Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Latína var ítalísk mállýska sem er kennd við héraðið Latium (í dag Lazio) á Ítalíu. Framan af var þessi mállýska bara ein meðal margra á svæðinu og fjarri því að vera ríkjandi. Hún breiddist þó út með auknum hernaðarumsvifum og menningarlegum áhrifum Rómverja og náði um síðir yfir talsvert svæði í Evrópu og kringum Miðjarðarhafið. Að vísu varð hún aldrei ríkjandi mál í austurhluta rómverska heimsveldisins en það er önnur saga. Hvað varð síðan um þetta mál? Með svolítilli einföldun mætti segja að latína hafi aldrei dáið út. Hún er enn þá til en heitir öðrum nöfnum: ítalska, franska, spænska, portúgalska og rúmenska auk annarra mállýska (svo sem vallónsku, okkitísku, katalónsku, retórómönsku, sardinísku og svo framvegis.).
Öll tungumál breytast; engin kynslóð talar nákvæmlega eins og kynslóðin á undan. Þetta gildir ekki síður um íslensku heldur en önnur mál eins og frönsku og þýsku og taílensku. Á löngum tíma breyttist latína hægt og rólega og varð að rómönsku málunum sem klofnuðu og urðu ólík tungumál. Latína dó þess vegna ekki út sem móðurmál þjóðar, heldur hélt hún áfram að vera móðurmál fólks nógu lengi til þess að ná að breytast yfir í önnur mál um leið og málhafarnir urðu ólíkar þjóðir. Sömu sögu er vitanlega að segja um norrænu – hún dó ekki út sem móðurmál Íslendinga sem í staðinn tóku upp íslensku; heldur hélt hún áfram að vera móðurmál Íslendinga nógu lengi til þess að umbreytast í nútímaíslensku og önnur norræn mál. Sum hinna norrænu málanna hafa breyst meira en íslenska en það er líka önnur saga.
Með svolítilli einföldun mætti segja að latína hafi aldrei dáið út. Hún er enn þá til en heitir öðrum nöfnum: ítalska, franska, spænska, portúgalska og rúmenska auk annarra mállýska. Á myndinni sjást stúdentar mótmæla í Brasilíu, en þar er töluð portúgalska.
Latína sem móðurmál dó þess vegna ekki út beinlínis heldur varð hversdagslegt talmál latínumælandi fólks (stundum kallað „vúlgar latína“ eða alþýðulatína) að rómönsku málunum. Eða ef hún telst af þeim sökum hafa dáið út, þá er hún dauð tunga í sama skilningi og af sömu ástæðu og til dæmis norræna.
Í öðrum skilningi mætti einnig segja að latína hafi ekki dáið út. Því samtímis því að málið breyttist og þróaðist hægt og bítandi yfir í rómönsku málin, hélt ritmálið – ritmál klassískrar latínu fornaldar – áfram að vera notað svo að segja óbreytt; og hélt einnig áfram að vera talað í ákveðnum aðstæðum. Latína varð mál lærðra manna undir lok fornaldar og hélt þeirri stöðu í gegnum allar miðaldir og fram í nútímann. Hún varð líka mál rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Þannig dó klassísk latína ekki heldur út í ákveðnum skilningi, heldur varð hún annað mál æði margra bæði í ræðu og riti, þótt þessi klassíska latína væri ekki lengur móðurmál neins.
Í síðfornöld og snemma á miðöldum var þess vegna orðinn talsverður munur á venjulegu talmáli fólks og ritmáli þess. Venjulega talmálið, sem fólk átti að móðurmáli, varð hægt og sígandi að rómönsku málunum en ritmálið byggði áfram á fordæmi klassískrar latínu og þessi klassíska latína var nú bæði rituð og töluð af mörgum sem annað mál (e. second language, L2) en var ekki móðurmál neins. Þegar hér er komið sögu má segja að klassísk latína hafi orðið sameiginlegur arfur allrar Evrópu án tauga til ákveðins málsamfélags og án lifandi málsamfélags var málfræði hennar frosin þótt enn megi auka við orðaforðann.
Það er erfitt að ofmeta hversu mikilli útbreiðslu latína náði sem annað mál á miðöldum og síðar. Reiknað hefur verið út að 99,99% af allri varðveittri latínu í dag hafi verið samin eftir fall Rómaveldis. Það þýðir að það sem eftir leifir af latneskum textum frá fornöld er einungis 0,01% af allri varðveittri latínu. (Leonhardt 2013, 2, 285). Auðvitað er einungis lítið brot varðveitt af öllu því sem var skrifað í fornöld því margt hefur glatast. Eftir sem áður er augljóst að notkun latínu eftir fall Rómaveldis og alveg fram á fyrri hluta 19. aldar hefur verið talsvert mikil og raunar er mesta furðan sú að latínan sé ekki meira notuð nú en raun ber vitni.
Heimild:
Leonhardt, Jürgen. 2013. Latin: Story of a World Language. Þýdd af Kenneth Kronenberg. Cambridge, MA: Harvard University Press.
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers vegna dó latína út sem lifandi tungumál heillar þjóðar?“ Vísindavefurinn, 14. september 2020, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79984.
Geir Þ. Þórarinsson. (2020, 14. september). Hvers vegna dó latína út sem lifandi tungumál heillar þjóðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79984
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers vegna dó latína út sem lifandi tungumál heillar þjóðar?“ Vísindavefurinn. 14. sep. 2020. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79984>.