Sólin Sólin Rís 07:09 • sest 19:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:39 • Síðdegis: 23:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 17:09 í Reykjavík

Hvað eru ráðin undir rifjunum mörg?

Ritstjórn Vísindavefsins

Þetta er ágætis spurning og fyrsta nálgun að svari við henni fékkst nokkuð greiðlega hjá anatómíudeild Vísindavefsins sem sérhæfir sig í kryfja málin til mergjar. Fyrst þurfa menn þó að átta sig á þeim sannindum, sem eru engan veginn augljós, að sá sem hefur ráð undir rifi hverju er auðvitað með tiltekinn og endanlegan fjölda ráða auk þess sem hann er ekki alveg eins ráðagóður og margir halda.

Rétt er að taka fram að Vísindavefurinn getur ekki ábyrgst niðurstöðurnar 100 prósent þar sem ekki fékkst leyfi hjá Vísindasiðanefnd til að auglýsa eftir samstarfsaðilum í tilraunina. Anatómiudeildin dó þó ekki ráðalaus eftir að læknadeild Háskólans skarst í leikinn og var þá ákveðið að skera upp nákvæma eftirmynd af mannslíkama. Aðeins þannig væri hægt að skera úr um þetta mál í eitt skipti fyrir öll.

Með beinskeyttum hætti komumst við að því að sá sem hefur ráð undir rifi hverju hefur vitanlega 24 ráð, enda eru rifbeinin 24 eða 12 pör, og er þá sama hvort heldur er klippt eða skorið.

En þar með er ekki öll sagan sögð, því nú skarst í odda hjá fræðingum í anatómíu. Einhver hafði meðferðis handbók í líffærafræði og þar kom í ljós að rifbeinin eru ekki öll eins heldur eru þau dregin í þrjá dilka. Sumir héldu því þá fram að í raun væru ráðin aðeins þrjú en það hefði þýtt að ráðin hefðu verið skorin mjög við trog miðað við fyrstu niðurstöður.

Svo ekkert sé dregið undan skal þess getið hér að allir limir anatómíudeildarinnar sættust á eftirfarandi lausn, enda ekki við hæfi Vísindavefsins að skera niðurstöðurnar við nögl: Ráðin eru alls 24 eins og fyrstu niðurstöður bentu til en þau skiptast í þrjá flokka, jafnmarga og dilkarnir eða trogin sem rifin raðast í:
  • Fyrstu sjö rifbeinapörin kallast heilrif á íslensku (e. true ribs). Af því er orðið heillaráð augljóslega dregið. Heillaráðin eru þess vegna fjórtán.
  • Næstu þrjú rif kallast skammrif (e. false rib) og ráðin undir þeim eru öllu lakari en hin fyrri, enda bara skammgóður vermir. Skammsýnir menn beita þessum ráðum skammlaust og þeim fylgir líka böggull.
  • Síðustu tvö pörin eru smærri en hin og kallast lausarif. Óráð er að taka þessum ráðum einhverjum lausatökum því að þá eiga menn á hættu að verða lauslátir, lausholda, og lausir í rásinni. Lausmælgi er einnig fylgifiskur ráða undan lausarifjunum og þau geta valdið því að mönnum verður laus höndin eins og nú tíðkast og er rifjað upp á hverjum degi í kaldrifjuðum fjölmiðlum.

Seinna ætlar Vísindavefurinn að takast á hendur upprifjun á fleiri orðtökum með sama hætti, skera þau upp og kryfja til mergjar eins og hér hefur verið gert. Meðal annars verður þá fjatlað [svo] um hvernig einhverjum rennur eitthvað til rifja, hvað það er sem er runnið undan rifjum og jafnvel gæti komið til tals að athuga hvernig blóðið rennur til skyldunnar.

Að lokum má nefna að sumir kunna að halda að karlmenn hafi færri ráð undir rifjunum af því að eitt rif var tekið úr Adam forðum daga. Til þess að kanna það nánar þyrftum við að leita til guðfræðideildar en við höfum ekki enn haft bein í nefinu til þess. Hins vegar höfum við ekki heyrt annað en að brjóstkassi flestra karlmanna sé eins báðum megin, nema þá helst hjá þeim sem hafa öfgakenndar skoðanir á stjórnmálum. Þarft væri að minnsta kosti að rannsaka hvort eitt rif kunni að vanta í slíka menn.

Mynd:


Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og rétt er að láta ekki eins og ekkert hafi í skorist. Þetta svar er vitanlega föstudagssvar. Lesendur sem taka eitthvað í því alvarlega gera það algjörlega á eigin ábyrgð.

Útgáfudagur

19.9.2008

Spyrjandi

Andri Ómarsson

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins. „Hvað eru ráðin undir rifjunum mörg?“ Vísindavefurinn, 19. september 2008. Sótt 22. september 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=14579.

Ritstjórn Vísindavefsins. (2008, 19. september). Hvað eru ráðin undir rifjunum mörg? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=14579

Ritstjórn Vísindavefsins. „Hvað eru ráðin undir rifjunum mörg?“ Vísindavefurinn. 19. sep. 2008. Vefsíða. 22. sep. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=14579>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru ráðin undir rifjunum mörg?
Þetta er ágætis spurning og fyrsta nálgun að svari við henni fékkst nokkuð greiðlega hjá anatómíudeild Vísindavefsins sem sérhæfir sig í kryfja málin til mergjar. Fyrst þurfa menn þó að átta sig á þeim sannindum, sem eru engan veginn augljós, að sá sem hefur ráð undir rifi hverju er auðvitað með tiltekinn og endanlegan fjölda ráða auk þess sem hann er ekki alveg eins ráðagóður og margir halda.

Rétt er að taka fram að Vísindavefurinn getur ekki ábyrgst niðurstöðurnar 100 prósent þar sem ekki fékkst leyfi hjá Vísindasiðanefnd til að auglýsa eftir samstarfsaðilum í tilraunina. Anatómiudeildin dó þó ekki ráðalaus eftir að læknadeild Háskólans skarst í leikinn og var þá ákveðið að skera upp nákvæma eftirmynd af mannslíkama. Aðeins þannig væri hægt að skera úr um þetta mál í eitt skipti fyrir öll.

Með beinskeyttum hætti komumst við að því að sá sem hefur ráð undir rifi hverju hefur vitanlega 24 ráð, enda eru rifbeinin 24 eða 12 pör, og er þá sama hvort heldur er klippt eða skorið.

En þar með er ekki öll sagan sögð, því nú skarst í odda hjá fræðingum í anatómíu. Einhver hafði meðferðis handbók í líffærafræði og þar kom í ljós að rifbeinin eru ekki öll eins heldur eru þau dregin í þrjá dilka. Sumir héldu því þá fram að í raun væru ráðin aðeins þrjú en það hefði þýtt að ráðin hefðu verið skorin mjög við trog miðað við fyrstu niðurstöður.

Svo ekkert sé dregið undan skal þess getið hér að allir limir anatómíudeildarinnar sættust á eftirfarandi lausn, enda ekki við hæfi Vísindavefsins að skera niðurstöðurnar við nögl: Ráðin eru alls 24 eins og fyrstu niðurstöður bentu til en þau skiptast í þrjá flokka, jafnmarga og dilkarnir eða trogin sem rifin raðast í:
  • Fyrstu sjö rifbeinapörin kallast heilrif á íslensku (e. true ribs). Af því er orðið heillaráð augljóslega dregið. Heillaráðin eru þess vegna fjórtán.
  • Næstu þrjú rif kallast skammrif (e. false rib) og ráðin undir þeim eru öllu lakari en hin fyrri, enda bara skammgóður vermir. Skammsýnir menn beita þessum ráðum skammlaust og þeim fylgir líka böggull.
  • Síðustu tvö pörin eru smærri en hin og kallast lausarif. Óráð er að taka þessum ráðum einhverjum lausatökum því að þá eiga menn á hættu að verða lauslátir, lausholda, og lausir í rásinni. Lausmælgi er einnig fylgifiskur ráða undan lausarifjunum og þau geta valdið því að mönnum verður laus höndin eins og nú tíðkast og er rifjað upp á hverjum degi í kaldrifjuðum fjölmiðlum.

Seinna ætlar Vísindavefurinn að takast á hendur upprifjun á fleiri orðtökum með sama hætti, skera þau upp og kryfja til mergjar eins og hér hefur verið gert. Meðal annars verður þá fjatlað [svo] um hvernig einhverjum rennur eitthvað til rifja, hvað það er sem er runnið undan rifjum og jafnvel gæti komið til tals að athuga hvernig blóðið rennur til skyldunnar.

Að lokum má nefna að sumir kunna að halda að karlmenn hafi færri ráð undir rifjunum af því að eitt rif var tekið úr Adam forðum daga. Til þess að kanna það nánar þyrftum við að leita til guðfræðideildar en við höfum ekki enn haft bein í nefinu til þess. Hins vegar höfum við ekki heyrt annað en að brjóstkassi flestra karlmanna sé eins báðum megin, nema þá helst hjá þeim sem hafa öfgakenndar skoðanir á stjórnmálum. Þarft væri að minnsta kosti að rannsaka hvort eitt rif kunni að vanta í slíka menn.

Mynd:


Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og rétt er að láta ekki eins og ekkert hafi í skorist. Þetta svar er vitanlega föstudagssvar. Lesendur sem taka eitthvað í því alvarlega gera það algjörlega á eigin ábyrgð. ...