Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjar voru meginástæður vesturferðanna?

Leifur Reynisson

Vesturferðir Íslendinga voru mestar á tímabilinu 1870-1914 þegar um 15.000 manns settust að í Norður-Ameríku. Þær voru hluti af stórfelldum þjóðflutningum sem áttu sér stað frá Evrópu til Ameríku en talið er að um 52 milljónir hafi flust yfir hafið frá 1846 til 1914. Ástæður vesturferða Evrópumanna voru margar, svo sem fátækt, þröngbýli, ófrelsi og jafnvel hungur. Nýi heimurinn hafði orð á sér fyrir að vera land tækifæranna þar sem hvorki væri spurt um ætt né stöðu heldur dugnað og áræðni. Langflestir Evrópubúar komu sér fyrir í Bandaríkjunum en Íslendingar lögðu einkum leið sína til Kanada.

Upphaf vesturferða hérlendis er yfirleitt rakið til þess að tveir Íslendingar tóku mormónatrú í Kaupmannahöfn árið 1851. Nokkru seinna settust þeir að í Vestmannaeyjum þar sem þeim tókst að snúa nokkrum til hins nýja siðar. Nokkrir þeirra tóku sig upp á tímabilinu 1855-1857 og fluttu til mormónaríkisins Utah í Bandaríkjunum. Munu það hafa verið fyrstu íslensku vesturfararnir og má segja að þeir hafi farið af trúarlegum ástæðum en ef til vill lá fleira að baki. Síðar lögðu fleiri leið sína til ríkis mormóna í Vesturheimi en þeir voru þó aldrei margir.

Árið 1860 stofnuðu Þingeyingar félag sem stefndi að búferlaflutningum til Brasilíu. Þær ráðagerðir komu þó fyrir lítið. Einn fór af stað 1861 og fjórir 1863 en eftir það lá félagsskapurinn niðri í tíu ár. Árið 1873 átti aftur að efna til Brasilíuferðar enda höfðu þarlend stjórnvöld lofað ókeypis fari og uppihaldi á leiðinni. 500 manns skráðu sig til ferðar af Norður- og Austurlandi auk 65 Vestmannaeyinga. Þegar til kom fóru aðeins nokkrir tugir af stað, en helsta ástæða þess hversu fáir fóru til Brasilíu mun hafa verið vandræði með að fá skip til fararinnar.

Þegar hér var komið sögu voru samfelldar ferðir hafnar til Norður-Ameríku en þær hófust árið 1870. Flestir þeirra sem höfðu skráð sig í Brasilíuhópinn fóru til Bandaríkjanna. Útlend skipafélög voru farin að auglýsa ferðir til Ameríku og höfðu þau umboðsmenn á sínum snærum sem fóru víða um land til að hvetja fólk til vesturferðar. Fjölmargir fluttust vestur um haf á næstu áratugum en fjöldi þeirra sveiflaðist mjög eftir því hvernig aðstæður voru innanlands hverju sinni.



Talið er að um 15.000 Íslendingar hafi sest að í Vesturheimi á tímabilinu 1870-1914.

Eldgos í Öskju árið 1875 varð til þess að vesturförum fjölgaði mjög árið eftir. Erfiður harðindakafli á 9. áratug aldarinnar leiddi til mestu búferlaflutninga tímabilsins en þá fóru tæplega sjö þúsund Íslendingar til Nýja heimsins. Eftir 1890 dró verulega úr vesturferðunum þó þær væru enn töluverðar. Langflestir vesturfarar voru frá Norður- og Austurlandi. Talið er að 2.738 manns hafi yfirgefið Norður-Múlasýslu og 1.945 Þingeyjarsýslu á tímabilinu 1870-1914. Öskjugosið hafði töluverð áhrif á það hversu margir fluttust á brott frá Norðausturlandi en aðrar ástæður lágu einnig að baki. Fjölmörg nýbýli höfðu risið þar upp til heiða á tímabilinu 1830-1860 en þá var hlýindaskeið í landinu. Eftir það tók aftur að kólna í veðri og fundu heiðarbændur mjög fyrir því þar sem þeir bjuggu á mörkum hins byggilega miðað við lífhætti þess tíma.

Meginástæða vesturferðanna liggur þó í því að þjóðinni fjölgaði mjög á 19. öld án þess að atvinnulífið efldist að sama skapi. Framleiðsluhættir landbúnaðarins gátu ekki brauðfætt það fólk sem fyllti sveitirnar og því voru aðeins þrír kostir í boði: efling atvinnulífsins, brottflutningur úr landi eða hungur og mannfellir. Sjávarþorp tóku að myndast um sunnan- og vestanvert landið þar sem fiskimið voru best. Aðstæður til sjávarútvegs voru lakari við norðan- og austanvert landið og því varð þéttbýlismyndun hægari þar. Þeir bændur sem bregða þurftu búi á þeim slóðum áttu þess síður kost að komast í róður og því var um fátt annað að ræða en flytjast á brott. Þéttbýlisvæðingin og vesturferðirnar komu í veg fyrir að mannfellir yrði í landinu eins og svo oft hafði gerst á öldum áður.

Annars voru ástæður manna margar og mismunandi. Hörð lífskjör og fábrotin atvinnutækifæri ýtti undir að menn freistuðu gæfunnar annars staðar. Fregnir af gósenlandi Nýja heimsins og hvatning umboðsmanna erlendra skipafélaga bauð upp á augljósan valkost. Þá hafa margir eflaust lagt úr höfn af hreinni ævintýraþrá. Þegar leið á vesturfaratímabilið fóru margir yfir hafið til að komast í nábýli við ættingja og vini sem þar bjuggu og gátu greitt götu þeirra í nýjum heimkynnum. Því hefur einnig verið haldið fram að vonbrigði yfir því hversu treglega sjálfstæðisbaráttan gekk fyrir sig hafi haft sín áhrif. Annars leiddi vaxandi þjóðerniskennd til þess að vesturfararnir voru gjarnan sakaðir um að svíkja landið og því vottaði oft fyrir samviskubita hjá þeim sem sigldu á brott.

Framkoma íslenskrar valdastéttar átti einnig mikinn þátt í því að margir litu svo á að framtíðin væri bjartari vestanhafs. Má í því sambandi vitna til frægra orða Þorsteins Þ. Þorsteinssonar sem fyrstur manna skráði sögu Íslendinga í Vesturheimi:
Ósanngirni og fullkomið ranglæti sem ill lög og vondar venjur sköpuðu í landinu á ótal sviðum, en ekki síst í tilliti til kaupgjalds og vinnulauna, skapaði megna óánægju og ýtti með fullum krafti á eftir unga fólkinu út á hafið. Og hvað sem menn kunna nú að halda um þá speki, þá var það fyrrum mjög almenn skoðun Íslendinga í Vesturheimi að réttlæti væri fremur fágætt á Íslandi, allt frá yfirrétti niður til hreppsþinga, en hin óteljandi bönd og höft á öllu mögulegu flæktu og fjötruðu hendur og fætur almennings svo ekki væri við það unað né lifandi.
Talið er að flestir Ameríkufarar hafi verið fátækt fólk sem seldi lítinn bústofn sinn til að geta greitt fargjaldið. Einnig var eitthvað um að sveitastjórnir og efnabændur kostuðu flutninga snauðra manna svo að þeir yrðu ekki sveitabyrði. Það gat verið gott boð um bjartari framtíð en einnig eru til frásagnir af því að fólk hafi farið úr landi sárnauðugt. Yfirleitt sigldu vesturfarar til Bretlands þar sem annað skip beið þeirra sem flutti þá yfir Atlantshafið. Aðbúnaður um borð var ömurlegur og reyndi ferðalagið mjög á farþega.

Það var sérkenni íslenskra Ameríkufara að kynjahlutfall þeirra var nokkuð jafnt en frá öðrum löndum voru karlmenn í miklum meirihluta. Mikið var um að heilu fjölskyldurnar færu héðan en þess má einnig geta að konur voru mun fleiri hérlendis en karlar. Hins vegar voru atvinnutækifæri kvenna fá hér miðað við það sem gerðist í Evrópu þar sem þær fengu margvísleg störf í iðnaði og verslun.

Þéttbýlismyndun og vélvæðing sjávarútvegs leiddi til þess að vesturferðum fækkaði mjög upp úr aldamótunum 1900. Um svipað leyti fengu Íslendingar heimastjórn en með henni tók ríkisvaldið aukinn þátt í uppbyggingu samfélagsins. Lífkjör bötnuðu og bjartsýni jókst.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Guðjón Arngrímsson: Nýja Ísland. Örlagasaga vesturfaranna í máli og myndum. Mál og menning, Reykjavík, 1997.
  • Gunnar Karlsson: „Atvinnubylting og ríkismyndun 1874-1918“, í Sigurður Líndal og Pétur Hrafn Árnason ritstj., Saga Íslands X. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík, 2009.
  • Helgi Skúli Kjartansson og Steinþór Heiðarsson: Framtíð handan hafs. Vesturfarir frá Íslandi 1870-1914. Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2003.
  • Mynd af skipsfarþegum: Icelandic Online Dictionary and Readings - University of Wisconsin-Madison Libraries. Sótt 21.5.2010.

Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Úr hvaða sýslu komu flestir íslensku vesturfararnir?
  • Hver var aðalástæðan fyrir að fólk flutti frá Íslandi?

Höfundur

sagnfræðingur

Útgáfudagur

28.5.2010

Spyrjandi

Dagbjört Guðmundsdóttir, Róbert Þór, Böðvar Geirfinnsson

Tilvísun

Leifur Reynisson. „Hverjar voru meginástæður vesturferðanna?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2010, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56117.

Leifur Reynisson. (2010, 28. maí). Hverjar voru meginástæður vesturferðanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56117

Leifur Reynisson. „Hverjar voru meginástæður vesturferðanna?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2010. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56117>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjar voru meginástæður vesturferðanna?
Vesturferðir Íslendinga voru mestar á tímabilinu 1870-1914 þegar um 15.000 manns settust að í Norður-Ameríku. Þær voru hluti af stórfelldum þjóðflutningum sem áttu sér stað frá Evrópu til Ameríku en talið er að um 52 milljónir hafi flust yfir hafið frá 1846 til 1914. Ástæður vesturferða Evrópumanna voru margar, svo sem fátækt, þröngbýli, ófrelsi og jafnvel hungur. Nýi heimurinn hafði orð á sér fyrir að vera land tækifæranna þar sem hvorki væri spurt um ætt né stöðu heldur dugnað og áræðni. Langflestir Evrópubúar komu sér fyrir í Bandaríkjunum en Íslendingar lögðu einkum leið sína til Kanada.

Upphaf vesturferða hérlendis er yfirleitt rakið til þess að tveir Íslendingar tóku mormónatrú í Kaupmannahöfn árið 1851. Nokkru seinna settust þeir að í Vestmannaeyjum þar sem þeim tókst að snúa nokkrum til hins nýja siðar. Nokkrir þeirra tóku sig upp á tímabilinu 1855-1857 og fluttu til mormónaríkisins Utah í Bandaríkjunum. Munu það hafa verið fyrstu íslensku vesturfararnir og má segja að þeir hafi farið af trúarlegum ástæðum en ef til vill lá fleira að baki. Síðar lögðu fleiri leið sína til ríkis mormóna í Vesturheimi en þeir voru þó aldrei margir.

Árið 1860 stofnuðu Þingeyingar félag sem stefndi að búferlaflutningum til Brasilíu. Þær ráðagerðir komu þó fyrir lítið. Einn fór af stað 1861 og fjórir 1863 en eftir það lá félagsskapurinn niðri í tíu ár. Árið 1873 átti aftur að efna til Brasilíuferðar enda höfðu þarlend stjórnvöld lofað ókeypis fari og uppihaldi á leiðinni. 500 manns skráðu sig til ferðar af Norður- og Austurlandi auk 65 Vestmannaeyinga. Þegar til kom fóru aðeins nokkrir tugir af stað, en helsta ástæða þess hversu fáir fóru til Brasilíu mun hafa verið vandræði með að fá skip til fararinnar.

Þegar hér var komið sögu voru samfelldar ferðir hafnar til Norður-Ameríku en þær hófust árið 1870. Flestir þeirra sem höfðu skráð sig í Brasilíuhópinn fóru til Bandaríkjanna. Útlend skipafélög voru farin að auglýsa ferðir til Ameríku og höfðu þau umboðsmenn á sínum snærum sem fóru víða um land til að hvetja fólk til vesturferðar. Fjölmargir fluttust vestur um haf á næstu áratugum en fjöldi þeirra sveiflaðist mjög eftir því hvernig aðstæður voru innanlands hverju sinni.



Talið er að um 15.000 Íslendingar hafi sest að í Vesturheimi á tímabilinu 1870-1914.

Eldgos í Öskju árið 1875 varð til þess að vesturförum fjölgaði mjög árið eftir. Erfiður harðindakafli á 9. áratug aldarinnar leiddi til mestu búferlaflutninga tímabilsins en þá fóru tæplega sjö þúsund Íslendingar til Nýja heimsins. Eftir 1890 dró verulega úr vesturferðunum þó þær væru enn töluverðar. Langflestir vesturfarar voru frá Norður- og Austurlandi. Talið er að 2.738 manns hafi yfirgefið Norður-Múlasýslu og 1.945 Þingeyjarsýslu á tímabilinu 1870-1914. Öskjugosið hafði töluverð áhrif á það hversu margir fluttust á brott frá Norðausturlandi en aðrar ástæður lágu einnig að baki. Fjölmörg nýbýli höfðu risið þar upp til heiða á tímabilinu 1830-1860 en þá var hlýindaskeið í landinu. Eftir það tók aftur að kólna í veðri og fundu heiðarbændur mjög fyrir því þar sem þeir bjuggu á mörkum hins byggilega miðað við lífhætti þess tíma.

Meginástæða vesturferðanna liggur þó í því að þjóðinni fjölgaði mjög á 19. öld án þess að atvinnulífið efldist að sama skapi. Framleiðsluhættir landbúnaðarins gátu ekki brauðfætt það fólk sem fyllti sveitirnar og því voru aðeins þrír kostir í boði: efling atvinnulífsins, brottflutningur úr landi eða hungur og mannfellir. Sjávarþorp tóku að myndast um sunnan- og vestanvert landið þar sem fiskimið voru best. Aðstæður til sjávarútvegs voru lakari við norðan- og austanvert landið og því varð þéttbýlismyndun hægari þar. Þeir bændur sem bregða þurftu búi á þeim slóðum áttu þess síður kost að komast í róður og því var um fátt annað að ræða en flytjast á brott. Þéttbýlisvæðingin og vesturferðirnar komu í veg fyrir að mannfellir yrði í landinu eins og svo oft hafði gerst á öldum áður.

Annars voru ástæður manna margar og mismunandi. Hörð lífskjör og fábrotin atvinnutækifæri ýtti undir að menn freistuðu gæfunnar annars staðar. Fregnir af gósenlandi Nýja heimsins og hvatning umboðsmanna erlendra skipafélaga bauð upp á augljósan valkost. Þá hafa margir eflaust lagt úr höfn af hreinni ævintýraþrá. Þegar leið á vesturfaratímabilið fóru margir yfir hafið til að komast í nábýli við ættingja og vini sem þar bjuggu og gátu greitt götu þeirra í nýjum heimkynnum. Því hefur einnig verið haldið fram að vonbrigði yfir því hversu treglega sjálfstæðisbaráttan gekk fyrir sig hafi haft sín áhrif. Annars leiddi vaxandi þjóðerniskennd til þess að vesturfararnir voru gjarnan sakaðir um að svíkja landið og því vottaði oft fyrir samviskubita hjá þeim sem sigldu á brott.

Framkoma íslenskrar valdastéttar átti einnig mikinn þátt í því að margir litu svo á að framtíðin væri bjartari vestanhafs. Má í því sambandi vitna til frægra orða Þorsteins Þ. Þorsteinssonar sem fyrstur manna skráði sögu Íslendinga í Vesturheimi:
Ósanngirni og fullkomið ranglæti sem ill lög og vondar venjur sköpuðu í landinu á ótal sviðum, en ekki síst í tilliti til kaupgjalds og vinnulauna, skapaði megna óánægju og ýtti með fullum krafti á eftir unga fólkinu út á hafið. Og hvað sem menn kunna nú að halda um þá speki, þá var það fyrrum mjög almenn skoðun Íslendinga í Vesturheimi að réttlæti væri fremur fágætt á Íslandi, allt frá yfirrétti niður til hreppsþinga, en hin óteljandi bönd og höft á öllu mögulegu flæktu og fjötruðu hendur og fætur almennings svo ekki væri við það unað né lifandi.
Talið er að flestir Ameríkufarar hafi verið fátækt fólk sem seldi lítinn bústofn sinn til að geta greitt fargjaldið. Einnig var eitthvað um að sveitastjórnir og efnabændur kostuðu flutninga snauðra manna svo að þeir yrðu ekki sveitabyrði. Það gat verið gott boð um bjartari framtíð en einnig eru til frásagnir af því að fólk hafi farið úr landi sárnauðugt. Yfirleitt sigldu vesturfarar til Bretlands þar sem annað skip beið þeirra sem flutti þá yfir Atlantshafið. Aðbúnaður um borð var ömurlegur og reyndi ferðalagið mjög á farþega.

Það var sérkenni íslenskra Ameríkufara að kynjahlutfall þeirra var nokkuð jafnt en frá öðrum löndum voru karlmenn í miklum meirihluta. Mikið var um að heilu fjölskyldurnar færu héðan en þess má einnig geta að konur voru mun fleiri hérlendis en karlar. Hins vegar voru atvinnutækifæri kvenna fá hér miðað við það sem gerðist í Evrópu þar sem þær fengu margvísleg störf í iðnaði og verslun.

Þéttbýlismyndun og vélvæðing sjávarútvegs leiddi til þess að vesturferðum fækkaði mjög upp úr aldamótunum 1900. Um svipað leyti fengu Íslendingar heimastjórn en með henni tók ríkisvaldið aukinn þátt í uppbyggingu samfélagsins. Lífkjör bötnuðu og bjartsýni jókst.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Guðjón Arngrímsson: Nýja Ísland. Örlagasaga vesturfaranna í máli og myndum. Mál og menning, Reykjavík, 1997.
  • Gunnar Karlsson: „Atvinnubylting og ríkismyndun 1874-1918“, í Sigurður Líndal og Pétur Hrafn Árnason ritstj., Saga Íslands X. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík, 2009.
  • Helgi Skúli Kjartansson og Steinþór Heiðarsson: Framtíð handan hafs. Vesturfarir frá Íslandi 1870-1914. Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2003.
  • Mynd af skipsfarþegum: Icelandic Online Dictionary and Readings - University of Wisconsin-Madison Libraries. Sótt 21.5.2010.

Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Úr hvaða sýslu komu flestir íslensku vesturfararnir?
  • Hver var aðalástæðan fyrir að fólk flutti frá Íslandi?
...