Sólin Sólin Rís 03:36 • sest 23:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:09 • Sest 23:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 17:27 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:36 • sest 23:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:09 • Sest 23:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 17:27 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hversu gamalt er England og hvernig myndaðist það?

Sigurður Steinþórsson

Bretland — England og Skotland — spannar næstum alla jarðsöguna, meira en 3000 milljón ár (m.á.). Í Hebrideseyjum og NV-Skotlandi er hið forna berg á yfirborði (fjólublátt á jarðfræðikortinu hér fyrir neðan), en í East Anglia í SA-Englandi er yfirborðsberg frá síðustu ísöld (gulbrúnt á kortinu). Hvergi í heiminum má rekja þá sögu nánast samfellt á jafnlitlu svæði.

Jarðfræðikort af Bretlandseyjum.

Sé litið á „stóru línurnar“ í þeirri sögu, þá var Skotland hluti af meginlandi N-Ameríku fyrir 600 m.á. en England og Wales hluti Evrópu. Í hafið á milli safnaðist set með steingervingum sem skiptast í „welsk-franska“ og „skosk-ameríska“ fánu; það sýnir að meginlöndin voru nægilega aðskilin til að dýr (graptólítar og þríbrotar) gætu ekki borist á milli. Meginlöndin tvö rak saman, hafið lokaðist og fellingafjöll mynduðust fyrir um 420 m.á., Kaledóníufellingin (sílúr, devon). Leifar þeirra fjalla mynda nú Noreg, Wales og S-Írland Evrópumegin en Ameríkumegin A-Grænland og Skotand (sjá skýringarmynd með því að smella hér), þar sem kaledónískt berg hefur þrýst yfir hinn forna Ameríkuskjöld (Lárentíu) í frægu misgengi (samgengi), Moine thrust, meðfram NV-strönd Skotlands. Grynnra berg þessarar fellingar má sjá til dæmis í Vatnahéraðinu í Englandi. Kaledóníufellingin heldur áfram um Nýfundnaland og í Appalachia-fjöll í N-Ameríku.

Fyrir um 300 m.á. fór Afríka að þrýsta á Bretlandseyjar, sem nú voru samvaxnar N-Ameríku, úr suðri — djúpt berg undir syðsta hluta Írlands, ásamt Cornwall og Devon, kann að hafa verið hluti af Afríku — og Harzfellingin myndaðist fyrir um 280 m.á. (kol, perm) (sjá mynd fyrir neðan). Í N-Ameríku liggur hún samhliða Kaledóníufellingunni, en austan Atlantshafs um Írland, S-England og sunnanverða Evrópu. Úralfjöll mynduðust um svipað leyti. Á Bretlandseyjum og N-Evrópu stefnir sú felling í aðalatriðum austur-vestur, en Pennínafjöll, sem liggja norður-suður um Mið-England, þrýstust upp í þessum atburðum. Mikið af því setbergi sem nú myndar SA-England (miðlífsöld), er komið frá rofi þessa fjallgarðs.

Harzfellingin myndaðist fyrir um 280 m.á.

Þegar hér var komið sögu var Bretland hluti af stóru meginlandi, N- og S-Ameríku, Evrópu og Afríku. Jarðmyndanir fá þeim tíma benda til þess að sá hluti þess sem nú er Bretland hafi verið nálægt miðbaug (sbr. myndin hér fyrir ofan af landaskipan á tímum Harzfellingarinnar), en smám saman rak stórmeginlandið til norðurs jafnframt því sem það tók að gliðna sundur. (Sjá svar við Af hverju brotnaði Pangea upp?). Íberíuskagi slitnaði frá S-Írlandi og Biskajaflói myndaðist, og fyrir um 60 m.á. tók N-Atlantshaf að opnast. N-Ameríku og Grænland rak frá Evrópu, og Íslands-möttulstrókurinn olli því að miklar gosmyndanir hlóðust upp á A-Grænlandi, N-Írlandi og NV-Skotlandi. Þær tengjast Íslandi nú með Grænlands-Færeyjahryggnum (sjá mynd hér fyrir neðan).

Fellingarnar þrjár í Evrópu. Í norð-vestri sést Grænlands-Færeyjahryggurinn. Gult eru setmyndanir ofan á eldra bergi, en saltstöplar benda til legu á myndunartíma nálægt miðbaug.

Við opnun N-Atlantshafs tók Afríka aftur að þrýsta á Evrópu úr suðri og Alparnir urðu til (tertíer). Í Bretlandi voru afleiðingarnar einkum þær að hryggur eða bunga þrýstist upp í S-Englandi og NV-Frakklandi sem straumvötn og jöklar hafa síðan rofið niður í nær-láréttan flöt. Í SA-Englandi má þannig rekja sig niður gegnum jarðlögin frá suð-austri til norð-vesturs: eósen (tertíer) í Thames-lægðinni þar sem London er, þá krít með austurströndinni frá Devon norður í Yorkshire (grænt á jarðfræðikortinu efst í svarinu), júra á breiðri ræmu þar fyrir vestan (blátt), þá trías (bleikt), perm (gul rönd) og loks kol (gráir litir).

Þess má geta að fyrsta jarðfræðikortið af Englandi og Wales kom út árið 1815. Kortið gerði William Smith (1769-1839) sem síðar var nefndur „faðir enskrar jarðfræði“. Smith vann upphaflega í kolanámu í Somerset þar sem hann veitti því athygli að rekja mátti jarðlagasyrpur frá námu til námu, og að lögin mátti greina hvert frá öðru með einkennandi steingervingum. Við hann er kennd sú regla að yngra lag liggi jafnan ofan á eldra lagi, og ennfremur „reglan um röð dýra-samfélaga“ (Principle of Faunal Succession) – að tiltekinn hópur steingervinga taki við af öðrum eldri í reglubundinni röð. Síðar vann hann um tíma sem mælingamaður við gerð skipaskurða í Englandi og ferðaðist loks um landið allt ásamt Wales til að skoða afstöðu jarðlaga og safna steingervingum. Uppteiknun af hluta jarðfræðikorts hans (1815), ásamt sniði, má sjá með því að smella hér.

Myndir:
  • Jarðfræðikort af Bretlandi: British Geological Survey. Íslenskur texti settur inn á ritstjórn Vísindavefsins með aðstoð Sigurðar Steinþórssonar. Sótt 27. 11. 2009
  • Harzfellingin: G. K. glósur, undir Harzfellingin. Sótt 30. 11. 2009.
  • Fellingarnar þrjár í Evrópu: Europe: structural features á Encyclopædia Britannica Online. Íslenskur texti settur inn á ritstjórn Vísindavefsins með aðstoð Sigurðar Steinþórssonar. Sótt 27. 11. 2009.


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hve gamalt er England, í samanburði við að Ísland er 16-18 milljón ára?

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

3.12.2009

Síðast uppfært

31.1.2020

Spyrjandi

Börkur Hrólfsson

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hversu gamalt er England og hvernig myndaðist það?“ Vísindavefurinn, 3. desember 2009, sótt 13. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=14634.

Sigurður Steinþórsson. (2009, 3. desember). Hversu gamalt er England og hvernig myndaðist það? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=14634

Sigurður Steinþórsson. „Hversu gamalt er England og hvernig myndaðist það?“ Vísindavefurinn. 3. des. 2009. Vefsíða. 13. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=14634>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hversu gamalt er England og hvernig myndaðist það?
Bretland — England og Skotland — spannar næstum alla jarðsöguna, meira en 3000 milljón ár (m.á.). Í Hebrideseyjum og NV-Skotlandi er hið forna berg á yfirborði (fjólublátt á jarðfræðikortinu hér fyrir neðan), en í East Anglia í SA-Englandi er yfirborðsberg frá síðustu ísöld (gulbrúnt á kortinu). Hvergi í heiminum má rekja þá sögu nánast samfellt á jafnlitlu svæði.

Jarðfræðikort af Bretlandseyjum.

Sé litið á „stóru línurnar“ í þeirri sögu, þá var Skotland hluti af meginlandi N-Ameríku fyrir 600 m.á. en England og Wales hluti Evrópu. Í hafið á milli safnaðist set með steingervingum sem skiptast í „welsk-franska“ og „skosk-ameríska“ fánu; það sýnir að meginlöndin voru nægilega aðskilin til að dýr (graptólítar og þríbrotar) gætu ekki borist á milli. Meginlöndin tvö rak saman, hafið lokaðist og fellingafjöll mynduðust fyrir um 420 m.á., Kaledóníufellingin (sílúr, devon). Leifar þeirra fjalla mynda nú Noreg, Wales og S-Írland Evrópumegin en Ameríkumegin A-Grænland og Skotand (sjá skýringarmynd með því að smella hér), þar sem kaledónískt berg hefur þrýst yfir hinn forna Ameríkuskjöld (Lárentíu) í frægu misgengi (samgengi), Moine thrust, meðfram NV-strönd Skotlands. Grynnra berg þessarar fellingar má sjá til dæmis í Vatnahéraðinu í Englandi. Kaledóníufellingin heldur áfram um Nýfundnaland og í Appalachia-fjöll í N-Ameríku.

Fyrir um 300 m.á. fór Afríka að þrýsta á Bretlandseyjar, sem nú voru samvaxnar N-Ameríku, úr suðri — djúpt berg undir syðsta hluta Írlands, ásamt Cornwall og Devon, kann að hafa verið hluti af Afríku — og Harzfellingin myndaðist fyrir um 280 m.á. (kol, perm) (sjá mynd fyrir neðan). Í N-Ameríku liggur hún samhliða Kaledóníufellingunni, en austan Atlantshafs um Írland, S-England og sunnanverða Evrópu. Úralfjöll mynduðust um svipað leyti. Á Bretlandseyjum og N-Evrópu stefnir sú felling í aðalatriðum austur-vestur, en Pennínafjöll, sem liggja norður-suður um Mið-England, þrýstust upp í þessum atburðum. Mikið af því setbergi sem nú myndar SA-England (miðlífsöld), er komið frá rofi þessa fjallgarðs.

Harzfellingin myndaðist fyrir um 280 m.á.

Þegar hér var komið sögu var Bretland hluti af stóru meginlandi, N- og S-Ameríku, Evrópu og Afríku. Jarðmyndanir fá þeim tíma benda til þess að sá hluti þess sem nú er Bretland hafi verið nálægt miðbaug (sbr. myndin hér fyrir ofan af landaskipan á tímum Harzfellingarinnar), en smám saman rak stórmeginlandið til norðurs jafnframt því sem það tók að gliðna sundur. (Sjá svar við Af hverju brotnaði Pangea upp?). Íberíuskagi slitnaði frá S-Írlandi og Biskajaflói myndaðist, og fyrir um 60 m.á. tók N-Atlantshaf að opnast. N-Ameríku og Grænland rak frá Evrópu, og Íslands-möttulstrókurinn olli því að miklar gosmyndanir hlóðust upp á A-Grænlandi, N-Írlandi og NV-Skotlandi. Þær tengjast Íslandi nú með Grænlands-Færeyjahryggnum (sjá mynd hér fyrir neðan).

Fellingarnar þrjár í Evrópu. Í norð-vestri sést Grænlands-Færeyjahryggurinn. Gult eru setmyndanir ofan á eldra bergi, en saltstöplar benda til legu á myndunartíma nálægt miðbaug.

Við opnun N-Atlantshafs tók Afríka aftur að þrýsta á Evrópu úr suðri og Alparnir urðu til (tertíer). Í Bretlandi voru afleiðingarnar einkum þær að hryggur eða bunga þrýstist upp í S-Englandi og NV-Frakklandi sem straumvötn og jöklar hafa síðan rofið niður í nær-láréttan flöt. Í SA-Englandi má þannig rekja sig niður gegnum jarðlögin frá suð-austri til norð-vesturs: eósen (tertíer) í Thames-lægðinni þar sem London er, þá krít með austurströndinni frá Devon norður í Yorkshire (grænt á jarðfræðikortinu efst í svarinu), júra á breiðri ræmu þar fyrir vestan (blátt), þá trías (bleikt), perm (gul rönd) og loks kol (gráir litir).

Þess má geta að fyrsta jarðfræðikortið af Englandi og Wales kom út árið 1815. Kortið gerði William Smith (1769-1839) sem síðar var nefndur „faðir enskrar jarðfræði“. Smith vann upphaflega í kolanámu í Somerset þar sem hann veitti því athygli að rekja mátti jarðlagasyrpur frá námu til námu, og að lögin mátti greina hvert frá öðru með einkennandi steingervingum. Við hann er kennd sú regla að yngra lag liggi jafnan ofan á eldra lagi, og ennfremur „reglan um röð dýra-samfélaga“ (Principle of Faunal Succession) – að tiltekinn hópur steingervinga taki við af öðrum eldri í reglubundinni röð. Síðar vann hann um tíma sem mælingamaður við gerð skipaskurða í Englandi og ferðaðist loks um landið allt ásamt Wales til að skoða afstöðu jarðlaga og safna steingervingum. Uppteiknun af hluta jarðfræðikorts hans (1815), ásamt sniði, má sjá með því að smella hér.

Myndir:
  • Jarðfræðikort af Bretlandi: British Geological Survey. Íslenskur texti settur inn á ritstjórn Vísindavefsins með aðstoð Sigurðar Steinþórssonar. Sótt 27. 11. 2009
  • Harzfellingin: G. K. glósur, undir Harzfellingin. Sótt 30. 11. 2009.
  • Fellingarnar þrjár í Evrópu: Europe: structural features á Encyclopædia Britannica Online. Íslenskur texti settur inn á ritstjórn Vísindavefsins með aðstoð Sigurðar Steinþórssonar. Sótt 27. 11. 2009.


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hve gamalt er England, í samanburði við að Ísland er 16-18 milljón ára?
...