Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ferðabók Dufferins lávarðar, Letters from High Latitudes, um för hans til Íslands og norður í höf árið 1856 er líklega eitt vinsælasta rit í hópi ferðasagna frá Íslandi. Bókin kom út í yfir 40 útgáfum á fimm tungumálum. Íslensk þýðing Hersteins Pálssonar, Ferðabók Dufferins lávarðar, kom út árið 1944.
Ferð Dufferins lávarðar (1826-1902) hingað til lands vakti mikla athygli, bæði leiðangur hans sjálfs og sú staðreynd að þetta sama sumar, í júní og júlí, komu einnig hingað Napóleon prins, bróðursonur Napóleons III Frakklandskeisara, og loks Vilhjálmur, krónprins Hollendinga.
Auðæfi Dufferins vöktu athygli en þó miklu fremur áhugi hans á fornri menningu og stjórnskipan Íslendinga. Hann kvað hafa
miklar mætur á öllu því er við kemur hinni íslensku fornöld, á meðan allt var hér í blóma og fullu frelsi, og kvað eiga safn af öllum Íslendinga- og Noregskonungasögum, og af ýmsum öðrum ritgjörðum frá hinum síðari tímum er snerta Ísland.
Einnig er greint frá því að Dufferin hafi haft hug á að fara á Þingvallafund sem þá var fyrirhugaður en því miður hafi ekkert orðið úr fundinum. (Þjóðólfur 26. júlí 1856). Hann fór engu að síður til Þingvalla og austur til Geysis. Dufferin er yfirleitt jákvæður í garð Íslendinga og finnst mikið til landsins koma.
Ekki er að sjá að neitt hafi verið fjallað hérlendis um útgáfu bókar Dufferins, Letters from High Latitudes, um það bil sem hún kom út. Íslendingum hefur þó verið vel kunnugt um hana, enda gerðu þeir Dufferin að heiðursfélaga Hins íslenska bókmenntafélags árið 1857 eða sama ár og bókin birtist. Þess má reyndar geta að fremur sjaldgæft var að fjallað væri um útlendar ferðasögur frá Íslandi í blöðum og tímaritum hér á landi á 19. öld. Síðar var bók Dufferins meðal annars notuð sem jákvæður vitnisburður um Ísland er Íslendingar áttu í deilum við hinn þekkta landkönnuð Richard Burton sem kom hingað til lands árið 1873 og fannst ekki sérlega mikið til koma ef marka má blaðagreinar hans og bók um Ísland. (Sjá meðal annars Þjóðólf 21. janúar 1873.)
Eftir lát Dufferins var hans minnst hér á landi og meðal Vestur-Íslendinga. Meðal annars var hans getið í tímaritinu Óðni árið 1909 og þá einnig fjallað um bók hans. Einnig er fjallað um æviferil og rit Dufferins í tímaritum Vestur-Íslendinga. Þar má nefna Almanak Ólafs S. Þorgeirssonar, útgefið í Winnipeg 1903 og tímaritið Syrpu, útg. 1920, einnig í Winnipeg. Áhugi Vestur-Íslendinga á Dufferin á sér þá skýringu að hann var um árabil landstjóri í Kanada og er sagt að hann hafi reynst fátækum löndum okkar vel er þeir voru að koma sér fyrir í nýjum heimkynnum.
Mynd:
Sumarliði R. Ísleifsson . „Hvað getið þið sagt mér um umfjöllun á Íslandi um bækur Lord Dufferins um Íslandsferðir?“ Vísindavefurinn, 23. apríl 2001, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1521.
Sumarliði R. Ísleifsson . (2001, 23. apríl). Hvað getið þið sagt mér um umfjöllun á Íslandi um bækur Lord Dufferins um Íslandsferðir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1521
Sumarliði R. Ísleifsson . „Hvað getið þið sagt mér um umfjöllun á Íslandi um bækur Lord Dufferins um Íslandsferðir?“ Vísindavefurinn. 23. apr. 2001. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1521>.