Sólin Sólin Rís 03:57 • sest 23:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:34 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:41 • Síðdegis: 24:19 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:57 • sest 23:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:34 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:41 • Síðdegis: 24:19 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju nefndu íslenskir landnemar í Kanada byggð sína þar Gimli?

Birna Bjarnadóttir

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Byggð Nýja Íslands í Kanada var nefnd Gimli. Hver er uppruni og þýðing þess orð, þ.e. af hverju var þetta orð öðrum fremur talið tilvísun til heimahaganna á Íslandi?

Þegar spáð er í landnám íslenskra innflytjenda í Manitóbafylki í Kanada árið 1875 og mögulegar ástæður þess að byggð þeirra á Nýja Íslandi hlaut nafnið Gimli, koma heimahagarnir á Íslandi við sögu. Ekki er þó um beina tilvísun að ræða þar sem nafngiftin er sótt til norrænnar goðafræði og orðið skýrt sem skjól frá eldi. Fleira kemur til í þessu efni og fróðlegt að skoða jafnframt landnámið á Nýja Íslandi og aðdraganda þess með hliðsjón af innflytjendastefnu yfirvalda Kanada á áttunda áratugi nítjándu aldar.

Árið 1873 byrjuðu stórir hópar íslenskra innflytjenda að setjast að í Ontaríófylki í Kanada, þökk sé ferðastyrkjum frá stjórnvöldum þar og skipafyrirtækinu Scottish Canadian Allan Steamship Line. Fyrstu árin í Ontaríó var lífið þyrnum stráð og fyrir tilstuðlan Johns Taylors (1818–1884), trúboða og fyrrum þrælasala á eynni Barbados, samþykktu stjórnvöld í Ontaríó sumarið 1875 að styðja íslenska innflytjendur í leit að öðru landsvæði. Íslenska sendinefndin (e. Icelandic Deputation) var skipuð og þar fóru fremstir í flokki John Taylor, sem átti eftir að verða umboðsmaður Íslendinga í Manitóbafylki, og Sigtryggur Jónasson (1852–1942), aðstoðarmaður Johns og sem síðar var nefndur faðir Nýja Íslands.

Árið 1875 kom fyrsti hópur íslenskra innflytjenda til nýlendu vestan við Winnipegvatn, sem síðar hlaut nafnið Nýja Ísland. Hópurinn átti að nema land við White Mud River í Riverton en vegna kröftugra vinda rak bátinn á land við Willow Point. Á myndinni sést málverkið The Landing at Willow Point sem Arni Sigurdson málaði árið 1950.

Fyrir valinu var landsvæði vestan við Winnipegvatn í Manitóba og 21. október árið 1875 kom fyrsti hópurinn (um 250 manns) af íslenskum innflytjendum. Hópurinn átti að nema land við White Mud River í Riverton (sem síðar hét Íslendingafljót) en þennan dag blés vindurinn kröftuglega á Winnipegvatni og báturinn sem sigldi með hópinn síðasta spölinn rak á land við Willow Point. Nýlendan hlaut nafnið Nýja Ísland og samanstóð af byggðarlögunum Víðinesbyggð, Árnesbyggð, Fljótsbyggð og Mikleyjarbyggð. Nýlendan var verndarsvæði íslenskra innflytjenda til ársins 1897 þegar yfirvöld í Manitóba leyfðu öðrum evrópskum hópum innflytjenda að hefja þar landnám. Fljótlega eftir komuna til Manitóba mynduðu íbúar Nýja Íslands byggðina sem þeir kölluðu Gimli.

Um Gimlé má lesa í Völuspá og Snorra Eddu. Þetta er staður á sunnanverðum himinsenda sem sagður er fegurri en allir aðrir og bjartari en sólin. Þótt himinn og jörð farist (sbr. ragnarök) mun Gimlé standa og þar munu hinir flekklausu búa um ókomna tíð. Hér verður ekki farið í saumana á túlkun fræðimanna á staðnum, að öðru leyti en því að vekja athygli á þeim möguleika að hann sé ofinn úr þráðum heiðni og kristni. Sumir skynja í honum áhrif frá hinni kristnu Jerúsalem og aðrir telja að skáld Völuspár gæti hafa skapað Gimlé til að forða hinum hólpnu frá bæði eldi Surts í ragnarökum og logum helvítis.

En hvers vegna að gefa byggðinni á Nýja Íslandi heitið Gimli? Það er gömul saga og ný að innflytjendur haldi tryggð við trúarbrögð. Nýlegt dæmi eru Pólverjar á Íslandi sem hafa hleypt lífi í kaþólskuna hér á landi. Ein skýring á nafngiftinni Gimli er því mögulega sú að örlagaríkir flutningarnir heimsálfa á milli hafi vakið þörf fyrir þá heimsmynd og viðhorf sem goðsögurnar geyma. Víst er að við komuna til Nýja Íslands bjuggu landnemarnir yfir dýrkeyptri reynslu. Draumurinn um betra líf lá að baki ákvörðunar þeirra flestra um að yfirgefa gamla landið og í Ontaríó (og á fleiri stöðum í Bandaríkjunum og Kanada) trompaði harðneskjulegur veruleikinn og óblíð tilvistarskilyrði draumsýnina um betra líf vestan hafs. Reynsluna mætti kalla tálsviptingu og nafngiftin Gimli kann því öðrum þræði að vera tilvísun til þeirrar þekkingar á mannheimum sem skáld Völuspár fer ekki í grafgötur með. Nafngiftin gæti enn fremur verið tilvísun í þá trú að til sé fagur og bjartur staður og að nýtt upphaf sigli í kjölfar þess sem getur ekki endað nema illa.

Á Gimli í Manitóba hefur munað um trúna á fyrstu árum landnámsins. Þar máttu íslensku innflytjendurnir þola hungur, uppskerubrest og drepsóttir, með þeim afleiðingum að fulltrúar nýlendustefnu Kanada fullyrtu að landnámstilraunin Nýja Ísland hefði mistekist. Aðrir fulltrúar sömu stefnu héldu áfram að líta á Íslendinga sem æskilega innflytjendur frá Evrópu, verandi fulltrúa glæstrar norrænnar miðaldamenningar. Stefnan var nefnilega ekki aðeins byggð á efnahagslegum markmiðum. Draumar um framtíðarskipan landsins á sviði kynþátta og menningar voru jafn atkvæðamiklir. Þannig má sjá hvernig draumur og veruleiki vógu einnig salt í hugum þeirra Kanadamanna sem fóru með hið veraldlega vald á þessum tíma og hefur landnám íslenskra innflytjenda á Nýja Íslandi verið túlkað með hliðsjón af sögu nýlendustefnu veraldar.

En Gimli varð skjól og íslensku innflytjendunum tókst að viðhalda byggðinni á Nýja Íslandi. Kannski er það þess vegna sem afkomendur landnemanna byrjuðu að tala um staðinn sem heimili guða og hetja og gefa þar með pælingum um þátt goðsagna í upprunasögu Nýja Íslands byr í seglin. Eftir stendur að ólíkt hugmyndum fulltrúa nýlendustefnunnar í Kanada á áttunda áratugi nítjándu aldar um þátt Nýja Íslands í fyrirmyndarríkinu, byggði viðhorf landnemanna á Gimli í Manitóba á dýrkeyptri reynslu og þeirri þekkingu á mannheimum sem sver sig í ætt við þá sem Völuspá geymir.

Heimildir:
 • Birna Bjarnadóttir. 2010. A Book of Fragments. Winnipeg: Kind Publishing.
 • Eddukvæði. 2014. Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. Reykjavík: Mál og menning.
 • The Poetic Edda. 1997. Ursula Dronke sá um útgáfuna. Oxford: Clarendon Press.
 • Ryan Eyford. 2016. White Settler Reserve. New Iceland and the Colonization of the Canadian West. Vancouver og Toronto: UBC Press.
 • Sigurtunga. Vesturíslenskt mál og menning. 2019. Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason ritstýrðu. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
 • The Poetic Edda. 1997. Ursula Dronke sá um útgáfuna. Oxford: Clarendon Press.

Mynd:
 • Myndin er birt með leyfi Manitoba Archives.

Höfundur

Birna Bjarnadóttir

bókmenntafræðingur og rannsóknasérfræðingur við HÍ

Útgáfudagur

23.9.2021

Spyrjandi

Auður

Tilvísun

Birna Bjarnadóttir. „Af hverju nefndu íslenskir landnemar í Kanada byggð sína þar Gimli?“ Vísindavefurinn, 23. september 2021, sótt 20. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82105.

Birna Bjarnadóttir. (2021, 23. september). Af hverju nefndu íslenskir landnemar í Kanada byggð sína þar Gimli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82105

Birna Bjarnadóttir. „Af hverju nefndu íslenskir landnemar í Kanada byggð sína þar Gimli?“ Vísindavefurinn. 23. sep. 2021. Vefsíða. 20. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82105>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju nefndu íslenskir landnemar í Kanada byggð sína þar Gimli?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Byggð Nýja Íslands í Kanada var nefnd Gimli. Hver er uppruni og þýðing þess orð, þ.e. af hverju var þetta orð öðrum fremur talið tilvísun til heimahaganna á Íslandi?

Þegar spáð er í landnám íslenskra innflytjenda í Manitóbafylki í Kanada árið 1875 og mögulegar ástæður þess að byggð þeirra á Nýja Íslandi hlaut nafnið Gimli, koma heimahagarnir á Íslandi við sögu. Ekki er þó um beina tilvísun að ræða þar sem nafngiftin er sótt til norrænnar goðafræði og orðið skýrt sem skjól frá eldi. Fleira kemur til í þessu efni og fróðlegt að skoða jafnframt landnámið á Nýja Íslandi og aðdraganda þess með hliðsjón af innflytjendastefnu yfirvalda Kanada á áttunda áratugi nítjándu aldar.

Árið 1873 byrjuðu stórir hópar íslenskra innflytjenda að setjast að í Ontaríófylki í Kanada, þökk sé ferðastyrkjum frá stjórnvöldum þar og skipafyrirtækinu Scottish Canadian Allan Steamship Line. Fyrstu árin í Ontaríó var lífið þyrnum stráð og fyrir tilstuðlan Johns Taylors (1818–1884), trúboða og fyrrum þrælasala á eynni Barbados, samþykktu stjórnvöld í Ontaríó sumarið 1875 að styðja íslenska innflytjendur í leit að öðru landsvæði. Íslenska sendinefndin (e. Icelandic Deputation) var skipuð og þar fóru fremstir í flokki John Taylor, sem átti eftir að verða umboðsmaður Íslendinga í Manitóbafylki, og Sigtryggur Jónasson (1852–1942), aðstoðarmaður Johns og sem síðar var nefndur faðir Nýja Íslands.

Árið 1875 kom fyrsti hópur íslenskra innflytjenda til nýlendu vestan við Winnipegvatn, sem síðar hlaut nafnið Nýja Ísland. Hópurinn átti að nema land við White Mud River í Riverton en vegna kröftugra vinda rak bátinn á land við Willow Point. Á myndinni sést málverkið The Landing at Willow Point sem Arni Sigurdson málaði árið 1950.

Fyrir valinu var landsvæði vestan við Winnipegvatn í Manitóba og 21. október árið 1875 kom fyrsti hópurinn (um 250 manns) af íslenskum innflytjendum. Hópurinn átti að nema land við White Mud River í Riverton (sem síðar hét Íslendingafljót) en þennan dag blés vindurinn kröftuglega á Winnipegvatni og báturinn sem sigldi með hópinn síðasta spölinn rak á land við Willow Point. Nýlendan hlaut nafnið Nýja Ísland og samanstóð af byggðarlögunum Víðinesbyggð, Árnesbyggð, Fljótsbyggð og Mikleyjarbyggð. Nýlendan var verndarsvæði íslenskra innflytjenda til ársins 1897 þegar yfirvöld í Manitóba leyfðu öðrum evrópskum hópum innflytjenda að hefja þar landnám. Fljótlega eftir komuna til Manitóba mynduðu íbúar Nýja Íslands byggðina sem þeir kölluðu Gimli.

Um Gimlé má lesa í Völuspá og Snorra Eddu. Þetta er staður á sunnanverðum himinsenda sem sagður er fegurri en allir aðrir og bjartari en sólin. Þótt himinn og jörð farist (sbr. ragnarök) mun Gimlé standa og þar munu hinir flekklausu búa um ókomna tíð. Hér verður ekki farið í saumana á túlkun fræðimanna á staðnum, að öðru leyti en því að vekja athygli á þeim möguleika að hann sé ofinn úr þráðum heiðni og kristni. Sumir skynja í honum áhrif frá hinni kristnu Jerúsalem og aðrir telja að skáld Völuspár gæti hafa skapað Gimlé til að forða hinum hólpnu frá bæði eldi Surts í ragnarökum og logum helvítis.

En hvers vegna að gefa byggðinni á Nýja Íslandi heitið Gimli? Það er gömul saga og ný að innflytjendur haldi tryggð við trúarbrögð. Nýlegt dæmi eru Pólverjar á Íslandi sem hafa hleypt lífi í kaþólskuna hér á landi. Ein skýring á nafngiftinni Gimli er því mögulega sú að örlagaríkir flutningarnir heimsálfa á milli hafi vakið þörf fyrir þá heimsmynd og viðhorf sem goðsögurnar geyma. Víst er að við komuna til Nýja Íslands bjuggu landnemarnir yfir dýrkeyptri reynslu. Draumurinn um betra líf lá að baki ákvörðunar þeirra flestra um að yfirgefa gamla landið og í Ontaríó (og á fleiri stöðum í Bandaríkjunum og Kanada) trompaði harðneskjulegur veruleikinn og óblíð tilvistarskilyrði draumsýnina um betra líf vestan hafs. Reynsluna mætti kalla tálsviptingu og nafngiftin Gimli kann því öðrum þræði að vera tilvísun til þeirrar þekkingar á mannheimum sem skáld Völuspár fer ekki í grafgötur með. Nafngiftin gæti enn fremur verið tilvísun í þá trú að til sé fagur og bjartur staður og að nýtt upphaf sigli í kjölfar þess sem getur ekki endað nema illa.

Á Gimli í Manitóba hefur munað um trúna á fyrstu árum landnámsins. Þar máttu íslensku innflytjendurnir þola hungur, uppskerubrest og drepsóttir, með þeim afleiðingum að fulltrúar nýlendustefnu Kanada fullyrtu að landnámstilraunin Nýja Ísland hefði mistekist. Aðrir fulltrúar sömu stefnu héldu áfram að líta á Íslendinga sem æskilega innflytjendur frá Evrópu, verandi fulltrúa glæstrar norrænnar miðaldamenningar. Stefnan var nefnilega ekki aðeins byggð á efnahagslegum markmiðum. Draumar um framtíðarskipan landsins á sviði kynþátta og menningar voru jafn atkvæðamiklir. Þannig má sjá hvernig draumur og veruleiki vógu einnig salt í hugum þeirra Kanadamanna sem fóru með hið veraldlega vald á þessum tíma og hefur landnám íslenskra innflytjenda á Nýja Íslandi verið túlkað með hliðsjón af sögu nýlendustefnu veraldar.

En Gimli varð skjól og íslensku innflytjendunum tókst að viðhalda byggðinni á Nýja Íslandi. Kannski er það þess vegna sem afkomendur landnemanna byrjuðu að tala um staðinn sem heimili guða og hetja og gefa þar með pælingum um þátt goðsagna í upprunasögu Nýja Íslands byr í seglin. Eftir stendur að ólíkt hugmyndum fulltrúa nýlendustefnunnar í Kanada á áttunda áratugi nítjándu aldar um þátt Nýja Íslands í fyrirmyndarríkinu, byggði viðhorf landnemanna á Gimli í Manitóba á dýrkeyptri reynslu og þeirri þekkingu á mannheimum sem sver sig í ætt við þá sem Völuspá geymir.

Heimildir:
 • Birna Bjarnadóttir. 2010. A Book of Fragments. Winnipeg: Kind Publishing.
 • Eddukvæði. 2014. Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. Reykjavík: Mál og menning.
 • The Poetic Edda. 1997. Ursula Dronke sá um útgáfuna. Oxford: Clarendon Press.
 • Ryan Eyford. 2016. White Settler Reserve. New Iceland and the Colonization of the Canadian West. Vancouver og Toronto: UBC Press.
 • Sigurtunga. Vesturíslenskt mál og menning. 2019. Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason ritstýrðu. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
 • The Poetic Edda. 1997. Ursula Dronke sá um útgáfuna. Oxford: Clarendon Press.

Mynd:
 • Myndin er birt með leyfi Manitoba Archives.
...