
Með tímanum settust flestir Vestur-Íslendingar að í Winnipegborg. Til að byrja með bjuggu þeir þar við mikla fátækt og ömurlegar aðstæður en smám saman batnaði hagur þeirra og komust sumir til metorða. Íslensk blaðaútgáfa hófst fljótlega vestanheims en þekktust voru blöðin Heimskringla, sem stofnað var 1886, og Lögberg sem fyrst kom út 1888. Þau sameinuðu krafta sína árið 1959 undir heitinu Lögberg-Heimskringla og kemur það enn út í enskri útgáfu. Mikil samskipti voru á milli Vestur-Íslendinga og þeirra sem eftir urðu. Fjöldi bréfa og blaða bárust hingað til lands auk þess sem sumir sneru aftur. Þar komu fram ýmsar nýjungar sem Ameríkufararnir höfðu kynnst vestanhafs og áttu þær þátt í að færa Ísland nær nútímanum. Töluverð tengsl eru í dag á milli Íslands og afkomenda vesturfaranna í Bandaríkjunum og Kanada. Hafa þau eflst mjög á seinni árum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hverjar voru meginástæður vesturferðanna? eftir Leif Reynisson
- Guðjón Arngrímsson: Nýja Ísland. Örlagasaga vesturfaranna í máli og myndum. Mál og menning, Reykjavík, 1997.
- Gunnar Karlsson: „Atvinnubylting og ríkismyndun 1874-1918“, í Sigurður Líndal og Pétur Hrafn Árnason ritstj., Saga Íslands X. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík, 2009.
- Helgi Skúli Kjartansson og Steinþór Heiðarsson: Framtíð handan hafs. Vesturfarir frá Íslandi 1870-1914. Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2003.
- Mynd af Gimli: Manitoba Historical Society, upphaflega fengin frá Archives of Manitoba. Sótt 21. 5. 2010.