Rétt er að taka fram að Vísindavefurinn getur ekki ábyrgst niðurstöðurnar 100 prósent þar sem ekki fékkst leyfi hjá Vísindasiðanefnd til að auglýsa eftir samstarfsaðilum í tilraunina. Anatómiudeildin dó þó ekki ráðalaus eftir að læknadeild Háskólans skarst í leikinn og var þá ákveðið að skera upp nákvæma eftirmynd af mannslíkama. Aðeins þannig væri hægt að skera úr um þetta mál í eitt skipti fyrir öll.
Með beinskeyttum hætti komumst við að því að sá sem hefur ráð undir rifi hverju hefur vitanlega 24 ráð, enda eru rifbeinin 24 eða 12 pör, og er þá sama hvort heldur er klippt eða skorið.
En þar með er ekki öll sagan sögð, því nú skarst í odda hjá fræðingum í anatómíu. Einhver hafði meðferðis handbók í líffærafræði og þar kom í ljós að rifbeinin eru ekki öll eins heldur eru þau dregin í þrjá dilka. Sumir héldu því þá fram að í raun væru ráðin aðeins þrjú en það hefði þýtt að ráðin hefðu verið skorin mjög við trog miðað við fyrstu niðurstöður.
Svo ekkert sé dregið undan skal þess getið hér að allir limir anatómíudeildarinnar sættust á eftirfarandi lausn, enda ekki við hæfi Vísindavefsins að skera niðurstöðurnar við nögl: Ráðin eru alls 24 eins og fyrstu niðurstöður bentu til en þau skiptast í þrjá flokka, jafnmarga og dilkarnir eða trogin sem rifin raðast í:- Fyrstu sjö rifbeinapörin kallast heilrif á íslensku (e. true ribs). Af því er orðið heillaráð augljóslega dregið. Heillaráðin eru þess vegna fjórtán.
- Næstu þrjú rif kallast skammrif (e. false rib) og ráðin undir þeim eru öllu lakari en hin fyrri, enda bara skammgóður vermir. Skammsýnir menn beita þessum ráðum skammlaust og þeim fylgir líka böggull.
- Síðustu tvö pörin eru smærri en hin og kallast lausarif. Óráð er að taka þessum ráðum einhverjum lausatökum því að þá eiga menn á hættu að verða lauslátir, lausholda, og lausir í rásinni. Lausmælgi er einnig fylgifiskur ráða undan lausarifjunum og þau geta valdið því að mönnum verður laus höndin eins og nú tíðkast og er rifjað upp á hverjum degi í kaldrifjuðum fjölmiðlum.
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og rétt er að láta ekki eins og ekkert hafi í skorist. Þetta svar er vitanlega föstudagssvar. Lesendur sem taka eitthvað í því alvarlega gera það algjörlega á eigin ábyrgð.