðið um miðja 20. öld en það gerðu þeir Michael Ventris og John Chadwick og kom uppgötvun þeirra að þar væri mýkensk mállýska nokkuð á óvart.[1] (Línuletur A er enn óráðið.)

Línuletur B var mynd- og atkvæðaletur byggt á eldra letri frá Krít. Línuletur B er elstu minjar sem varðveittar eru um gríska tungumálið.

Meðal tungumála sem eru eldri en gríska eru tungumál Súmera og fornegypska (bæði frá því um 2700 f.o.t.) og akkadíska sem töluð var í Mesópótamíu (Assýríu og Babýlon) frá um 2400 f.o.t. Tungumál Súmera er af óþekktum uppruna en bæði fornegypska og akkadíska eru afróasísk tungumál. Forngríska er aftur á móti indóevrópskt mál og má rekja hana til frumindóevrópsku.

Engin rituð heimild er til um frumindóevrópsku en þekking okkar á málinu er byggð alfarið á rannsóknum í samanburðarmálvísindum. Deilt hefur verið um nákvæmlega hvar og hvenær þetta mál var talað en flestir fræðimenn eru þeirrar skoðunar að frumindóevrópska hafi verið töluð á svæðinu norðan Kákasusfjalla milli Svartahafs og Kaspíahafs um 5000 f.o.t.[2] Svo hafi það einhvern tímann á bilinu 4500–2500 f.o.t. byrjað að þróast og breytast í ýmsar mállýskur sem dreifðust bæði austur og suður á bóginn til Asíu en líka vestur til Evrópu.

Skýringarmynd sem sýnir útbreiðslu frumindóevrópsku.

Málafjölskyldur indóevrópskra mála eru taldar vera 10–12 eftir því hvernig er talið.[3] Elsta grein indóevrópskra mála — sú sem virðist fyrst hafa klofnað frá móðurtungunni — er grein anatólískra mála sem barst til Anatólíu (eða þess svæðis sem í dag heitir Tyrkland). Þessari grein tilheyra meðal annars lýkíska og lúwíska en einnig hittitíska sem var mál Hittíta. Það er elsta þekkta indóevrópumálið en elstu ritheimildir um hittitísku eru brenndar leirtöflur frá því um 1800 f.o.t. Á þeim eru fleygrýnir (skyldar akkadískum fleygrúnum) sem ráðnar voru á fyrstu ártatugum 20. aldar. Önnur grein indóevrópskra mála barst austur til Mið-Asíu og varð seinna að þeim tungumálum sem kallast tokkaríska A og B. Enn önnur grein barst austur og suður í gegnum núverandi Kasakstan og Túrkmenistan til Persíu og Indlands. Það er indóíranska málafjölskyldan en þar eru fornpersneska, avestíska og sanskrít helstu málin. Margar bylgjur indóevrópskumælandi fólks bárust síðan vestur og norður um Evrópu og út frá þeim urðu um síðir til þær málafjölskyldur sem kenndar eru við baltó-slavnesk mál (stundum talin tvær málafjölskyldur fremur en ein), germönsk mál, keltnesk mál og ítalísk mál. Af ítalísku málunum varð latína ríkjandi um síðir og af henni eru komin öll rómönsku málin.

Venjulega er gríska talin vera indóevrópsk málafjölskylda út af fyrir sig en svo virðist sem næst henni standi armenska, sem er þó oftast líka talin tilheyra eigin málafjölskyldu. Síðasta málafjölskyldan er síðan albanska.

Elsta gerð forngrísku sem við þekkjum er mýkenska mállýskan sem töluð var á Grikklandi frá því um 1600 f.o.t. Á myndinni sést einn þekktasti forngripur mýkenskrar menningar. Hann er kallaður gríma Agamemnons.

Eins og áður sagði er elsta gerð forngrísku sem við þekkjum mýkenska mállýskan sem töluð var á Grikklandi frá því um 1600 f.o.t. Hún er indóevrópskt tungumál og er þess vegna orðin til úr frumindóevrópsku. Það hefur gerst með þeim hætti að fólk sem talaði indóevrópska mállýsku fluttist frá upprunalegum heimkynnum sínum norðan við Svartahaf, ferðaðist suður Balkanskagann og settist að á því svæði sem í dag heitir Grikkland. Við getum sagt að þetta indóevrópska fólk sem kom suður Balkanskagann hafi talað frumgrísku. Sumir fræðimenn hafa talið að frumgrískumælandi hópar hafi flust suður til Grikklands í nokkrum bylgjum og á það meðal annars að útskýra fjölbreytileika forngrískra mállýska á klassískum tíma. En þeir fyrstu hafa væntanlega sest að í Grikklandi á bilinu 2100 til 1900 f.o.t. Um það leyti eða skömmu fyrr hefur tungumál þeirra tekið ýmsum breytingum sem greina mál þeirra frá öðrum tungumálum, bæði hvað varðar hljóðkerfi málsins, beygingarfræði þess, setningagerð og málnotkun. Þannig urðu til dæmis rödduð, fráblásin lokhljóð öll órödduð, lokhljóð í enda orða hverfa og svo framvegis. Sumar af breytingunum eru sameiginlegar með grísku, armensku, frýgísku og indóírönsku málunum (persnesku, avestíska og sanskrit) og greina þessi mál öll frá hinum indóevrópsku málunum en önnur einkenni er einungis að finna í grísku mállýskunum en engum öðrum málum.[4] Auk þess virðist sem annað fólk hafi búið á svæðinu áður en hinir frumgrískumælandi hópar komu. Þessir frumbyggjar Grikklands, stundum nefndir Pelasgar, töluðu ekki indóevrópskt tungumál en ýmis orð úr þeirra máli unnu sér sess í máli Grikkjanna og er enn að finna í máli þeirra. Þetta eru bæði örnefni og ýmis algeng orð, s.s. ἀράχνη (arakhnē, könguló), θάλασσα (thalassa, sjór), Κόρινθος (Kórinta), Ὄλυμπος (Ólympos).

Þannig varð gríska — forngríska — til með því að mállýska ákveðins hóps eða ákveðinna hópa frumindóevrópumanna tók ákveðnum breytingum sem greindu mál þeirra frá öðrum tungumálum. Þessir frumgrískumælandi hópar fluttust svo suður á bóginn til þess svæðis sem í dag heitir Grikkland. Þar tóku þeir inn í mál sitt ýmis orð frá frumbyggjum landsins og gætu hafa orðið fyrir öðrum áhrifum frá þeim líka. Með tímanum þróaðist svo mál þeirra enn frekar og greindist í þær mállýskur sem til voru á klassískum tíma á 5. og 4. öld f.o.t. Í svari við spurningunni Er einhver munur á forngrísku og nýgrísku? má svo lesa um hvernig forngríska varð nýgríska.

Tilvísanir:
  1. ^ Afar áhugaverða frásögn af því er að finna hjá John Chadwick, The Decipherement of Linear B (Cambridge: Cambridge University Press, 1958, 2. útg. 1967).
  2. ^ Um heimahaga frumindóevrópumanna, sjá J.P. Mallory, „The Indo-European language family: The historical question“. Í A History of Ancient Greek: From the Beginning to Late Antiquity, ritstýrt af A.-F. Christidis endursk. útg. (Cambridge: Cambridge University Press, 2010), 170–77. Enn fremur J.P. Mallory, In Search of the Indo-Europeans (London: Thames & Hudson, 1989, 2. útg. 1991); David W. Anthony, The Horse, the Wheel, and Language: How Bronze-Age Riders from the Eurasian Steppes Shaped the Modern World (Princeton: Princeton University Press, 2007); Asya Pereltsvaig og Martin W. Lewis, The Indo-European Controversy: Facts and Fallacies in Historical Linguistics (Cambridge: Cambridge University Press, 2015).
  3. ^ B.D. Joseph, „The Indo-European language family: The linguistic evidence“. Í A History of Ancient Greek: From the Beginning to Late Antiquity, ritstýrt af A.-F. Christidis endursk. útg. (Cambridge: Cambridge University Press, 2010), 161–69. Um indóevrópsk málvísindi má einnig lesa hjá James Clackson, Indo-European Linguistics: An Introduction (Cambridge: Cambridge University Press, 2007).
  4. ^ Um þær málbreytingar sem skópu forngrísku, sjá J. Clackson, „The genesis of Greek“. Í A History of Ancient Greek: From the Beginning to Late Antiquity, ritstýrt af A.-F. Christidis endursk. útg. (Cambridge: Cambridge University Press, 2010), 185–92.

Myndir:...